Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. 2. umr. um frv. til fjárlaga mun að jafnaði taka lengstan tíma í umfjöllun þessa burðaráss í starfi hvers haustþings. Svo mun eflaust verða að þessu sinni enda þótt ýmislegt sérstakt setji vitaskuld svipmót sitt á starfið í þetta sinn eins og ætíð hlýtur að verða. Í því sambandi er vert að minna á að fjvn. fékk nú óvenju skamman tíma, eins og raunar hefur komið fram í máli manna hér fyrr á þessum fundi, til starfs síns á milli 1. og 2. umr. sem aftur leiddi af þeim skamma tíma sem nýmynduð hæstv. ríkisstjórn hafði haft til þess að undirbúa og leggja fram frv. sitt.
    Nú er þess enn að geta í þessu sambandi að starfsaðstaða fjvn. var flutt í miðju þessu starfi úr Þórshamri, þar sem hún mun hafa verið um langan aldur, út í Austurstræti. Ég tel að sá flutningur allur og umstang í því sambandi hafi svo sem tekist prýðilega og þessi starfsaðstaða öll sé sem best verður á kosið, þó miðað við það að öll starfsemi Alþingis er ekki undir sama þaki enn sem komið er.
    Samstarfið í vinnu fjvn. var gott og ég vil fyrir minn hlut þakka fyrir það samstarf, bæði innan nefndarinnar og taka undir þær þakkir sem hér hafa verið fluttar til starfsfólks nefndarinnar og hinna ýmsu stofnana sem að þessu verki hafa komið. En enda þótt samstarf í fjvn. hljóti eðli máls samkvæmt að vera innan þeirra marka sem ætíð er á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og þess aflsmunar sem þar er á, þá flytur nú nefndin í heild, eins og mun hafa verið mjög oft áður, þær brtt. við 4. gr., sem hér eru fluttar á þskj. 235, við gjaldahlið frv. Þær tillögur eru í heild til hækkunar að upphæð 514 millj. 837 þús. kr., eða 0,7% hækkun frá frv. Mér er til efs að breytingar til hækkunar á gjaldahlið hafi í annan tíma verið öllu minni frá upphaflegu frv. til 2. umr., án þess að ég þekki að vísu þá sögu alveg út í hörgul frá undanförnum árum. Hins vegar tel ég að í þessari staðreynd, aðeins 0,7% hækkun, felist í rauninni almenn viðurkenning, nánast óháð stjórnmálaflokkum, óháð stjórn eða stjórnarandstöðu, á því hve tæpt við stöndum um stöðu og framkvæmd ríkisfjármálanna í heild.
    Staðan í þessum efnum er vissulega alvarleg þannig að allir hljóta að finna til nokkurrar ábyrgðar þegar um þessi mál er fjallað. Ég get hins vegar ekki varist þeirri hugsun, er ég hlusta hér á hástemmdar ræður og sérstaklega undanfarna daga með nokkuð napurri gagnrýni þeirra sem héldu um stjórnvöl hér fyrir fáeinum vikum, að mér finnst stundum vera nokkuð holur tónn í þeirri gagnrýni ef miðað er við þann árangur sem varð af starfi þeirra um stjórn efnahagsmála þjóðarinnar. En sýnu mest er þó ábyrgð þeirra sem streitast við stjórnvölinn, án þess að hirða um að hæstv. ríkisstjórn hafi þann ótvíræða þingmeirihluta sem skipulag okkar um þingbundið framkvæmdarvald skýlaust gerir ráð fyrir. Þessi staða mála er þeim mun alvarlegri sem ríkisfjármálin og raunar efnahagsmál þjóðarinnar í heild eru betur ígrunduð um þessar mundir.
