Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Flm. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Á þskj. 102, 99. mál sameinaðs þings, leyfi ég mér að flytja till. til þál. um stofnun búminjasafns á Hvanneyri ásamt þeim hv. þm. Skúla Alexanderssyni og Danfríði Skarphéðinsdóttur. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela landbrh. að hefja nú þegar, í samráði við menntmrh., undirbúning að stofnun búminjasafns í tengslum við bændaskólann á Hvanneyri.``
    Í grg. með till. segir eftirfarandi: ,,Á síðustu árum hefur öðru hvoru skotið upp þeirri hugmynd að koma á fót búminjasafni á Hvanneyri, en einhverra hluta vegna hefur aldrei komist verulegur skriður á það mál þótt engum dyljist hve þarft og nauðsynlegt það er.
    Það er skoðun flm. að það sé löngu orðið tímabært að taka ákvörðun um þetta mál og ákveða að stofna slíkt safn á Hvanneyri því að hvergi verður það betur niður komið en einmitt þar. Á Hvanneyri er eins og allir vita rekinn bændaskóli og svo hefur verið í 99 ár. Því væri það vel við hæfi að Alþingi samþykkti á þessu þingi ályktun um búminjasafn í tilefni af þeim tímamótum sem verða á Hvanneyri á næsta ári.
    Á Hvanneyri er m.a. kennd saga búskapar á Íslandi og því væri eðlilegt að búminjasafnið risi þar, enda er þegar kominn vísir að slíku safni við skólann. Í því sambandi ber að geta þess að forustumenn skólans eiga heiður skilið fyrir það starf sem þeir hafa innt af hendi við að koma því safni upp við þröngan kost og erfið skilyrði. Með þessu framtaki sínu hafa þeir vafalaust bjargað allnokkrum munum og tækjum frá glötun.
    Fyrstu þúsund ár Íslandsbyggðar héldust búskaparhættir landsmanna lítt breyttir. Allir landsmenn stunduðu bústörf. Hver kynslóð lærði af annarri og breytingar voru litlar í tímans rás. Menning þjóðarinnar er samofin atvinnu hennar og segja má að íslensk menning sé sprottin upp úr menningu bænda. Nægir að benda á hve þekking á hefðbundnum búskaparháttum hlýtur að glæða skilning á mörgum helstu bókmenntaverkum þjóðarinnar.
    Á síðustu 100 árum hafa tengsl við fortíðina rofnað mjög. Sá lærdómur t.d. í vinnubrögðum sem kynslóðir höfðu tileinkað sér mann fram af manni er nú samtíðarfólki framandi. Hluti sem allir höfðu á milli handanna á degi hverjum öld fram af öld þekkir nútímafólk ekki. Á þessari öld hafa breytingar orðið það miklar og hraðar að áhöld og tæki sem notuð voru á fyrri hluta þessarar aldar sjást ekki lengur nema e.t.v. sem ryðhrúgur víða um land. Á sama tíma og tæknin hefur aukist hafa gífurlegir búferlaflutningar átt sér stað og með þéttbýlismyndun hafa tengsl við landið og sveitastörf rofnað enn frekar.
    Tengsl við land sitt eru þjóðinni nauðsynleg og hefðbundin sveitastörf eru mjög til þess fallin að styrkja slík tengsl auk þess sem mörgum, ekki síst börnum, þykja þau skemmtileg.
    Stöðugt fækkar þeim sem hafa bein fjölskyldutengsl við sveitir landsins og gefst fólki því lítill kostur á að kynnast og sýna börnum sínum inn í heim hinnar

hefðbundnu bændamenningar.
    Víða um land liggja tæki með verulegt sögulegt gildi undir skemmdum og því miður hefur margur góður gripur orðið ryði og brotajárnskaupmönnum að bráð. Það er sorglegt að við skulum á þann hátt hafa glatað jafnvel heilum köflum úr menningar- og atvinnusögu landsins. Því er það skylda okkar að bregða skjótt við og gera okkar besta til að stöðva þá raunalegu þróun sem orðið hefur, snúa vörn í sókn og gera myndarlegt átak til verndar þjóðminjum okkar.
