Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Frv. er að meginefni til endurflutt. Það var lagt fram í Nd. á síðasta þingi en varð þá eigi útrætt.
    Hinn 27. apríl sl. skipaði fyrrv. dómsmrh. milliþinganefnd til að fjalla um frv. Í nefndinni sátu alþingismennirnir Eiður Guðnason, Friðjón Þórðarson, Ólafur G. Einarsson, Páll Pétursson, Guðrún Helgadóttir og Guðmundur Ágústsson. Eiður Guðnason var formaður nefndarinnar. Björn Friðfinnsson og Markús Sigurbjörnsson störfuðu með nefndinni.
    Eins og rakið er í athugasemdum við frv. gerði milliþinganefndin sameiginlegar breytingartillögur sem teknar hafa verið til greina í frv. eins og það er nú lagt fram. Eins og rakið er í hinum sögulega kafla athugasemda við frv. var umboðsvald og dómsvald í héraði sameinað á einni hendi á tímum einveldis Danakonunga, en eftir að einveldið leið undir lok voru þessir þættir greindir sundur í ríki þeirra á nýjan leik nema hér á landi þar sem enn má finna leifar þessa. Sameinað umboðsvald og dómsvald þykir hins vegar andstætt meginreglum í stjórnskipan lýðræðisþjóðanna beggja vegna Atlantshafsins og nú er fjallað um það í Mannréttindanefnd Evrópuráðsins hvort réttarfar okkar Íslendinga sé í samræmi eða í andstöðu við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.
    Þegar umboðsvald og dómsvald voru greind í sundur í Noregi og Danmörku komu upp raddir um að svo skyldi einnig gera hér á landi. Meiri hluti þingnefndar, sem skipuð var í samræmi við ályktun Alþingis frá 1914, lagði til árið 1916 fullan aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds. Lagði meiri hlutinn til að landinu yrði skipt upp í sex lögdæmi með einum héraðsdómara í hverju þeirra og skyldu þeir vera ,,sem sjálfstæðastir og óháðastir bæði umboðsvaldinu og almenningi``. Á móti yrði sýslumannsembættunum verulega fækkað.
    Minni hluti nefndarinnar frá 1914 sagði í sínu áliti ,,að í sjálfu sér væri það mikilvæg og æskileg framför, ef fundið yrði ráð til þess að greina umboðsvald frá dómsvaldi svo, að hagkvæmt væri fyrir alla hlutaðeigendur. Minni hlutinn væri og á þeirri skoðun, eins og meiri hlutinn, að ef ráðist yrði í slíka breytingu mundi það skipulag, sem meiri hlutinn bendir á, yfirleitt vera líklegasta lausnin á því máli, og að tæplega yrði önnur leið fundin, er að minnsta kosti í aðaldráttum ætti betur við eða auðveldari yrði í framkvæmd``. En þrátt fyrir þessar ályktanir lagði minni hlutinn til að ekki yrði ráðist í breytingu á dómstólaskipaninni að svo stöddu og það varð reyndar ákvörðun Alþingis.
    Málið hefur þó vakað og síðustu 70 árin hafa öðru hvoru heyrst raddir um að bæði væri nauðsynlegt og tímabært að skilja dómsvaldið algjörlega frá stjórnsýslunni og nokkur skref hafa verið tekin í þá átt. Þannig beitti Bjarni Benediktsson, þáv. dómsmrh., sér fyrir því árið 1961 að ákæruvald var falið sjálfstæðu ríkissaksóknaraembætti, en ákæruvaldið

hafði áður verið í dómsmrn.
    Þá má nefna þáltill. sem Björn Fr. Björnsson og fleiri fluttu á Alþingi á árunum 1965--1966, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Í þjóðfélögum, sem búa við réttarfar bundið vestrænum réttarreglum og réttarvitund, þykir eigi fara vel saman að dómendur hafi einnig á hendi umsvifamikil umboðsstörf. Af þeirri sök hefur stefnan verið sú að draga sem mest úr hendi dómenda umboðsleg embættisstörf og búa þannig að dómstólunum að þeir hafi sem óháðasta og traustasta aðstöðu við úrlausn dómsmála.``
    Þessu máli hefur þokað nokkuð á veg, einkum í Reykjavík með skiptingu verkefna stjórnsýslu og dómsvalds milli nokkurra embætta hér í borginni. Þetta er þó ekki fullnægjandi lausn.
