Fjarvistir við atkvæðagreiðslu
Föstudaginn 16. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég sé mig tilneyddan til að gera hér örstutta athugasemd vegna frétta sem heyrðust í Ríkisútvarpinu í gærkvöld, en þær vörðuðu fjarvistir tveggja hv. þm. Borgfl., þeirra Hreggviðs Jónssonar og Inga Björns Albertssonar, við atkvæðagreiðslu sem fór fram hér í Nd. í gær vegna tveggja tekjuöflunarfrv. eða skattlagningarfrv. hæstv. ríkisstjórnar.
    Hér er við mig að sakast en ekki, eins og hugsanlega mátti skilja af þessum fréttum, að þessir tveir hv. þm. hefðu ekki verið viðstaddir atkvæðagreiðsluna til þess að komast hjá því að greiða atkvæði eða láta skoðun sína í ljósi.
    Á fundi þingflokksformanna og forseta þingsins var um það rætt að þinghaldi í gær skyldi lokið í báðum deildum kl. 17. Nú voru breytingar á því gerðar en án þess að það lægi þó endanlega fyrir með hvaða hætti. Því tjáði ég þessum tveimur hv. þm. að þessi tilhögun væri fyrirhuguð, og þinghaldi lyki í báðum deildum kl. 17. Í góðri trú fóru þessir tveir hv. þm. út úr þingsölum kl. rétt rúmlega fimm og töldu að þinghaldi væri u.þ.b. að ljúka. Þetta er skýringin á því að þessir tveir hv. þm. voru ekki viðstaddir atkvæðagreiðsluna en ekki að þeir hafi ekki viljað vera viðstaddir hana eða þeir væru að reyna að koma sér hjá því að láta afstöðu sína í ljós. Þetta vildi ég að kæmi fram hér til þess að alþjóð sé ekki í þeirri trú sem virtist mega skilja á fréttum í Ríkisútvarpinu í gærkvöld.