Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

    Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Fjvn. Alþingis hefur lokið störfum fyrir 2. umr. og leggur fyrir hv. Alþingi brtt. sínar við 4. gr. frv. Áður en ég geri grein fyrir þessum tillögum nefndarinnar vil ég fara nokkrum orðum annars vegar um störf hennar og starfsaðstæður og hins vegar um það efnahagslega umhverfi sem ríkir þegar fjvn. leggur tillögur sínar fram.
    Eins og öllum er kunnugt urðu ríkisstjórnarskipti seint á sl. sumri. Þegar Alþingi kom saman hafði ný ríkisstjórn aðeins haft örfáar vikur til undirbúnings. Frv. til fjárlaga er eitt helsta viðfangsefni hverrar ríkisstjórnar og í slíku frv. leggur ríkisstjórnin fram grundvöll að efnahagsstefnu sinni. Eðlilegt var að hin nýja ríkisstjórn þyrfti nokkru lengri tíma en aðeins örfáar vikur til þess að ganga frá sínu fyrsta fjárlagafrv. Frv. ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir árið 1989 kom því ekki fram á Alþingi fyrr en nokkru eftir að þing hafði komið saman. Varð því þá þegar auðséð að fjvn. mundi hafa skemmri tíma til að fjalla um frv. en venja er til og nauðsynlegt er.
    Nefndin hóf undirbúning sinn að þessu verki með eðlilegum hætti. Síðustu tvær vikurnar fyrir samkomudag Alþingis hafði nefndin átt viðræður við fjölmargar sveitarstjórnir og tekið við erindum þeirra. Úrvinnsla úr þessum erindum gat því hafist á eðlilegum tíma jafnvel þótt sjálft fjárlagafrv. væri ekki komið fram. Með sama hætti leitaði nefndin sér þá þegar upplýsinga sem lágu fyrir um afkomuhorfur ríkissjóðs á árinu 1988. Eins og öllum er kunnugt hafa miklar og stórar breytingar hins vegar orðið á þeim stærðum á síðustu vikum þannig að upplýsingar sem nefndin fékk um miðjan nóvember, hvað þá heldur þær upplýsingar sem nefndin aflaði sér í lok september og byrjun október, úreltust á skammri stundu og eiga ekki lengur við.
    Fjvn. tók einnig á móti fjölmörgum einstaklingum og fulltrúum félagasamtaka og stofnana sem jafnan eiga erindi við nefndina. Í þeim viðtölum skiptu nefndarmenn með sér verkum, en viðtöl við nefndina og móttökur nefndarinnar á erindum, stórum og smáum, og ábendingum frá aðilum í ríkiskerfinu og utan þess taka stöðugt meiri tíma nefndarinnar og verða sífellt umfangsmeiri. Nú bárust nefndinni erindi frá alls 488 aðilum. Sum þessara erinda lúta að mörgum viðfangsefnum þannig að fjöldi viðfangsefna í þessum erindum hefur verið á bilinu 850--1000. Samtals námu óskir þær og beiðnir sem fjvn. bárust um 5 milljörðum kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Öll þessi erindi og viðfangsefni fengu umfjöllun í fjvn. og nefndin tók afstöðu til þeirra allra. Sú afstaða gat hins vegar að sjálfsögðu ekki orðið fyrr en fjárlagafrv. hafði verið lagt fram á Alþingi og auðvitað bárust nefndinni fjölmörg erindi eftir að frv. hafði komið fram.
    Þótt frv. til fjárlaga hafi komið seinna fram en vani er hafði sú seinkun þannig ekki áhrif á þennan þátt í starfsemi fjvn., þ.e. þann þátt sem lýtur að viðtölum og viðtöku erinda. Hins vegar urðu að sjálfsögðu tafir

á því starfi nefndarinnar sem lýtur að meðferð sjálfs frv. Það verk gat ekki hafist fyrr en frv. sjálft var komið fram.
    Við þetta bættist svo eins og segir í nál. meiri hl. fjvn. að eftir að fjárlagafrv. kom fram tóku að berast fréttir af mjög alvarlegum samdráttaráhrifum í íslenskum þjóðarbúskap. Segja má að á örfáum vikum hafi allt efnahagsumhverfi Íslendinga gjörbreyst. Sú mikla þensla sem verið hafði um nokkurra missira skeið hafði vissulega skapað erfiðleika í efnahagslífi Íslendinga, en í þeim efnum eins og svo mörgum öðrum er það svo að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, eða með öðrum orðum að einhverjum sé það ekki til hags að þensla fremur en jafnvægi ríki í þjóðarbúskapnum.
    Ekki er nokkur vafi á því að þótt sú mikla þensla sem verið hefur á Íslandi hafi stórskaðað eðlilega uppbyggingu atvinnulífs og fyrirtækja og heimila í landinu en þó einkum haft skaðvænleg áhrif á hugarfar þjóðarinnar og afstöðu hennar bæði til efnislegra gæða og annarra gæða, naut ríkissjóður í þrengsta skilningi þess orðs góðs af þessari þenslu. Mikill innflutningur á hvers konar neysluvöru, nánast kaup- og fjárfestingaræði, skilaði sér í miklum tekjum til ríkissjóðs, einkum af veltusköttum en einnig í beinum sköttum, þó að enginn vafi sé á að tekjuáhrif góðærisins og þenslunnar hafi fyrst og fremst orðið jákvæð fyrir þá sem e.t.v. ráða því að mestu sjálfir hvaða skatta þeir kjósa að borga til ríkisins af aflafé sínu.
    Við þessar aðstæður hefði að sjálfsögðu verið vitlegast fyrir ríkisvaldið að reyna að hafa hemil á útgjöldunum, þannig að tekjurnar sem þensluástandið skapaði fyrir ríkissjóð á umliðnum missirum hefði fremur orðið til að treysta stöðu hans og vinna með jafnvægisástandi en ekki gegn því. Þetta var hins vegar ekki gert. Á gósenárum þenslu og góðæris var þannig haldið á málum, bæði ríkissjóðs og flestra annarra opinberra og hálfopinberra sjóða, að eytt var meiru en aflað var. Var því harla lítið eftir og raunar minna en ekki neitt til hinna mögru ára. Virðist að það sé stöðugt að sannast á okkur Íslendingum að aldrei sé erfiðara að stjórna okkur en þegar það ætti að vera auðveldast.
    Það er ástæðulaust að rekja þessa sögu frekar. Hún er öllum hér í fersku minni. Aðeins læt ég mér nægja að benda á að augljóst var orðið um og eftir miðjan nóvember að svo mikil umskipti hefðu orðið í þjóðarbúskap Íslendinga að allar forsendur frv. til fjárlaga sem ríkisstjórnin hafði lagt fram fáum vikum fyrr voru í rauninni brostnar. Þenslan hafði á örfáum vikum snúist í andhverfu sína, samdrátt, sem alls staðar kom fram og kemur enn af miklum þunga og þá ekki síst í hvers konar verslun og viðskiptum.
    Afleiðingarnar létu ekki bíða eftir sér. Megintekjustofnar ríkissjóðs, veltuskattarnir, nánast hrundu í einu vetfangi. Þar sem útgjöld ríkissjóðs eru að mestu leyti bundin, ekki síst þegar komið er fram að lokum árs, var lítið hægt að gera til þess að mæta þessum tekjubresti innan fjárlagaársins. Við þessar

breyttu forsendur bættust svo áframhaldandi neikvæð gengisáhrif fyrir útflutningsatvinnuvegina og ofan á þetta allt saman horfur á minnkandi fiskafla á árinu 1989 og ótti um að erfiðleikar færu í vöxt varðandi sölu á afurðum okkar erlendis. Allt varð þetta til þess, eins og áður segir, að upp úr mánaðamótum október--nóvember varð ljósara að forsendur frv. höfðu breyst í verulegum atriðum og óhjákvæmilegt var að frv. yrði tekið til gagngerrar skoðunar og breytingar, bæði hvað varðaði tekjuöflun og útgjaldaáform. Þegar ríkisstjórnin svo ákvað að takast á við þetta nauðsynlega en erfiða verkefni, að endurskoða fjárlagatillögugerð sína, var fjvn. langt komin með að afgreiða tillögur um stofnkostnað samkvæmt 4. gr. frv. og í þann veginn að hefja afgreiðslu á erindum er vörðuðu rekstrarliði þess.
    Eftir að sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar lá fyrir að hún mundi taka veigamikla þætti fjárlagafrv. til endurskoðunar var það að sjálfsögðu ljóst að á sama tíma og sú endurskoðun ætti sér stað væri í hæsta máta óeðlilegt að fjvn. stæði í frekari afgreiðslum. Hún hlyti að bíða eftir niðurstöðu ríkisstjórnarinnar.
    Forusta fjvn. ræddi þessi mál á fundum með ráðherrum og náðist samkomulag, bæði um stofnkostnaðarliði og afgreiðslur og síðar um aðgerðir varðandi lækkun útgjalda og afgreiðslu rekstrarliða sem síðar verða kynntar. En á meðan beðið var eftir þessum niðurstöðum var óhjákvæmilega gert hlé á fundum fjvn. Var það að sjálfsögðu mín ákvörðun sem formanns nefndarinnar að gera þetta hlé á störfum hennar, en ég tek fram að um þá ákvörðun hafði ég samráð í fjvn., bæði við fulltrúa meiri hl. og minni hl. og voru menn almennt sammála um að óhjákvæmilegt væri að standa svona að málum.
    Af þessu má sjá að fjvn. hefur haft óvenjulega lítinn tíma til starfa þar sem bæði var að frv. kom seint fram og hlé var gert á fundum nefndarinnar í miðjum klíðum afgreiðslunnar. Engu að síður hefur nefndin nú lokið tillögugerð sinni fyrir 2. umr., þannig að umræðan getur farið fram á svipuðum tíma og vani er eða aðeins örfáum dögum síðar.
    Mér er engin launung á því að þetta getur orðið fyrst og fremst af þremur ástæðum: Í fyrsta lagi hefur samstarfið innan nefndarinnar verið mjög gott. Fulltrúar minni hl. í nefndinni hafa greitt mjög fyrir því að afgreiðsla geti átt sér stað og unnið vel með okkur fulltrúum meiri hl. að þeirri afgreiðslu. Er það virðingarvert undir öllum kringumstæðum að geta átt slíku samstarfi að fagna við fulltrúa stjórnarandstöðu í fjvn. en ekki síst er það mikilvægt og þakkarvert að eiga slíka samvinnu í nefndinni þegar bæði er að tími til að skoða mál er miklu skemmri en eðlilegt getur talist og eins að svigrúm nefndarinnar til efnislegrar afgreiðslu á málum er miklu þrengra en vanalega.
    Vil ég nota þetta tækifæri til að færa félögum mínum í nefndinni þakkir fyrir samstarfið og ég veit að ég mæli fyrir munn okkar meirihlutamanna allra er ég þakka fulltrúum minni hl. sérstaklega fyrir þeirra hlut að þessu máli.
    Auðvitað þýðir þetta ekki að fulltrúar

