Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. 2. umr. fjárlaga fer nú fram við afar óvenjulegar aðstæður í íslensku þjóðlífi. Atvinnuvegirnir og atvinnulífið í heild býr við verri skilyrði og ískyggilegri horfur en verið hafa í marga áratugi. Halli á ríkisrekstrinum er háskalegur og hefur farið ört vaxandi á síðustu mánuðum ársins. Allt er enn hulið móðu og mistri um það hvernig þessi hallarekstur kemur til með að hafa áhrif á framvindu ríkisfjármála á næsta ári. Allt er enn þá í algerri óvissu um afgreiðslu Alþingis á skattafrv. hæstv. ríkisstjórnar vegna þess að hana skortir meiri hluta í neðri deild. Tekjuhlið fjárlagafrv. er því í lausu lofti. Öll þessi óvissa setur auðvitað mark sitt á meðferð fjárlagafrv. til þessa og mun gera það þangað til skýrari línur fást.
    Allra alvarlegast er þó bæði fyrir framvindu fjárlagafrv. og þá ekki síst fyrir þjóðina að hæstv. ríkisstjórn hefur enn enga stefnu í efnahags- og atvinnumálum, stefnu sem hafi það í för með sér að atvinnuvegirnir fái möguleika til þess að snúa við frá hallarekstri og uppgjöf yfir í það að byggja upp nýja undirstöðu fyrir lífvænlega afkomu og atvinnuöryggi. Fjárlög verða að byggjast á efnahagsstefnu og þegar efnahagsstefnan er engin vantar grundvöllinn undir fjárlagagerðina. Forsendur þessa fjárlagafrv. eru marklausar vegna þess að frv. byggir á stefnuleysi. Hafi hæstv. ríkisstjórn dottið í hug að afgreiða fjárlagafrv. með þessum formerkjum yrði sú afgreiðsla að verulegu leyti, bæði fyrir siðasakir og fjárlögin, marklaust plagg. Fjárlög sem byggjast á efnahagsstefnu geta á hinn bóginn orðið öflugt stjórntæki til áhrifa á efnahagsþróun. Þannig hygg ég að sé full þörf á að standa að verki við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.
    Fjvn. hefur auðvitað í vinnubrögðum sínum goldið þeirrar óvissu sem ég vék að í upphafi máls míns. Þar er ekki við fjvn. sjálfa að sakast eða forustu hennar. Hæstv. ríkisstjórn sem tekið hefur að sér að stjórna landinu ber á því ábyrgð að hafa ekki gert tilraun til að eyða þessari óvissu með því að taka stefnu. Af þessum sökum hafa orðið tafir á störfum nefndarinnar sem eru óvenjulegar eða jafnvel einsdæmi í desembermánuði.
    Vinna við undirbúning tillagna er varðar skiptingu fjárfestingarliða og ýmissa safnliða var þó með venjubundnum og eðlilegum hætti miðað við það knappa fjármagn sem til þessara þátta er ætlað í fjárlagadæminu. Á hinn bóginn var afgreiðslu tillagna er varðar rekstrarliði A-hluta nánast flaustrað af á einum fundi og er slík meðferð mála tæpast viðunandi fyrir minni hl. nefndarinnar. Þetta stafar vitaskuld af knappri stöðu ríkisfjármála en þó fyrst og fremst af því hve meiri hl. nefndarinnar voru settar þröngar skorður af hæstv. ríkisstjórn. Ég vil því flytja meðnefndarmönnum mínum þakkir fyrir ánægjulegt samstarf innan nefndarinnar og þó sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, fyrir lipurð í störfum við erfiðar aðstæður. Ég vil enn fremur taka undir þakkir formanns nefndarinnar í ræðu

hans hér áðan til þeirra sem starfað hafa fyrir nefndina og til þeirra embættismanna ríkisins sem nefndin hefur haft mest samskipti við.
    Nefndin flytur sameiginlega brtt. á þskj. 235 en minni hl. tekur fram að hann hefur fyrirvara um afstöðu til einstakra tillagna á því þingskjali og áskilur sér eftir venju allan rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Minni hl. nefndarinnar lýsti yfir óánægju sinni með ýmsar afgreiðslur á þessum tillögum og aðrar af þeim tillögum sem hér eru fluttar kunna að orka tvímælis. Eigi að síður stendur minni hl. að þeim í heild en hefur fullan fyrirvara um afstöðu til einstakra tillagna.
    Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar settist á valdastóla lýsti hún því yfir að hún væri mynduð til þess að leysa bráðan efnahagsvanda þjóðarinnar, rétta við stöðu útflutningsgreinanna, forðast atvinnuleysi og hemja verðbólgu. Lokið væri tímabili óþolandi óvissu og úrræðaleysis, upp væri runninn tími aðgerða, tími tillagna væri að baki. Þetta voru býsna fagurlegar yfirlýsingar og þótti mörgum góð tíðindi. Búist var við aðgerðum sem dygðu til þess að hallarekstri fyrirtækja linnti, útflutningsatvinnuvegirnir kæmust á réttan kjöl og atvinnuöryggi yrði tryggt.
    Fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru þó í litlu samræmi við þessar yfirlýsingar. Að meginhluta skiptust þær í tvennt. Í fyrsta lagi framlenging á tímabili launafrystingar og verðstöðvunar sem átti að gefa svigrúm til að taka ákvörðun um aðrar og marktækari aðgerðir og í annan stað nýjar og stórfelldar millifærslur í þjóðfélaginu. Auk þessa ákvað hæstv. ríkisstjórn að nota heimild sem þegar var fyrir hendi um 3% lækkun á gengi krónunnar. Flestum var þegar ljóst að þessar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar leystu engan vanda. Þetta voru bráðabirgðaaðgerðir, einungis til þess fallnar að slá raunverulegri lausn mála á frest. Auk þess höfðu þær í för með sér að aukið var við erlendar lántökur og skuldabyrði erlendis um 1800 millj. kr. Þá var og ákveðið að hinn nýi sjóður, Atvinnutryggingarsjóður, tæki til sín á tveimur árum bróðurpartinn af lögboðnum greiðslum ríkisins til Atvinnuleysistryggingasjóðs og möguleikar hans því lamaðir til að sinna sínu hlutverki ef til atvinnuleysis kynni að koma. Kveðja hæstv. ríkisstjórnar til launafólks í landinu í því hættuástandi
sem við blasir í atvinnumálum var að rjúfa þannig samninga ASÍ, VSÍ og ríkisins um greiðslu til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Allt voru þetta eigi að síður bráðabirgðaráðstafanir og kákráðstafanir sem leystu ekki vanda. Hvaðanæva hafa borist yfirlýsingar frá hagsmunaaðilum vinnumarkaðarins um að þessar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar hafi reynst gagnslausar. Hvaðanæva berast fregnir af fyrirtækjum sem eru að komast í þrot eða eru í þann veginn að loka. Hvaðanæva heyrist frá því sagt að sjálfar undirstöður þjóðfélagsins, útflutningsatvinnuvegirnir, séu að molna niður. Auðvitað eru það ekki bara fyrirtækin sem eru að komast í þrot. Hið geigvænlega ástand atvinnuveganna

er þegar farið að koma fram í atvinnu fólksins. Atvinnuleysi hefur þegar meira en tvöfaldast frá því sem var á sama tíma fyrir ári og við síðustu atvinnuleysisskráningu voru 1200 manns á atvinnuleysisskrá. Samtök atvinnurekenda hafa bent á að sú hætta vofi yfir að 4--6 þúsund manns gangi atvinnulausir þegar líða tekur á vetur. Vissulega getur enginn ráðið í það nú hversu margir það verða sem missa atvinnu sína ef við búum áfram við aðgerðarleysi hæstv. ríkisstjórnar. Á sama tíma þóknast hæstv. ríkisstjórn að taka starfsfé Atvinnuleysistryggingasjóðs til annarra verkefna.
    Staða þjóðarbúsins út á við fer versnandi og afkoma atvinnuveganna er nú miklu alvarlegri en við stjórnarskiptin. Þegar forstjóri Þjóðhagsstofnunar og hans menn komu til fjvn. sl. þriðjudagskvöld var staðfest það álit Þjóðhagsstofnunar að halli á rekstri sjávarútvegsins, veiða og vinnslu, hafi verið metinn 2 1 / 2 % við stjórnarskiptin í september en hafi verið kominn í 4 1 / 2 % í nóvembermánuði. Á tæplega tveimur mánuðum í tíð núverandi ríkisstjórnar hafði halli á rekstri sjávarútvegsins nálega tvöfaldast.
    Þannig er staðan og þannig eru horfurnar þegar hæstv. ríkisstjórn hefur setið að völdum í tvo og hálfan mánuð. Er að furða þó að hæstv. ráðherrar, þar á meðal hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., kjósi ekki að vera við þessa umræðu? Einungis hæstv. félmrh. sér sóma sinn í því að vera hér í þingsalnum. Ég beini því til hæstv. forseta að ég man ekki eftir því í aðra tíma að hæstv. fjmrh. leyfi sér að vera ekki við 2. umr. fjárlaga. (Gripið fram í.) Ég óska eftir að hann sé sóttur hingað í þingsalinn. ( Forseti: Forseti hefur nú þegar gert ráðstafanir til þess að láta hæstv. fjmrh. vita.)
