Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki flytja langt mál enda er það ástæðulaust. Ég get vísað í ræðu formanns fjvn. fyrr við þessa umræðu þar sem fram kemur, m.a. í nál. á þskj. 244, það sem máli skiptir í sambandi við skýringar við þessa 2. umr. fjárlaga.
    Ég vil einnig vitna í ræðu sem ég flutti við 1. umr. þar sem ég kom mjög inn á viss atriði sem eru að sjálfsögðu gagnrýnisverð í okkar fjárlagagerð og hafa verið gegnum árin og nokkuð hefur verið komið inn á í þessari umræðu af öðrum hv. þingmönnum. Sjálfvirknin sem er í ríkiskerfinu að verulegu leyti hefur vaxið ár frá ári og gert stjórn fjármála ríkisins erfiðari með hverju árinu sem líður og dregist hefur að takast á við þessi mál. Að sjálfsögðu er það rétt gagnrýni sem hér hefur komið fram að eftirliti með þessu kerfi í fjmrn. er vart hægt að koma við nema með mjög róttækum breytingum. Ég tel ástæðu til að taka undir það að full þörf er á að menn taki höndum saman um að breyta þessu þannig að yfirbygging íslenska ríkisins eða fjármálakerfi ríkisins verði ekki meira en orðið er. Skipulega þarf að draga úr því þannig að það verði ekki ofviða svo litlu þjóðfélagi sem okkar sem þarf að leggja aðaláherslu á uppbyggingu atvinnulífsins í landinu og þá undirstöðu lífsafkomu okkar hér á Íslandi sem allir geta viðurkennt.
    Ég vil aðeins segja í sambandi við það sem hér hefur komið fram að ég tel að vandi þjóðfélagsins sé slíkur í dag að hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu hljóti þeir að átta sig á því að fallast verður á nauðsyn aðgerða og slíkar aðgerðir er ekki hægt að gera nema með auknu fjármagni. Ég held að allir hugsandi menn átti sig á því og til þess að ná því fjármagni verður að gera tvennt: auka tekjur ríkissjóðs og jafnhliða að skera niður útgjöld ríkissjóðs og framkvæma skipulagsbreytingar sem fela beinlínis í sér að minnka yfirbygginguna. Þetta held ég að menn þurfi ekki að deila um í raun og veru, svo augljóst er málið og svo oft er búið að ræða um þetta hér. Við verðum að finna þetta jafnvægi sem er svo mikilvægt, og jafnvel mikilvægara fyrir íslenskt þjóðfélag heldur en fyrir milljónaþjóðir í kringum okkar, til þess að ná því öryggi í þjóðarbúskapnum sem gerir það að verkum að hér sé gott að eiga heima og lifa við algjört frelsi á flestum sviðum í mannlegum samskiptum.
    Ég vil af þessu tilefni taka undir ræðu hv. 6. þm. Suðurl. sem mér fannst raunhæf og segja í raun og veru það sem margir hv. stjórnarandstæðingar vildu gjarnan segja en gera ekki við þessar aðstæður.
    Ég gagnrýndi það í minni ræðu við 1. umr. fjárlaga að erfitt væri að þurfa að viðurkenna þá staðreynd að sú breyting sem gerð var á tekjukerfi ríkisins að því er varðar söluskatt skyldi mistakast. Forsendur fyrir þeirri breytingu voru fyrst og fremst þær, eins og hv. þingmenn vita, að fella niður undanþágur sem gerðu það að verkum að erfitt var að hafa eftirlit með þessum gjaldstofni. Niðurstaðan á fyrsta árinu var slík að ljóst var að þetta hafði mistekist. Með auknum

upplýsingum um stöðu þessara mála kemur í ljós hvernig þessi stærsti tekjustofn ríkisins ætlar að minnka og minnka og það kemur einmitt í ljós enn þá meiri veila og ný veila sem menn hafa ekki tekið eftir áður. Fyrirtæki sem fara með þessa innheimtu fyrir ríkið taka peninga í stórum stíl af neytendum og skila þeim ekki þangað sem þeir eiga að fara. Í vaxandi mæli iðka þau nýja aðferð til þess að komast hjá þessari greiðslu og því að standa ábyrg gerða sinna. Fyrirtækin eru gerð gjaldþrota vegna uppsöfnunar á fjármagni sem átti að skila. Þessir sömu aðilar stofna síðan ný fyrirtæki og halda áfram rekstri eins og ekkert hafi í skorist en gjaldþrota fyrirtækið situr eftir og getur ekki borgað það sem það hafði átt að gera. Þetta er ábyrgðarlaust og ríkið tapar peningunum, peningunum sem þessir aðilar höfðu látið fólkið, neytendur, borga við búðarkassann. Þetta er ástand sem ég vil sérstaklega undirstrika við 2. umr. fjárlaga vegna þess að það hefur komið inn í umræðuna fyrr í dag og er eitt af stóru meinunum í okkar viðskiptaheimi í dag á Íslandi og getur ekki gengið. Þetta ástand hefur áhrif á ríkisfjármálin eins og allir hv. þingmenn hljóta að átta sig á. Þessu verður að breyta.
