Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Flm. (Stefán Guðmundsson):
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að koma hér og harma hvernig þessum málum er raðað upp og dagskráin hefur gengið fyrir sig í dag. Hér er kannski að sumra áliti ekki verið að hreyfa merkilegu máli, en fyrir mínum augum er þetta vissulega merkilegra mál en svo að við getum höggvið á þessar umræður einu sinni enn. Hins vegar sýnist mér stefna í að við munum klára þessa umræðu hugsanlega á næsta ári, virðulegi forseti. En málinu er vissulega ekki gerður greiði með því að menn fái ekki að tala um þetta mál. Þetta er brýnt mál og ég treysti því, forseti, að þú sjáir til þess að þeim sem vilja koma í ræðustól og ræða um þetta mál verði gefið tækifæri til þess.