    Þannig er þessi staða þegar hæstv. ríkisstjórn hefur setið að völdum í tvo og hálfan mánuð. Er þetta ekki sú hæstv. ríkisstjórn sem ætlaði að leysa bráðan efnahagsvanda þjóðarinnar? Er þetta ekki sú sama hæstv. ríkisstjórn sem sagði í málefnasamningi sínum að höfuðverkefni hennar væri að treysta grundvöll atvinnulífsins, stöðu landsbyggðarinnar og undirstöðu velferðarríkis á Íslandi? Sú hæstv. ríkisstjórn sem lofaði enn í málefnasamningi sínum að treysta atvinnuöryggi í landinu, verja lífskjör hinna tekjulægstu, bæta afkomu atvinnuveganna og draga úr viðskiptahalla? Samt hefur tapreksturinn nálega tvöfaldað afköst sín við að naga rætur fyrirtækjanna á tveimur mánuðum. En hæstv. ríkisstjórn hefst ekki að. Hvað veldur? Hversu lengi ætlar hæstv. ríkisstjórn að láta reka á reiðanum? Ætlar þessi hæstv. ríkisstjórn eftir allt saman að standa yfir höfuðsvörðum grundvallaratvinnuvegar þjóðarinnar? Væntanlega mun hæstv. félmrh., sem hlýðir á umræðu, hugleiða þessi mál.
    En ég lýsi enn yfir undrun minni yfir því að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera við þessa umræðu. Sýnir það að virðing hans fyrir skoðunum hv. alþm. á fjármálum ríkisins og efnahagsástandi þjóðarinnar er ekki meiri en það að hann vill ekki hlusta á þær. Með þessum hætti er hann að óvirða Alþingi, hann er að

óvirða skoðanir þeirra sem eru í stjórnarandstöðu, hann er að óvirða minni hlutann og hann er að óvirða alla íslenska þjóð. Ég hlýt að krefjast þess enn að hæstv. ráðherra komi í salinn. ( Forseti: Eins og forseti gat um fyrr þá hefur hann þegar gert ráðstafanir til þess að láta hæstv. fjmrh. vita.) Það virðist greinilegt að hæstv. fjmrh. hefur ekki í hyggju að vera við þessa umræðu. Hér er þó kominn hæstv. heilbrmrh. sem er gamalgróinn fjárveitinganefndarmaður og eru þá komnir hér tveir hæstv. ráðherrar úr tveimur stjórnarflokkunum, en ekki frá þeim flokki sem fer með fjármál ríkisins.
    Er það kannski svo í þessari stöðu að í hæstv. ríkisstjórn séu hvorki til tillögur né áætlanir um aðgerðir til lausnar á þeim vanda sem við blasir? Er kannski um að ræða ósamkomulag í herbúðum ríkisstjórnarinnar? Er kannski svo að verkstjórnin hafi bilað? --- Og hvar er nú hæstv. forsrh.? Er það kannski svo að verkstjórnin hafi verið falin þeim hæstv. fjmrh. Ólafi Ragnari Grímssyni, sem hér var nú loks að ganga í salinn, þegar forustumenn hinna stjórnarflokkanna, Framsfl. og Alþfl., hafa verið í burtu? Mér er vissulega nokkur spurn vegna þess að það er komin óþreyja, ekki einungis í stjórnmálamenn heldur í allan almenning í landinu við það að bíða eftir því að eitthvað heyrist frá hæstv. ríkisstjórn um aðgerðir í þeim miklu vandamálum sem við er að fást.
    Hæstv. forsrh. sagðist sjálfur hafa verið í fílabeinsturni í utanrrn. í fyrri ríkisstjórn og þegar hann steig út úr þeim turni og tók að litast um þá
sá hann að ástandið var mun alvarlegra en hann áður vissi. Samt hefst hann ekki að. Nú standa ekki tillögur Sjálfstfl. eða Sjálfstfl. í vegi fyrir því að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. geti gripið til þeirra aðgerða sem duga til þess að koma atvinnuvegunum á réttan kjöl. Hvað tefur þá orminn langa?
    Ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta reka á reiðanum framvegis sem hingað til, þá hefur hún ekki einungis brugðist því sem hún sagði í upphafi. Hún hefur einnig brugðist því hlutverki sem hún hefur tekið að sér. Þeir sem töldu myndun hæstv. ríkisstjórnar boða góð tíðindi hafa orðið fyrir vonbrigðum. Enn blasir ekkert við annað en stefnuleysi og úrræðaleysi með háskalegum afleiðingum. Atvinnuleysisvofan er að teygja loppuna inn um gættina. Því miður verða þeir helsti margir sem fá heimsókn hennar í vetur.