    Árið 1977 beitti Ólafur Jóhannesson, þáv. dómsmrh., sér fyrir því að komið var á fót sérstakri Rannsóknarlögreglu ríkisins sem annast rannsókn meiri háttar afbrotamála í öllu landinu. Á þeim tíma var einnig lagt fram svokallað lögréttufrumvarp sem gerði ráð fyrir nýju dómstigi milli héraðsdómstóla og Hæstaréttar. Það frv. var síðan fjórum sinnum lagt fyrir Alþingi, en fékk aldrei nægilegan stuðning til að hljóta afgreiðslu. Utan Reykjavíkur hefur frá 1972 verið komið á fót stöðum héraðsdómara við sex stærstu sýslumanns- og fógetaembættið, en þeir eru reyndar jafnframt undir stjórn viðkomandi bæjarfógeta og er þar ekki um sjálfstæða dómstóla að ræða í venjulegri merkingu þess orðs. Bæjarfógetar fara þar einnig áfram með dómstörf, svo og fulltrúar þeirra.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. ,,að sett verði lög um aðskilnað dóms- og framkvæmdarvalds og unnið að endurskoðun annarra þátta réttarkerfisins``. Frv. þetta er liður í framkvæmd þeirrar stefnu, en fylgifrv. þess eru frv. um aðför, sem lagt hefur verið fram á þessu þingi, og frv. til laga um breytingu á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, sem lagt verður fram innan skamms, kemur væntanlega fram í dag eða á morgun. Þá má nefna frv. um lögbókandagerðir og frv. um breytingu á lögum um hreppstjóra, sem fram eru komin á Alþingi. Þau eru þó ekki bundin framgangi þessa frv. heldur geta þau tekið gildi án þess að samþykktur hafi verið aðskilnaður umboðsvalds og dómsvalds.
    Unnið er að endurskoðun annarra lagabálka á sviði réttarfars sem eru sumir hverjir komnir til ára sinna. Þá þarf að aðlaga nýjum aðstæðum í samfélaginu ásamt því að fella þarf ákvæði þeirra að þeim aðskilnaði umboðsvalds og dómsvalds sem fjallað er um í þessu frv. Er um þetta nánar fjallað í athugasemdum við frv.
    Meginefni þessa frv. er að settir verði á fót átta héraðsdómstólar er fari með dómstörf jafnt í einkamálum og opinberum málum. Framvegis verði sýslustjórn í héraði í höndum embættismanna með embættistitilinn ,,sýslumaður`` um leið og embættistitillinn ,,bæjarfógeti`` verði lagður niður.
    Embætti sýslumanna urðu til hér á landi í upphafi konungsstjórnar á 13. öld. Er því hér um að ræða eitt

elsta embættisheiti með þjóðinni. Fer vel á því að halda áfram notkun þess, en hinn embættistitillinn fellur niður sökum breyttrar verkefnaskiptingar dómara og embættismanna framkvæmdarvaldsins, svo og vegna breytingar sem orðin er á sveitarfélagalögum sem að mestu afnemur sérstöðu kaupstaða. Upphaflega var í tillögum að frv. þessu gert ráð fyrir að héraðsdómstólar yrðu aðeins sjö, en við nánari umfjöllun þótti rétt að dómstólarnir yrðu tveir á Norðurlandi, einn í hvoru kjördæmi.
    Lagt er til að héraðsdómstólar í Reykjavík verði sameinaðir í einn dómstól, þar á meðal hluti borgarfógetaembættisins. Framkvæmdarvaldsstörf borgarfógetaembættisins verði hjá embætti sýslumanns í Reykjavík er fari með verkefni á sviði umboðsstjórnar á sama hátt og önnur sýslumannsembætti að öðru leyti en því að lögreglustjórn og tollstjórn verði áfram í höndum sérstakra embætta.
    Í frv. er gengið út frá því að sýslumenn hafi áfram með höndum núverandi verkefni að öðru leyti en hvað varðar dómstörf sem færast til héraðsdómstóla. Þá verða ýmis verkefni á mörkum dómstarfa og umboðsstarfa nú skilgeind sem umboðsstörf og falin sýslumönnum. Má þar vísa til frv. til aðfararlaga, frv. til breytinga á þinglýsingalögum og frv. um lögbókandagerðir.