    Vafalaust hefðu flestir aðilar í fjvn. kosið að

tillögur nefndarinnar hefðu getað orðið með öðrum hætti en raun ber vitni og á það vitaskuld ekki síst við um okkur sem skipum stjórnarandstöðuhlutann við þessa afgreiðslu. Hins vegar lít ég svo á að það að nefndin flytur þessar smálegu brtt. í heild, svo sem oftast mun hafa verið, ég lít fyrst og fremst á það sem yfirlýsingu nefndarmanna um það að vilja alls ekki efna til óvinafagnaðar eða ágreinings um þann þátt þessa starfs í þeirri þröngu stöðu sem nú er. Eftir stendur, sem síst ber undan að draga, að verulegur ágreiningur er með mönnum og flokkum um leiðir út úr þeim vanda sem við blasir og er auðvitað öllum augljós.
    Ef brtt. við gjaldahlið frv. eru athugaðar nánar kemur þetta í ljós:
    Við æðstu stjórn ríkisins er brtt. um hækkun sem nemur 2,8%, eða 16,9 millj. kr. Varðandi forsrn. er brtt. tiltölulega léttvæg og lítil, aðeins um 314 þús. kr. til hækkunar. Langmest er hækkunartillaga varðandi menntmrn. eða um 1,5% sem er að upphæð 185,9 millj. kr. Varðandi utanrrn. er nánast ekki um neina breytingu að ræða, 0,3%, 2,3 millj. kr. Varðandi landbrn. er hækkunartillagan um 72,8 millj. kr. eða 2,6%. Varðandi sjútvrn. 4,4 millj. kr., þ.e. 0,3%. Varðandi dóms- og kirkjumrn. hins vegar nokkuð veruleg miðað við umfang þess ráðuneytis, upp á 52,9 millj. kr. eða 1,5%. Varðandi félmrn. er hækkunartillagan 18,5 millj. kr. eða 0,6%. Varðandi heilbr.- og trmrn. er hækkunartillagan nokkur að vægi eða 92,3 millj. kr. en léttvæg miðað við umfang ráðuneytisins, aðeins 0,3%. Varðandi fjmrn. er hækkunartillaga um 9 millj. kr., 0,2%. Og varðandi samgrn. er hækkunartillaga nokkur, 58,8 millj. kr. eða sem nemur 1,1%. En þegar þetta er allt saman tekið þá er þetta aðeins um 0,7% hækkun frá upphaflegu frv.
    Ef hins vegar er athugað í hverju þessar tillögur eru í rauninni fólgnar eða réttara sagt hvers eðlis þær eru kemur í ljós að það fer ekki á milli mála að langmestur hluti þessara brtt. er hækkun á stofnkostnaði og viðhaldi eða um 365 millj. kr. eða 3,6% hækkun á þeim lið. Hækkun launagjalda í þessum tillögum er hins vegar mjög óveruleg eða aðeins um 0,3%, önnur rekstrargjöld um 0,2%.
    Ég sé það á forsíðu eins stjórnarmálgagnsins í dag, Tímans, að mikið er
gert úr þessari hækkunartillögu fjvn., þessari sem aðeins er þó 0,7%. Af því tilefni er ekki úr vegi að líta á annan þátt þessa máls og það er hvernig til hefur tekist um framkvæmd þeirra fjárlaga sem nú eru í gildi fyrir árið 1988 og hér hefur nokkuð borið á góma fyrr í umræðum, bæði hjá hv. formanni fjvn. og hv. 2. þm. Norðurl. v. Fram kom í máli þeirra beggja veruleg gagnrýni á eftirlitshlutverk fjmrn. og mér sýnist að þar sé ekki vanþörf á að bæta úr.