    Í nál. minni hl. á þskj. 260 eru rakin nokkur atriði sem einkenna fjárlagafrv. við þessa umræðu og tengjast þeirri miklu óvissu sem ég vék að í upphafi máls míns. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það sem við blasir við 2. umr. er m.a. þetta:
    Tekjuhlið frumvarpsins er í lausu lofti og allt í fullkominni óvissu um afgreiðslu á skattalagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar.
    Með skattafrumvörpum sínum hyggst ríkisstjórnin leggja 6700 millj. kr. nýja skatta á þjóðina samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar.
    Forsendur frumvarpsins í verðlags-, launa- og gengismálum eru marklausar og sýnast helst við það miðaðar að núverandi aðgerðaleysi í efnahags- og

atvinnumálum standi út allt næsta ár.
    Sparnaðarhugmyndir ríkisstjórnarinnar eru ekki fluttar við þessa umræðu, heldur birtar sem tilkynning. Allt er í óvissu um lokaafgreiðslu fjárlaga og niðurstöður þeirra.
    Fjárlagafrumvarpið felur í sér atlögu að atvinnuvegunum með aukinni skattheimtu, minnkandi framlögum hins opinbera og stórhækkuðum þjónustugjöldum stofnana á vegum ríkisins.
    Afgreiðsla fjárlagafrumvarpsins við þessa umræðu stangast í flestum meginatriðum á við yfirlýsingar í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar. Þetta tekur þó einkum til hagsmuna atvinnuvega, byggðamála, samgöngumála og atvinnuöryggis launafólks.
    Áður en fjárlagafrumvarpið er tekið til lokaafgreiðslu verður að krefjast þess að ríkisstjórnin hafi tekið stefnu í efnahags- og atvinnumálum sem geti orðið grundvöllur raunhæfra forsendna fyrir fjárlög næsta árs og gefi auk þess atvinnuvegunum möguleika til þess að byggja upp nýja undirstöðu fyrir lífvænlega afkomu og atvinnuöryggi.``
    Áður en ég vík nokkru nánar að fáeinum þeirra atriða sem hér hafa verið talin upp vil ég fara örfáum orðum um afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Fjárlög þessa árs voru afgreidd fyrir ári síðan með jöfnuði, eða nánar tiltekið með 53 millj. kr. rekstrarafgangi. Eftir efnahagsráðstafanir fyrrv. ríkisstjórnar í maílok áætlaði þáv. hæstv. fjmrh. að halli á rekstri ríkissjóðs á þessu ári yrði 693 millj. kr. Hann stóð síðan á því fastar en fótunum allt til hausts að hallinn yrði þessi tala, 693 millj. kr., hvorki meiri né minni. Hann brást raunar hart við þegar Ríkisendurskoðun spáði 1500--2000 millj. kr. halla á miðju ári.
    Við samningu fjárlagafrv. mun halli þessa árs hafa verið áætlaður 2 milljarðar kr. en þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir frv. við 1. umr. áleit hann að hallinn yrði allt að 3 milljörðum kr. Viku síðar áætlaði hann hins vegar hallann um 4 milljarða kr. og enn rúmri viku þar á eftir áætlaði hann að hallinn yrði um 5 milljarðar kr. Sl. þriðjudagskvöld áætlaði forstöðumaður hagdeildar fjmrn. á fundi með fjvn. að hallinn yrði um 6,5 milljarðar kr. Á sama fundi var það einnig upplýst að á þessu ári í tíð tveggja hæstv. fjmrh. hafa engin viðbrögð verið af hálfu fjmrn. í þá átt að snúast gegn þessari hrikalegu þróun. Áður hefur komið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga gagnrýni í þá átt að eftirlitskerfi fjmrn. í launa- og starfsmannamálum hafi í raun og veru brugðist á fyrri hluta ársins í höndum fyrrv. hæstv. fjmrh. Á fyrra helmingi ársins jukust þannig launaútgjöld ríkiskerfisins í A-hluta um sem svaraði 725 nýjum stöðugildum. Hv. formaður fjvn. gagnrýndi þetta einnig í sinni ræðu hér áðan. Hann gagnrýndi það að eftirlitskerfi fjmrn. hefði brugðist. Hann sagði þó að það væri ekki við fjmrh. einan að sakast. Út af fyrir sig er það að nokkru leyti rétt. Hinu verður hv. formaður fjvn. að gera sér grein fyrir, að eftirlitskerfi með framkvæmd fjárlaga er í fjmrn. Eftirlitskerfi með launaútgjöldum og starfsmannaráðningum á vegum ríkisins er í fjmrn. undir stjórn fjmrh. og fjmrh.