    Fleiri breytingar eru á döfinni sem miða að því að auka verkefni sýslumannsembætta og gera veg og virðingu þeirra enn meiri í framtíðinni en nú er. Hef ég í samráði við stjórn Sýslumannafélags Íslands ákveðið að skipa sérstaka nefnd til þess að huga að núverandi verkefnum sýslumannsembætta og að frekari verkefnaflutningi til þeirra frá miðstöð framkvæmdarvaldsins í ráðuneytum og öðrum stofnunum.
    Í 1. mgr. 13. gr. frv. eru ákvæði um skrifstofur sýslumanna og er tilgangur þessa ákvæðis að lögfesta heimild til þess að setja á fót fleiri umboðsskrifstofur í þéttbýliskjörnum innan umdæmis sýslumanns eftir því sem fjárveitingar leyfa. Hugmyndin er að hreppstjórar og e.t.v. lögregluvarðstofur geti veitt almenningi utan aðsetursstaðar sýslumanns ýmiss konar þjónustu og skjótvirkt samband við aðalskrifstofu sýslumanns. T.d. er með ,,telefax"-tækjum hægt að fá afgreidd veðbókarvottorð frá einum stað til annars á örskömmum tíma og sama er að segja um afgreiðslu ýmiss konar leyfa.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við 3. gr. frv. munu héraðsdómstólar hafa reglulegt þinghald á föstum þingstöðum innan hvers lögsagnarumdæmis. Er þannig gengið út frá því að þingað verði í málum á varnarþingi málsaðila nema samkomulag verði um annað. Fjarlægð búsetu frá aðalsetri héraðsdóms mun því ekki þurfa að bitna á þeim sem leita til dómstólanna. Með tilkomu hinna nýju héraðsdómstóla út um land má reikna með að aukinn fjöldi dómsmála verði útkljáður utan Reykjavíkur. Nú er dæmt í fjölda mála, sem eiga uppruna sinn utan höfuðborgarsvæðisins, fyrir dómstólum í Reykjavík. Er

það gert með samkomulagi aðila um varnarþing hvað varðar einkamál, en yfirleitt samkvæmt ákvörðun ríkissaksóknara hvað varðar opinber mál. Gera má ráð fyrir að lögmenn muni í auknum mæli finna sér starfsgrundvöll í nágrenni starfandi héraðsdóma og að aukin þjónusta á sviði dómgæslu muni styrkja byggðina utan höfuðborgarsvæðisins um leið og efling sýslumannsembættanna bætir þjónustu við almenning.
    Varðandi einstakar greinar frumvarpsins vil ég fyrst nefna 2. gr. þess. Þar er kveðið svo á að í landinu skuli vera átta héraðsdómstólar og eru lögsagnarumdæmi þeirra nánar skilgreind í greininni. Lögsagnarumdæmi dómstólanna fylgja í meginatriðum kjördæmunum, að öðru leyti en því að Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær, Kjalarnes- og Kjósarhreppur eru í sama lögsagnarumdæmi og Reykjavík og er það án efa íbúum þessara byggða til hagræðis af augljósum ástæðum.
    Með frv. fylgir skýrsla um fjölda viðfangsefna sýslumanna á tímabilinu 1980--1987 og skiptingu þessara verkefna milli sýslumannsembætta og héraðsdómstóla miðað við tillögur frv.
    Í 2. gr. er kveðið á um aðsetursstaði héraðsdómstólanna og taka þær tillögur einkum mið af samgönguleiðum og að dómstólarnir séu staðsettir miðsvæðis í hverju lögsagnarumdæmi.
    Í 3. gr. er kveðið á um skiptingu lögsagnarumdæma í dómþinghá og um fasta þingstaði. Héraðsdómur skal hafa reglubundið þinghald á föstum þingstöðum innan síns umdæmis. Þannig mundi t.d. héraðsdómari frá héraðsdómi Suðurlands
þinga reglulega í Vestmannaeyjum eftir því sem málaþunginn gæfi tilefni til. Dæmi um slíka skipan má víða finna í strjálbýlum löndum, t.d. í Skotlandi og norðurhéruðum Kanada þar sem dómarar ferðast reglubundið til þingstaða utan síns aðseturs og halda þar dómþing. Málum er þá stefnt þar og réttarhöld fara þar fram.