    Öllum er í fersku minni afgreiðsla fjárlaganna 1988 hér á hinu háa Alþingi fyrir tæpu ári með skattbyltingunni og hvað mestri hlutfallslegri hækkun skatta sem enn hafði þá orðið í nánast einni svipan. Mér er í fersku minni hve Stjórnarráðið, nánast öll

ráðuneytin, hugsuðu vel um sig í þeirri tillögugerð allri, fengu þetta 30--90% hækkun í sinn hlut þegar verðlagsforsendur fjárlaganna 1988 voru aðeins 17--18% miðað við fyrra ár. Það fer því ekki á milli mála að miðað við aðra í þjóðfélaginu hefðu ráðuneytin átt að hafa allt sitt á þurru. En hvað kemur á daginn. Þegar fjárlagafrv. fyrir 1989 er lagt fram hér fyrr í haust birtist í því aftanvert skrá um þær aukafjárveitingar sem þar heita útgefnar fjárheimildir frá 1. jan. til 30. sept. 1988 um nokkurn veginn sömu upphæð til hækkunar, nokkurn veginn sömu upphæð og tillaga fjvn. sem hér liggur fyrir í dag til hækkunar á fjárlagafrv. fyrir árið 1989. Þessar aukafjárveitingar, sem þarna höfðu verið ákveðnar smám saman fram eftir ári, námu að upphæð 511 millj. 346 þús. kr. þar sem einungis 36,7 millj. voru samkvæmt heimild í fjárlögum. Þetta kemur hér glögglega fram. Þetta fjárlagaskrið er vitaskuld óviðunandi. Þarna seilist framkvæmdarvaldið inn á svið fjárveitingavaldsins án þess að hirða um þá frumskyldu í þessu efni sem væri útgáfa fjáraukalaga sem kveðið er á um í stjórnarskrá lýðveldisins.
    Ef þessi þáttur málsins er athugaður nánar kemur í ljós að auðvitað er það mjög mismunandi eftir ráðuneytum hvernig þau hafa seilst til í þessu efni. Æðsta stjórn ríkisins hækkar þannig í þessu fjárlagaskriði um 3,4 millj. kr., forsrn. um 11,7 millj. kr., menntmrn. um 65,3 millj. kr., utanrrn. um 41,9 millj. kr., landbrn. um 12,4 millj. kr., dóms- og kirkjumrn. um 2,7 millj. kr., félmrn. um 76,5 millj. kr. og heilbr.- og trmrn. um 238,8 millj. kr., og hafi menn þá í huga að t.d. til skólaframkvæmda í þessu frv., sem hér liggur fyrir til umfjöllunar, er um að ræða fyrir næsta ár mun lægri upphæð, 238 millj. kr. í nánast aukafjárveitingar í þennan eina lið sem þarna er um að ræða á sama tíma og verið er að færa rekstur heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa yfir á föst fjárlög og þau þannig fá sjálfsafgreiðslu í ráðuneytinu meðan nóttin er björt. Fjmrn. fær hins vegar hækkun samkvæmt þessari skrá upp á 2,9 millj. kr., samgrn. um 22,1 millj. kr., iðnrn. 33,9 millj. kr., viðskrn. 4,9 millj. kr. og Hagstofan 4,6 millj. kr. Menn getur líklega rétt rennt grun í hversu virkt eftirlitskerfi fjmrn. er þegar staðreyndir tala svo sínu máli.
    Það er e.t.v. ekki að furða þó að ýmsir og þá sérstaklega framkvæmdarvaldið virði í raun fjárlög lítils í framkvæmd, eins og þessar upplýsingar óneitanlega benda til, þegar það er að auki haft í huga að árum saman mun það hafa verið svo að í ákveðnum hluta fjárlaganna ár hvert er langur kafli af upptalningu hinna ýmsu lagagreina sem ekki koma til framkvæmda það og það fjárlagaárið. Bandormurinn, sem svo er gjarnan nefndur, er vitaskuld einnig til staðar í því frv. sem við fjöllum um hér til fjárlaga fyrir árið 1989. Þegar nánast hver liður hans er athugaður nánar, þá kemur í ljós að það er verulegur munur á því sem út úr fjárlagafrv. kemur eða ef svo væri að lagaheimildirnar yrðu virtar.
