Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Hér mun vera til umræðu till. til þál. um stofnun búminjasafns á Hvanneyri. Flm. eru þrír hv. alþingismenn Vesturl. Um þessa till. er ekki nema allt gott að segja. Að vísu höfum við, ég og hv. 1. þm. Vesturl., flutt frv. um sama efni sem um verður fjallað nú bráðlega á þingi, vænti ég. Þó að í þessu máli hafi komið fram bæði till. til þál. og frv. sé ég ekkert því til fyrirstöðu að hvort málið um sig geti haldið sína leið. Þetta virðist bara sýna að þetta er mál sem allir hv. þm. Vesturl. hafa brennandi áhuga á, en eru kannski ekki alveg sammála um hvernig á að fást við. Það vita allir hv. alþingismenn um muninn á þáltill. og frv. og held ég að ekki þurfi að skýra það út nánar. Það er rétt að við höfum lítillega fjallað um þetta mál, allir þingmenn Vesturl. sameiginlega, og ég efast ekki um að við höfum allir hug á því að það nái fram að ganga.
    Hv. 1. þm. Vesturl. er ekki hér viðstaddur svo að hann getur ekki lýst skoðun sinni á málinu og ber að harma það að sjálfsögðu. Ég sé hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að þessi tillaga haldi áfram. Ég geri ráð fyrir að við munum svo ræða frv. þegar þar að kemur. En þegar ég lít yfir till. og grg. sem henni fylgir sé ég ekki annað en að hún lýsi áhuga þessara þriggja hv. þm. á málinu og þeir munu vafalaust fylgja till. sinni eftir af þeirri festu sem þeim hentar. Ég sé ekki annað en að málið sé á góðri leið og við munum fyrr eða síðar hittast allir hv. þm. Vesturlands og reyna að þoka því áleiðis eins og öðrum góðum málum sem horfa til heilla á Vesturlandi. Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta að segja að sinni, virðulegi forseti.