    Í 4. gr. eru ákvæði um fjölda dómara og er ítarleg skýring á þeim ákvæðum í grg. Er lagt til að fjöldi dómara sé fastákveðinn í lögum, en ekki sé um að ræða hlaup í dómaratölunni eins og nú er samkvæmt lögum nr. 74/1972. Alls er gert ráð fyrir að 38 héraðsdómarar starfi við héraðsdómstólana í landinu og er það sama tala og samanlagður fjöldi dómara í Reykjavík og fjöldi héraðsdómara við embættin í Keflavík, Hafnarfirði, Akureyri, Vestmannaeyjum og á Selfossi. En vegna breytinga á verkefnum dómstólanna er í raun og veru fjölgað um þrjú eða fjögur dómaraembætti frá því sem nú er í raun, þ.e. verkefni 3--4 borgarfógeta í Reykjavík flytjast til embættis sýslumanns.
    Í bráðabirgðaákvæði er að vísu gert ráð fyrir heimild til tímabundinnar fjölgunar héraðsdómara við gildistöku frv. þessa, en óvíst er hvort á þau reynir. Sé nægur fyrirvari við gildistöku laganna er hægt að láta ógert að skipa í stöður sem losna síðustu mánuðina fyrir gildistöku eins og heimilt er innan marka núgildandi laga. Í Reykjavík yrðu þó væntanlega 23 eða 24 héraðsdómarar eftir því hvernig

núverandi borgarfógetar skiptast milli héraðsdóms og embættis sýslumanns í Reykjavík og er þess ekki að vænta að hægt verði að fækka dómurum fyrr en sameining núverandi dómstóla undir einu þaki og breytingar á réttarfarslöggjöfinni eru farnar að skila árangri eins og bent er á í grg. með 4. gr.
    Í 4. gr. eru einnig ákvæði um forstöðumenn dómstóla þar sem héraðsdómarar eru fleiri en einn. Þar er lagt til að þeir hafi titilinn dómstjóri sem á sér fordæmi í dómstólasögu landsins. Þeir skulu skipaðir til sex ára í senn úr hópi dómara við viðkomandi dómstól og að fenginni tillögu þeirra. Heimilt verður að endurskipa dómstjórana. Í greininni er að finna ákvæði um verksvið dómstjóra sem hefur yfirumsjón með starfi dómstólsins.
    Í 5. gr. er lagt til að almenn skilyrði til skipunar í embætti héraðsdómara séu í sömu lögum og fjalla um héraðsdómarana en þau ákvæði er nú að finna í 32. gr. laga um meðferð einkamála í héraði. Skilyrðunum er breytt að því leyti að aldursskilyrði er hækkað í 30 ár og er það gert í því skyni að tryggja reynslu manna áður en þeir taka við svo mikilvægum embættum.
    7. tölul. núgildandi skilyrða 32. gr. er breytt með tilliti til breytinga sem orðið hafa á opinberum embættum og mönnun þeirra frá því að núgildandi ákvæði um þetta efni voru sett í lögum nr. 100/1950. Í þessari grein er að finna mikilvægt nýmæli, það að dómsmrh. skipi sérstaka dómnefnd sem fjalli um umsóknir um embætti héraðsdómara. Í nefndinni skuli sitja þrír menn og einn þeirra tilnefndur af Hæstarétti og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Annar nefndarmaður skal tilnefndur úr hópi héraðsdómara og hinn þriðji af Lögmannafélagi Íslands. Nefndin skal gefa skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur. Tillaga um slíka dómnefnd hefur áður komið fram í stjfrv. sem fram var lagt á Alþingi í dómsmálaráðherratíð Ólafs Jóhannessonar 1975--1976. Í grg. með því frv. eru rakin ýmis dæmi um svipað fyrirkomulag í öðrum ríkjum, en megintilgangur ákvæðisins er að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu valdir samkvæmt hæfni einvörðungu og þeir séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins. Ekki er að efa að tilvist slíkrar umsagnanefndar verður auk þess hvatning fyrir lögfræðinga sem hyggja á starfsferil sem dómarar að afla sér framhaldsmenntunar og leggja stund á fræðistörf á sviði lögfræðinnar.
    Ég mun því næst víkja að II. kafla frv. sem fjallar um umboðsvald í héraði. Ég tel einkar mikilvægt að almenningur eigi greiðan aðgang að umboðsmönnum framkvæmdarvaldsins í héraði og að slíkir embættismenn geti úrskurðað um ýmis hagsmunamál fólks sem nú er gert í ráðuneytum og í öðrum opinberum stofnunum. Þar má nefna ýmiss konar leyfisveitingar, úrskurði um sveitarstjórnarmál o.fl.
