Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. er fram komið og þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessa greinargóðu ræðu sem hann flutti hér áðan. Ég sat í þeirri nefnd sem var skipuð í sumar, milliþinganefnd til að endurskoða lögin, og eins og kemur fram í grg. frv. er ég í flestum atriðum sammála efni þess og þeirri breytingu sem það boðar.
    Ég tel mikla nauðsyn á því að höggvið verði á þann hnút sem verið hefur lengi á milli dómsvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Samkvæmt stjórnarskrá Íslands er byggt á þrígreiningu valdsins, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds og samkvæmt þeirri hugsun sem sett var fram á 18. öld af Montesquieu áttu þessir þrír þættir að vera sjálfstæðir og virka sem aðhald á hina. Með þessu frv. held ég að þessu markmiði sé nokkuð vel náð, að skilja dómstólana alveg frá framkvæmdarvaldinu og gera þá sjálfstæða.
    Hér á Íslandi hefur um nokkurt skeið verið tvöfalt réttarfar, annars vegar í Reykjavík og hins vegar úti á landsbyggðinni. Hér í Reykjavík hefur verið skilið á milli dómsvalds og framkvæmdarvalds að miklu leyti. Með frv. er verið að skilgreina upp á nýtt dómsvald og framkvæmdarvald og þá aðallega það sem hefur fallið undir borgarfógeta en með frumvarpinu eru tekin út úr þau störf sem eðlilegt getur talist að heyri undir dómsvaldið og þau sett til sérstakrar stofnunar sem kemur til með að heita Héraðsdómur Reykjavíkur og það skilið eftir sem telja má stjórnsýslustörf eins og þinglýsingar og ýmislegt í tengslum við skipti, bæði á dánarbúum og nauðungaruppboðum og síðan varðandi framkvæmdaþætti aðfarar. Það frv. hefur verið lagt hér fram og við 1. umr. lýsti ég ánægju minni með það.
    Þegar svona frv. um aðskilnað er lagt fram hugsar maður til þess að þá þurfi að endurskoða mörg lög sem ég tel mikla nauðsyn á. Uppistaðan í réttarfarslöggjöf á Íslandi er um 100 ára gömul og nefni ég þar lögin um aðför, sem nú eru í gildi, skiptalög, þó svo að einhver breyting hafi orðið á undanförnum árum eins og með nauðungaruppboð. Mig minnir að þau lög séu síðan 1978. Það eru hins vegar ýmsir gallar á þeirri löggjöf sem ég vona að verði leiðréttir í tengslum við þá endurskipulagningu á dómsvaldi í héraði sem fer fram í tengslum við þetta frv.
    Varðandi einstaka liði frv. lýsti ég þeirri skoðun minni í milliþinganefndinni að það mætti fækka ýmsum störfum og fækka í ýmsum embættum. Ég tel að 27 menn í borgardómi séu í það mesta. Það má minna á það að í Kaupmannahöfn eru að mig minnir 40--50 borgardómarar og það sjá allir að það er 20 sinnum meiri fjöldi þar en í Reykjavík.
    Varðandi þau embætti sem hefur verið fallist á að verði sérstök sýslumannsembætti en í upphaflegu tillögunum var gert var ráð fyrir að ættu ekki að vera sérstök sýslumannsembætti er ég þeirrar skoðunar að þau mættu missa sig. Eins og hæstv. dómsmrh. veit eflaust um hefur lítil ásókn verið í mörg

sýslumannsembætti og ég þykist vita að hún verði ekki meiri í framtíðinni þegar búið er að taka svona mikið vald frá sýslumönnum. Sýslumannsstaðan verður ekki eins eftirsóknarverð og áður var.
    Mikil gagnrýni kom fram á þetta frv. þegar það var upphaflega lagt fram og þá aðallega frá sýslumönnum. Töldu þeir að hinn mannlegi þáttur hefði gleymst og að frv. gerði ekki ráð fyrir þeirri þjónustu sem sýslumenn sem löglærðir menn hafi veitt borgurunum í héraði. Ég held að það sé misskilningur. Þó að ég geti viðurkennt það sem fyrrv. lögmaður að mjög gott hafi verið að eiga við sýslumenn úti á landi yfir höfuð held ég að það þurfi ekkert að breytast meðan sýslumannsembættin halda sér. Ég held að þvert á móti sé það miklu betra, bæði fyrir þegnana úti á landi og sýslumennina, að þurfa ekki að leysa úr ágreiningsmálum sem síðan verði tilefni til dómsmála.
    Eins og ég rakti áðan er þetta frv. aðeins fyrsta skrefið í eflaust mjög langri göngu margra frv. sem eiga eftir að fylgja hér í kjölfarið. Frumvarpið er aðeins ramminn sem markar þau frv. Og ég bíð spenntur eftir því hvernig þau líta út. Ég held hins vegar að sá rammi sem hér er markaður sé mjög góður og þjóni þeim viðhorfum sem ég held að a.m.k. lögmenn og löglærðir menn telji að þurfi að vera í þessum málum til þess að gæta réttaröryggis.
    Það er kannski eitt sem ég vildi vekja máls á og spyrja hæstv. dómsmrh. um. Hvernig fer með þá fulltrúa sem núna starfa hjá embættunum? Hér í frv. er gert ráð fyrir því að sýslumenn njóti forgangs í stöður sem losna hjá héraðsdómum en það er minna rætt um fulltrúana. Ég vænti þess að hæstv. dómmrh. svari þeirri spurningu.
    Það er eitt sem ég held að hafi verið mistök, kannski ekki í tengslum við þetta frv. heldur þá þróun sem verið hefur, en það er að gjaldheimtur hafa verið færðar frá sýslumönnum til sérstakra stofnana, gjaldheimtna, eða innheimta skatta hefur verið færð frá sýslumönnum til sérstakra gjaldheimtna úti á landi. Ég hefði talið það mjög mikilvægt að sýslumenn hefðu, eins og áður, haft með þessa innheimtu að gera.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð en vænti þess að það verði góðar umræður í hv. allshn., þar sem ég á sæti, um þetta frv. Þar getur maður farið betur yfir einstaka liði og kallað til þá aðila sem þetta mál fjallar eiginlega beint um. Og við getum komist að niðurstöðu sem flestir geta sætt sig við, en hérna er einmitt verið að ræða einn af hornsteinum okkar þjóðfélags.