    Tökum fyrst t.d. Stofnlánadeild landbúnaðarins. Ef lagaheimildir um Stofnlánadeild landbúnaðarins væru

virtar, a.m.k. eftir tillögum fagráðuneytisins, þá ætti í fjárlagafrv. að standa 46 millj. kr. Þær eru hins vegar einungis 39 í frv. Mismunurinn er 7 millj. kr. Ef lagafyrirmæli um Bjargráðasjóð yrðu framkvæmd í þessu fjárlagafrv. ætti þar að standa 56 millj. kr. í Bjargráðasjóð, en í frv. er ekki ein einasta króna. Ef lagaheimildir um Hafnabótasjóð væru framkvæmdar ætti að standa í frv. 66 millj. kr., en eru einungis 25 þannig að mismunurinn til þessa þáttar er 41 millj. kr. sem ekki kemst til skila vegna bandormsins. Ef lagafyrirmælin um Iðnlánasjóð væru í gildi, þá væru í fjárlagafrv. til þess málaþáttar 100 millj. kr. en er engin í frv. Ef lagafyrirmælin um Ferðamálaráð væru virt, þá væri fjárveitingin 109 millj. kr. en í frv. er einungis 28 millj. kr. fjárveiting til þess þáttar. Mismunurinn er 81 millj. kr. Ef lagafyrirmæli um Kvikmyndasjóð væru virt væri fjárveitingin 110 millj. kr. en í frv. er aðeins um að ræða 71 millj. kr. Mismunurinn er 39 millj. kr. Það er að vísu Menningarsjóður einn sem fær skv. lagaheimild það sem honum ber, hann fær 11 millj. kr. eins og lög standa til. Forfalla- og afleysingaþjónusta bænda er að vísu greidd af Stofnlánadeild. Þar ættu samkvæmt gildandi lagaheimildum að vera 48 millj. kr. en er ekki sérgreint í frv.
    Atvinnuleysistryggingasjóður hefur mjög verið til umræðu að undanförnu, ekki síst vegna þess að hann blandast inn í nýstofnaðan Atvinnutryggingarsjóð. Ef Atvinnuleysistryggingasjóður fengi allt sem honum ber samkvæmt lögum fengi hann 531 millj. kr. en fær aðeins í þessu frv. 277 millj. kr. Munurinn er 254
millj. kr. Þannig má í rauninni telja hvern sjóðinn á fætur öðrum. Félagsheimilasjóður ætti t.d. samkvæmt sínum lögum að fá 58 millj. kr. en fær einungis í frv. 15 millj. kr. þó að vísu sé um að ræða brtt. frá fjvn. upp í 21 millj. kr. Framlög til jarðræktarlaga ættu samkvæmt gildandi lögum um þau að nema 288 millj. kr. en eru aðeins 100 millj. kr. í frv., mismunurinn 188 millj. kr. Ef búfjárræktarlög væru virt ættu þau að fá 62 millj. kr. í fjárlögum en fá ekki krónu.
    Þannig er þetta koll af kolli. Síðast má nefna í þessu sambandi ekki ómerka löggjöf frá síðasta þingi, lög um framhaldsskóla, sem hefði, ef fjármálakaflinn væri virtur, 200 millj. kr. framlag. Þegar þetta er allt saman tekið, þá er þetta um 1 milljarður 224 millj. kr. sem ekki eru í þessu frv. vegna þess að ekki færri en 13--15 lagaákvæði eru ekki virt. Síðan furða menn sig á því að menn virði illa fjárlög.
    Varla verður undan því kvartað að við Íslendingar höfum í nokkru sparað mannahald og annan tilkostnað við stjórn efnahagsmála ríkisins og þar með að verulegu leyti þjóðarinnar í heild þannig að af þeim sökum einum ætti árangur í þessum efnum að vera með glæstara móti. Auk fjmrn. sjálfs með sérfræðingum á flestum sviðum fjármálastjórnar eru stofnanir eins og Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Ríkisendurskoðun, Hagstofa Íslands, Þjóðhagsstofnun önnum kafnar við upplýsingaöflun og ráðgjöf um öll svið þessa verkefnis. Enn fremur má nefna í þessu sambandi Seðlabankann sjálfan og allar hans deildir,

en þar á bæ hefur verið húsað upp af myndarskap eins og alþjóð er kunnugt svo að starfsaðstaða ætti a.m.k. að vera með besta móti þar.
