Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Það er alveg sjálfsagt að ræða þetta mál áfram og mun ítarlegar ef það er ósk stjórnarliðanna og þeirra sem þar ráða. Ég geri ráð fyrir því að það geti tekið töluverðan tíma að koma því inn í hausinn á hv. 2. þm. Vestf. að hér er spurningin um að bjarga því sem bjargað verður í þessu máli, koma í veg fyrir að þessi skattur verði tvöfaldaður með tillögu í þá átt að hann verði óbreyttur frá því sem verið hefur.
    Það er alveg rétt að það er vond skattastefna að mismuna atvinnugreinum og leggja á sértæka skatta. Sennilega hefur þó enginn ræðumaður í þessum umræðum rökstutt það jafn vel og hv. 3. þm. Norðurl. e. Árni Gunnarsson sem flutti mjög magnaða ræðu fyrir skömmu gegn þessu frv. þó svo að hann hyggist að vísu styðja það. Hann hefur færi á því að sýna hug sinn í verki með því að styðja þá brtt. sem við höfum lagt fram, sjálfstæðismenn, til sátta í þessu máli, en heimspekilegar vangaveltur hv. 2. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar um hvernig beri að túlka stefnuskrá Sjálfstfl. læt ég mér almennt séð í léttu rúmi liggja.
    Við gerum okkur grein fyrir því að fjárhagsstaða ríkissjóðs er erfið og við höfum verið tilbúnir að koma til móts við þá staðreynd með því að falla frá grundvallarviðhorfi í þessu máli enn um sinn og halda áfram þessari skattlagningu og það meira að segja án þess að til hafi komið heildarsamningar um tekjuöflunarfrumvörpin öll.
    Það er rétt hjá hv. þm. að hér er einungis á ferðinni vottur eða vísbending um að Sjálfstfl. er alvara þegar hann talar um það að koma til móts við þessa ríkisstjórn í einstökum málum, en á því er hins vegar, eins og fram hefur komið í umræðunni, enginn áhugi að öðru leyti og við kippum okkur þá ekkert upp við það ef enginn áhugi er á því að ræða þessi mál á breiðum grundvelli.
    Ég ætti kannski að rekja nánar fyrir hv. 2. þm. Vestf. hver áhrif þessa skatts eru efnahagslega séð, en þar sem ég veit að það mun engu breyta um skilning hans á þessum efnum ( ÞP: Það má reyna.) ætla ég ekki að þreyta aðra þingmenn hér inni á því. ( ÓÞÞ: Það má semja um einkatíma.) Já, ég skal frekar gefa honum einkatíma. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.