Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Ég skil, virðulegur forseti, að mönnum þyki slæmt að slíta enn þessa umræðu í sundur, en ég skal viðurkenna að það hefur verið gert samkomulag um að hefja deildafundi um kl. 3. En ég minni á að fyrir nokkrum dögum fór ég fram á að einn dagur yrði fenginn til að fjalla um þáltill. því að sumar þeirra sem lagðar voru fram í októbermánuði hafa enn ekki fengist ræddar. Þar á meðal eru tvær tillögur sem ég lagði fram á Alþingi í október sl. Nú er fyrirsjánlegt að varla verður um það að ræða, ef ekki verða fleiri fundir um þáltill. í Sþ., að umræður fáist fyrr en kannski seint í janúarmánuði. Þess vegna fer ég fram á það, virðulegur forseti, hvort ekki sé hugsanlegt að Sþ. geti hist aftur og rætt þáltill., þar á meðal það mál sem nú er til umræðu og nokkur önnur sem ég tel brýnt að komist til nefndar og fái síðan umsagnir. Ég mun styðja það ef hæstv. forseti vildi beita sér fyrir því í gangi mála á næstu dögum.