stjórnarandstöðunnar í fjvn. séu sáttir við þær tillögur sem við gerum sameiginlega. Fram hefur komið hjá þeim að þeir eru mjög ósáttir við sumar afgreiðslur og hafa mótmælt þeim harðlega eins og mun án efa koma fram bæði í ræðum þeirra hér á eftir og í nál. minni hl. í fjvn. Engu að síður hafa þeir greitt fyrir afgreiðslunni, standa með okkur að því að þessi umræða geti farið fram og flytja með okkur í nafni fjvn. þær tillögur sem hér eru til afgreiðslu, en auðvitað með fyrirvara um að þeir hafi fullt leyfi til að flytja þær brtt. sem þeir kjósa og styðja hvaða brtt. sem fram kunna að koma frá öðrum.
    Hvað okkur fulltrúa meiri hl. í nefndinni varðar eru það auðvitað fyrst og fremst við sem berum efnislega ábyrgð á þeim tillögum sem hér eru kynntar. Í mörgum tilvikum hafa einstakir nefndarmenn meiri hl. ekki verið sáttir við sumar af þeim afgreiðslum sem við höfum orðið að gera, en á þeim stutta tíma sem við höfum haft og í þeirri þröngu stöðu sem við höfum búið við hefur tekist að miðla málum og er það önnur ástæða fyrir því að þetta verk hefur svo greiðlega gengið þrátt fyrir knappan tíma og lítið olnbogarými. Þriðja ástæðan er svo sú hve vel og dyggilega það starfsfólk hefur unnið sem aðstoðað hefur nefndina í störfum hennar. Á sl. ári var tekin upp sú nýbreytni í starfi fjvn. að óska eftir aðstoð og samvinnu við Ríkisendurskoðun en Ríkisendurskoðun hafði þá verið færð frá framkvæmdarvaldi til löggjafarvalds. Jafnframt hafði
nefndin óskað eftir óbreyttu, nánu og góðu samstarfi við Fjárlaga- og hagsýslustofnun, en það samstarf hefur verið, er og verður nefndinni ómetanlegt. Sú aðstoð sem fjvn. fékk í fyrra frá Ríkisendurskoðun var því alfarið til þess að bæta starfsaðstöðu nefndarinnar og einstakra nefndarmanna án þess að menn þyrftu að láta í staðinn nokkuð af því sem nefndin hafði áður notið í samstarfi við stofnanir framkvæmdarvaldsins.
    Reynslan af þessum starfsháttum frá því í fyrra er tvímælalaust góð. Þess vegna var ákveðið á þessu ári að útfæra þetta samstarf enn frekar og hefur það verið gert. Starfsfólk Ríkisendurskoðunar og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar hefur því aðstoðað fjvn. og unnið fyrir hana við þessa fjárlagagerð og enginn vafi er á því að ef þetta ágæta fólk hefði ekki lagt nótt við dag í vinnu fyrir nefndina og í það að aðstoða einstaka nefndarmenn og þá ekki síst formann fjvn. hefði sú afgreiðsla ekki getað orðið sem hér er stefnt að. Vil ég fyrir hönd nefndarinnar þakka vararíkisendurskoðanda, Sigurði Þórðarsyni, hagsýslustjóra, Indriða Þorlákssyni, ritara fjvn., Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, og öðru því starfsfólki Ríkisendurskoðunar og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar sem unnið hefur með okkur fyrir þeirra ómetanlegu störf. Samstarfið við Ríkisendurskoðun annars vegar og Fjárlaga- og hagsýslustofnun hins vegar leggur grundvöllinn að stórbættum starfsaðstæðum fjvn. Með þessum hætti öðlast nefndin og nefndarmenn aðstöðu til að leggja sjálfstætt og eigið mat á einstök erindi og viðfangsefni og síðast en ekki síst getur fjvn. Alþingis með því að nýta sér á réttan hátt samstarfið við báðar

þessar stofnanir, annars vegar Fjárlaga- og hagsýslustofnun sem undirbýr fjárlagagerð og fylgist með framkvæmd fjárlaga af hálfu framkvæmdarvaldsins, og hins vegar við Ríkisendurskoðun sem einnig fylgist með framkvæmd fjárlaga og er umsagnar- og eftirlitsaðili með ríkinu og stofnunum þess, sinnt því mikilvæga verkefni sem ýmsir telja að löggjafarstofnunin hafi vanrækt, en það er að fylgjast sjálf með því hvernig virtar eru þær ákvarðanir sem Alþingi tekur við fjárlagagerð og hvort og að hvað miklu leyti séu raunhæfar þær hugmyndir og tillögur um afgreiðslur sem berast löggjafarstofnuninni frá framkvæmdarvaldinu.
    Fjvn. Alþingis er annað og meira en samkoma þar sem fulltrúar kjördæma og sjónarmiða togast á um útgjöld ríkissjóðs. Fjvn. er sá aðili sem á fyrir hönd Alþingis að fylgjast með því að ákvarðanir þingsins séu virtar og að leggja fyrir Alþingi tillögur sem ekki eru aðeins bundnar við eitthvert tiltekið viðfangsefni og afgreiðslu þess á einn eða annan veg, heldur tengja hin ólíku og mörgu viðfangsefni saman með heildstæðri stefnumótun þannig að horft sé til beggja átta, bæði útgjaldaþarfa, annars vegar, og eins til tekjumöguleika ríkissjóðs og stofnana ríkisins hins vegar. Er löngu orðin ástæða til að með sama hætti og sérhver ríkisstjórn verður eða a.m.k. ætti að miða sínar útgjaldaáætlanir við þau tekjuöflunaráform sem hún hefur uppi sinni einn og sami aðili þessu verki af hálfu Alþingis í stað þess, eins og nú er, að ein nefnd þingsins fjalli um útgjöld fjárlaga en önnur um tekjuhlið þeirra. Það þætti að minnsta kosti ekki góð latína í neinni ríkisstjórn að einn ráðherra héti útgjaldamálaráðherra og annar tekjumálaráðherra og hvor ráðherrann um sig mótaði tillögur sínar óháð áformum hins.
    Vissulega er rík ástæða til þess að fara nokkrum orðum um þær breytingar sem orðið hafa á efnahagsumhverfi okkar Íslendinga frá því að frv. til fjárlaga var lagt fram fyrir örfáum vikum síðan. Sú umræða hefur farið fram hér á Alþingi og á eftir að fara fram og ég ætla mér ekki að bæta mörgum orðum í þann belg. Hitt er þó ljóst að áhrifa tekjusamdráttar ríkissjóðs á þessu ári mun gæta áfram á því næsta þannig að allar horfur eru á því að þeir tekjustofnar sem menn lögðu upp með í fjárlagafrv. hvað varðar tekjuspá fyrir ríkissjóð fyrir árið 1989 muni á því ári gefa a.m.k. tveimur milljörðum kr. minna í fastar tekjur og þá á föstu verðlagi en gert var ráð fyrir í frv. Þó ekkert annað kæmi til en þetta eitt er ljóst að markmið frv. um verulegan tekjuafgang næðist ekki að öllu óbreyttu, en þarna er ekki ein báran stök. Til viðbótar við þennan tekjubrest koma svo áhrifin vegna versnandi stöðu útflutningsatvinnuveganna og minnkandi fiskafla. Við þetta bætist síðan mikill hallarekstur ríkissjóðs á yfirstandandi ári sem sagt er að stefni nú í meira en 6,5 milljarða. Sá halli verður ekki jafnaður með öðrum hætti en lántöku sem hætt er við að auki enn á þann vanda sem við er að fást í efnahagslífi þjóðarinnar.

    En það er ekki aðeins ástæða til að hafa áhyggjur af þessum þáttum, tekjubresti hjá ríkissjóði og áhrifum af versnandi afkomu atvinnuvega og ef til vill lakari markaðsstöðu. Ef engin breyting verður á í útgjaldaþenslu ríkisins eru einnig þar alvarleg teikn á lofti. Það hefur gerst í æ ríkara mæli að ríkið og stofnanir þess hafa gengið á vald sjálfvirkrar útgjaldasprengingar sem er að verða innbyggð í ríkiskerfið. Í æ ríkara mæli hafa menn komist upp með það, bæði stjórnendur einstakra ríkisstofnana og jafnvel einstöku ráðuneyti, að virða að vettugi ákvarðanir fjárveitingarvaldsins og gerast sjálftökuaðilar um útgjaldaáform eigin stofnana og verksviða. Er löngu kominn tími til þess að á þessu vandamáli
verði tekið og er ekki gott til þess að vita ef það á að verða starfsregla að ríkið verðlauni þá sem líta svo á að þeirra eigin hugmyndir um útgjaldaþarfir viðfangsefna og embætta séu rétthærri ákvörðunum fjárveitingarvaldsins. Eitt Alþingi er okkur Íslendingum nóg. Það er ástæðulaust að ýta undir það að sérhver stjórnandi í ríkiskerfinu gerist sitt eigið Alþingi þegar kemur að því að taka eigi ákvarðanir um rekstrarumfang og útgjaldakröfur á sameiginlegan sjóð skattborgara í landinu.
    Á tímum uppsveiflu á ríkisvaldið vissulega erfiðara með að ná tökum á sjálfvirkri útgjaldaþenslu, bæði vegna áhrifa frá launaskriði á hinum almenna markaði og eins af öðrum ástæðum. Nú, þegar samdráttar gætir verulega, gefst hins vegar meira tækifæri en áður til þess fyrir ríkisvaldið að rifa seglin, en þá fyrst og fremst til þess að ná fastri stjórn á útgjaldamálum ríkisins og ríkisstofnana. Þetta tækifæri má ekki láta ónotað. Allar ákvarðanir Alþingis og ríkisstjórnar um sparnað í ríkisrekstri ráðast af því að eftirlitskerfi ríkisins sé virkt. Svo hefur ekki verið lengi. Alkunna er að launakostnaður ríkisins vex langt umfram heimildir og ráðið er í störf hjá ríkinu svo hundruðum skiptir án þess að leitað hafi verið formlegra heimilda. Ekki dreg ég úr þörfinni fyrir þetta fólk. Það sem ég spyr hins vegar um er getan til að greiða því laun. Hún er takmörkuð og takmarkaðri nú en oft áður. Fyrir 3. umr. verður lýst tillögum ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar um lækkun útgjalda, m.a. launaútgjalda.
    Forsenda fyrir því að slíkt nái árangri og verði annað og meira en orðin tóm er að fagráðuneytin og forstöðumenn ríkisstofnana geri sér ljósa ábyrgð sína. Fagráðuneytin eiga að vera annað og meira en bara bréfhirðingarstöðvar til að koma áleiðis kröfum undirstofnana um hærri fjárveitingar. Fagráðuneytin eiga að vera annað og meira en fulltrúar kröfuhópa gagnvart fjárveitingarvaldinu og hinir svokölluðu fagráðherrar eiga einnig að hafa öðru hlutverki að gegna en að sjá um að skaffa fyrir ráðuneyti sín. Bæði þeir og þeirra ráðuneyti eiga að vera stjórnendur og sjá um í umboði fjárveitingarvaldsins að þær ákvarðanir sem það tekur séu virtar. Verði það ekki gert er um tómt mál að tala að ætla sér að draga saman seglin eða lækka útgjöld. Fjmrn. einu verður

