Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég á einnig sæti í hv. allshn. og fæ þar að sjálfsögðu tækifæri til þess að láta í ljós mína skoðun og leitast við að hafa áhrif á það sem ég kynni að telja að betur færi í þessu frv.
    Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að segja það skýrt og greinilega að ég er mjög íhaldssamur í sambandi við breytingar á grundvallarstjórnskipun landsins, þar á meðal dómaskipun, og tel að menn eigi að fara sér hægt en ekki hratt í þeim efnum. Ég tel það ekki löst á neinum manni að vera íhaldssamur að því er varðar grundvöll lýðræðislegrar stjórnskipunar og ég held að meira að segja hæstv. dómsmrh. finnist það ekkert ljótt að vera talinn íhaldssamur á vissum sviðum. Það er ekki skammaryrði, held ég, í hans huga frekar en í mínum og í þessu efni eigum við held ég að fara okkur hægt.
    Það er rétt að um þessi mál hefur verið rætt á Íslandi í a.m.k. 70 ár og það í þessu húsi og ekki sjaldan, heldur æðimikið. Og á dómaskipun hafa auðvitað verið gerðar breytingar og það hefur orðið þar framþróun skulum við segja. Við skulum segja að betur sé háttað dómaskipan og meðferð dómsmála nú en var fyrir t.d. 70 árum síðan. Það er líka rétt sem hæstv. dómsmrh. sagði að sumar þær breytingar sem fram hafa náð að ganga --- flestar hafa ekki náð fram að ganga. Það hefur verið hreyft málum um breytingu á stjórnskipun og meðferð dómsvalds svo margsinnis, kannski á hverju þingi í þessi 70 ár og þó að lengra aftur í tímann væri farið. Hæstv. dómsmrh. nefndi einmitt tvo af lögspekingum þessarar aldar, ég held að allir hljóti að kalla þá okkar meginlögspekinga, þá Bjarna Benediktsson og Ólaf Jóhannesson, sem báðir beittu sér fyrir ákveðnum breytingum í þá átt sem hér hefur verið um að ræða og þeim kannski ekki litlum eins og í sambandi við ákæruvaldið sem hæstv. ráðherra gat um.
    Ég ætla mér ekki þá dul og sjálfsagt enginn hér inni að halda því fram að ég geti sett mig í einhver svipuð spor, eða að einhver hér haldi að hann geti það, og þessir tveir menn voru í. Hitt veit ég að a.m.k. annar þeirra, sem ég þekkti náið, hljóp ekki til að samþykkja einhverja breytingu á dómaskipun að óhugsuðu máli eða lítt hugsuðu. Það er víst alveg áreiðanlegt. Og ég hygg að það hafi átt við um þá báða.
    Það er nú einu sinni tískufyrirbæri að vera alltaf að breyta. Menn halda kannski að þeir leysi einhverja lífsgátu með því að vera stanslaust að breyta jafnvel í viðkvæmustu málum þjóðarinnar sem er auðvitað sjálf stjórnskipunin og dómaskipan og meðferð dómsmála almennt. Ég segi aftur, ég vil vera íhaldssamur í því efni. Ég hygg t.d. að a.m.k. fimm áratuga tilraunir til að breyta sjálfri stjórnarskránni í veigamiklum atriðum, sem ekki hafa borið árangur, góðu heilli, sýni að menn séu á varðbergi um það sem vel hefur reynst og vilji ekki breyta því. Og ég held ég hafi nánast enga tillögu séð, eða svo til enga, um breytingar á stjórnarskránni sjálfri sem verið hefðu til bóta. Ég held að við höfum mjög góða

stjórnarskrá, hnitmiðaða og auðskilda almenningi. En það átti að breyta því öllu og þynna það út. Það hefði verið af hinu illa, held ég, og þó hafa verið starfandi óteljandi stjórnarskrárnefndir, en með þessum árangri sem ég nú er að lýsa, og ég held að það hafi verið happasælt að þannig fór.
    Á sama hátt hljótum við að fara mjög varlega í dómaskipunina. Ég tek ekki mjög nærri mér þó að einhverjir svokallaðir lögspekingar úti í heimi einhvers staðar ætli að fara að halda því fram að réttarríki sé ekki á Íslandi og það sé meira í þeirra ríkjum. Ég held að maður láti slíkt sem vind um eyrun þjóta. Ég held að við höfum haft í gegnum tíðina fullt eins góða lögfræðinga og þeir sem sitja í þessum dómstól sem á að fara að bera fyrir sig --- og veit ég að sú hugmynd er ekki komin frá hæstv. ráðherra. Hún er komin allt annars staðar frá og hefur verið notuð sem réttlæting á því að gera hér umbyltingar. Ég blæs nú á það allt saman.
    Aðalatriðið er að við skulum ekki setja okkur það takmark að breyta lögunum á þessu þingi eingöngu til að breyta einhverju. Alþingi hefur á allra síðustu árum gert veigamiklar breytingar ekki kannski beint í sambandi við dómsmál, og þó, vissulega tengt dómsmálum, en alla vega meðferð dómsmála beint og óbeint, annars vegar þá að setja lög um umboðsmann Alþingis sem nýlega hefur hafið störf og hins vegar að Ríkisendurskoðun félli beint undir Alþingi. Þetta eru ekki lítilvægar breytingar. Við eigum að vísu eftir að sjá hvernig þessi embætti þróast með þessari skipan og öll óskum við þess og vonum að sú þróun verði hagstæð og einmitt til þess fallin að tryggja betur réttaröryggi borgaranna, enn betur en það er tryggt í dag.
    Ég held að báðir þessir lagabálkar hafi verið samþykktir einróma á Alþingi, ég man ekki annað. Að minnsta kosti studdi ég þetta hvort tveggja þó að ég vissi að sjálfsögðu að þetta væri tilraunastarfsemi. Við vissum ekki hvernig það mundi verða í framkvæmd og vitum ekki enn. En við gerðum þetta vegna þess að við trúðum því að þetta væri til bóta og mundi auka réttaröryggi. En algjör aðskilnaður löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds, sem er göfug hugsjón, verður held ég aldrei. Það eru engin skýr mörk þar á milli. Og af því að hæstv. ráðherra nefndi tvo okkar lögspekinga, þá Bjarna Benediktsson og Ólaf Jóhannesson, þá vildi nú svo til að báðir þessir menn urðu að gegna nærri því samhliða öllum þessum þáttum. Þeir voru miklir löggjafar, þeir voru miklir framkvæmdamenn og þeir þurftu að vera báðir tveir á sínum tíma æðstu yfirmenn dómsmála. Auðvitað verður ein persóna ekki greind í þrjá parta. Auðvitað er þetta allt samtengt og það þýðir ekki að ætla sér að bíta sig í það að það sé hægt gjörsamlega að skilja þetta þrennt að. Það verður auðvitað að vera eins mikill aðskilnaður og unnt er, þó að menn hljóti að geta rætt öll málin og verði meira að segja, jafnvel á sömu stundu, að vera ábyrgir fyrir öllum þremur þáttunum. Við skulum ekki vera þau börn að halda að við séum að leysa einhverja lífsgátu með samþykkt

