Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Flm. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil fá að draga athyglina að því, eins og gert hefur verið fyrr í dag, að beiðni hv. 3. þm. Vesturl. var gjörsamlega ógrunduð. Það voru engar ástæður fyrir beiðninni. Hér kemur 2. þm. Vesturl. upp og tjáir sig um að hann hafi ekki ætlað að tala í þessu máli. Hér kemur 1. þm. Vesturl. upp og segir nákvæmlega hið sama. Frumhlaup þingflokksformanns Alþfl. er algjört.
    Þá vil ég einnig leiðrétta hv. 1. þm. Vesturl. Hann bað mig ekki að fresta málinu. Hann bað mig ekki að bíða með flutning. Hann var svo stór upp á sig að hann bað mig að gjöra svo vel og draga það til baka af því að hann væri með réttu lausnina eins og hann kom inn á áðan. Frumvarp. Það er eina málið. Og enginn þingmaður Vesturlands verður á móti því. En hvað með þáltill.? Ætlar hv. þm. Alexander Stefánsson að greiða atkvæði þessari þáltill.? Vill hann koma upp og svara því? Ætlar hann að greiða atkvæði gegn þessari þáltill.?
    Það var ekkert samið um að flytja þetta mál eins og ég kom inn á áðan, alls ekki. Hins vegar var pöntuð grg. fyrir búminjasafnsmálið í nafni þingmanna Vesturlands að þeim forspurðum. Þegar hins vegar aðrir þingmenn en hv. 1. þm., alla vega þeir sem þetta mál flytja, báðu um þessa grg. kom einhver stífla allt í einu í málið og við höfum aldrei séð grg. Við sjáum hana fyrst í þskj.
    Hv. 3. þm. Vesturl. talaði um hrákasmíð á grg. eins og hún var upphaflega. Ég veit ekki hvort hrákasmíð er betra en ekkert því að þegar mér var sýnt frv. frá Alexander Stefánssyni og hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni var engin grg. með því. Engin. Það átti bara að fylla upp í víxilinn á eftir. Vinnubrögð, hv. 3. þm. Vesturl.