ekki um það kennt ef slíkt gengur ekki eftir. Nú verður að nota tækifærið til þess að virkja fagráðuneyti og forstöðumenn ríkisstofnana þannig að vilji ríkisstjórnar og Alþingis í þessum efnum nái fram að ganga.
    Margir forstöðumenn ríkisstofnana segja að auka beri sjálfstæði þessara stofnana og sjálfsstjórn í eigin málum. En jafnframt því verður að gera kröfu til þess að stofnanirnar og stjórnendur þeirra virði þær ákvarðanir sem réttir aðilar taka. Sé slíkt ekki gert ber stjórnendunum að taka afleiðingum af því og víkja.
    Ég sagði hér áðan að ekki væri allt svo með öllu illt að ekki boðaði nokkuð gott. Mjög mikið hefur nú slegið á þensluna á Íslandi og kannski svo mikið að okkur beri að hafa áhyggjur af því og að mikill samdráttur sé fram undan. Hóf er best í hverjum hlut og ekki er það betra að slá svo yfir markið að í stað þenslunnar sveiflist menn yfir í atvinnuleysi með öllum þeim vanda sem því fylgir. En jafnvel við þær aðstæður sem nú eru, sem menn kenna fremur við samdrátt en jafnvægi og haft hafa slæm áhrif á afkomu ríkissjóðs, sjá menn ljósa punkta. Í slíku árferði ætti t.d. að vera mun auðveldara en ella að takast á við sjálfvirka útgjaldaþenslu ríkisins og þau vandamál sem henni valda.
    Ég er einn af þeim sem vissulega hefði viljað sjá meiri árangur í lækkun ríkisútgjalda en samkomulag hefur orðið um, en ég geri mér hins vegar fyllilega ljóst að þar er auðveldara um að tala en í að komast, ekki síst ef menn ætla að ná umtalsverðum árangri á skömmum tíma. Það sem skiptir mestu máli í áformum ríkisstjórnarinnar um lækkun útgjalda er lækkun launakostnaðar, og ég ítreka að vissulega er hægt að ná áformum ríkisstjórnarinnar í þeim efnum, en þá því aðeins að komið sé á fót virku eftirlitskerfi, annars vegar í fjmrn., hjá launadeild og hjá ríkisféhirði, og hins vegar hjá þeim fagráðuneytum sem ber að fylgja eftir ákvörðunum sem teknar verða, m.a. með því að bregðast við í tíma ef stefnt er að auknu rekstrar- og launakostnaðarumfangi hjá einstökum stofnunum sem undir þessi ráðuneyti heyra. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt, eins og gerst hefur, að á einu ári aukist launaumfang hjá ríkinu og stofnunum þess um sem svarar því að á fimmta hundrað manns hafi bæst á launaskrá hjá ríkinu umfram heimildir. En mér er líka ljóst og vonandi öllum hér að umtalsverður árangur til lækkunar útgjalda verður ekki, nema ákvarðanir verði teknar um breytingar annaðhvort í þá átt að draga úr þjónustu ríkisins eða í þá átt að láta þá greiða fyrir þjónustuna sem hennar njóta.
    Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan ,,kerfið`` sem við búum við var smíðað. Þegar það var smíðað voru aðstæður fólks á Íslandi allt aðrar en þær eru í dag. Þá var fátæktin mörgum föst fylgikona, en nú má segja að landsmenn séu orðnir ríkir og miðað við neyslu og fjárfestingaræði undanfarinna ára er
jafnvel hægt að segja sem svo að margir hverjir séu orðnir of ríkir. Er þá ósköp eðlilegt að hugað sé að því hvort ekki megi gera kröfur um að þeir

þjóðfélagsþegnar sem flytja á einu ári inn 18.000 bifreiðar greiði eitthvað af kostnaði þeim sem af því hlýst að njóta stöðugt meiri þjónustu hins opinbera á öllum sviðum.
    Við erum hér að byggja upp mikið og voldugt skólakerfi og menn tala nú um á annan tug stofnana sem bjóða kennslu á háskólastigi. Eðlilegt er að spurt sé hvort allar þessar stofnanir eigi að bjóða kennslumagn sem samsvarar stundaskrá í gagnfræðaskóla eða hvort ekki sé eðlilegt að þær miði kennslu sína við kennsluframboð stofnana á því stigi sem þær segjast sjálfar vera, þ.e. á stigi háskóla og geri þær kröfur sem gerðar eru í háskólum, að lögð sé áhersla á sjálfsnám þroskaðra nemenda.
    Í öðru lagi er einnig eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé orðið tímabært, m.a. vegna lengingar skólaársins, að gera þær kröfur að ungt fólk á Íslandi ljúki framhaldsnámi á svipuðum aldri eins og meðal grannþjóða vorra, en ekki einu eða tveimur árum síðar. Þá er einnig orðið löngu tímabært að spurt sé hvort miklar framfarir í samgöngum á landi, sem m.a. hafa búið til eitt atvinnusvæði úr mörgum, eigi ekki að hafa áhrif í því skyni að gerðar séu kröfur um aukna samnýtingu á opinberum mannvirkjum, svo sem eins og höfnum, skólum og sjúkrahúsum í stað þess að byggja eitt af hverri tegund á hverjum stað.
    Þetta eru aðeins nokkrar af þeim spurningum sem menn verða að horfast í augu við ef menn á annað borð ætla sér að ná einhverjum árangri í lækkun útgjalda hjá því opinbera. Séu menn ekki reiðubúnir til þess að láta skynsemina ráða við slíkar aðstæður eru menn heldur ekki reiðubúnir til þess að gera það sem nauðsynlegt er að gera til þess að sparnaðartalið hafi einhverja merkingu.
    Herra forseti. Það er kominn tími til að ég snúi máli mínu að tillögum fjvn. og láti annað bíða og dæmast af dómi reynslunnar. Eins og ég sagði áðan bárust nefndinni erindi frá alls 488 aðilum. Mörg erindanna voru með mörgum viðfangsefnum, þannig að viðfangsefni þau sem komu á borð nefndarinnar, fyrir utan þau sem eru í fjárlagafrv., voru milli 850 og 1000. Nefndin skoðaði öll þessi erindi og tók afstöðu til þeirra allra. Niðurstaðan varð sú að af þeim hlutu 131 jákvæða afgreiðslu með einhverjum hætti. Alls námu umsóknir til fjvn. 5 milljörðum kr. og verði tillögur fjvn. um afgreiðslur lagðar saman kemur í ljós að nú við 2. umr. fjárlagafrv. leggur nefndin til útgjaldaaukningu upp á samtals 514 millj. 837 þús. kr. Til samanburðar má geta þess að þetta er aðeins u.þ.b. helmingurinn af þeirri fjárhæð sem fjvn. lagði til fyrir 2. umr. fyrir réttu einu ári síðan.
    Ef menn skoða hvernig þessi fjárhæð er saman sett, þá eru um 60 millj. af þessum hækkunum vegna tillagna um hækkun launagjalda, en sú hækkun nemur um 0,3% af heildarlaunaútgjöldum ríkissjóðs. Vegna annarra rekstrargjalda eru 83 millj. kr., en það nemur um 0,2% af rekstrargjöldum ríkissjóðs samkvæmt frv. Samtals rekstrar- og tilfærsluútgjöld samkvæmt tillögum nefndarinnar eru þannig um 150 millj. kr. eða aðeins 0,2% af samanlögðum rekstrar- og

tilfærslugjöldum samkvæmt frv. Af þessu má sjá að tillögur fjvn. um breytingar á rekstrarútgjöldum frv. og launaútgjöldum eru mjög óverulegar.
    Tillögur er varða stofnkostnað og viðhald nema hins vegar um 365 millj. eða 3,6% af heildarútgjöldum þessara liða í fjárlagafrv. en hækkunin alls á útgjöldum samkvæmt tillögum nefndarinnar, þ.e. 515 millj. verði allar tillögur hennar samþykktar, mundi hækka útgjaldahlið frv. um 0,7%. Er það innan við fjórðungur af því sem fjárlagafrv. hefur venjulega breyst í meðförum Alþingis.
    Ef menn skipta tillögum fjvn. upp eftir hagrænu eðli eru um 11,7% tillagnanna vegna launakostnaðar sem samsvarar 32 stöðugildum, en það er sú aukning á launaumfangi sem stendur á bak við tillögur fjvn. Annar rekstur er um 17,3% í tillögum nefndarinnar og stofn- og viðhaldskostnaður 71%. Í sérstakri yfirlitstöflu er einnig greint hvernig tillögurnar flokkast niður á hin einstöku ráðuneyti og læt ég mér nægja að vísa í þá töflu sem fylgir í nál. meiri hl. fjvn. til skýringar.
    Hvað varðar almenna frásögn um tillögur þessar vil ég aðeins geta þess að mjög verulegur hluti af tillögum nefndarinnar um hækkanir á launakostnaði og rekstrarútgjöldum flokkast undir leiðréttingar. Er þar ýmist um að ræða viðfangsefni sem ekki voru á því stigi þegar frv. var samið að menn væru reiðubúnir til þess að gera tillögur um hvernig við þeim yrði brugðist. Má þar t.d. nefna stofnanir sem fluttar hafa verið af daggjöldum og yfir á föst fjárlög á vegum heilbrmrn. Nokkur atriði þeirrar tilfærslu voru óljós þegar frá frv. var gengið og frá þeim skýrt bæði í grg. með frv. og í viðræðum við fjvn. Þau mál hafa síðan verið leidd til lykta á þann hátt að leiðrétta hefur þurft bæði launa- og rekstrarliði í frv. og eru þær leiðréttingar hluti af tillögum fjvn. Einnig er hér um að ræða aðrar leiðréttingar, svo sem vegna ákvörðunar ríkisstjórnar og annarra ákvarðana eins og ákvarðana Alþingis sjálfs um að leggja niður Bifreiðaeftirlit ríkisins um næstkomandi áramót sem
óhjákvæmilega leiðir til þess að eitthvað af starfsfólki Bifreiðaeftirlitsins á rétt á biðlaunum sem gera verður ráð fyrir í fjárlögum þó ekki hafi unnist tími til þess að ganga frá þeim málum áður en frv. var lagt fram.
    Án þess að það hafi verið athugað nákvæmlega býst ég þannig við því að bróðurparturinn af tillögum fjvn. um hækkun á launagjöldum og rekstrargjöldum stafi af leiðréttingum en ekki af tillögum nefndarinnar um aukið rekstrarumfang. Sama á við um ýmsa aðra þætti eins og t.d. tillögur um hækkaðar fjárhæðir vegna viðfangsefna sem undir landbrn. heyra og fjvn. flytur að fenginni tillögu ríkisstjórnarinnar. Er þar um að ræða mál sem ríkisstjórnin hefur ákvarðað. Torvelt getur reynst að flokka tillögurnar þannig eftir því hvað eru beiðnir um aukin rekstrarumsvif, launaútgjöld eða framkvæmdir vegna ákvarðana nefndarinnar sjálfrar og hvað er vegna leiðréttinga eða tilmæla stjórnvalda, og læt ég mér því nægja að segja að bæði stjórnvöld og fjvn. eiga hlut að ákvörðunum um þann tillöguflutning.