    Frá því á 18. öld hafa sýslumenn starfað á sviði sveitarstjórnarmála, en eins og kunnugt er hætta þau afskipti þeirra með öllu um næstu áramót. Sýslumenn eiga að hafa yfirstjórn á löggæslu og innheimtu

ríkistekna eins og þeir hafa gert frá fyrstu tíð, að mínu mati, en auk þess ber að flytja til þeirra fjölmörg viðbótarverkefni á sviði ríkisumsvifa á næstu árum. Gert er ráð fyrir að aðsetur sýslumanna verði óbreytt, en hins vegar er lagt til að umdæmi sýslumanna verði ákveðið með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi sýslumanna og sveitarstjórna. Koma þar að sjálfsögðu inn í myndina breyttar samgönguleiðir fólks sem kalla á aðlögun umdæmanna að nýjum aðstæðum. Þannig mætti t.d. gera íbúum á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð kleift að sækja sína þjónustu til sýslumanns á Akureyri í nokkurra mínútna akstursfjarlægð í stað þess að sækja hana um langan veg til Húsavíkur.
    Í 12. gr. frv. eru ákvæði um skipan mála í Reykjavík sem auðvitað hefur mikla sérstöðu sökum fólksfjölda. Þar er gert ráð fyrir stöðu sýslumanns í
Reykjavík, en stöðuheitið borgarfógeti fellur brott á sama hátt og stöðuheiti bæjarfógeta sökum breyttra verkefna þessara embættismanna. Jafnframt er starfsheitinu sýslumaður haldið, en það fengum við frá Noregi með konungsstjórninni á 13. öld. Í Noregi er nú einungis eitt sýslumannsembætti eftir, en það er á Svalbarða. Heiti hinna embættanna urðu að víkja fyrir dönskum áhrifum.
    Í 13. gr. eru ákvæði um skrifstofur sýslumanna sem ég hef áður vikið að, en fjölgun þeirra í framtíðinni ásamt notkun nútímaboðmiðlunartækni er nauðsynlegur þáttur í að treysta núverandi byggð utan höfuðborgarsvæðisins. Orðalagi greinarinnar er í nokkru breytt í samræmi við tillögur milliþinganefndarinnar sem fjallaði um frv. þetta í sumar.
    Varðandi 14. gr. er rétt að vekja athygli á því að í milliþinganefndinni kom fram tillaga um að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, sem nú heitir lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli, heyri undir dómsmrh. á sama hátt og aðrir sýslumenn. Hér er ekki gerð tillaga um slíka breytingu, en vissulega er rétt að kanna það mál nánar í framtíðinni þar eð það hefur valdið óþarfa flækjum í stjórnsýslunni að yfirstjórn löggæslu á Keflavíkurflugvelli skuli vera með öðrum hætti en yfirstjórn annarrar löggæslu. Nú er að vísu verið að kanna hagkvæmni þess að sameina löggæslu í flugstöðinni nýju og löggæslu í umdæmi bæjarfógetans í Keflavík og kann það að hafa í för með sér verulegan sparnað fyrir ríkissjóð auk þess sem það er skynsamlegra skipulag á yfirstjórn löggæslu. Í frv. er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí 1990. Tíminn fram að gildistökunni er nauðsynlegur til að aðlaga ýmsa hluti í löggjöf og öðrum reglum að breyttri skipan. Útvega þarf húsnæði, skipuleggja tilflutning starfsmanna milli embætta, gera breytingar á annarri löggjöf eins og rakið er í athugasemdum með frv. Þá þarf að taka ákvarðanir um dómþinghár, föst þinghöld o.fl.
    Í 18. gr. eru ákvæði um forgang manna til skipunar í embætti. Í fyrstu drögum að frv. var gert ráð fyrir að þeir héraðsdómarar sem starfa við stærstu embætti utan Reykjavíkur, svo og embættisdómarar í

Reykjavík, skyldu flytjast sjálfkrafa milli embætta, en vegna eindreginna óska sýslumanna og bæjarfógeta er þeim öllum samkvæmt frv. einnig gefinn kostur á flutningi í héraðsdómaraembætti. Er það nú orðað þannig í 18. gr. að þessir aðilar hafi forgangsrétt til skipunar í embætti héraðsdómara í því lögsagnarumdæmi sem þeir starfa í. Þarf ekki að leggja þær umsóknir til umsagnar dómnefndar eins og gert yrði með umsóknir þeirra sem ekki eru þegar skipaðir í embætti þegar breytingin tekur gildi. Lagt er til auk þess að dómsmrh. hafi heimild til tímabundinnar fjölgunar dómaraembætta þegar þannig stendur á að fleiri úr röðum þessara embættismanna óska þess að neyta forgangsréttar en héraðsdómarastöðurnar eru skv. 4. gr. Auðvitað er ekki hægt á þessari stundu að meta það hvort á þetta muni reyna.