verður að hafa forustu um það að spyrna við fótum ef þessi útgjöld ætla að fara úr böndum. Geri hann það ekki er ekki von að vel fari. Það er einmitt þetta sem hefur gerst. Og ég tel rétt að láta þetta koma skýrar fram vegna orða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar.
    Samkvæmt áliti forstöðumanns hagdeildar fjmrn. myndast þessi hrikalegi halli á ríkisrekstrinum í ár annars vegar vegna aukinna útgjalda, sem nema nálægt 3 milljörðum kr. og á hinn bóginn vegna samdráttar tekna um allt að 3,5
milljarða kr.
    Augljóst er að almennur veltusamdráttur í þjóðfélaginu veldur miklu um þá breytingu sem hér hefur á orðið varðandi samdrátt í tekjum ríkissjóðs. Meðal annars kemur það fram að innheimta hefur orðið erfiðari en ella, en þó fengust engin svör við því á fundi með fjvn. hversu mikið kynni að vera í vanskilum af veltusköttum sem renna eiga til ríkisins.
    Sú gífurlega breyting sem orðið hefur á horfum á afkomu ríkissjóðs á þessu ári frá því fjárlög voru afgreidd og til dagsins í dag er auðvitað mjög alvarleg. Jafnframt verður að telja það mjög ámælisvert af hálfu fjmrn. að hafa ekki brugðist við samdrætti tekna með því að draga úr útgjöldum. Engar tillögur eða tilraunir í þá átt virðast hafa komið fram. Þess í stað hafa ríkisútgjöldin og ríkisreksturinn haldið áfram að þenjast út. Hæstv. fyrrv. fjmrh. á kannski nokkra afsökun ef hann hefur sjálfur trúað því að hallinn yrði ekki nema 693 millj. kr. En hæstv. núv. fjmrh. á ekki þá afsökun. Hann virðist hafa haft augun opin og fylgst með því frá einni viku til annarrar hvernig horfurnar hafa versnað stig af stigi um afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Samt hefur ekkert heyrst um tillögur af hans hálfu til þess að hafa áhrif í þá átt að draga úr þessari þróun það sem eftir lifði ársins.
    Allar líkur benda til að áhrif þess samdráttar sem orðið hefur í efnahagskerfinu á þessu ári komi einnig fram á árinu 1989, ef til vill með vaxandi þunga, þar á meðal með minnkandi veltusköttum til ríkissjóðs. Þessu ætlar hæstv. ríkisstjórn að mæta með því að leggja nýja skatta á þjóðina sem eiga samkvæmt skattafrumvörpum sem fyrir liggja á Alþingi að nema 6700 millj. kr. Sú tala er samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar á þeim skattafrumvörpum sem fyrir liggja. Á sama tíma sem að kreppir hjá öllum almenningi, launafólk býr við minnkandi atvinnu og hætta er á stórfelldu atvinnuleysi, atvinnuvegirnir ramba á barmi gjaldþrots og fyrirtækin loka hvert af öðru, þá ætlar hæstv. ríkisstjórn að leggja á nýja skatta sem eiga að gefa ríkissjóði 6--7 milljarða kr. Það er fyrirætlun og vilji hæstv. ríkisstjórnar að ríkissjóður og ríkisreksturinn eigi að hafa allt sitt sem næst á þurru þó að kreppi í þjóðfélaginu.
    Næsta ár á að verða skattaárið mikla. Þá skal borga meira til ríkisins en í ár þrátt fyrir að flestir eða allir hafi minni greiðslugetu. Ég lýsi andstöðu minni við þessa miklu skattheimtu. Ég lýsi þeirri skoðun minni að þegar að þrengir í efnahagskerfinu verði ríkisreksturinn að taka þátt í samdrættinum.

Fjárlagafrv., sem hér er til umræðu, er ekki því marki brennt. Þar er að vísu niðurskurður á fé til opinberra framkvæmda, í framlögum til atvinnuvega og á framlögum til þýðingarmikilla sjóða og ýmissa annarra verkefna. En umfang ríkisrekstrarins vex, rekstrarútgjöld ríkiskerfisins fara stórum vaxandi. Fjárlagafrv. er í sjálfu sér þenslufrumvarp sem sannast m.a. af því að í frv. sjálfu er gert ráð fyrir 400 nýjum störfum hjá A-hluta ríkissjóðs. Þetta gerist ofan á þá miklu aukningu í mannahaldi sem orðið hefur hjá ríkinu á þessu ári sem samsvarar, eins og áður sagði, 725 nýjum stöðugildum, aðeins á fyrri helmingi ársins.
    Þetta fjárlagafrv. er því ekki sparnaðarfrumvarp, það er þenslufrumvarp. Og þenslan í frv. er meiri en sem nemur öllum niðurskurði á fé til verklegra framkvæmda opinberra sjóða og til atvinnuvega.