    Vil ég nú víkja að einstökum þáttum þessara tillagna.
    Fyrsta tillagan á þskj. 235 varðar Alþingi. Ekki er að þessu sinni gerð nein breyting á áætluðum launakostnaði og vil ég til upplýsingar taka fram að laun alþingismanna hafa á árinu 1988, frá upphafi til loka ársins, aðeins hækkað um 6,7%. Til samanburðar er áhugavert að nefna að á sama tíma hafa ýmis önnur launaútgjöld ríkisins til einstakra starfsstétta hækkað um allt að 70%. Ég held að rétt sé að taka þetta fram vegna þeirra umræðna sem alltaf eru af og til í þjóðfélaginu um það að alþingismenn gangi fram fyrir skjöldu til þess að hækka laun sín umfram aðrar stéttir.
    Stafliðir a, b og c lúta hins vegar að þátttöku Alþingis í alþjóðlegu og fjölþjóðlegu starfi og er tillaga fjárveitinganefndar um hækkun fjárveitinga miðuð við yfirlit Alþingis um kostnað við lágmarksþátttöku í þessu starfi.
    Viðfangsefnið 520 Fasteignir hækkar um 1165 þús. kr. vegna aukins viðhalds og viðfangsefnið Hús Jóns Sigurðssonar hækkar um 2 millj. 730 þús. og er sú hækkun óhjákvæmileg vegna þess að viðgerð sú sem nú stendur yfir á húsinu mun verða talsvert viðameiri og kostnaðarsamari en ráð var fyrir gert. Þá hækkar liðurinn 690 Ýmis stofnkostnaður um 6 millj. og er það vegna breytinga á Þórshamri og Austurstræti 14 sem unnið hefur verið að.
    Önnur tillagan varðar Ríkisendurskoðun. Launagjöld hennar hækka um 4,5 millj. kr. vegna leiðréttinga. Gert er ráð fyrir að föst stöðugildi hjá Ríkisendurskoðun verði 38. Þessi breyting hefur ekki í för með sér neinn útgjaldaauka þar sem starfsliði stofnunarinnar verður ekki fjölgað, heldur aðeins heimilað að fastráða fólk sem til þessa hefur verið verkefnaráðið.
    Þriðja tillagan varðar Gjöf Jóns Sigurðssonar. Lagt er til að fjárveiting verði hækkuð um 314 þús. kr. og verður hún þá ígildi prófessorslauna eins og vera á.
    Fjórða tillaga varðar Háskóla Íslands. Í stafliðum a og b er lagt til að stöðuheimildum verði fjölgað um tvær, um stöðu dósents í lyfjafræði lyfsala og um stöðu lektors í hagfræðiskor viðskipta- og hagfræðideildar. Töluliður c varðar Háskólabókasafn. Viðfangsefni 120 Háskólabókasafn er lækkað samkvæmt tillögunni um 15 millj. kr., en í staðinn er lagt til að tekinn verði upp nýr liður, Bókakaup o.fl., með sömu fjárhæð. Þetta breytir engu um niðurstöðu en er talin eðlilegri ráðstöfun á tekjum af happdrættisfé en ráð var fyrir gert í frv. og meira í samræmi við viðhorf háskólayfirvalda. Loks hækkar viðfangsefnið 126 Stofnun Sigurðar Nordals um 500 þús. kr. og er það fé ætlað til viðhalds á húseign.
    Fimmta tillaga varðar Tilraunastöð Háskólans að Keldum. Þar er lagt til að sértekjur verði lækkaðar um 11,7 millj. kr. frá áformum í frv. Þessi tillaga um lækkun er þannig til komin að gert er ráð fyrir að fallið verði frá þeim áformum að Happdrætti Háskóla Íslands taki þátt í greiðslu stofnkostnaðar við Tilraunastöðina á Keldum og nemur lækkun sértekna

af þeim sökum 8,7 millj. kr. Verður sú fjárhæð flutt yfir á Raunvísindastofnun Háskólans þar sem talið er eðlilegra að auka hlutdeild Háskóla Íslands í stofnkostnaði þeirrar stofnunar og meira í samræmi við vilja háskólayfirvalda að tekjur af happdrættisfé verði notaðar til þeirra þarfa fremur en til greiðslu stofnkostnaðar við Tilraunastöð Háskólans á Keldum. Þar að auki er svo gert ráð fyrir að sértekjur vegna sölu bóluefnis séu lækkaðar um 3 millj. kr. og er það í samræmi við óskir Tilraunastöðvarinnar og eru ástæður lækkunarinnar þær að vegna mikillar fækkunar á sauðfé í landinu geta tekjur af sölu bóluefnis ekki orðið þær hinar sömu og áætlað var. Þá er gert ráð fyrir að launagjöld við Tilraunastöð Háskólans á Keldum hækki um 2 millj. kr. og er það alfarið vegna leiðréttingar á launalið.
    Tillaga 6 varðar Raunvísindastofnun Háskólans og hefur þegar verið gerð grein fyrir ástæðum þeirrar breytingar í orðum mínum hér að framan.
    Sjöunda tillagan varðar Stofnun Árna Magnússonar. Sértekjur lækka þar um 1 millj. kr. sem flyst yfir á Raunvísindastofnun Háskólans með sömu rökum og greint var frá hér áðan er varðar Tilraunastöð Háskólans á Keldum og tilfærslu á fjármagni með happdrættisfé. Auk þess er lagt til hvað varðar Stofnun Árna
Magnússonar að launagjöld verði hækkuð um 600 þús. kr. Er það vegna verkefnaráðningar þjóðfræðings í hálft ár í tiltekið viðfangsefni.
    Áttunda tillagan varðar Háskólann á Akureyri. Þar er gerð tillaga um að launagjöld hækki um 600 þús. kr. og er til þess ætlast að ráðinn verði starfsmaður til skólans í hálft ár til undirbúnings kennslu í sjávarútvegsfræðum.
    Níunda tillagan varðar Menntaskólann í Reykjavík og er um það að ræða að fjárveiting til skólans vegna viðhalds verði hækkuð um 5 millj. kr.
    Tíunda tillagan varðar Menntaskólann við Hamrahlíð. Við gerð fjárlagafrv. féll niður að gera ráð fyrir því að greiða þyrfti launakostnað vegna kennslu í sænsku og norsku í skólanum. Samkvæmt námsskrá eiga nemendur skólans að geta valið annaðhvort sænsku eða norsku í stað dönsku, en hins vegar gleymdist að gera ráð fyrir því þegar fjárlagafrv. var lagt fram að greiða þann kennslukostnað. Launagjöld þurfa því að hækka af þessum ástæðum um 2 millj. kr. Enn fremur er gerð tillaga um hækkun um 4 millj. kr. á liðnum Endurbætur og er til þess ætlast að það fé verði notað til viðhalds og þó einkum til endurbóta á aðstöðu fyrir fatlað skólafólk.
    Tillaga 11 varðar framhaldsskóla almennt. Er þar lagt til að hækkaðar verði fjárveitingar um 1 millj. kr. og verði sú fjárhæð notuð til að kosta endurmenntunarnámskeið fyrir stærðfræðikennara, en fram hefur komið að nauðsynlegt þykir að bæta stærðfræðikennslu í framhaldsskólum þar sem íslenskir framhaldsskólanemendur eru ekki taldir standa jafnfætis jafnöldrum sínum í nálægum löndum hvað varðar þekkingu í stærðfræði.
    12. brtt. varðar Kennaraháskóla Íslands og er þar

lagt til að launagjöld verði hækkuð um 500 þús. kr. vegna endurmenntunar kennara vegna sérkennslu.
    13. tillagan varðar Íþróttakennaraskóla Íslands. Er þar lagt til að sértekjur lækki um 1 millj. kr. Er það vegna þess að leigutekjur af íþróttahúsi skólans eru minni en áformað var þegar húsið var byggt. Þá er einnig lagt til að tekinn verði upp nýr liður, Viðhald íþróttavalla o.fl., og verði til þessa verkefnis varið 1 millj. 500 þús. kr.
    14. tillaga varðar Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Þar er lagt til að varið verði 3 millj. kr. til lóðaframkvæmda við lóð við verknámshús skólans, en talið er að heildarfrágangur þeirrar lóðar kosti 6,2 millj. kr.
    Þá er Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi, en í þskj. 259 er í fyrstu brtt. á því þingskjali gert ráð fyrir að í fjárlögum verði nafni skólans breytt í hátt við það sem hann heitir, þ.e. Fjölbrautaskóli Vesturlands, Akranesi, en ekki Fjölbrautaskólinn á Akranesi eins og misritast hefur í fjárlögum yfirstandandi árs og ekki verið leiðrétt í fjárlagafrv.
    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988 var tekin sú ákvörðun að hefjast handa við byggingu mötuneytis fyrir skólann og er lagt til að 21 millj. verði varið til þessa viðfangsefnis á næsta ári.
    Í 16. brtt. er lagt til að fjárveiting til kennsluhúsnæðis Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum hækki um 1 millj. kr.
    Í 17. og 18. brtt. er lagt til að framlag til nýbyggingar Verkmenntaskólans á Akureyri verði lækkað um 2,5 millj. kr. en sú fjárhæð verði tekin inn við Framhaldsskólann á Húsavík til kaupa á tölvu og búnaði.
    19. brtt. varðar Tækniskóla Íslands. Á undanförnum árum hefur kennslukostnaður í þeim skóla vaxið mjög mikið vegna aukins kennsluumfangs og er langt umfram það sem nemur fjölgun nemenda við skólann. Er nauðsynlegt að taka launa- og kennslumál þessa skóla til endurskoðunar og endurskipulagningar og er að því stefnt af hálfu menntamálaráðuneytisins. Lagt er til að sérstakri fjárhæð, 3 millj. kr., verði varið til að greiða kostnað vegna endurskipulagningar á því skólastarfi og er tillaga gerð um að sú fjárhæð verði færð á launalið skólans til hækkunar.
    Þá er komið að Iðnskólanum í Reykjavík. Þar er lagt til að upp verði tekinn nýr liður, 501 Fasteignir, og verði veitt þangað fjárveitingu er nemi 4,5 millj. kr. og er sú fjárveiting ætluð til viðgerða á Iðnskólahúsinu og Vörðuskólahúsinu.
    Tillaga 21 varðar iðnnám almennt. Þar er lagt til að tekinn verði upp liðurinn stofnkostnaðarverkefni að fjárhæð 1,5 millj. kr. og er sú fjárhæð ætluð til að greiða kostnað við undirbúning verknámshúss vegna iðnnáms á Ísafirði, en hönnun á slíku húsi hefur staðið yfir.
    Brtt. 22 varðar annars vegar að lagt er til að viðhaldsfé vegna héraðsskóla verði lækkað um 1 millj. kr. en framlag til stofnkostnaðar jafnframt hækkað um 13 millj. kr. og verður tillaga fjárveitinganefndar um hvernig því stofnkostnaðarfé skuli skipt birt á sérstöku

