Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu er endurflutt mál, var flutt fyrst á síðasta þingi en þá ekki útrætt og þess er getið í grg. að ástæðan hafi m.a. verið sú að þá kom fram svar frá þáv. iðnrh. Nokkuð hefur tafist að hægt hafi verið að halda fram umræðunni, en ég ætla ekki að hafa mörg orð um það.
    Það er auðvitað eðlilegt að rætt sé um skipasmíðaiðnaðinn og vanda hans. Í þessari till. er drepið á einn þátt þessa máls sem auðvitað gæti bætt samkeppnisstöðuna. Mér finnst ástæða til þess í þessari umræðu að það komi fram að mál þetta, ásamt mörgum öðrum er varða skipasmíðaiðnaðinn, var til umræðu í síðustu ríkisstjórn. Félag dráttarbrauta og skipasmiðja skrifaði iðnrn. 22. mars á þessu ári og af því tilefni skrifaði iðnrn. viðskrn. og sjútvrn. bréf, enda falla þessi mál fyrst og fremst undir þau ráðuneyti.
    Í bréfi til sjútvrn. og viðskrn. var lýst hugmyndum í bréfi Félags dráttarbrauta og skipasmiðja og síðan segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Ráðuneytið telur að hér sé um mjög alvarlegt mál fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað að ræða. Ráðuneytið telur að það ætti að vera lágmarksskilyrði fyrir veitingu lána úr opinberum sjóðum til skipaviðgerða og skipasmíða að áður hafi verið gengið úr skugga um með útboði að innlendar skipasmíðastöðvar geti ekki boðið jafnhagstætt eða betur en erlend fyrirtæki og sé þá tekið tillit til þess að innlendar stöðvar hafi gott orð á sér fyrir vandaða vinnu.``
    Þess skal getið að viðskrn. svaraði bréfi iðnrn. og í því bréfi kom fram að í mörg ár hafi viðskrn. reynt að framfylgja þeirri reglu að veita ekki heimild til erlendrar lántöku nema áður hafi verið athugað hvort hægt væri að láta slíka viðgerð fara fram hérlendis.
    Síðan segir í bréfinu síðast sem undirritað er af Þórhalli Ásgeirssyni og dagsett er 28. mars: ,,Væntanlega gæti Fiskveiðasjóður veitt innlendu skipasmíðastöðvunum sams konar aðstoð með því að verða við tilmælum þeirra um að veita ekki lán til endurbóta eða meiri háttar viðgerða á skipum erlendis nema verkið hafi áður verið boðið út innan lands.``
    Mér er ekki kunnugt um að sjútvrn. hafi svarað þessari beiðni, þessu bréfi, en Fiskveiðasjóður heyrir undir verksvið hæstv. sjútvrh.
    Það eru einnig önnur mál en þetta sem voru rædd í síðustu ríkisstjórn. Vil ég þá geta um bréf ráðuneytisins til sjútvrn. og samgrn. vegna breytinga á mælingareglum. Þau bréf voru send út 6. okt. 1987 og farið fram á aðlögunartíma og ætla ég ekki að rifja það upp sérstaklega hér. Í ríkisstjórn tók iðnrh. upp það mál að hæstv. ráðherrar beittu sér fyrir því á erlendri grund, sérstaklega innan EFTA og Evrópubandalagsins, við þær þjóðir, að vinna og berjast gegn ríkisstyrkjum. Þetta var bókað í ríkisstjórn á dögum síðustu ríkisstjórnar. Loks var hreyft með bréfi iðnrn. til sjútvrn. hugmynd, sem kom fram í ályktun frá Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja, um að innlend skipasmíði eða skip sem smíðuð væru

hérlendis nytu sérstakra vildarkjara í sambandi við fiskveiðistefnuna, bæði er varðaði stærð og veiðiheimildir. Iðnrh. beitti sér jafnframt fyrir því að 200 millj. kr. gengju til Byggðasjóðs á þessu ári eins og hafði verið árið áður til þess að koma til móts við þarfir innlendra skipasmíðastöðva. Forsrh. þáv. barðist jafnframt fyrir þessu máli og það fór í gegn og var merkt á lánsfjárlögum, en þess skal getið að hæstv. núv. iðnrh. hafði aðra skoðun á því máli og taldi það nægilegt að slík fyrirgreiðsla færi í gegnum viðskrn.
    Það er auðvitað til umhugsunar fyrir okkur að á sama tíma og við fylgjum hér þeirri stefnu að deila út fiskveiðikvóta hefur það gerst frá því að nýja fiskveiðistefnan tók gildi að flotinn hefur í raun stækkað um 11.500 tonn eða þar um bil. Þetta er ekki allt saman burðargeta, sumt af þessu felst í breytingum og stækkunum sem er vegna annars, en þetta segir þó sína sögu og hlýtur að verða hv. þm. til umhugsunar bæði varðandi fiskveiðistefnu og ekki síst varðandi skipasmíðaiðnaðinn innlenda sem er bráðnauðsynlegur fyrir fiskveiðiflota landsmanna.