    Flm. till. hafa rætt við þjóðminjavörð um efni hennar. Hann hefur lýst áhuga á stuðningi við málið og telur að sérstaklega vel fari á því að búminjasafnið rísi á Hvanneyri þar sem það gæti jafnframt komið að notum við kennslu.``
    Hæstv. forseti. Árið 1940 voru samþykkt á Alþingi lög um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins, lög nr. 64/1940. 20. gr. laganna var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Safni af landbúnaðarverkfærum skal komið upp við Bændaskólann á Hvanneyri, undir umsjón verkfæranefndar. Reynt sé að fá sem flestar verkfæraverslanir og verksmiðjur til þess að leggja fram sýnishorn í safnið, en ella skulu keypt til reynslu verkfæri sem ekki fást á annan hátt.``
    Í grg. með frv. kom m.a. fram að nefndin sem stóð að því taldi að eðlilegt væri að safnið væri á þeim bændaskólanum sem nær væri höfuðstaðnum, þ.e. Hvanneyri. Í greinargerð sem dr. Bjarni Guðmundsson samdi um málefni verkfærasafnsins á Hvanneyri segir m.a. um þetta frv., sem ég var að vitna til, að með þessari ákvörðun hafi Alþingi lögfest verkfærasafnið á Hvanneyri, enda þótt tilgangurinn hafi upphaflega verið að kynna nýjustu landbúnaðarverkfærin á hverjum tíma. Þykir okkur Bjarna það eðlilegt að hluti safnsins yrði með tíð og tíma safn eldri muna.
    Þá segir enn fremur í grg. dr. Bjarna um örlög þessarar lagasetningar, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er nákvæmlega vitað í hvaða mæli verkfæranefnd sinnti
verkfærasafninu. Hins vegar komst safnið inn á fjárlög ársins 1942 með 1000 kr. framlagi úr ríkissjóði. Hélst það óbreytt allt til fjárlaga ársins 1957 að upphæðin var hækkuð í 2000 kr. Stóð svo til og með fjárlagaárinu 1967. Eftir það var ekki um sérmerkta upphæð til safnsins að ræða. Öll þessi ár var framlagið reiknað Hvanneyrarskóla í samræmi við ákvæði laganna frá 1940. Með nýjum lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna nr. 64/1965 voru hins vegar engin ákvæði um verkfærasafn. Þar með var það horfið úr tölu lögbundinna stofnana.
    Ríkisframlögin árin 1942--1967 drógu verkfærasafnið á Hvanneyri ekki langt og ekki er fullljóst hvernig framlaginu var ráðstafað. Víst er þó að ekki komst safnið á legg sem formleg og áþreifanleg stofnun við skólann með þeim hætti er áður nefnd lög sögðu fyrir um. Guðmundur Jónsson skólastjóri var þó áhugasamur um málið og viðaði að nokkrum verkfærum og áhöldum. Mörg þau verkfæri er skólinn eignaðist og nemendur kynntust og lærðu

að handleika varðveittust og urðu með öðru er frá leið vísir að verkfærasafni á skólastaðnum.``
    Árið 1972 fól þáv. landbrh. Jóni Guðmundssyni bónda á Hvítárbakka og Bjarna Arasyni héraðsráðunauti, Borgarnesi að gera úttekt á eigum skólans. Með leyfi forseta höfðu þeir félagar eftirfarandi að segja um verkfærasafnið:
    ,,Á Hvanneyri er til mikið safn gamalla landbúnaðartækja. Hér er um að ræða vélar og áhöld sem eru orðin úreld og hafa fallið úr notkun vegna þess, svo sem ýmiss konar jarðvinnslu- og heyvinnutæki er hestum var beitt fyrir, svo og margs konar handverkfæri. Þá eru í þessu safni gamlar dráttarvélar og tæki við þær. Ekki verður dregið í efa að hér er saman komið stærsta safn sinnar tegundar á landinu og þetta safn hefur mikið sögulegt gildi. Safn þetta er að nokkru geymt í verkfærahúsinu og að nokkru í skemmunni, en sum tækin standa úti undir beru lofti. Aðstaða til geymslu þessara gripa er engan veginn eins og þyrfti að vera þar sem þeir eru ekki varðir gegn skemmdum sem skyldi og engin aðstaða er til að skoða þá.
