Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Mönnum hættir oft til að ræða málefni skipasmíðaiðnaðarins á Íslandi í þeim dúr að það sé eitthvað sérstakt að þessi iðngrein skuli eiga í þessum miklu erfiðleikum. Staðreyndin er hins vegar sú að skipasmíðaiðnaðurinn er ekkert frábrugðinn öðrum iðnaði á Íslandi né útflutningsgreinunum almennt. Hann á við svipaða og sömu erfiðleika að stríða. Þess vegna er alrangt ef menn hafa þá skoðun að það sé eitthvert sérstakt vandamál varðandi skipasmíðaiðnaðinn hversu samkeppnisstaða hans er orðin slæm að hann er nánast að leggja upp laupana. Þetta á líka við um allan annan iðnað, allan samkeppnisiðnaðinn og allar útflutningsgreinar. Það er röng efnahagsstefna sem hér er um að kenna og þar af leiðandi er rétt að ræða vandamál skipasmíðaiðnaðarins í réttu samhengi, þ.e. í því samhengi sem tengist allri útflutningsverslun Íslendinga.
    Rekstrarskilyrði hafa stórversnað í skipasmíðaiðnaði svo sem í öðrum iðngreinum undanfarin ár og þarf engan að undra það þegar horft er fram á hvernig þróun verðlags og gengis hefur verið hér á undanförnum missirum.
    Það er reyndar margt fleira sem kemur til. Því miður hefur afstaða þjóðarinnar og þó einkum og sér í lagi ráðamanna verið sú að Íslendingar eigi í raun og veru ekki að flytja neitt út nema fisk. Allt annað brölt sé til óþurftar og það valdi bara ráðamönnum óþægindum að það skuli vera einhverjir menn úti í bæ sem vilja flytja eitthvað annað út en fisk. Því miður hefur þessi skoðun verið ríkjandi meðal landsmanna um mjög langt skeið og þeir sem af hugsjón e.t.v. huga að einhverjum öðrum útflutningi mæta oft litlum skilningi. Þetta hefur ekki hvað síst átt við um íslenskar skipasmíðar því að þær eru að sjálfsögðu fyrst og fremst samkeppnisiðnaður sem er að reyna að hamla gegn innflutningi á skipum erlendis frá.
    Þá kemur mjög sérkennilegt fram í þessu máli öllu saman, en það er einfaldlega sú staðreynd að þeim aðilum sem falast eftir nýsmíði skipa finnst miklu skemmtilegra og þægilegra að láta smíða þau erlendis. Það er nefnilega mjög algengt þegar verið er að sækjast eftir iðnaðarvörum, bæði fullsmíðuðum og í hlutum, að það er álitið mikið skemmtilegra að sækja slíka vöru til útlanda en fá hana hjá einhverjum framleiðanda á Íslandi. Það skapar ekki eins skemmtileg tækifæri til að fara í ferðalög og heimsækja aðrar þjóðir.
    Þá er annað sem er líka rétt að vekja athygli á, en það er umboðsmannakerfið sem við búum við. Hér eru umboðsmenn fyrir nánast allar skipasmíðastöðvar í Vestur-Evrópu sem gæta þess vel og vendilega að þeirra umbjóðendur njóti forgangs umfram íslenskar skipasmíðastöðvar. Meira að segja hefur gengið svo langt að það er talað um að Landssamband ísl. útvegsmanna hafi gerst umboðsaðili fyrir nokkrar skipasmíðastöðvar í Noregi. Það gætir þess vel að þær gangi ávallt fyrir áður en reynt er að leita til íslenskra skipasmíðastöðva.

    Ég minnist þess, þegar ég var ungur maður og starfaði á Akureyri, þegar var verið að byggja upp Slippstöðina. Það voru fyrstu árin sem hún var rekin. Forvígismaður að þeirri uppbyggingu var eins og öllum ætti að vera kunnugt Skafti Áskelsson á Akureyri, athafnamaðurinn sá, og hann hafði það einhvern tíma að orði: Ef ég fæ að selja með skipunum um leið og ég afhendi þau tollfrjálst áfengi, ísskápa, húsgögn og annað þess háttar, þá er allt í lagi, þá skulu þeir koma til mín, útgerðarmennirnir, því að það er það sem þeir m.a. eru að sækjast eftir. --- Auðvitað var þetta sagt í gamni, en það er kannski meiri alvara hér á bak við en ég vil vera láta.