    Sorglegur verður hins vegar að teljast árangurinn af allri þessari viðleitni þegar framkvæmd fjárlaga ársins 1988 er gaumgæfð. Afkomuhorfur A-hluta ríkissjóðs voru samkvæmt fjárlögunum 1988 og samkvæmt lögum nr. 10 frá 1988, sem bætti nokkuð um betur í því efni, rekstrarafgangur að upphæð um 53 millj. kr. Samkvæmt áætlun fjmrn. í júní 1988 sýndi afkoman hins vegar halla um 700 millj. kr. sem að vísu var nokkuð þráttað um hér á haustdögum. Um líkt leyti var áætlun Ríkisendurskoðunar á sama veg en þó snöggtum meiri halli eða um 1800 millj. kr. Urðu nú átök hörð innan búðar í Stjórnarráðinu og jafnvel í beinum útsendingum og fylgdu svo stjórnarskipti í kjölfar. Og næst þegar spurnir urðu af ríkisfjármálum leit dæmið þannig út:
    Samkvæmt áætlun fjmrn. í október 1988 var hallinn nú áætlaður 2981 millj. kr., 3 milljarðar, en Ríkisendurskoðun þótti á þeim tíma þar síst of í lagt og áætlaði hallann tæpa 5 milljarða, 4760 millj. kr. Og jafnvel nú um miðjan desember verður ekki séð hverjar lokaniðurstöður verða í þessu dæmi. Nú er jafnvel rætt um að hallinn samkvæmt upplýsingum frá hæstv. fjmrh. og jafnvel frá hæstv. sjútvrh., sem leysti hæstv. forsrh. af hér á dögunum í miklum önnum hans, verði í árslok nokkuð á sjöunda milljarð kr. Það er ekki úr vegi að menn ígrundi einmitt nú þegar enn er reynt að leggja grunn að fjárlögum næsta árs hverjar voru hinar raunverulegu orsakir ófaranna í fjárlagaframkvæmdinni 1988. Og er þá í því sambandi miðað við þær upplýsingar einar nokkurn veginn sæmilegar haldbærar sem öruggar geta talist frá Ríkisendurskoðun frá því í októberbyrjun eða laust eftir myndun hæstv. ríkisstjórnar. Án efa má telja meginástæðurnar tvær:
    Í fyrsta lagi að við afgreiðslu fjárlaganna 1988 var reiknað með óbreyttu gengi krónunnar út þetta ár, en þróun í þeim efnum hefur reynst um 15% gengislækkun. Í annan stað er um að ræða að almennt verðlag hækkaði um 8% umfram forsendur fjárlaganna 1988.
    Af þessum tveimur ástæðum m.a. hafa gjöld í ríkisrekstrinum hækkað fram að þessum tíma sem ég áðan tiltók um 1 milljarð 700 millj. kr. umfram verðlagsforsendur fjárlaganna 1988. Meiru skiptir þó að tekjur ríkissjóðs hafa brostið um sem nemur 3,1 milljarð kr. umfram það sem fjárlög ársins 1988 gerðu ráð fyrir. Og þegar hvort tveggja þetta var saman lagt var niðurstaðan 4,8 milljarðar kr. eins og staðan var um stjórnarskiptin eftir áliti Ríkisendurskoðunar.
    Þegar þessi tekjubrestur ríkissjóðs er hins vegar athugaður nánar kemur þetta í ljós:
    1. Innheimta beinna skatta í staðgreiðslukerfinu skilaði þá miðað við þessar upplýsingar um 600 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga.
    2. Ýmsir minni liðir í tekjuáætlun fjárlaga 1988 skiluðu einnig tekjuauka að upphæð um 200 millj. kr. Það fer sem sagt ekkert á milli mála að

staðgreiðslukerfið sem slíkt lánaðist, það lánaðist prýðilega í framkvæmd og það held ég að enginn efist um.
