Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð og fagna því, sem ég raunar vissi fyrir fram, að hæstv. ráðherra mundi vilja fara með gát í sambandi við dómskipan, meðferð dómsmála og stjórnskipunina yfirleitt og ekki hlaupa þar til eins eða neins nema að fullathuguðu máli. Raunar var það ánægjuleg yfirlýsing, sem ég held að sé rétt, að menn hafi nálgast hver annars sjónarmið og bætt frv. mjög í sumar einmitt vegna þess að ekki var fallist á að afgreiða það í fyrravor.
    Það kynni að fara svo að ekki yrði heldur hægt að afgreiða það á þessu vori og það er bættur skaðinn, við getum alveg beðið til næsta þings þess vegna. Ég er ekki að segja að við eigum endilega að gera það. Ef menn verða nokkuð ásáttir og geta fært nægilega sterk rök fyrir því að þetta sé af hinu góða reynum við auðvitað að klára málið með vorinu. Ég endurtek að ég mun að sjálfsögðu vinna mín skyldustörf við athugun á þessu máli og vona að það nái heilt í höfn, ef ekki nú þá síðar. Við vitum ekki enn nákvæmlega hvað er æskilegast. Ég endurtek að við höfum gert mjög mikilvægar breytingar og sett mjög mikilvæga löggjöf, bæði um ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis. Það er því ekki hægt að segja að ekkert hafi gerst í þessi 70 ár. Og ég endurtek líka að stjórnspekingar þessarar aldar gerðu veigamiklar breytingar, en þeir Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhannesson gerðu þær ekki á neinum hlaupum, það gerðu þeir ekki. Þeir voru íhaldssamir eins og við hæstv. ráðherra.