Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég hélt að mér hefði misheyrst þegar hv. þm. Ingi Björn Albertsson var að tala áðan. Ég verð að viðurkenna að svona orðbragð hef ég aldrei heyrt í sölum Alþingis eins og hann viðhafði áðan. En það verður hver þingmaður að kjósa sér vinnubrögð og velja sér orð eftir því sem hann hefur smekk og hæfileika til. Það var vissulega mjög sérkennilegt að verða vitni að þessu.
    Ég fór þess einfaldlega á leit og óskaði eftir því að þessari umræðu yrði frestað svo að fleiri þingmenn Vesturlands gætu verið viðstaddir og þá sérstaklega 1. þm. Vesturl. Ég viðurkenni fúslega, hv. þm. Friðrik Sophusson, að ég er ekki að bera fram þessa beiðni í hans nafni. Ég er að bera þessa beiðni fram í eigin nafni og óska eftir því að umræðunni verði frestað vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt að hann taki þátt í þessari umræðu, hv. 1. þm. Vesturl. Hér var um að ræða mál sem olli ágreiningi í þingmannahópnum og þess vegna finnst mér það skipta máli. En ég skal svo sem ekki vera ósveigjanlegur í því máli frekar en við stjórnarsinnar erum gagnvart stjórnarandstæðingum og ef þetta er svo mikið mál sem hv. þm. Friðrik Sophusson vill úr því gera skal ég auðvitað falla frá minni beiðni. En ég mælist engu síður til þess eftir sem áður, ef forseti getur á það fallist, að þessari umræðu verði frestað þó ekki sé nema fram eftir deginum og að við getum þá haldið henni áfram þegar fleiri þingmenn Vesturlands eru hér viðstaddir. Það eru mín tilmæli. Ég geng ekki lengra. Ég bið ekki um að málinu sé frestað milli funda heldur eingöngu að það verði tekið fyrir þá síðar á fundinum.