Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur farið út í ýmsa aðra sálma en e.t.v. efni tillögunnar sem hér liggur frammi til umræðu. Það hefur verið talað um vinnubrögð og samstarf og ég held að það sé mjög þarft og gott því að alltaf má bæta bæði vinnubrögðin og samstarfið. En ég benti áðan í máli mínu á það frv. til þjóðminjalaga sem liggur hér frammi á þskj. 220. Það frv. er samið af nefnd þingmanna allra flokka hér á Alþingi ásamt starfsfólki Þjóðminjasafns Íslands. Ég benti sérstaklega á það áðan að menn voru mjög sammála og ánægðir með þann kafla sem er nr. 2 í því frv. um Þjóðminjasafn Íslands og byggðasöfnin þar sem einmitt er gert ráð fyrir þeim möguleika að setja á stofn ýmis tæknisöfn, sérsöfn af ýmsu tagi, og um þau þarf ekki að setja lög heldur aðeins stofnskrá og starfsreglur. Ég tel því ekki þörf á því frv. til laga sem hér hefur blandast inn í umræðuna og hefur verið lagt fram í Nd.
    Ég vil ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég tel að ekki hafi verið óeðlilegt að fara þá leið að flytja um þetta þáltill., sérstaklega með tilliti til þess að við sátum þingmenn allra flokka í þjóðminjalaganefnd þar sem þessi ákvæði koma fram í 4. og 5. gr. og allir virtust mjög sammálaum. Því trúi ég ekki öðru en þær verði samþykktar eins og þær liggja fyrir. En það er kannski spurning um samstarf einmitt innan annarra flokka, hvort fólk hefur ekki tækifæri til að afla sér upplýsinga um það sem fulltrúar þess eru að gera í nefndarstarfi. En einmitt um þetta er verið að fjalla í þjóðminjalaganefndinni. Því fæ ég ekki betur séð en frv. á þskj. 140 skarist við það sem sagt er í 4. og 5. gr. frv. um þjóðminjalög. Eins og ég sagði áður sat ég í þeirri nefnd fyrir hönd míns þingflokks og ein af þingkonum Kvennalistans hefur tekið að sér að flytja frv. um þjóðminjalög ásamt þingmönnum allra annarra flokka í Nd.
    Ég vil reyndar líka vekja athygli á því að í þingskapaumræðu í síðustu viku kom fram ósk um að hér yrði gefinn einn dagur til að fjalla um þáltill. og því var vel tekið af forseta. Nú hefur þessi hálfi dagur sem tókst að gefa styst mjög vegna þess að hv. þm. stjórnarinnar hafa tafið málið mjög í sameinuðu þingi. Ég vek athygli á þessu og mér sýnist að þetta muni geta kostað það að við munum óska þess að gefinn verði tími til þess að taka fleiri till. fyrir.