Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Mig langar að gera nokkra grein fyrir fyrirvörum mínum í nál. um frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, en fyrirvararnir eru til komnir af eftirfarandi ástæðum.
    Ég hef látið þá skoðun mína í ljós að ég tel helmings hækkun á þessum skatti fullmikla og lét líka í ljós þá skoðun að það hefði verið eðlilegt að koma eitthvað til móts við óskir sumra hv. stjórnarandstæðinga um að skatturinn yrði eitthvað lægri.
    Sá tilgangur með skattinum að draga úr þenslu er nánast úr sögunni vegna þess samdráttar sem þegar er orðinn. Þessi samdráttur er orðinn mikill á landsbyggðinni, en þessi skattur getur komið sérstaklega illa við landsbyggðarverslunina. Hún hefur nefnilega ekki möguleika á því að koma þessum skatti út í verðlagið, alla vega ekki eins mikla möguleika og verslunin á höfuðborgarsvæðinu, og þarf að auki að leggja í mikinn kostnað vegna mun meiri birgða og birgðahalds en verslun á Reykjavíkursvæðinu.
    Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og lýsti því þegar þessi skattur var upphaflega lagður á að hann væri byggður á röngum forsendum. Ég er þessarar skoðunar enn þá. Þetta er sértækur skattur. Hann kemur á eignir manna hvort sem þær eru skuldum vafðar eða ekki sem ég tel ákaflega ranglátt. Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að ef menn væru á annað borð með sértæka skatta af þessu tagi eigi að leggja þá á gróða fyrirtækjanna, hagnaðinn.
    Ég vil líka nefna að ég óttast að þessi skattur fari beint út í verðlagið, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, vegna þess að ég hygg að hagur verslunar hafi þrengst svo að hún geti ekki tekið þennan skatt á sig með öðru móti en beina honum beint út í verðlagið aftur. Þessi skattur er að langstærstum hluta greiddur á höfuðborgarsvæðinu.
    Ég vil líka, herra forseti, benda á að leigjendur atvinnuhúsnæðis bæta þessum skatti við leiguna og svo langt er gengið í þeim efnum að leigusamningar eru sérstaklega útbúnir með þeim hætti að þar eru ákvæði um að hækki þessi skattur hækki leigan. Almennt séð er ég því þeirrar skoðunar að þetta sé ekki skynsamlegur skattur, að hann sé ranglega uppbyggður. Hann er sértækur að því leyti að hann tekur til ákveðinna afmarkaðra atvinnugreina. Í því felst tiltekið ranglæti. Ég vil því eindregið hvetja hæstv. ríkisstjórn til að reyna að lækka þennan skatt eins fljótt og hún telur auðið að gera og helst að afleggja hann með öllu fyrr en síðar. Þessi skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði skilar sér illa. Það hefur sýnt sig að hann er ekki traust tekjulind fyrir ríkissjóð, en hann er engu að síður hluti af þeirri tekjuöflunaráætlun sem ríkisstjórnin hefur sett sér og ég hef fallist á að styðja að þessu sinni.
    En, herra forseti. Ég geri það og segi það sem mín lokaorð að það er með hangandi hendi að ég mun við atkvæðagreiðslu styðja þennan skatt. Grundvallarástæðurnar eru nákvæmlega þær sömu og ég hafði uppi 1979. Ég hef ekki breytt um afstöðu til

þessa skatts síðan einfaldlega vegna þess að þessi skattur mismunar atvinnugreinum og það er ekki réttlátt.