þingskjali. --- Ég tek eftir því, frú forseti, að það þskj. hefur ekki enn komið fram og verður auðvitað séð til þess að það komi fram. Það má vel vera að það séu mistök, það hafi gleymst að ganga frá því þingskjali, en ég mun þá sjá til þess að það verði gert þegar ég hef lokið þessari ræðu. Það á auðvitað að koma fram í þingskjali fyrir hv. Alþingi hvernig fjvn. gerir tillögu um að skipta þessu fé. --- Ég vil helst nefna í því sambandi að fyrir utan greiðslur vegna
samningsbundinna verka í Reykholti er megináhersla lögð á viðgerðir og lagfæringar á skólahúsnæði Alþýðuskólans á Eiðum og var lagt til að til þess viðfangsefnis verði varið 8 millj. kr., en mjög mikil þörf er á því að gert verði verulegt átak varðandi viðhald þessa skólahúsnæðis.
    Brtt. 24 varðar byggingu grunnskóla og íbúða fyrir skólastjóra og er það stofnkostnaður. Lagt er til að framlag hækki um 85 millj. og 5 þús. kr. og er vísað í sérstakt yfirlit um sundurliðun á einstök verkefni, en það yfirlit fylgir brtt. á þskj. 235.
    Þá er næst tillaga varðandi skóla fyrir þroskaheft börn og er gerð tillaga um að viðfangsefnið 150 Sameiginleg þjónusta hækki um 5 millj. og fer meginhluti þess fjár til greiðslu aukins launakostnaðar við Öskjuhlíðarskóla. Á sú þörf rætur sínar að rekja til fjölgunar nemenda í skólanum með mikla fötlun, en sú fjölgun varð við upphaf kennslumissiris í haust.
    Tillaga 26 þarfnast ekki sérstakrar skýringar.
    Tillaga 27 varðar Þjóðminjasafn Íslands og er um leiðréttingu á launalið.
    Brtt. 28 varðar Listasafn Íslands og er um það að ræða að framlög til greiðslu stofnkostnaðar, tækja og búnaðar hækki um 2,7 millj. kr. og er það í samræmi við óskir byggingarnefndar.
    Tillaga 29 varðar nýtt viðfangsefni hjá Blindrabókasafni Íslands, Tölvuvæðingu útlánakerfis, og er gert ráð fyrir 400 þús. kr. fjárveitingu í því skyni.
    Brtt. 30 varðar Náttúruverndarráð og er í fjórum stafliðum. Fyrsti stafliður varðar eftirlit við Mývatn og Laxá og er gerð tillaga um að fjárveiting vegna greiðslu kostnaðar við það eftirlit hækki um 300 þús. kr. og þátttaka Skútustaðahrepps í greiðslu kostnaðar minnki að sama skapi. Þá er í 2. staflið gerð tillaga er varðar þjóðgarðinn í Skaftafelli. Er hún um að fjárveiting hækki um 500 þús. kr. og verði 1 millj. 800 þús. kr. Er þar um fjárveitingu að ræða vegna húsnæðis þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli. Ekki er í tillögunni tekin afstaða til þess hvort fénu skuli varið til greiðslu kostnaðar við endurbætur á gamla íbúðarhúsinu í Skaftafelli, en þar er mikið verk óunnið, eða því verði varið til nýbyggingar. Verður að skoða báða þá kosti. Þá er tekin inn í c-staflið ný tillaga um að 1 millj. kr. verði varið til hreinlætisaðstöðu við Gullfoss. Hér er um að ræða viðfangsefni sem fjárveitinganefnd hefur kannað sérstaklega í samráði við Náttúruverndarráð og Ferðamálaráð. Fjárveiting þessi er ætluð til hönnunar og undirbúnings á framkvæmdum og er til þess ætlast að haft sé samráð við fjárveitinganefnd um verkið, en

lögð er áhersla á að hér er fyrst og fremst um að ræða aðgerðir til þess að bæta hreinlætisaðstöðu við Gullfoss og til þess að vernda náttúru umhverfisins og ætlast fjárveitinganefnd til að haft sé samráð við hana um þá uppbyggingu. Þá er lagt til að sértekjur Náttúruverndarráðs verði lækkaðar um 1 millj. kr.
    Tillaga 31 varðar leiðréttingu á verðlagsforsendu sem nemur 920 þús. kr.
    Tillaga 32 varðar Listskreytingasjóð og þarfnast ekki skýringar.
    Tillaga 33 varðar liðinn Listir, framlög og er í fjórum stafliðum. Í 1. staflið er gert ráð fyrir að liðurinn Önnur leiklistarstarfsemi verði lækkaður um 3,5 millj. kr., skv. 2. staflið að styrkir til listasafna hækki um 1 millj. kr., í 3. staflið að liðurinn Lista- og menningarmál lækki um 2 millj. kr. og í 4. staflið að fjárveiting til Ferðaleikhússins verði hækkuð um 500 þús. kr. og verði 800 þús. kr.
    34. tillagan varðar norræna samvinnu. Í fyrsta lagi er lagt til að ferðamálasamtök Vestur-Norðurlanda hljóti 500 þús. kr. fjárveitingu og er fjárveitingin ætluð sem verkefnastyrkur vegna undirbúnings námskeiðs fyrir aðila af landsbyggðinni til þátttöku í kaupstefnum og til sameiginlegrar kynningar erlendis.
    Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir því að framlag til Menningarsjóðs Finnlands og Íslands verði hækkað um 2 millj. 580 þús. kr. Er það vegna skuldbindandi samnings um mótframlag Íslands en samkomulag þar um hefur þegar verið gert og undirritað milli ríkisstjórna Íslands og Finnlands.
    35. tillagan varðar Félagsheimilasjóð. Þar er gert ráð fyrir að tilfærslur hækki um 6 millj. kr. og er það til að gera sjóðnum fært að standa við skuldbindingar sem ákveðnar eru af stjórnvöldum og fjárveitinganefnd.
    Tillaga 36 varðar Íþróttasjóð. Þar er gert ráð fyrir hækkun á fjárveitingu um 6 millj. 209 þús. kr. Fjárveitingunni hefur verið skipt með hefðbundnum hætti.
    37. tillagan þarfnast engra sérstakra skýringa.
    Tillaga 38 er brtt. við liðinn 989 Ýmis íþróttamál. Fyrri stafliður tillögunnar er nýtt viðfangsefni en það er að 2 millj. kr. verði varið til sýningarkennslu og kynningar á íslensku þjóðaríþróttinni, glímunni, í skólum. Íslensku glímunni hefur lítill sómi verið sýndur af stjórnvöldum. Þrátt fyrir ákvæði um að hún skuli kennd sem þáttur í íþróttakennslu í skólum landsins hefur það ákvæði nánast verið orðin tóm því íþróttakennarar fá ákaflega takmarkaða tilsögn í þessari gömlu þjóðaríþrótt. Er nú ætlunin að bæta um
betur og hafa íslenskir glímumenn boðið fram aðstoð sína í þeim efnum. Þessi fjárveiting er ætluð til þess að greiða fyrir því viðfangsefni og auka á ný veg þessarar gömlu þjóðaríþróttar. B-stafliður tillögunnar varðar svo viðfangsefnið Ýmis framlög til íþróttamála. Þar hefur orðið prentvilla og ég fer þess á leit að hún fáist leiðrétt án þess að ég þurfi að flytja um það skriflega brtt. Á þskj. stendur að tillaga sé gerð um hækkun á þessum lið úr 2 millj. kr. í 3,5 millj. kr., en á að vera 4,5 millj. kr. Þessum lið verður skipt með

venjulegum hætti.
    Tillaga 40 varðar sex stafliði. Sá fyrsti er um fjárveitingu upp á 2 millj. kr. vegna fundar íþróttaráðherra Evrópu á Íslandi en sá fundur er fyrirhugaður á næsta ári. Stafliður b varðar Geysi í Haukadal. Gert er ráð fyrir hækkun fjárveitingar til gerðar göngustíga og lagfæringar á ferðamannaaðstöðu við Geysi um 500 þús. kr. þannig að til ráðstöfunar í það verkefni verði 1,5 millj. kr. verði tillagan samþykkt, en þessar lagfæringar eru þegar hafnar. Þá er í c-staflið gerð tillaga um fjárveitingu til þess að lagfæra stíga og girða við Dimmuborgir, en að því verkefni hefur verið unnið. Þá er í d-staflið lögð til 200 þús. kr. hækkun á fjárveitingu til Reykholtsstaðar, í e-staflið nokkur hækkun á rekstrarstyrk til Hlíðardalsskóla og í f-staflið að tekin verði upp að nýju fjárveiting til Útflutnings- og markaðsskólans og er lagt til að sú fjárveiting nemi 3 millj. kr.
    Tillaga 41 varðar skrifstofu ráðherranefndar Norðurlandaráðs. Um nk. áramót mun samstarfsráðherra Íslands í Norðurlandaráði taka við formennsku í ráðherranefnd Norðurlandaráðs og fylgir því jafnframt formennska í nefndum á vegum ráðsins. Þessu fylgir óhjákvæmilega einhver kostnaður sem að mati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar nemur 2,3 millj. kr. Tillaga er gerð um að fjárveiting til skrifstofu ráðherranefndar Norðurlandaráðs verði hækkuð um þessa fjárhæð og er hér að sjálfsögðu aðeins um að ræða fjárveitingu er gildir til eins árs eða á meðan samstarfsráðherra Íslands í Norðurlandaráði gegnir formennsku í ráðherranefndinni.
    Tillaga 42 varðar Búnaðarfélag Íslands. Sú tillaga er röng eins og hún er prentuð á þskj. 235 en rétt eins og hún er prentuð í þskj. 259 og er því tillaga 42 á þskj. 235 dregin til baka. Samkvæmt tillögu þeirri sem stendur eftir er gert ráð fyrir að tilfærslur hækki samtals um 13 millj. 618 þús. kr. og er það í samræmi við tillögur nefndar sem vinnur að endurskipulagningu á starfsemi Búnaðarfélagsins. Í grg. með fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að endurskoðun fari fram á starfsemi Búnaðarfélags Íslands. Með bréfi dags. 7. sept. 1988 skipaði hæstv. fyrrv. landbrh. nefnd til þessa verkefnis, þar með talið að gera tillögur um framtíðarskipan þessara mála. Þann 19. okt. sl. staðfesti hæstv. núv. landbrh. skipan nefndarinnar til framhaldsstarfa. Nefndin er að störfum. Hún hefur lagt áherslu á að lagfæra fjárhag Búnaðarfélags Íslands í fjárlagafrv. 1989. Nefndin mun starfa áfram og gera ráð fyrir að leggja fram ákveðnar tillögur varðandi framtíðarskipan verkefna og tekjustofna Búnaðarfélags Íslands sem liggi fyrir við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1990. Ljóst er að nefndin mun leggja til m.a. að Hagstofnun landbúnaðarins, þar með talin yfirstjórn búreikninga, verði flutt til búvísindadeildar við Bændaskólann á Hvanneyri. Er nauðsynlegt að undirbúningur þessa geti hafist sem fyrst.
    Tillaga 43 varðar Rannsóknastofnun landbúnaðarins og er um að sérstök fjárveiting að upphæð 3 millj. kr. verði veitt til tilraunafjóss að Stóra-Ármóti og er

