Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Það er ekki miklu að bæta við þá ágætu framsögu sem hv. 5. þm. Vesturl. flutti í sambandi við þetta mál. Eins og kom fram í ræðu hans hafa aðilar landbúnaðarins, Búnaðarfélag og Stéttarsamband bænda, lagt áherslu á að stofnað yrði búminjasafn. Þó að það hafi fyrst og fremst orðið vart áhuga hjá þessum aðilum á þessu máli hlýtur þetta vitaskuld að höfða til miklu fleiri. Það er menningarsöguleg stofnun sem verið er að leggja til að verði byggð upp á Hvanneyri og það varðar okkur öll, jafnt þá sem starfa að landbúnaði sem okkur hin.
    Eins og hv. þm. hafa tekið eftir og hafa vitað um hefur verið starfandi nefnd á vegum núverandi og fyrrverandi menntmrh. um það að undirbúa frv. til þjóðminjalaga. Þetta frv. er nú komið inn á hv. Alþingi og flutt af þingmönnum úr öllum flokkum. Ég tel að þessi þáltill. okkar falli mjög vel saman við það frv. Það er sami tilgangurinn sem helgar flutning beggja þessara þingskjala og í 1. gr. tillögunnar um þjóðminjalögin er einmitt sagt, með leyfi forseta: ,,Tilgangur þessara laga er að tryggja sem best varðveislu menningarsögulegra minja þjóðarinnar.``
    Ekki er nokkur vafi á því að hjá landbúnaðinum eru kannski þær minjar mestar sem tengjast menningarsögulegu lífi þjóðarinnar hér um aldir. Það væri mjög skaðlegt ef við gætum ekki haldið áfram að tryggja varðveislu slíkra muna og að við gætum ekki átt sérstakt safn í sambandi við þennan þátt í menningarsögu þjóðarinnar.