Hreppstjórar
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég held að hér sé dálítið merkilegt mál á ferðinni. Í fyrsta lagi er þess nokkur þörf að fá upplýsingar um það hver eru aðalstörf hreppstjóra. ( Gripið fram í: Það vita nú allir.) Því miður held ég að allir geri sér ekki alveg grein fyrir því hver eru aðalstörf hreppstjóra og ekki síst vegna þess að sýslumanni er, skv. 1. gr. þessa frv., gefin sú heimild að mega ráða því sjálfur hvort hreppstjóri er í þessu eða hinu sveitarfélaginu. Ég óska einnig eftir því að fá upplýsingar um á hvaða forsendum sýslumaður á að ráða þessu, út frá hverju á val hans að vera um hvort hreppstjóri sé í þessu sveitarfélagi eða öðru. Mér finnst frv. vera nokkuð losaralegt. Ég hef litið svo á að starf hreppstjóra væri mikilsvert starf í hverju sveitarfélagi og það þyrfti nokkur rök til þess að leggja það niður. Það er vel hægt að hugsa sér að löggjafinn segði að einhvern ákveðinn fjölda íbúa þyrfti á bak við hvern hreppstjóra þannig að það mætti vera einn hreppstjóri í tveimur hreppum, eins og ráðherrann nefndi. Mér finnst þó nokkuð langt gengið að það sé eingöngu fært í vald sýslumanns. Þetta er það fyrst og fremst sem ég hafði áhuga á að fá að heyra frá hæstv. dómsmrh.
    Hinu er ekki að leyna að umræðan um störf sveitarfélaga út um landsbyggðina er sums staðar á þann veg að þeirra starf sé frekar lítið og við vissar aðstæður geri þeir kannski ekki það sem þeim ber að gera, eins og t.d. í sambandi við skráningu skipshafna og fleira sem þeir sinna fyrir framkvæmdarvaldið til þess að framfylgja ákveðnum reglum í lögum. Mig langar til þess að fá upplýsingar um hvernig sýslumaður á að taka ákvörðun um hvort hreppstjóri skuli vera til staðar eða ekki og dálítið yfirlit um hver eru helstu störf hreppstjórans.