Fyrirspurn um þjóðargjaldþrot
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég vil minna á að það geymist í þingsögunni að einu sinni var lögreglan beðin að leita að þingmanni sem ekki var mættur í salnum. Ég veit að hæstv. forseta er mjög kunnugt um þetta. Það er ágæt fyrirmynd þannig að það má kannski gera hlé á fundinum og athuga hvort lögreglan geti haft upp á hæstv. forsrh. ef honum hefur láðst að tilkynna forsetanum hvert hann hefur farið og hverra erinda. Það liggur a.m.k. alveg ljóst fyrir að hann hafði ekki fyrir því að tilkynna fyrirspyrjanda það, sem er mjög gagnstætt því sem t.d. annar ráðherra hagar sér sem ég hef einnig lagt fram fsp. til.
    Ég vil líka óska skýrra svara um það ef hæstv. forseti bregður á það óráð að slíta nú fundi og venja ráðherra þannig við það að þeir geti sýnt þingmönnum þvílíkt skeytingarleysi sem í þessu felst og það verður látið átölulaust af hæstv. forseta. Þá vil ég mjög spyrja um hvenær næst verður fyrirspurnafundur. Það gefur auga leið, ef ekki berst svar við þessu, að óhjákvæmilegt verður að taka fyrirspurnina upp utan dagskrár í næstu viku og ræða hana þá undir þeim dagskrárlið og má vera að þá sé um leið nauðsynlegt að ræða almennt störf og starfshætti þingsins og ætlast til þess að það verði þá gefinn nógur tími til þess því að auðvitað er ærin ástæða til að taka almennt upp vinnubrögð ekki aðeins þingsins heldur líka þeirrar stjórnar sem nú situr við völd.
    Ég vil að þetta komi alveg skýrt fram. Ef ég fæ ekki skýr svör um það hvenær hæstv. forsrh. svarar minni fsp. mun ég að sjálfsögðu taka málið upp utan dagskrár eftir helgina og þá óska eftir því að ég í leiðinni fái að ræða almennt um störf og starfshætti þingsins og um störf og starfshætti þessarar ríkisstjórnar.