    Mikil þörf er á að bæta hér um og sýna þessu einstæða safni þann sóma að koma því í húsnæði þar sem varðveisla þess væri tryggð og aðstaða væri fyrir hendi til að skoða gripina. Þá þyrfti jafnframt að skrá safnið á viðeigandi hátt, en úttektarmenn töldu sig ekki hafa aðstöðu til þess við þær kringumstæður sem voru fyrir hendi.``
    Þá ber einnig að geta þáttar búnaðarþings sem t.d. samþykkti eftirfarandi ályktun að ég hygg árið 1976, með leyfi forseta:
    ,,Búnaðarþing felur stjórn Búnaðarfélags Íslands að hlutast til um það við landbrn. að kannaðar verði leiðir til að efla og reka það safn landbúnaðartækja sem til var komið með lögum nr. 64 7. maí 1940, um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins. Jafnframt felur þingið stjórninni að gangast fyrir söfnun frjálsra fjárframlaga til þess að unnt verði að reisa geymsluskála fyrir safnið á Hvanneyri þegar á þessu ári.``
    Ályktun búnaðarþings lagði fyrst og fremst áherslu á sögu- og menningarlegt gildi safnsins sem er sama hugsun og flm. þessarar þáltill. Og enn eru flm. á svipuðum slóðum og búnaðarþing sem samþykkti enn á ný ályktun og sendi frá sér um þetta málefni árið 1979 þar sem segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Búnaðarþing felur stjórn Búnaðarfélags Íslands að leita eftir samvinnu við Stéttarsamband bænda um að hafa forgöngu um útvegun fjár til stofnunar búvélasafns á Hvanneyri. Miðað verði við að safnið komist á fót á 90 ára afmæli Bændaskólans á Hvanneyri.`` Í greinargerð var vísað til afgreiðslu búnaðarþings á málinu veturinn 1976, en þar segir:
    ,,Þótt ekki hafi orðið af framkvæmdum þykir sjálfsagt að freista þess á nýjan leik að kannað verði til þrautar hvort ekki sé unnt að stofna búvélasafn á Hvanneyri og tengja stofnun þess merku afmæli Bændaskólans á Hvanneyri.``
    Þarna var verið að reyna að fá að gjöf safnið í

tilefni 90 ára afmælis skólans. Því miður tókst það ekki. Flm. þessarar tillögu gera nú tilraun til þess að sjá til þess að Bændaskólinn á Hvanneyri eignist nú loksins búminjasafnið og eins og áður hefur verið á minnst er það tilvalin 100 ára afmælisgjöf.
    Hæstv. forseti. Í bréfi 13. okt. til landbrn. segir þjóðminjavörður Þór Magnússon eftirfarandi um búminjasafn á Hvanneyri:
    ,,Í þessu sambandi vildi ég vekja athygli á búvélasafninu á Hvanneyri og hverjar hugmyndir eru um framtíð þess. Mér hefur virst að á stundum kvikni nokkur áhugi á því að gera því til góða og láta það verða meira en nafnið tómt. Helst er vakin athygli á því í sambandi við búnaðarþing og þá sendar tillögur þangað um fjárframlög eða annan stuðning sem lítið hefur orðið úr og þá fellur málið í deyfð á milli. Væri brýn ástæða til að taka hér til hendi á ný, gera úttekt á safninu og ástandi þess, leggja framtíðaráætlun um það og fela síðan einhverjum sem áhuga hefur á þar á staðnum umsjón þess og frekari uppbyggingu.``
    Það er nákvæmlega þetta sem við flm. tillögunnar erum að leggja til að
gera eins og þjóðminjavörður orðar það: framtíðaráætlun sem m.a. tekur til formlegrar stofnunar safnsins á Hvanneyri. Auðvitað verður það að vera í höndum ráðamanna hvernig þeir vinna málið. Það er þeirra að setja ramma sem tekur á öllum þáttum málsins. Það þarf náttúrlega að taka á málum eins og kostnaði og fjármögnun við að koma slíku safni upp, skrásetja, lagfæra, kaupa, leita minjar uppi og þar fram eftir götum. Þá þarf einnig að ráða til safnsins sérfræðing á þessu sviði.
    Hæstv. forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. félmn. og 2. umr.