þessa frv., að með því sé búið að bjarga réttarfari á Íslandi og gera það kannski göfugast í veröldinni og dómaskipan og meðferð dómsmála.
    Meðferð dómsmála er mismunandi í mismunandi löndum. T.d. í engilsaxnesku löndunum höfum við séð það að kviðdómar hafa getað reynst vel. Þeim hugmyndum hefur verið varpað fram að það þyrfti jafnvel að setja upp kviðdóm á Íslandi. Merkir menn hafa viðrað það jafnvel í okkar fámenni eins og erfitt væri nú að velja í kviðdóma og gera þá óháða. Og hvers vegna? Vegna þess að menn hafa haldið að þetta aðskilda og hreina dómsvald einangraðist kannski frá fólkinu, að þeir sem eingöngu eru í dómum, og það verða auðvitað hæstaréttardómarar að vera, ákærendur o.s.frv., kynnu að vera er tímar liðu það fjarlægir almenningsáliti, sem er nú oft hinn rétti dómstóll, að stundum gætu kviðdómar komið sér vel. Ég er ekki að leggja til að við stofnum kviðdóma, síður en svo, ég hef ekki trú á þeim. En ég held að engilsaxnesku þjóðunum mundi aldrei detta í hug að hverfa frá þeim og sumir gætu sagt að hægt væri að uppnefna þá alþýðudómstól. Við vitum að það þýðir náttúrlega allt annað í okkar tungutaki.
    Almenningur ætti þó að reyna að hafa einhverja möguleika til áhrifa á meðferð dómsmála og umboðsmaður Alþingis á einmitt að sinna því. Á þessari stundu segi ég ekkert annað um þetta mál sem hér liggur frammi en það að ég játa að ég hef ekki kynnt mér það nægilega rækilega. Það getur hæstv. dómsmrh. heldur ekki hafa gert á þeim skamma tíma sem hann hefur verið dómsmrh. og ég er ekki að álasa honum fyrir það. Það er ekki á neins manns færi að setja sig inn í alla þætti þessa máls á einhverjum hlaupum. Þó að ég eigi að heita löglærður, hef náttúrlega gleymt mestu sem ég lærði, treysti ég mér ekki til að leggja dóm á hvern einstakan þátt.
    Ég vona bara að hæstv. ráðherra, sem ég held að sé svolítið íhaldssamur eins og ég á sumum sviðum, leggi ekkert ofurkapp á að ná málinu fram bara til þess að ná því fram. Það held ég að hann muni ekki gera. Hins vegar höfum við séð það í gegnum árin og áratugina að ráðherrar leggja stundum ofurkapp á að koma fram máli bara af því að þeir flytja það. Oft og tíðum eru málin hrá og illa undirbúin, venjulega helmingi of löng lagasetning, væri kannski hægt að koma fyrir á einni blaðsíðu, í einni eða tveimur lagagreinum, því sem þyrfti að segja, í staðinn fyrir að lagagreinarnar eru kannski 100 eða meira. Það nálgast það t.d. í grunnskólalögum að þar sé sagt að kennarar eigi að kenna og nemendur að læra. Það eiginlega vantar bara þá setningu. Þetta flækir auðvitað málið miklu frekar en hitt. Menn eiga að hafa löggjöf eins stutta og hnitmiðaða og hægt er. Ég er ekki að segja að þetta frv. eða þessi löggjöf sé ekki einmitt stutt og laggóð. Hún skýrir nokkurn veginn hvað fyrir höfundum hennar vakir. En að þeir hafi höndlað alla lögspeki heimsins og að þessi lög hljóti endilega að vera rétt, það held ég að við ættum að skoða nánar og segja ekki sem svo, af því að Alþingi lýkur væntanlega í maí eða um það bil, að

því skuli tíminn til að athuga málið ekki vera lengri.
    Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra skilji hvað ég er að segja og muni ekki leggja pressu á. Ég ætla að reyna að vinna í málinu og mynda mér ekki skoðun um einstaka þætti þess fyrir fram.