    Það væri hægt að ræða margt um stöðuna í fjárlagadæminu eða meðferð fjárlaga. Ég ætla að spara tíma og gera það ekki. Ég vil aðeins vitna í það sem áður hefur komið fram. Við vitum að þessi breytta staða er augljós og almenningur í landinu veit um þetta. Mér þætti furðulegt ef hv. þingmenn fara að halda langur ræður um að þetta sé einhverri ríkisstjórn að kenna sem aðeins hefur starfað í tvo mánuði. Það er ekki svo. Það væri ágætt ef hægt væri að kenna nýrri ríkisstjórn sem hefur starfað í 8 vikur um það sem hér hefur orðið. Þetta eru ýmsar afleiðingar sem þarf ekki að rekja hér. Þær eru ljósar alþjóð og stafa bæði af ytri og innri ástæðum og hægt væri að flytja langt mál þessu til rökstuðnings en ég hélt að við þessar umræður þyrfti þess ekki.
    Ég verð að segja það alveg eins og er í sambandi við ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v. að ég verð alltaf undrandi þegar ég hlusta á það í umræðum á Alþingi, bæði nú í sambandi við tekjuöflunaráform núv. ríkisstjórnar og eins núna við umræður um fjárlög, að menn sem hafa borið fulla ábyrgð á fjármálum
ríkisins undanfarin ár eru að reyna að segja það hér blátt og kalt að þetta ástand í dag stafi af þessari ríkisstjórn sem hefur starfað í tvo mánuði. Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði að það vantaði stefnu í fjárlagafrv. fyrir árið 1989. Auðvitað getum við verið sammála um að gott væri að geta lagt fram fjárlagafrv. við þessar aðstæður sem væri svo fast formað að við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af því að það mundi ekki standast í öllum atriðum reynslu næstu missira. Við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að það hefði ekki verið alveg pottþétt næst þegar við ákveðum fjárlög. En hvernig var með fjárlagafrv. 1988? Var stefnan í því alveg 100%? Við hv. þingmenn stóðum að því fjárlagafrv. og verðum fúslega að játa að stefnan í því fjárlagafrv. var röng.

Ég verð einnig að segja það við hv. sjálfstæðismenn sem eru staddir í þessari deild að ég er undrandi á því að þeir séu að tala um að það skorti aðgerðir, það skorti stefnu í atvinnumálum og að það skorti að marka stefnu í fjármálum þjóðarinnar. Ætli það hafi ekki skort á það hjá einhverjum stjórnendum þjóðarinnar á undanförnum mánuðum að taka við sér þegar ástandið var orðið slíkt að gera þurfti ráðstafanir og það raunar strax í byrjun þessa árs? Hverjir vildu ekki gera róttækar ráðstafanir? Ég held að svarið liggi ljóst fyrir. Það voru einmitt þeir sem stjórnuðu efnahagsmálum í þeirri ríkisstjórn og væri hægt að rekja það nánar ef menn vildu. Ekki skorti tillögurnar um að gera hlutina í tíma, en það var ekki fallist á það. Ég held því að við ættum að spara okkur þær umræður núna við þessa fjárlagagerð en snúa okkur að vandanum sem ljóst er að er fyrir hendi og allir þjóðhollir Íslendingar hljóta að taka höndum saman um að leysa.
    Við þessa fjárlagagerð var þröngt svið, það er hægt að játa það. Við sem höfum starfað í þessari nefnd og starfað saman, hvort það hefur verið meiri hl. eða minni hl., höfum lagt á það áherslu að reyna að verja ákveðna þætti sem við töldum að mætti ekki skerða, a.m.k. ekki svo mikið að það gæti orðið tjón að. Þess vegna höfum við varið framkvæmdafjárlögin eins og við höfum mögulega getað, bæði í sambandi við skóla, sjúkrahús, hafnir og annað slíkt, þó að fjármagnið hefði að sjálfsögu þurft að vera meira, en það hefur tekist. Þrátt fyrir þörfina á enn þá meiri niðurskurði hefur núv. ríkisstjórn fallist á það sjónarmið nefndarinnar allrar að verja þessa þætti og það hefur tekist.
    Auðvitað er ljóst, virðulegi forseti, að við eigum mikið starf enn fyrir höndum í fjvn. að fara yfir mál fyrir 3. umr. fjárlaga. Við eigum eftir að fara yfir B-hluta stofnanir og ýmis viðkvæm mál sem hér hafa aðeins verið nefnd eru enn úti. Við getum alveg fallist á að það eru mörg atriði að því er snertir landbúnað á Íslandi sem eru ófrágengin. Við eigum eftir að átta okkur á því hvað er hægt að gera til að ekki sé vegið beint að bændum landsins sem starfa eftir lögum og eftir ákveðnum samningum sem gerðir hafa verið við þá. Við verðum auðvitað að átta okkur á því hvað við getum gert til þess að ríkið standi við slíka samninga, a.m.k. þannig að ekki sé alveg myrkur fram undan. Bændur landsins eiga heimtingu á því. Og auðvitað þurfum við að skoða jarðræktarframlögin, búfjárræktarlögin, búnaðarsamböndin sem treysta á þann stuðning sem þau hafa haft í gegnum tíðina og gera ráð fyrir að það haldi áfram.