áformað að þar sé um lokagreiðslu að ræða.
    Tillaga 44 varðar Skógrækt ríkisins. Þar er gerð tillaga um að viðfangsefnið 101 Almennur rekstur lækki um 15,3 millj. kr. en á móti komi nýtt viðfangsefni 185 Rannsóknastofnun, ekki rannsóknastofur eins og misritast hefur, 15,3 millj. kr. Þar mun vera um tilfærslur að ræða innan stofnunarinnar en ekki tillögur um hækkaðar fjárveitingar.
    Þá kemur tillaga 45, Landgræðsla ríkisins. Þar er lagt til að viðfangsefnið Almenn landgræðsla hækki um 5 millj. kr. og er sú fjárhæð ætluð til landgræðslustarfa og uppgræðslu á Mývatnsöræfum í samræmi við samþykktir ríkisstjórnarinnar. Þá er tekinn inn nýr liður, Fræverkunarstöð, og lagt til að til þess verkefnis verði veitt 2,5 millj. kr., en það verkefni var á fjárlögum 1988.
    Tillaga 46 varðar sauðfjárveikivarnir. Er þar lagt til að fjárveiting vegna viðfangsefnisins verði hækkuð um 15 millj. kr. og verður þá 351 millj. 175 þús. kr. Er þessi afgreiðsla í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar, en útgjöld til viðfangsefnisins hafa á hennar vegum verið umreiknuð í samræmi við breyttar forsendur.
    Tillaga 47 varðar Veiðimálastofnunina, Laxeldisstöðina í Kollafirði. Er lagt til að framlag til þess viðfangsefnis verði hækkað um 6,6 millj. kr. og á sú hækkun rót sína að rekja til greiðslu vaxta og afborgana af lánum sem tekin hafa verið og gjaldfalla á næsta ári.
    Tillaga 48 varðar embætti yfirdýralæknis. Þar er lagt til að nýr liður verði tekinn inn undir nafninu Menntun í fisksjúkdómum og að 2 millj. kr.
verði veittar til þess verkefnis.
    Þá er næst tillaga 49 er varðar landgræðslu- og landverndaráætlun. Þar er lagt til að fjárveiting verði hækkuð í heild um 23,6 millj. kr. Af þeirri fjárhæð er gert ráð fyrir að 16,5 millj. kr. verði varið til styrktar vegna fyrirhleðslna og til varnar landbroti og mun því verða skipt í samræmi við tillögu Landgræðslu eins og vanalega. Standa þá eftir 7,1 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að skiptist á milli Skógræktar, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslunnar. Er þetta í samræmi við afgreiðslur og samþykktir ríkisstjórnarinnar.
    Tillaga 50 varðar Bændaskólann á Hvanneyri. Þar er lögð til hækkun fjárveitinga vegna reksturs skólans um 600 þús. kr. og er framlagið tilkomið vegna réttar kennara til að taka leyfi frá kennslu, en fyrir þeim rétti verður að sjálfsögðu að sjá í fjárlögum.
    Tillaga 51 varðar Bændaskólann á Hólum. Þar hefur enn orðið prentvilla, virðulegi forseti, í brtt. á þskj. 235, b-staflið 601 Fasteignir. Eins og frá þskj. er gengið er þar lagt til að þessi liður, sem er nýr, fái 1 millj. kr. en það á að vera 3 millj. kr. og er það ætlað til áframhaldandi framkvæmda við nýbyggingar skólahúsnæðis Bændaskólans á Hólum.
    Tillaga 52 varðar Garðyrkjuskóla ríkisins. Við staflið a er lagt til að framlag til almenns rekstrar hækki um 300 þús. kr. og er sú fjárveiting sérstaklega

hugsuð vegna afmælis skólans sem verður á næsta ári og til ráðstöfunar fyrir stjórnendur skólans í sambandi við afmælið. Í b-staflið er lagt til að sértekjur verði lækkaðar um 1 millj. kr. og er það afleiðing þess að dregið hefur úr söluhagnaði vegna minnkandi sölu á framleiðsluvörum skólans sem aftur er afleiðing af verðhækkun.
    53. tillagan varðar Fiskifélag Íslands, en þar er lagt til að fjárveiting til viðfangsefnisins verði hækkuð um 2 millj. kr. Er til þess ætlast að sú fjárhæð sé notuð til að greiða kostnað við endurskipulagningu á starfsemi Fiskifélagsins, en ætlunin er að gera breytingar á starfsemi félagsins í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og hefur sjútvrh. ákveðið að það verk verði unnið.
    54. tillagan varðar liðinn sjóvinnukennslu, sjóvinnu og rannsóknir. Lagt er til að sá fjárlagaliður hækki um 2,4 millj. kr. og er þar um að ræða fjárveitingu til áframhaldandi útgerðar skólabátsins Mímis.
    Tillaga 55 varðar embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Þar er lagt til að launakostnaður embættisins verði hækkaður um 8 millj. 400 þús. kr. og er hækkunin þannig til komin að gert er ráð fyrir að fjölgað verði í löggæslunni um sjö stöðugildi: um þrjú stöðugildi til almennrar löggæslu, um þrjú vegna tilfærslu á störfum sem áður voru hjá embættinu og um eitt til forvarnarstarfs, samtals sjö stöðugildi.
    Mikil hækkun á hvers kyns yfirvinnu- og aukavinnukostnaði hefur verið vandamál hjá mörgum lögreglustjóraembættum víða um land og hefur yfirvinnan sums staðar keyrt úr hófi fram. Fyrirmæli hafa verið gefin um að dregið skuli úr þessari miklu yfir- og aukavinnu þannig að launaútgjöldin verði samræmd þeim ákvörðunum sem teknar eru af Alþingi við afgreiðslu fjárlaga. Nokkur misbrestur er á því að þetta hafi verið framkvæmt eins og fyrir hefur verið lagt. Lögreglustjóraembættið í Reykjavík hefur hins vegar gert sérstakt átak í þessum málum og skilað mjög verulegum árangri í þá átt að launaútgjöld embættisins séu í samræmi við það sem fjárveitingavaldið telur hæfilegt og hefur m.a. verið dregið talsvert úr yfirvinnu lögreglumanna í Reykjavík í þessu sambandi. Ýmsir örðugleikar fylgja í kjölfar þessa eins og oftast nær að draga úr launakostnaði með minnkun yfirvinnu. Til þess að gera megi kröfur um að hægt sé virða það launakostnaðarumfang, sem Alþingi ákvarðar við fjárlagagerð, er nauðsynlegt að jafnframt því sem dregið verði úr yfirvinnugreiðslum, þar sem hver unnin vinnustund er að sjálfsögðu miklum mun dýrari en ef um venjulega vakta- eða dagvinnu er að ræða, þá er nauðsynlegt að koma til móts við eðlilega mannaflaþörf embættisins og er það gert hér hvað varðar lögreglustjóraembættið í Reykjavík.
    Tillaga 56 varðar sýslumanns- og bæjarfógetaembættið á Akureyri og er lagt til að þar verði bætt við einni stöðu fulltrúa hjá embættinu.
    Tillaga 57 varðar embætti sýslumanns og bæjarfógeta á Húsavík. Þar er lagt til að fjárveiting til nýbyggingar verði hækkuð um 5,8 millj. kr., en það

er til greiðslu áfallinnar skuldar í tengslum við nýbyggingar skrifstofuhúsnæðisins á Húsavík.
    Tillaga 58 varðar embætti sýslumanns og bæjarfógeta í Keflavík. Þar er lagt til að fjárveiting til að innrétta lögreglustöð í Grindavík verði hækkuð um 3 millj. kr.
    Tillaga 59 varðar embætti sýslumanns og bæjarfógeta í Hafnarfirði. Vegna stóraukins umfangs þess embættis er lagt til að heimilað verði eitt stöðugildi endurskoðanda á aðalskrifstofu og hálft stöðugildi skrifstofumanns í Mosfellssveit. Er hér um tímabundnar verkefnaráðningar að ræða. Hækkun launakostnaðar hjá embættinu af þessum sökum yrði 1,5 millj. kr.
    Tillaga 60 varðar fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Þar er lagt til að veittar verði 4,5 millj. kr. til að ljúka endurbótum á húsnæði kvennafangelsis við Kópavogsbraut sem til stendur að taka í notkun á næsta ári og mun það leysa úr mjög brýnni þörf.
    Tillaga 61 varðar Landhelgisgæslu Íslands. Ráð er fyrir því gert í frumvarpinu að rekstur vitaskipsins Árvakurs flytjist til Landhelgisgæslunnar og hún taki við þeim verkefnum sem vitaskipið hefur annast. Fjárveitinganefnd gerir ekki tillögu um að horfið verði frá þeirri fyrirætlan. Forstjóri Landhelgisgæslunnar hefur hins vegar sent erindi til nefndarinnar þess efnis að þau skip gæslunnar sem nú eru í rekstri muni geta annast þau verkefni sem vitaskipið Árvakur sér um að því tilskildu að fjárveiting verði veitt til þess að kaupa krana á eitt varðskipanna og muni þá sá kostur verða valinn að halda varðskipinu Óðni áfram í rekstri í stað þess að leggja því eins og áætlað var. Mun Landhelgisgæslan þá á næsta ári geta haldið úti óbreyttum skiparekstri þrátt fyrir tilkomu hins nýja viðfangsefnis. Fjárveitinganefnd fyrir sitt leyti féllst á þessi tilmæli og gerir hér tillögu um að fjárveiting til Landhelgisgæslunnar verði hækkuð um 6 millj. kr. og verði þeirri fjárhæð varið til uppsetningar á kranabúnaði á eitt varðskipanna.
    Tillaga 62 varðar Bifreiðaeftirlit ríkisins. Eins og kunnugt er tók Alþingi þá ákvörðun að gerbreyta fyrirkomulagi bifreiðaskoðunar. Bifreiðaeftirlit ríkisins hættir starfsemi sinni um nk. áramót, en í staðinn tekur við því starfi Bifreiðaskoðun Íslands hf. Þeir starfsmenn, sem unnið hafa hjá Bifreiðaeftirlitinu og ekki geta treyst á framhaldsráðningu hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf,. eiga að sjálfsögðu rétt á biðlaunum. Fyrir því var ekki séð í fjárlagafrv. Þess vegna er gert ráð fyrir því að biðlaun af þessum sökum geti numið allt að 12 millj. kr. og er gerð tillaga um að við afgreiðslu fjárlaga sé gert ráð fyrir slíkri fjárveitingu. Sé ekki þörf á greiðslu biðlauna um svo langan tíma eða til jafnmargra og rétt gætu átt á því vegna ráðningar þeirra til starfa við sambærileg störf annars staðar, þá mun þessi fjárhæð að sjálfsögðu ekki öll verða nýtt. Auk þess er svo gert ráð fyrir 2 millj. kr. fjárveitingu vegna uppgjörs þegar starfsemi Bifreiðaeftirlits ríkisins verður lögð niður þannig að samtals er um að ræða tillögu um 14 millj. kr. fjárveitingu til þessa verkefnis.

    Tillaga 63 varðar embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og er þar lögð til 700 þús. kr. fjárveiting vegna innréttingar á orgelsal.
    64. tillaga varðar ýmis kirkjuleg málefni. Þar er í fyrsta lagi lagt til að liðurinn 190 Ýmislegt hækki um 2 millj. 314 þús. kr. og kemur hann til skipta hjá fjvn. síðar eins og vani er. Þá er tekinn upp liðurinn Viðhald húseignar á Löngumýri, sem var í fjárlögum yfirstandandi árs en féll út úr fjárlagafrv., og er lagt til að varið verði 500 þús. kr. til viðhalds húseignarinnar. Í þriðja lagi er lagt til að fjárveiting til Hallgrímskirkju verði aukin úr 7 millj. kr. í 12 og er sú fjárveiting ætluð til viðgerða á steypuskemmdum í turni kirkjunnar, en mjög alvarlegar steypuskemmdir hafa komið þar í ljós og verður að ráðast í mikinn kostnað til að gera lagfæringar þar á. Þar að auki er á þskj. 259 gerð tillaga, sem féll niður við prentun þskj. 235, en sú tillaga varðar Hóladómkirkju. Þar er lagt til að fjárveiting til viðgerða Hóladómkirkju hækki um 3 millj. kr. og verði þeirri hækkun varið til viðgerða á altarisbrík kirkjunnar.
    65. tillaga varðar liðinn 601 Vatnsveitur, þ.e. vatnsveitustyrki, og er lagt til að vatnsveitustyrkir verði hækkaðir úr 20 millj. kr. í 30 en skipting á þeim lið verður unnin með hefðbundnum hætti í samgrn.
    Þá er komið að tillögum er varða málefni fatlaðra. Í frv. eru 33,85 stöðugildi undir málefnum fatlaðra og er þeim óráðstafað í frv. Fjvn. gerir aðeins tillögu um ráðstöfun á hluta þessara stöðugilda, sem hún beinir til félmrn. Það er í fyrsta lagi vegna málefna fatlaðra á Vesturlandi. Þar er lagt til að veitt verði heimild fyrir hálfri stöðu við leikfangasafn í Ólafsvík. Í öðru lagi vegna málefna fatlaðra á Vestfjörðum. Þar er lagt til að veitt verði hálft stöðugildi til að setja á stofn leikfangasafn. Í þriðja lagi málefni fatlaðra á Norðurlandi eystra. Þar er lagt til að veitt verði 0,4 stöðugildi forstöðumanns við leikfangasafn á Akureyri þannig að um eitt stöðugildi verði að ræða. Í fjórða lagi málefni fatlaðra á Austurlandi. Þar er lagt til að veitt verði hálf staða forstöðumanns við leikfangasafn. Hér er því um að ræða samtals 1,9 stöðugildi af þeim tæplega 34 sem óráðstafað er samkvæmt frv. Nefndin hefur kynnt sér hugmyndir félmrn. um ráðstöfun þessara stöðugilda og fyrir sitt leyti vísar hún þeim til félmrn. til afgreiðslu vegna þeirra stofnana sem teknar verða í notkun á árinu 1989 og þeirra sem teknar eru til starfa en ekki hafa fengið stöðuheimildir.
    Jafnframt er þeim erindum, sem borist hafa fjvn. frá svæðisstjórnum um málefni fatlaðra og ekki hafa fengið afgreiðslu í nefndinni, vísað til ráðuneytisins til umfjöllunar og afgreiðslu þar.
    Þá gerir fjvn. einnig tillögu um, eins og segir í tillögu 66, að viðfangsefnið Starfsþjálfun verði hækkað um 400 þús. kr. sem varið verði til
tækjakaupa. Í öðru lagi varðandi málefni fatlaðra, Reykjanesi, að fjárveiting til vistheimilisins á Skálatúni verði hækkuð um 500 þús. kr. vegna brunavarna. Í þriðja lagi vegna málefna fatlaðra á Vestfjörðum að viðfangsefnið Svæðisstjórn verði hækkað um 300 þús.