    Á fskj. með nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 244 er listi yfir sparnaðar- og niðurskurðartillögur hæstv. ríkisstjórnar sem kynnt var fjvn. á síðasta fundi hennar fyrir 2. umr. Minni hl. fjvn. hefur í engu verið spurður um álit sitt á þessum lista, enda er hann, eins og ég hef áður sagt, birtur sem tilkynning frá ríkisstjórn. Eigi að síður lýsir minni hl. nefndarinnar því yfir að hann er hlynntur þeirri hugsun sem liggur að baki þessum tillögum að því marki sem þær eru raunhæfar, sem er vafamál, t.d. að því er varðar lækkun á framlagi til Ríkisábyrgðasjóðs, og að því marki sem þær brjóta ekki meginsjónarmið, sem virt hafa verið til þessa, svo sem eins og að lækka framlag til Vegagerðar ríkisins af sérmerktum tekjustofnum til vegamála. Enn fremur hlýtur það að teljast vafasöm skattlagningaraðferð að hækka gjaldskrá Pósts og síma til þess að Póstur og sími geti síðan skilað þeirri hækkun til ríkissjóðs. Í stað þessa hefði þurft að skera meira niður af rekstrarútgjöldum ríkisins.
    Með fjárlagafrv. gerir hæstv. ríkisstjórn nýja atlögu að atvinnuvegunum. Má það í raun og veru furðu gegna miðað við stöðu þeirra nú, t.d. hvernig afkoma sjávarútvegsins hefur hraðversnað á síðustu tveimur mánuðum eins og fyrr er að vikið. Hvert fyrirtækið á fætur öðru riðar á bjargbrúninni. Aðgerðaleysi og sinnuleysi hæstv. ríkisstjórnar er ekki nóg. Með fjárlagafrv. er hún einnig að vega að hagsmunum atvinnuveganna. Í fyrsta lagi á þetta að gerast með aukinni skattheimtu. Nú á að þyngja skattbyrði fyrirtækja m.a. með breytingu á fyrningarreglum og það á að leita uppi þau fyrirtæki sem enn kunna eitthvað að geta borgað.
    Þá eru framlög ríkisins til atvinnuvega lækkuð. Það gerist annars vegar með því að framlög eru óbreytt í krónutölu, t.d. endurgreiðsla söluskatts í sjávarútvegi og jöfnunargjald í iðnaði, og hins vegar með því að framlögin eru
stórskert eða þurrkuð út. Svo er t.d. um framlag til þróunardeildar Iðnlánasjóðs vegna nýjunga og tækniþróunar í iðnaði, en það er fellt niður.
    Í landbúnaðinum er sæmilega séð fyrir stofnunum landbúnaðarins í Reykjavík. Á hinn bóginn eru þau framlög sem renna eiga til bænda sjálfra eða

félagsstarfsemi þeirra úti á landsbyggðinni ýmist felld niður eða stórlækkuð. Þannig eru jarðræktarframlögin skert um 150 millj. kr. og búfjárræktarframlög felld niður. Af þessum framlögum hafa búnaðarsamböndin, félagssamband bænda úti á landsbyggðinni, haft tekjustofn. Þegar þau missa hann er að verulegu leyti kippt fótunum undan starfsemi þeirra, auk þess sem komið er aftan að bændum sem ráðist hafa í framkvæmdir í trausti þess að framlögin, sem eru lögboðin, fengjust greidd. --- Og eru þá allir hæstv. ráðherrar flúnir úr salnum.
    Í þriðja lagi er ýmsum stofnunum hins opinbera sem veita atvinnuvegunum þjónustu gert að innheimta mun hærri gjöld fyrir þjónustu sína en áður hefur tíðkast. Svo er t.d. um rannsóknastofnanir atvinnuveganna og einnig aðrar þjónustu- og eftirlitsstofnanir, en þó tekur út yfir að Vinnueftirlit ríkisins á að innheimta meira fyrir sína þjónustu og sínar heimsóknir til atvinnufyrirtækjanna en þarf til reksturs á stofnuninni og á síðan að skila hluta af innheimtum sínum til ríkissjóðs.
    Hér er um að ræða nýstárlega leið til skattlagningar á atvinnufyrirtækin. Hæstv. ríkisstjórn sýnir vissulega hugkvæmni en um leið ótrúlegt skilningsleysi á högum atvinnuveganna og hagsmunum fólksins í landinu. Forstöðumenn sumra rannsóknastofnana atvinnuveganna hafa látið þess getið í viðtölum við fjvn. að þeir muni knúðir til þess að velja sér viðskiptavini eftir því hvort líklegt sé að þeir geti borgað. Aðrir, sem taldir eru veikari fjárhagslega og eru kannski að byrja með nýjungar í atvinnurekstri, fá vafalaust synjun um þjónustu. Á það verður ekki hætt að þeir geti borgað fyrir þjónustu sem þeir eiga að fá. Á mörgum sviðum stangast fjárlagafrv. á við yfirlýsingar í málefnasamningi hæstv. ríkisstjórnar.
