Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna þeirra umræðna sem hér hafa farið fram vill forseti upplýsa að ég var beðin um að þetta mál yrði tekið fyrir í þessari röð, en 3. mál þess í stað tekið út. Ég reyni að verða við slíkum beiðnum eins og kostur er. Ég tel það ofur eðlileg samskipti forseta og hv. þm. að milli okkar sé sá trúnaður að þingmenn geti stundum hnikað til dagskrá ef sérstakar ástæður eru til. Svo var í þetta skipti og ég varð við því og það er ástæðan fyrir því að þetta mál var tekið fyrir þó það væri svona seint á dagskrá.
    Ég á dálítið erfitt með að átta mig á ástæðunni fyrir því að fara að fresta þessu máli nú. Hér er um að ræða þáltill. sem búið er að tala fyrir. Fjölmargir hv. þm. hafa tekið til máls. Ég sé enga knýjandi ástæðu til að þessari umræðu verði ekki lokið svo að málið fari sinn eðlilega gang til nefndar og verði því ekki þeim mun harðar mótmælt hyggst ég reyna að ljúka umræðunni.