kr. vegna fyrirframgreiðslu á húsaleigu á skrifstofu. Í fjórða lagi vegna málefna fatlaðra á Suðurlandi að til Sólheima verði varið 6 millj. kr. og er ætlunin að framlag þetta gangi til greiðslu á skuldum Sólheima í Grímsnesi. Jafnframt mun nefndin leggja til að til Sólborgar á Akureyri verði veitt 1 millj. kr. til að hægt verði að taka sundlaugina í notkun og einnig að veittar verði 2 millj. kr. til uppgjörs á rekstrarhalla Bjargs en það er verndaður vinnustaður á Norðurlandi eystra.
    Í tillögu 70 er rætt um málefni Brunamálastofnunar ríkisins og er lagt til að veitt verði 1 millj. kr. til kaupa á gámi til reykköfunar, en sértekjur stofnunarinnar verði hækkaðar að sama skapi.
    Í tillögu 71 er lagt til að viðfangsefnið Félagasamtök, styrkir verði hækkað um 1 millj. 280 þús. kr.
    Liðurinn 72 varðar Tryggingastofnun ríkisins, sjúkratryggingar og er þar lagt til að sjúkratryggingar verði lækkaðar um 9,2 millj. kr. vegna tilfærslu á föst fjárlög og verður nánari grein gerð fyrir þeim tilfærslum hér á eftir hvað varðar hin einstöku sjúkrahús. Er hér um millifærslur að ræða út af sjúkratryggingum og yfir á kostnað sjúkrastofnana á föstum fjárlögum.
    73. brtt. varðar landlækni. Þar er gert ráð fyrir hækkun um 300 þús. kr. og er ætlunin að það fé verði sérstaklega notað til aðgerða til lækkunar á lyfjakostnaði.
    74. brtt. varðar Sjúkrahúsið á Sauðárkróki. Gert er ráð fyrir að launaliður hækki um 4,8 millj. kr.
    Í brtt. 75 er rætt um Sjúkrahúsið á Siglufirði. Er þar gert ráð fyrir að launaliður hækki um 600 þús. kr. vegna nýrrar stöðu sjúkraliða til heimahjúkrunar.
    Tillaga 76 varðar Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þar eru launagjöld lækkuð um 6,l millj. kr. en á móti hækka önnur gjöld um sömu upphæð. Er þetta vegna leiðréttinga og hefur ekki áhrif á niðurstöðutölur.
    Tillaga 77 varðar ríkisspítalana. Þar er lagt til að ráðið verði í fimm nýjar stöður vegna nýrrar starfsemi í K-byggingu Landspítalans sem taka á í notkun í sumar. Útgjöld vegna þessa er áformað að hækki um 10,5 millj. kr.
    Tillaga 78 varðar Borgarspítalann. Er þar í fyrsta lagi rætt um almennan rekstur þar sem lagt er til að heimilaðar verði sex nýjar stöður, sem áður voru greiddar af álagsgreiðslum, og fjögur ný stöðugildi eða samtals tíu stöðugildi. Launagjöld hækka af þeim sökum um 4 millj. 800 þús. kr.
    Þá er í öðru lagi lagt til að liðurinn Ýmis eignakaup verði hækkaður um 10 millj. kr. og er ætlunin að fyrir þá fjárhæð verði keypt vararafstöð í spítalann, en eins og kunnugt er brást vararafstöð spítalans nú í haust þegar rafmagnstruflanir urðu á höfuðborgarsvæðinu. Mun þessi fjárhæð, 10 millj. kr., nægja til þess að kaupa rafstöðina, koma henni fyrir og tengja hana en annars er nauðsynlegt að endurnýja allar rafmagnstöflur í sjúkrahúsinu og mun verða unnt að hefja það verk einnig fyrir þetta fé en heildarkostnaður við það verk til verkloka er áætlaður

um eða yfir 20 millj. kr.
    79. brtt. fjvn. varðar liðina Sjúkrahús og læknabústaðir. Er þar um að ræða þrjá stafliði.
    Í a-lið er gerð tillaga um að tekið verði upp nýtt viðfangsefni, 120 Öldrunarþjónusta á Suðurnesjum, og verði veittar 9 millj. kr. til þess viðfangsefnis. Eins og öllum er kunnugt hafa miklir rekstrarörðugleikar hrjáð sjúkrahúsið í Keflavík og er áætlað að rekstrartap sjúkrahússins á þessu ári geti numið allt að 16 millj. kr. Ástæðan fyrir þessu er sú að sjúkrahúsið er afskaplega óhagstæð rekstrareining. Þjónustukjarni hefur þar verið byggður, þar á meðal skurðstofa, en til þess að eðlileg nýting komist á vantar hjúkrunar- og legupláss sem áætlað hefur verið að byggja. Ber þar fyrst og fremst að nefna hjúkrunardeild sem verður mjög brýnt viðfangsefni ekki síst vegna þess hve alvarlegt ástand öldrunarmála er á Suðurnesjum. Heilbrmrh. og fjmrh. hafa átt viðræður við rekstraraðila sjúkrahússins í Keflavík svo og fjárhagsnefnd Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um þessi mál og standa þær viðræður enn yfir. Er hér lagt til að veitt verði fjárveiting að upphæð 9 millj. kr. til að bæta rekstrargrundvöll sjúkrahússins og undirbúa áætlun um uppbyggingu á öldrunarþjónustu á Suðurnesjum.
    Í b-lið er síðan lagt til varðandi liðinn Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða að sá liður hækki samtals um 40 millj. 320 þús. kr. og er sundurliðun um þær framkvæmdir birt með brtt. á þskj. 235. Ég vil aðeins í því sambandi taka fram tvennt. Í fyrsta lagi að í þessum tillögum er ekki gert ráð fyrir að nein ný verk verði hafin og í öðru lagi að þarna er um að ræða einn áfanga sem tekinn verður í notkun, þ.e. samkvæmt ákvörðunum heilbrrn. er gert ráð fyrir að flutt verði í hið nýja sjúkrahús á Ísafirði þann 21. jan. nk. og er fjárveitingin til sjúkrahússins á Ísafirði við það miðuð að það verði gert.
    Í öðru lagi vil ég taka fram að á sl. hausti var gert tiltekið samkomulag við borgarstjórann í Reykjavík vegna heilsugæslumála í Reykjavíkurborg. Um mitt ár komu upp ný viðhorf í því máli þegar álitsgerð barst frá Ríkisendurskoðun varðandi kröfur sveitarfélaga um að ríkinu bæri að greiða hluta sinn í gatnagerðargjöldum með sama hætti og við annan framkvæmdakostnað. Varð það til þess að nokkur töf varð á afgreiðslu umrædds samkomulags, en við samkomulagið hefur nú verið staðið. Einnig eru í gangi samningaviðræður milli heilbrrn. og borgarstjórans í Reykjavík um samkomulag milli þessara aðila um fyrirkomulag heilsugæsluþjónustu í höfuðborginni. Ég hef rætt um þessi mál við fjmrh. og legg á það höfuðáherslu, og vil taka það fram hér við þessa umræðu, að gengið verði til samkomulags við borgaryfirvöld í Reykjavík um þessi mál og um greiðsluhluta ríkissjóðs í framkvæmdum í heilsugæslustöðvum í Reykjavík og um greiðslusamkomulag um það. Ég mun beita mér fyrir því eins og ég hef gert að það samkomulag nái fram að ganga milli fjmrn., heilbrrn. og borgaryfirvalda í Reykjavík þannig að menn þurfi ekkert að velkjast í

vafa um það hvaða aðstæður eigi að ríkja í heilsugæsluþjónustu í Reykjavík og hvaða hlutir það séu sem eigi að falla til greiðslu á ríkissjóð í því sambandi en á því virðast vera áhöld eins og nú standa sakir.
    Í d-lið er svo lagt til að nýr liður verði tekinn inn í frv., liður sem ávallt hefur verið á fjárlögum undanfarinna ára, en það er sérstök fjárveiting til St. Franciscusarreglunnar í Stykkishólmi vegna sjúkrahússins þar að fjárhæð 9 millj. kr.
    Brtt. 80 varðar síðan liðinn Heilbrigðismál, ýmis starfsemi, 131 Krabbameinsfélag Íslands. Hér er um það að ræða að gera verður verðlagsleiðréttingar á frumvarpstölunni og vantar þá 2 millj. kr. til þess að við gert samkomulag verði staðið og er lagt til að sú fjárveiting eigi sér stað.
    Brtt. 81 varðar St. Franciscusarspítala í Stykkishólmi, launaútgjöld hans vegna og er vegna nýrra stöðugilda framkvæmdastjóra og sjúkraliða, samtals 3,2 millj. kr. hækkun.
    Sama máli gegnir um tillögu 82 er varðar Sjúkrahús Bolungarvíkur, en þar er um að ræða að heimiluð eru tvö ný stöðugildi vegna langlegu.
    Tillaga 83 varðar Sundabúð II í Vopnafirði, þar þarf að hækka launagjöld um 900 þús. kr. vegna launa sjúkraþjálfa.
    Tillaga 84 varðar Sunnuhlíð í Kópavogi þar sem gerð er tillaga um að launagjöld hækki um 2,7 millj. kr. vegna fjölgunar starfsmanna um sjö, en þar hefur rúmum fjölgað um níu. Þessi fjölgun starfsmanna á þeim fjórum sjúkrastofnunum sem ég hef lesið hér upp mun ekki auka heildarútgjöld ríkissjóðs vegna þess að á móti kemur, eins og ég sagði áðan, lækkun á sjúkratryggingum.
    Tillaga 85 þarfnast engrar sérstakrar skýringar.
    Tillaga 86 varðar embætti ríkistollstjóra. Þar er tillaga gerð um að launagjöld hækki um 6 millj. kr. og stafar sú hækkun af því að gerð er tillaga um að alls sex starfsmenn verði ráðnir, þrír fastráðnir og þrír verkefnaráðnir í tengslum við innheimtu- og eftirlitsstörf og er það í samræmi við þau auknu verkefni sem ríkistollstjóra hefur verið falið að gegna.
    Sama máli gegnir um næstu tillögu þar á eftir er varðar tollstjórann í Reykjavík. Þar er gert ráð fyrir einum verkefnaráðnum starfsmanni og tveimur nýjum stöðugildum þar að auki vegna nýrra verkefna sem embættinu hafa verið falin og er gert ráð fyrir því að launagjöld hækki vegna þessa um 3 millj. kr.
    Töluliður 88 varðar Vita- og hafnamálaskrifstofuna. Þar er gert ráð fyrir nýrri fjárveitingu til uppsetningar sjóvarnarmerkis við Kolbeinsey og til þess að ljúka þeim rannsóknum sem verið hafa í undirbúningi þar.
    Þá kemur næst brtt. 90 við liðinn Hafnarmannvirki og lendingarbætur, en lagt er til að hækkun þar verði 10 millj. kr. Vísað er í sundurliðun á einstökum verkefnum í yfirliti með brtt. Þar að auki er tekið upp nýtt viðfangsefni, 631 Landshafnir, óskipt, sem fá 15 millj. kr. Er ráð fyrir því gert að fé þetta verði til ráðstöfunar í sambandi við þá samninga sem fyrir dyrum standa milli samgönguráðuneytisins og