    Hér að framan hefur því verið lýst hvernig yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar um að treysta grundvöll atvinnulífsins eru í órafjarlægð við raunveruleikann og fjárlagafrv. Aðgerðaleysi hennar í málefnum atvinnulífsins er einnig í hrópandi mótsögn við þau loforð sem hún hefur gefið.
    Ég hef einnig drepið á það í örfáum atriðum hvernig fjárlagafrv. kemur við hagsmuni landsbyggðarinnar. Af nógu er þar að taka. Í málefnasamningnum segist hæstv. ríkisstjórn ætla að efla sveitarfélögin, t.d. með því að verja stærri hluta en áður af tekjum Jöfnunarsjóðsins til tekjujöfnunar. Hið rétta er að framlag til sjóðsins er skert um 395 millj. kr. og ekkert liggur fyrir um það hvernig úthlutun verður háttað.
    Hæstv. ríkisstjórn segist ætla að efla Byggðasjóð. Hið rétta er að framlag til sjóðsins er óbreytt í krónutölu frá fyrra ári og þar með stórskert og skattlagning á erlendar lántökur sjóðsins éta upp meiri hlutann af ríkisframlaginu.
    Hæstv. ríkisstjórn segist ætla að treysta stöðu landsbyggðarinnar en sker niður fé til verklegra framkvæmda á landsbyggðinni og þann hluta fjármagns til atvinnuvega sem ætti að renna til fyrirtækjanna sjálfra eða fólksins sem við þau starfar,

sem flestallt á heima á landsbyggðinni.
    Hæstv. ríkisstjórn segist ætla að vinna skipulega að uppbyggingu í samgöngumálum samkvæmt langtímaáætlun. Hún fer hins vegar þveröfugt að. Hún tekur samkvæmt fjárlagafrv. 600 millj. kr. af sérmerktum tekjustofnum vegamála, bensíngjaldi og þungaskatti, yfir í ríkissjóð og ætlar ekki að skila 180 millj. kr. til viðbótar sem geymt var á þessu ári. Auk þess eru enn tillögur um að skera niður 90 millj. kr. samkvæmt tilkynningu ríkisstjórnar um sparnaðaraðgerðir. Samtals eiga því að hverfa inn í veltu ríkissjóðs 870 millj. kr. af sérmerktu fé til vegamála. Ekkert hefur enn verið um það rætt hvernig þessi niðurskurður eigi að koma niður. Og ekkert er enn vitað t.d. hvernig á að standa að fjármögnun stórvirkja eins og jarðganga í Ólafsfjarðarmúla.
    Hæstv. ríkisstjórn segist ætla að bæta aðstöðu verslunarfyrirtækja í dreifbýli. Þessa dagana er hún að vinna að þessu verkefni sínu með því að tvöfalda skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    Þrátt fyrir fögur orð í málefnasamningi sýnist helst að hann hafi verið saminn upp á grín og að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að breyta þveröfugt við það sem í honum stendur.
    Þegar dregið er saman það sem hér hefur verið drepið á að framan og varðar hagsmuni landsbyggðarinnar sést að það hefur í för með sér stórkostlegt tekjutap og samdrátt í atvinnu ofan á þann fyrirsjáanlega atvinnubrest sem stafar af háskalegum þrengingum atvinnuveganna. Hæstv. ríkisstjórn er því ekki að vinna að því að treysta stöðu landsbyggðarinnar, eins og segir í málefnasamningi, heldur þvert á móti. Hún er að veikja stöðu landsbyggðarinnar.
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns minnti ég á að ríkisfjármálin og framvinda þeirra eru nú mikilli óvissu háð. Ég minnti á ástandið í
atvinnumálum þjóðarinnar sem nú er ískyggilegra en verið hefur í marga áratugi. Og ég minnti á að stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar í þeim málum er algjört. Ég vil einnig minna á að með fjárlagafrv. og afgreiðslu þess nú eru brotin meginsjónarmið sem virt hafa verið til þessa, svo sem að hundruð milljóna af fé samkvæmt sérmerktum tekjustofnum Vegagerðar ríkisins eru nú tekin í ríkissjóð, þvert á gildandi lög. Ég vil einnig minna á að samkomulag um framlög til landgræðsluáætlunar hefur verið virt til þessa. Nú er það brotið þrátt fyrir fagurgala háttsettra stjórnarliða um landgræðslu og landverndarmál.