    3. Aðflutningsgjöldin reynast hins vegar um 500 millj. kr. lægri en ráð var fyrir gert.
    4. Vörugjaldið skilaði einungis um 60% af því sem reiknað hafði verið með eða um 700 millj. kr. lægri upphæð en fjárlög gerðu ráð fyrir.
    5. Út yfir tekur þó að sölugjaldið sem flest orð féllu nú um hér á síðasta þingi, bæði til lofs og lasts, skilar um 2,7 milljörðum kr. lægri upphæð í ríkissjóð en fjárlög ársins 1988 gerðu ráð fyrir.
    Augljóst er að almennur veltusamdráttur í þjóðfélaginu veldur miklu um þá neikvæðu breytingu sem hér hefur á orðið og innheimta hefur af þeim ástæðum einnig orðið erfiðari en ella. Hins vegar verður ekki undan því vikist að horfast í augu við þá staðreynd, sem er lokaniðurstaða í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þessi efni, og ég bið menn að taka eftir því að það er skýrsla Ríkisendurskoðunar, það er enginn pólitískur aðili sem er að kveða upp sinn dóm í þeirri ályktun, en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í öðru lagi virðast þær umtalsverðu breytingar sem gerðar voru á helstu tekjustofnum ríkissjóðs ekki hafa skilað þeim tekjum sem að var stefnt.``
    Ég held hins vegar að það fari ekki á milli mála, og er raunar samdóma álit í flestum stjórnmálaflokkum, að framkvæmd staðgreiðslukerfis skatta lánaðist í flestri grein og reynslan af því kerfi í heild muni reynast góð þegar til lengdar lætur. Deiluefnið er hins vegar söluskatturinn, skattprósentan --- hin geysiháa skattprósenta, 25% --- og framkvæmd hans og skil. Afstaða Borgfl. til matarskattarins er vel kunn og hefur ekki breyst í neinu. Ég er jafnsannfærður um það nú og fyrir ári að þetta geysiháa hlutfall á sinn þátt í því hve illa hefur til tekist með innheimtu þessa aðaltekjustofns ríkisins.
    Mig langar líka að minnast á það rétt hér í leiðinni að fyrir örfáum dögum fengum við upplýsingar í fjvn. frá fulltrúa fjmrn. um það að tekjubresturinn, þessi tekjubrestur í innheimtu ríkisteknanna, nemur um 5,5%, ekki minna, sem er engin smáupphæð. Þegar svo aftur haft er í huga að þjóðarútgjöldin dragast einungis saman um 1 / 2 % getur hver hugsað fyrir sig hvað þarna ber á milli. Betri skil vegna einnar skattprósentu hafa sem sagt alls ekki skilað sér og þar er veltusamdrátturinn alls ekki eina haldbæra skýringin.
    Auk þess hefur hinn hái matarskattur lamað einn viðkvæmasta vaxtarbrodd atvinnulífsins, ferðaþjónustuna. Ætli það sé tilviljun að nú seinni hluta þessa árs, 1988, er í fyrsta sinn til fjölda ára bein fækkun erlendra ferðamanna til landsins á meðan Íslendingar fjölga enn ferðum sínum til annarra landa? Mér blandast ekki hugur um að þarna sé samband á milli, a.m.k. segir ávöxtur matarskattarins til sín. Annars finnst mér það gegna nokkurri furðu hve lítið menn hafa í raun rætt það á hinu háa Alþingi í haust hver meginástæðan sé raunverulega fyrir hinum

hrikalega tekju- og innheimtubresti hjá ríkissjóði og þá sérstaklega hvernig við skuli bregðast. Vitaskuld er það öðru fremur hlutverk hæstv. ríkisstjórnar að móta stefnu í því efni og síst ber þar undan að draga að skattafrv. þau sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram á hinu háa Alþingi miða vitaskuld að því að ná endum saman og raunar snöggtum betur. Það viðhorf og stefnumið að skila ríkissjóði hallalausum og helst með tekjuafgangi hefði betur mátt vera virkara markmið stjórnvalda þegar flest lék í lyndi um hagvöxt og atvinnulíf. Af því hve illa tókst þá til um hagstjórn og einkum stjórn ríkisfjármála súpum við nú seyðið.
