Málefni aldraðra
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 91/1982, með síðari breytingum, sem flutt er á þskj. 231 og er 195. mál Ed.
    Hinn 1. jan. 1983 gengu í gildi lög um málefni aldraðra. Megintilgangur þessara laga er að skipuleggja og sérhæfa þjónustu fyrir aldraða. Lögin hafa það að markmiði að stuðla að því að aldraðir geti lifað eðlilegu heimilislífi svo lengi sem verða má, en að völ sé á nauðsynlegri stofnanaþjónustu þegar hennar gerist þörf.
    Með þessum lögum var í fyrsta sinn komið á samræmdu skipulagi öldrunarþjónustu á Íslandi með tilliti til félagslegra og heilsufarslegra sjónarmiða. Lögin leitast við að tengja öldrunarþjónustu annarri þjónustu sem fyrir hendi er, bæði heilbrigðisþjónustu í tengslum við heilsugæslustöðvar og félagslegri þjónustu á vegum sveitarfélaga. Í lögunum er sólarlagsákvæði sem gerði ráð fyrir að þau rynnu úr gildi 31. des. 1987, enda hefðu þau ekki verið endurskoðuð fyrir þann tíma.
    Með lögum nr. 32 frá 27. mars 1987 var gildistími laganna framlengdur til 31. des. 1988.
    Enginn vafi er á því að með tilkomu laga um málefni aldraðra, ekki síst ákvæðum um Framkvæmdasjóð aldraðra, sem fyrst voru lögbundin árið 1981, hefur orðið allveruleg breyting á högum aldraðra. Þeim sveitarfélögum, sem bjóða öldruðum og öðrum sem á þurfa að halda heimaþjónustu, þ.e. heimilishjálp og heimahjúkrun, fer mjög fjölgandi. Þar eiga án efa hlut að máli ákvæði laga um endurgreiðslu sjúkrasamlaga á 35% rekstrarkostnaði sveitarfélaganna vegna þeirrar þjónustu.
    Ótrúleg uppbygging hefur verið í húsnæðismálum aldraðra um allt land á síðustu 8--10 árum og er nú völ einhvers konar stofnanaþjónustu fyrir aldraða í allflestum þéttbýlissveitarfélögum landsins. Það er liðin tíð að aldrað fólk úti á landsbyggðinni sæki hingað á suðvesturhornið til að eyða ævikvöldinu. Um alllangt skeið hefur staðið yfir á vegum heilbrrn. endurskoðun laga um málefni aldraðra. Endurskoðunin hefur nokkuð tafist, ekki síst vegna óvissu um framvindu frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en þessi málaflokkur snertir vissulega þá verkaskiptingu þegar hún kemur hér fyrir Alþingi.
    Ljóst er að ekki gefst tími til að afgreiða nýtt frv. til laga um málefni aldraðra áður en gildistími núgildandi laga rennur út 31. des. 1988. Nauðsyn ber því til að framlengja að nýju gildistíma laganna, enda eru allir sammála um að ekki sé tímabært að lögin falli úr gildi.
    Því er hér lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra sem gerir ráð fyrir að gildistími laga nr. 91/1982 verði framlengdur til 31. des. 1989. Gert er ráð fyrir að nýtt frv. til laga um málefni aldraðra verði lagt fram á Alþingi fljótlega eftir jólaleyfi, þ.e. í ársbyrjun 1989.
    Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa öllu

lengri framsögu um þetta mál. Það er í sjálfu sér einfalt í sniðum. Ég legg þess vegna til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. með ósk um skjóta afgreiðslu þar sem málið þarf að fá fullnaðarafgreiðslu fyrir áramót.