    Ég hef nú stiklað á stóru um efni þessa frv. Ég vek sérstaka athygli hv. þingmanna á skýrslu þeirri er prentuð er með athugasemdum frv., en hún sýnir að í raun eru dómsmál núverandi embætta sýslumanna og bæjarfógeta ekki stór þáttur í störfum og með breytingum á réttarfarslöggjöf, svo sem á aðfararlögunum, verða umsvifamestu verkefnin áfram í þeirra höndum.
    Dómsmrn. hefur áætlað að aukakostnaður vegna frv. verði um 35 millj. kr. á ári miðað við verðlag á sl. vori. Þessi kostnaður fylgir nýjum héraðsdómarastöðum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Austurlandi og fjölgun dómara um einn í Norðurlandi eystra og á Suðurlandi. Þá er gert ráð fyrir að núverandi fulltrúar við sýslumanns- og bæjarfógetaembætti muni skiptast milli embætta sýslumanna og héraðsdómara og þar verði ekki um fjölgun að ræða. Raunar bendir margt til þess að með þeim breytingum sem nú er verið að undirbúa og réttarfarslöggjöfinni megi fremur fækka fulltrúastöðum en að þeim fjölgi. Auðvitað má draga úr kostnaðaraukningu af völdum frv. með því að fækka sýslumannsembættunum, en sú skipan sem hér er lögð til er málamiðlun gerð í því skyni að ná fram sem mestri sátt um nauðsynlegar breytingar.
    Dómsmrn. gerir í áætlun sinni ráð fyrir að húsnæðiskostnaður dómstólanna nemi meðaltali húsnæðiskostnaðar miðað við reynslu af rekstri sýslumannsembættanna, en gerir hins vegar ekki ráð fyrir sérstakri fjárfestingu í upphafi né kostnaði af tímabundnum viðbótarstöðum héraðsdómara samkvæmt bráðabirgðaákvæðum frv. Hins vegar mun gefast tími til þess fram að gildistöku frv. að skipuleggja stofnsetningu héraðsdómstólanna á hverjum stað án þess að kostnaður fari úr hófi. Húsakost þarf víða að bæta hvort eð er og á það alveg sérstaklega við um húsnæði dómstólanna í Reykjavík sem lengi hefur verið rætt um að sameina undir einu þaki þótt mörg önnur dæmi megi vissulega nefna.
    Nú hefur fengist lóð fyrir dómhús í Reykjavík. Sú lóð gæti í reynd einnig rúmað húsnæði fyrir Hæstarétt en slík bygging er ekki eins brýn og bygging yfir héraðsdómstól Reykjavíkur. Ljóst er að af sameiningu

héraðsdómstólanna í Reykjavík undir einu þaki mundi leiða af sér margvíslegan sparnað og hagræði fyrir þegnana.
    Herra forseti. Ég legg sérstaka áherslu á að frv. þetta verði að lögum á þessu þingi. Hér er um aðkallandi umbætur að ræða fyrir þjóðina sem nauðsynlegt er að lögfesta með nokkrum fyrirvara fram að gildistöku. Réttarfar okkar er eins og áður segir undir nokkurri smásjá samstarfsþjóða okkar í Evrópuráðinu og miklu skiptir að fjarlægja hinn minnsta skugga sem á það kann að falla. Frv. mætti nokkurri andstöðu utan þings eins og eðlilegt er með svo umfangsmikið mál sem þetta, en ég hygg að flestir þeir sem lýstu efasemdum um einstök atriði þess hafi sannfærst um að rétt sé að lögfesta það sem fyrst. Um það vitna m.a. samþykktir félagsskapar sýslumanna og dómara nú á þessu hausti, svo og félagssamþykkt Lögfræðingafélags Íslands.
    Frv. er mikilvægur hornsteinn í uppbyggingu réttarfarsins og mun verða til þess að gangur dómsmála geti verið í senn skjótari og öruggari en nú er sem er eitt af mikilvægustu málum sérhvers lýðræðisríkis.
    Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.