    Við 2. umr. um frv. til fjárlaga einbeita menn sér gjarnan að 4. gr. frv., gjaldahliðinni, eins og eðlilegt er og siðvenja mun vera. Ákvörðun og meginumræða um tekjuhliðina, B-hluta stofnanir og 6. gr., heimildagreinina, mun að venju verða við 3. umr. Ég gat þess þegar við 1. umr. að mér fyndist og raunar óttaðist að sömu einkenni væru um of á þessu frv. og á frv. til fjárlaga 1988. Enda þótt í viðaukaskjali frá meiri hl. fjárveitinganefndar sem hér hefur verið kynnt fyrr á fundinum og er í raun tilkynning frá hæstv. ríkisstjórn um heildarniðurskurð frá frv., eins og það var lagt fram í haust, um 1218 millj. kr. sem er vitaskuld vegna þeirrar ískyggilegu þróunar sem æ betur hefur verið að koma í ljós undanfarna daga, þá er að mínu viti enn ekki hreyft að marki við því hættumerki sem ég vakti athygli á við 1. umr. Ég er þó þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt verði að ganga lengra í þá átt, sem þarna er þó byrjað á, við þær aðstæður sem nú ríkja.
    Lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs er áætluð 4,7 milljarðar kr., sem er að vísu einungis 12% hækkun frá því í ár. Í B-hluta er hins vegar bætt um betur. Þar er reiknað með 9,3 milljarða kr. lánsfjárþörf vegna byggingarsjóðanna, eða um 50% hækkun frá því sem er í ár. Allir þekkja síðan hvernig ætlað er að ávaxta það fé og hvar meginhluti þeirrar fjárfestingar fer fram, og sjálfsagt í leiðinni þjóðhagslegt gildi þeirrar fjárfestingar.
    Þegar lánsfjárþörf annarra opinberra sjóða, sem vitaskuld tengjast fjárlögum ríkisins og sumir kalla raunar C-hlutann, er athuguð kemur í ljós að þar er gert ráð fyrir 6,8 milljarða kr. lánsfjárþörf eða 78,9% hækkun frá því í ár. Samanlögð er öll þessi lánsfjárþörf 20,8 milljarðar kr. miðað við 14,2 milljarða kr. í fjárlögum 1988, eða 46,8% hækkun. Það er þessi pólitík sem að minni hyggju eru hættumerkin. Hættumerkin um að örðugt muni reynast að hemja verðbólgu og hafa stjórn á almennri efnahagsþróun eftir 15. febrúar á næsta ári a.m.k., nema að því tilskildu að mikill meginhluti þessa fjármagns fari til þess að treysta útflutningsgreinarnar og þar með arðbæra undirstöðu þessa þjóðfélags.
    Í ár var stefnt að rösklega 4 milljarða kr. viðskiptahalla, var gert ráð fyrir skulum við segja, eða sem svaraði 6--7% tekna ríkissjóðs. Reyndin varð
u.þ.b. þreföldun eða nær 12 milljarðar kr., sem var rösklega 18% tekna ríkissjóðs. Í áætlun og markmiðum núv. hæstv. ríkisstjórnar er reiknað með

svipaðri útkomu að ári. Í þessari staðreynd og ekki síður í þessu markmiði um svo gífurlegan viðskiptahalla er fólginn kjarninn í meginvanda ríkisbúskapar Íslendinga í dag.
    Það ræðst að vísu ekki við þessa 2. umr. um fjárlagafrv. hvort stefnubreyting verður um tillögugerð er breyta kynni þeirri ætlan sem ég hef lítillega drepið á. Trúa mín er þó sú að ekki væri vanþörf á að við 3. umr. kæmu fram tillögur er miðuðu að raunhæfri breytingu um markmið í þessu efni þannig að takast mætti að hverfa frá síauknum viðskiptahalla og því öngþveiti sem af honum óhjákvæmilega leiðir.
    Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti, og þakka fyrir.