sveitarfélaga um yfirtöku sveitarfélaga á rekstri landshafna.
    Tillaga 92 varðar sjóvarnargarða og lýtur að því að fjárveiting verði hækkuð úr 10 millj. kr. eins og hún er í frv. í 31 millj. 300 þús kr. Sundurliðun er á sérstöku yfirliti á þskj. 235.
    Brtt. 93 varðar Siglingamálastofnun ríkisins, mengunarvarnir. Lagt er til að sá liður verði hækkaður um 130 þús. kr. og er sú hækkun til þess að kaupa farsíma.
    Brtt. 94 varðar ýmis framlög. Í 1. tölul. er rætt um tilkynningarskyldu íslenskra skipa þar sem lögð er til hækkun um 720 þús. kr. Stafliður b varðar safnlið og lagt er til að framlagið verði hækkað um 1 millj. kr. Stafliður c í tillögunni varðar Öryggismálaskóla sjómanna en þar er lagt til að framlagið verði hækkað um 450 þús kr.
    Tillaga 95 varðar Ferðamálaráð, framlög vegna hótela. Hér er um að ræða
tillögu um hækkun á tölu frv. um 5 millj. kr. og verða þá alls til ráðstöfunar samkvæmt þessu 20 millj. kr. Fjvn. mun gera tillögu um ráðstöfun á þessu fjármagni en það er í senn ætlað til þess að standa við fyrri ákvarðanir Alþingis sem skuldbinda Ferðamálasjóð vegna hótela og einnig til þess að takast á við önnur vandamál út af hótelrekstri.
    Brtt. 96 varðar svo Veðurstofu Íslands, jarðeðlisfræðideild. Þar er lögð til hækkun um 500 þús. kr. og er hækkunin ætluð til að standa straum af rekstri þriggja jarðskjálftamæla í Mývatnssveit sem Orkustofnun hefur rekið til þessa en hyggst nú hætta að greiða rekstrarkostnað af. Verða jarðskjálftamælar þessir þannig áfram starfræktir.
    Brtt. 97 varðar síðan iðnrn., aðalskrifstofu, og er þar eingöngu um tilfærslur að ræða, eins og kemur raunar fram í 98. brtt. nefndarinnar.
    Brtt. 99 varðar liðinn Iðja og iðnaður. Þar er í fyrsta lagi um að ræða nýtt viðfangsefni, byggingarþjónustuna. Hún naut styrks á fjárlögum ársins 1987 en fjárveiting hennar vegna féll út 1988. Nú er lagt til að byggingarþjónustunni verði veittur rekstrarstyrkur að fjárhæð 500 þús. kr.
    Þá er loks lagt til að tekinn verði inn nýr liður, 150 Iðnþróun og markaðsmál, og er þar aðeins um tilfærslu að ræða, flutning af yfirstjórn, þannig að sú tillaga hefur ekki áhrif til útgjaldaauka.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir þeim tillögum sem fjvn. flytur. Eins og áður hefur komið fram stendur nefndin að þessari tillögugerð. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar, þau Pálmi Jónsson, Egill Jónsson, Óli Þ. Guðbjartsson og Málmfríður Sigurðardóttir, hafa hins vegar að sjálfsögðu fyrirvara um flutning breytingartillagna og að styðja þær brtt. sem fram kunna að koma frá öðrum.
    Í fylgiskjali með nefndaráliti meiri hl. eru birt áform ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda og fleira. Tillögur um þær afgreiðslur verða fluttar við 3. umr. fjárlaga og gefst þá kostur á að gera nánari grein fyrir þessum áformum. Ég læt mér nægja að vísa í

fylgiskjalið á þskj. 244 þar sem gerð er grein fyrir helstu niðurstöðum þessara áforma.
    Umræddum áformum má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er um að ræða lækkun framlaga í sjóði, samtals nemur sú lækkun 318 millj. kr. Í öðru lagi er gert ráð fyrir lækkun launakostnaðar. Samtals nema áhrif þeirra aðgerða 320 millj. kr. Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir lækkun rekstrarframlaga, þ.e. sjúkratrygginga og kostnaðar við sérfræðiþjónustu, til samræmis við lækkun launa og nemur sú aðgerð lækkun útgjalda ríkissjóðs sem nemur 80 millj. kr. Í fjórða lagi er síðan lækkun á liðnum Launa- og verðlagsmál, rekstrargjöld, þar sem áformað er að setja mjög strangar reglur um ferða- og dvalarkostnað, risnu og fundahöld, aðkeypta sérfræðiþjónustu o.s.frv. og er gert ráð fyrir lækkun útgjalda af þeim sökum sem nemi 215 millj. kr. Samtals munu því verða fluttar við 3. umr. tillögur um lækkun útgjalda sem lækka munu útgjöld ríkissjóðs um samtals 968 millj. kr. Þar að auki er gert ráð fyrir því að Póstur og sími skili inn í ríkissjóð upphæð sem nemur 250 millj. kr.
    Í frv. því til fjárlaga sem lagt var fram í haust var af einhverjum ástæðum ekki reiknað með þeirri hækkun á gjaldskrá Pósts og síma sem þá hafði orðið. Sú hækkun er reiknuð stofnuninni til tekna eins og eðlilegt er og gengið út frá því að gjaldskrá hækki milli ára eins og almennt verðlag sem einnig er eðlilegt. Kemur þá í ljós að tekjur Pósts og síma verða um það bil 500 millj. kr. meiri en gengið var út frá við gerð fjárlagafrv. Í frv. var gert ráð fyrir því að Póstur og sími hefðu til ráðstöfunar 200 millj. kr. til fjárfestinga. Miðað við þau áform ríkisstjórnarinnar sem ég hef nú lýst um tekjuauka sem stafar af umræddri gjaldskrárhækkun sem ekki hafði verið tekið tillit til við gerð fjárlaga, þá er þeim tekjuauka skipt jafnt þannig: Stofnunin Póstur og sími fær helming tekjuaukans til þess að auka framkvæmdafé sitt og verða fjárfestingar Pósts og síma þannig á næsta ári áætlaðar 450 millj. kr. í stað 200 millj. kr. eins og áformað var í fjárlagafrv. Hins vegar er gert ráð fyrir að stofnunin skili hinum helmingi tekjuaukans í ríkissjóð og er það eðlilegt og í samræmi við annað að reynt sé að draga saman seglin í fjárfestingum þessarar stofnunar til samræmis við erfiðari aðstæður og þann samdrátt og þann sparnað sem ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir á öðrum sviðum. Heildaráhrif á afkomu ríkissjóðs vegna þessara ráðstafana allra nema þannig 1218 millj. kr.
    Að lokum vil ég víkja að örfáum málum sem tillögur eru ekki gerðar um við þessa afgreiðslu en nauðsynlegt er að ræða. Í fyrsta lagi er þar um að ræða afgreiðslur á launamálum þeirra rannsóknastofnana sem samkvæmt frv. fá nú fjárveitingar í formi tilfærslna. Í öðru lagi verður svo um að ræða Vinnueftirlit ríkisins.
    Nokkrar rannsóknastofnanir taka þeim breytingum varðandi afgreiðslur á fjárveitingum úr ríkissjóði að í frv. eru þær færðar sem tilfærslur til stofnana. Í því sambandi hafa vaknað spurningar hjá stjórnendum stofnananna um hvaða áhrif þær breytingar muni hafa

varðandi launakostnað þeirra. Vegna þessa tel ég rétt að upplýsa að umrædd breyting mun ekki hafa áhrif þar á.
Launakostnaður hjá þessum stofnunum mun sæta sömu afgreiðslu og launakostnaður annarra og mun verða uppfærður með sama hætti og annar launakostnaður. Breytingin á afgreiðslu fjárveitinga til stofnana þessara samkvæmt frv. mun ekki breyta því.
    Um málefni Vinnueftirlits ríkisins er það hins vegar að segja að það mál er nú í sérstakri skoðun hjá fjmrh. og félmrh.
    Þá eru málefni Ríkisútvarpsins nú í sérstakri umfjöllun í ríkisstjórninni í kjölfar skýrslu frá nefnd sem menntmrh. skipaði til þess að skoða stöðu Ríkisútvarpsins og gera tillögur um rekstrarvanda þess.
    Þá er rétt í lokin að fara örfáum orðum um mikinn vanda Þjóðleikhússins. Er þar annars vegar um að ræða mikinn rekstrarvanda, en á þremur árum hefur myndast hjá stofnuninni launaskuld við ríkissjóð upp á 200 millj. kr. Í annan stað er um það að ræða að sjálf þjóðleikhúsbyggingin liggur undir miklum skemmdum og er orðið bráðnauðsynlegt að þar fari fram miklar endurbætur. Fjvn. hefur kynnt sér mál þetta sérstaklega auk þess sem sérstök nefnd á vegum menntmrn. hefur skilað umfangsmikilli skýrslu um verkið. Sú endurnýjun sem gera þarf á þjóðleikhúsbyggingunni er svo viðamikil að ómögulegt er að framkvæma það öðruvísi en svo að leikstarfsemi í húsinu bíði á meðan, en endurbyggingin mun taka a.m.k. eitt ár. Er nú í athugun að hefja þetta verk á næsta ári og þá væntanlega eftir að yfirstandandi leikári lýkur. Mun það eins og áður segir raska leiklistarstarfsemi hússins þar sem leiksýningar geta ekki orðið á aðalsviði á meðan endurbyggingin fer fram. Þetta tímabil, ef af verður, verður því að nota til þess að taka ákvarðanir um skuldamál Þjóðleikhússins og til þess að gera einhverjar þær breytingar sem gera unnt að tryggja rekstur hússins til frambúðar. Þessi viðfangsefni sem ég drap hér á eru í skoðun og senn á ákvörðunarstigi.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið máli mínu og legg til að þær brtt. sem fjvn. flytur á þskj. 235 og 259 verði samþykktar að lokinni þessari umræðu.