    Við þessa umræðu og í allri þeirri óvissu sem hér hefur verið lýst er ógerlegt að segja fyrir um lokaafgreiðslu fjárlaga og hvernig niðurstöður fjárlagafrv. líta út þegar það verður tekið til lokaafgreiðslu. Ljóst er að staða þjóðarbúsins út á við fer versnandi, spáð er vaxandi viðskiptahalla og versnandi skuldastöðu okkar gagnvart útlöndum. Greiðslubyrði af erlendum lánum mun þyngjast. Að öðru leyti liggja ekki fyrir við þessa umræðu upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um útreikninga stofnunarinnar á breytingum á þjóðhagsáætlun frá því

hún var lögð fyrir Alþingi. Það er út af fyrir sig í samræmi við venju að slíkir útreikningar eru birtir fyrir 3. umr., enda er ástandið með þeim hætti, óvissa þessara mála öll svo mikil og í svo lausu lofti að það er ógerlegt fyrir Þjóðhagsstofnun á þessu stigi að reikna út afkomuhorfur ríkissjóðs á næsta ári.
    Ég vil þó minna á það hér að því fer vitaskuld fjarri að öll kurl séu komin til grafar í þessu fjárlagafrv. varðandi útgjöld ríkisins á næsta ári, hvort sem þau verða tekin inn í fjárlagafrv. eða ekki. Ég tel t.d. sýnilegt að í frv. vanti 620 millj. kr. til þess að halda niðurgreiðslum óbreyttum í krónutölu út næsta ár. Ég tel einnig sýnilegt að miðað við það að halli á ríkissjóði á þessu ári verði 4,5 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir þegar frv. var samið, þá vanti inn í vaxtagreiðslur ríkissjóðs á næsta ári, um 250 millj. kr., og í afborganir lána vegna þess halla sem hér hefur verið lýst, umfram það sem gert var ráð fyrir þegar frv. var samið, og ef þá væri gert ráð fyrir að hallalán væru greidd niður á sex árum þá þyrfti í afborgun á næsta ári um 750 millj. kr. Í vexti og afborganir af lánum vantar því um 1 milljarð á næsta ári. Þannig eru ýmsir liðir sem enn eru ekki taldir til útgjalda í fjárlagadæminu ef hæstv. ríkisstjórn ætlar sér ekki að loka augunum og leitast við að blekkja almenning í landinu og Alþingi með því að halda þeim til baka. En greiðslurnar falla á ríkissjóð eigi að síður.
    Þá vil ég telja það næsta ótrúlegt að hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn stjórnarliðsins treysti sér til þess að skera niður landbúnaðarframlögin eins og frv. nú ber með sér. Þannig eru ýmis mál, og það mörg stórmál, sem hljóta að verða til umræðu á milli 2. og 3. umr., miklu fleiri mál en hv. formaður fjvn. tíndi hér upp í sínu máli hér áðan sem voru tiltöluleg smámál og aðeins örfá til að mynda af málefnum B-hlutans sem allur bíður 3. umr. Enn eykur þetta á þá óvissu sem er varðandi afgreiðslu frv. við 3. umr.
    Allt þetta dæmi svífur því í raun og veru í lausu lofti við þessa umræðu Þessi óvissa er svo mikil að minni hlutinn flytur engar brtt. sameiginlega við þessa umræðu. Það kann að bíða 3. umr. Fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. flytja heldur enga brtt. við þessa umræðu. Á hinn bóginn lýsir minni hl. fjvn. því yfir í nál. á þskj. 260 að hann telur óhjákvæmilegt að áður en 3. umr. fer fram og fjárlagafrv. verður tekið til afgreiðslu hafi tvennt gerst:
    Í fyrsta lagi að hæstv. ríkisstjórn hafi tekið stefnu og ákvarðanir í efnahags- og atvinnumálum þannig að nýjar forsendur geti orðið grundvöllur að afgreiðslu fjárlaga.
    Í öðru lagi að skattafrv. ríkisstjórnarinnar hafi hlotið afgreiðslu Alþingis þannig að hægt verði að áætla tekjuhlið fjárlaganna.
    Meðan þessi tvö atriði liggja ekki fyrir er fjárlagadæmið allt í uppnámi. Þau eru forsenda fyrir því að afgreiðsla fjárlaga geti farið fram án þess að það verði Alþingi til vansæmdar. Frv., eins og það liggur fyrir nú, byggir á stefnuleysi. Slíkt frv. fær ekki stuðning meiri hl. nefndarinnar og ekki fulltrúa stjórnarandstöðunnar.

    Ég hef þá lokið máli mínu, hæstv. forseti, við þessa umræðu.