    Þá er spurningin um hlutdeild stjórnvalda í þessu. Hér kom fram hörð gagnrýni á hæstv. sjútvrh., en það er engu líkara, þegar maður hlustar á hann fjalla um þessi mál, að hann vilji íslenskan skipasmíðaiðnað feigan og það helst í gær. Hann hafi mjög verið til óþurftar og ekki gert annað en þvælast fyrir útgerðarmönnum og það sé verið að neyða upp á þá miklu dýrari skipum en ella. Nú er það að sjálfsögðu rétt og ég verð að taka undir það með þeim sem því hafa haldið fram að það er ekki hægt að ætlast til þess að íslenskir útgerðarmenn verði að kaupa miklu dýrari skip hér en þeir geta fengið annars staðar. En þá kemur að annarri spurningu enn. Staðan er núna sú að íslenskar skipasmíðastöðvar geta í samvinnu við erlendar skipasmíðastöðvar boðið upp á mun ódýrari skip en íslenskir útgerðarmenn eru núna að kaupa í gegnum umboðsmenn sína t.d. frá Noregi. Hins vegar er það orðin hefð að ganga algerlega fram hjá íslenskum skipasmíðastöðvum og þess vegna hafa útgerðarmenn ekkert leitað eftir þessum möguleika. Ég vil fullyrða að í dag geta íslenskar skipasmíðastöðvar í samvinnu við erlenda aðila boðið upp á langtum ódýrari skipasmíðar en t.d. skipasmíðar í Noregi, Póllandi og í þeim löndum þar sem flest íslensk skip hafa verið smíðuð undanfarin ár.
    Hér er ekkert um neina smáhagsmuni að ræða. Það kom fram í viðræðum sem við áttum við fulltrúa Landssambands iðnaðarmanna í hv. fjh.- og viðskn. Ed. á dögunum að verðmæti nýsmíða, viðhalds og endurbóta fyrir árið 1987 nam 5,5 milljörðum kr. þannig að það er eftir einhverju að slægjast ef hægt er að fá þessa upphæð lækkaða.
    Þá vil ég líka benda á eitt. Ef þessar smíðar fara fram undir stjórn íslenskra skipasmíðastöðva í staðinn fyrir að gera eins og hingað til hefur verið gert, að íslenskir sjóðir sem eru fjármagnaðir af skattpeningum þeirra sem hér búa eru notaðir til að útvega útlendum mönnum atvinnu. Og ekki bara það. Um leið er verið að færa útlendingum, erlendum skipasmíðastöðvum okkar reynslu og þekkingu á silfurfati. Það má segja að við höfum stuðlað að því að Norðmenn hafa byggt upp sinn skipasmíðaiðnað með því að við höfum mokað í þá verkefnum. Við höfum reynsluna, við höfum aflað þekkingarinar og allt þetta höfum við fært Norðmönnum endurgjaldslaust. Það er alkunna að það er mjög algengt að norskar skipasmíðastöðvar selja áfram íslenska hönnun, íslenska þekkingu og

íslenskar teikningar. Þeir eru að vísu búnir að stroka út kannski nafnreitinn þar sem kom fram að þetta væri íslensk hönnun og setja sitt nafn í staðinn. Þessi þekking er seld áfram bæði norskum útgerðarmönnum og útgerðarmönnum annars staðar í heiminum. Þannig hafa Norðmenn hagnast ómælt á okkur Íslendingum, hvernig við höfum fært þeim alla okkar þekkingu fyrir ekki neitt.
    Virðulegi forseti. Mig langar að lokum rétt til áréttingar að fá að lesa upp tvær örstuttar greinar úr ályktun Félags dráttarbrauta og skipasmiðja. Ég held að þær lýsi kannski betur en ég með þessum fáu orðum get lýst ástandinu. Með leyfi forseta hljóða þær svo:
    ,,Þjóðhagslega séð er innlendur skipasmíðaiðnaður ekki aðeins mikilvægur þáttur í sjálfstæði okkar heldur verðum við einnig að spyrja okkur: Á hverju ætlar þessi þjóð að lifa í framtíðinni? Viðskiptahættir í heiminum breytast hratt um þessar mundir og er ljóst að smáþjóðir eins og Íslendingar standa veikum fótum gagnvart samkeppni á alþjóðamörkuðum þar sem þróunarkostnaður og markaðssetning vega sífellt meira í kostnaði fyrirtækja og líftími afurða styttist samhliða. Smáþjóð eins og við hefur ekki aðra möguleika en að fullnýta náttúrlegar auðlindir sínar og þar með talið þau tækifæri sem þær bjóða upp á.
    Félag dráttarbrauta og skipasmiðja vill vara við þeirri stórhættulegu skammsýni að einfaldur verðsamanburður á tímabundið niðurgreiddum skipum erlendis frá við innlenda framleiðslu segi söguna alla. Við verðum að nýta þekkingu og reynslu okkar í sjávarútvegi til að byggja upp þróaðan, öflugan, sérhæfðan iðnað tengdan náttúruauðlindum okkar. Þar höfum við forskot. Það verður ekki gert án skipasmíðaiðnaðar innan lands. Hér er ekki aðeins spurning um sjálfstæði heldur einnig hvort við ætlum okkur í framtíðinni að teljast vanþróaður hráefnisútflytjandi eða tæknivædd fiskveiði- og iðnaðarþjóð.``