    Þess skal getið að í síðustu ríkisstjórn beitti iðnrh. sér jafnframt fyrir því að sérstök heimild væri fyrir Byggðastofnun og Slippstöðina á Akureyri að geta smíðað þar tvö skip. Þar var um lánsheimild að ræða, sem reyndar hafði verið samþykkt áður, og að Byggðastofnun kæmi að málinu og liðkaði til þannig að Landsbankinn gæti ásamt Byggðastofnun hjálpað Slippstöðinni að gera það sama og norskar skipasmíðastöðvar hafa gert, taka gömul skip upp í og endurbyggja þau og mynda þannig keðjuverkandi verkefni fyrir íslenskar skipasmíðastöðvar.
    En loks, virðulegur forseti, og það er kannski merkilegast af þessu öllu saman, gerðist það að iðnrn. í tíð síðustu ríkisstjórnar beitti sér fyrir því að sett var á stofn nefnd, verkefnisstjórn sem ynni með breska ráðgjafarfyrirtækinu A & P Appledore og það var verkefni þessa fyrirtækis að fylgjast með og gera úttekt á íslenskum skipasmíðaiðnaði. Þetta var almenn úttekt á stöðu hans og framtíðarhorfum. Það sem einkum og sér í lagi var auðvitað umtalsvert í þessu sambandi var að það tókst ágætissamstarf á milli
annars vegar iðnrn. og hins vegar sjútvrn. um þetta mál og vegna þess samstarfs tóku m.a. þátt í þessari verkefnisstjórn annars vegar fulltrúi Landssambands ísl. útvegsmanna, Þorsteinn Már Baldvinsson, og fulltrúi Fiskveiðasjóðs, sem er Svavar Ármannsson, þannig að nú fjalla um þessi mál ekki eingöngu fulltrúar iðnaðarins heldur jafnframt fulltrúar útvegsins og lánastofnunar sem skipasmíðaiðnaðurinn á allt sitt undir.
    Ráðherra iðnaðarmála, hæstv. iðnrh., hefur sagt að hann muni dreifa skýrslunni þegar hún verður tilbúin til alþm. Það var að því stefnt í upphafi að skýrslan yrði tilbúin fyrir jól og mig langar til að spyrja hæstv. iðnrh. að því hvort sú áætlun standist og enn fremur fá hann til að staðfesta það að skýrslunni verði dreift.
    Ég ætla ekki í mínum stutta tíma, virðulegur forseti, að fjalla um hvað er til bragðs að taka. Ég veit að málið er flókið. Við skulum átta okkur á því

að það er mjög nauðsynlegt fyrir sjávarútveginn að hér sé starfandi öflugur og góður skipasmíðaiðnaður. Mér er ljóst að það þarf að auka samvinnu fyrirtækja og jafnframt sérhæfingu einstakra fyrirtækja til þess að sú samvinna geti tekist sem best. Ég er sjálfur á móti því að beitt sé niðurgreiðslum eins og gerist í öðrum löndum, en tel koma til greina að opinberir aðilar liðki til við þróun og hagræðingu í þessum iðnaði sem hefur nokkuð dregist aftur úr á sumum sviðum jafnvel þótt um gott starfsfólk sé að ræða. Jafnframt hygg ég að það þurfi að kanna mjög vel hvort hugsanlegt sé að fulltrúar skipasmíðaiðnaðarins hafi einhvers konar aðgengi að Fiskveiðasjóði, ef ekki stjórn sjóðsins þá með þeim hætti sem tryggir sem best samstarf skipasmíðaiðnaðarins og þess sjóðs sem fjármagnar skipasmíðar hér á landi.
    Að lokum, virðulegur forseti, vil ég taka það fram að sú stefna sem hæstv. ríkisstjórn rekur í efnahagsmálum er hættuleg fyrir skipasmíðaiðnaðinn. Gengisstefnan þýðir að hann er síður samkeppnisfær. Millifærslukerfi til annarra greina er nánast dauðadómur fyrir þennan iðnað eins og annan útflutningsiðnað sem ekki nýtur þess góðgætis. Þess vegna tel ég fulla ástæðu til að skora á þá hæstv. ráðherra sem hér eru staddir, að vísu ekki hæstv. heilbrmrh. þótt ýmsir gætu haldið að þetta kæmi í hans hlut heldur hæstv. iðnrh. og sjútvrh., að ganga nú í þetta mál af fullum krafti.
    Að allra síðustu vil ég segja og það furðaði mig satt að segja, og það vildi ég nefna, að sá sem er flm. þessarar tillögu gat auðvitað kynnt sér málið betur. Þá kom í ljós að það strandar ekki á ráðuneyti iðnaðarmála heldur hefur þetta mál fyrst og fremst verið á vettvangi sjútvrn. og viðskrn. Þess vegna hefðu verið hæg heimatökin fyrir hv. þm. að snúa sér beint til hæstv. sjútvrh.