Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á að mér finnast þessar skattahugmyndir um eignarskatt lýsa algjöru virðingarleysi fyrir eignum manna svo að maður tali nú ekki um skilningsleysið vegna þess að það stendur þannig í bólið hjá öllu atvinnulífi landsmanna að skattahugmyndir af þessu tagi bitna bara á launþegum þessa lands. Þetta eru lífskjaraskerðingarskattar og ekkert annað. Þetta minnkar greiðsluhæfi fyrirtækjanna, veltur út í verðlagið, lendir á undirstöðufyrirtækjunum þannig að ástandið á þeim bæ verður enn þá verra en áður. Ég hlýt því að mótmæla þessum skattahugmyndum aftur eins og ég hef gert áður í þessum stól.
    Ég tel líka að þetta sé í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins. Spurningunni sem ég beindi til hæstv. fjmrh. í gær svaraði hann bara með útúrsnúningi og gríni. Það er nokkuð merkilegt ef fjmrh. má komast upp með það hér að svara málefnalegum spurningum með gríni og ef hann ætlar að leika einhvern skemmtikraft er spurning hvort ekki ætti að láta hann borga skemmtanaskatt.
    En ég vil aftur ítreka mótmæli við þessum skattahugmyndum.