    Svo er einnig með Vegagerð ríkisins. Ég tel að við getum ekki skilið við Vegagerðina alveg á einfaldan hátt með því að taka af henni tekjustofnana. Við vitum það ósköp vel að fyrrv. ríkisstjórn, það var upplýst af hæstv. þáv. samgrh. hér í ræðustól á Alþingi, rétt fyrir þinglok í vor að hann gæti ekki gefið nokkur svör um það hvernig ætti að standa að fjármögnun í sambandi við jarðgöngin í Ólafsfjarðarmúla, jarðgöng sem búið er að gera

verksamninga um til loka en vantar allt fjármagnið. Þetta mál er jafnóljóst í dag eins og það var þá, þannig að við eigum eftir að ræða mikilvæg mál í sambandi við vegamálin og ég ætla ekki að fara nánar út í það.
    Ég vil aðeins að lokum víkja aftur að því sem ég kom inn á við 1. umr. þessa máls að ég tel að ein af þeim betri ákvörðunum sem hafa verið teknar hér á hv. Alþingi hafi verið þegar Ríkisendurskoðun var flutt til Alþingis. Ég er alveg viss um það að Ríkisendurskoðun á eftir að hafa bein áhrif á það að meðferð fjármála og fjárlaga ríkisins verður allt önnur en hún hefur verið áður. Við nálgumst það smátt og smátt að ríkisreikningar verði tilbúnir á réttum tíma og að gefin verði út fjáraukalög eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir þegar þess er þörf, nægjanlega tímanlega þannig að þessi mál séu í föstu formi sem er mikilvægt fyrir fjármálastjórn ríkisins.
    Ég held þess vegna að þessi mál séu í góðum farvegi, en ég hlýt að setja fram þá hugmynd sem oft hefur verið til umræðu meðal manna, þó ekki hafi verið hér inni á hv. Alþingi, að það gæti verið eðlilegt að fara að huga að því hvort við eigum ekki að breyta fjárlagaárinu þannig að miðað verði við t.d. 1. mars ár hvert eða 1. sept. en ekki við 31. des. eins og nú er. Mér finnst einhvern veginn í gegnum þá reynslu sem við höfum fengið í sambandi við fjárlagagerðina að það sé full ástæða til þess að fara að hugsa þetta. Þetta er víða gert í öðrum löndum. Það sem mælir með þessu er að upplýsingar um ástand þjóðmála og ástand fjármála hér á landi eru ekki tilbúnar, raunhæfar, á
þeim tíma sem fjárlög eru oftast afgreidd, þ.e. í desember. Þetta er reynsla sem við höfum gengið í gegnum og hefur sýnt okkur að tölur sem við erum með í dag fyrir áramót breytast jafnvel yfir áramótin. Ég tel að það sé fullkomin ástæða til að hugleiða þetta mál þó að það sé óviðkomandi fjárlagaafgreiðslu nú.
    Ég vil einnig taka undir það sem hér hefur komið fram í umræðunni að aukafjárveitingar þarf að gera útlægar úr fjárlagadæminu í því formi sem þær hafa verið. Ég sé að hv. 6. þm. Suðurl. er ekki í salnum, en hann hefði átt að geta lesið fjárlagafrv. eða greinargerð um aukafjárveitingar 1988 og að því er varðar heilbrrn. hefði hann getað séð það að þessi háa upphæð sem þar er er að meginhluta til vegna eins máls, þ.e. Landakotsspítalans, sem var ekkert leyndarmál og þá er ég um leið að bera í bætifláka fyrir fyrrv. hæstv. fjmrh. Það var mál sem varð að leysa og það var gert fyrir opnum tjöldum þannig að öll þjóðin vissi hvað þar var á ferðinni.
    Ég vil svo að lokum segja það að það er mín skoðun að brýn nauðsyn sé að afgreiða þessi fjárlög núna fyrir jól. Miðað við stöðu þjóðarbúsins og með tilliti til ýmissa mikilvægra atriða í fjárlögum tel ég að það væri mjög skaðlegt ef fjárlög fyrir árið 1989 yrðu ekki afgreidd fyrir áramót. Ég held að þetta sé mjög brýnt og þarf ekki að færa frekari rök fyrir því. Við vitum hvað fjárlögin eru mikill viðmiðunarstaðall

í okkar fjárhagskerfi, við höfum næga reynslu fyrir því.
    Ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta frekar efnislega, við eigum eftir að fjalla um þessi mál við 3. umr. og fyrir 3. umr. og þarf að skoða og takast á um ýmsa þætti. Ég þakka fjvn., formanni fjvn. og fjárveitinganefndarmönnum öllum fyrir mjög gott samstarf við þessar óeðlilegu og óvæntu aðstæður sem hafa verið í nefndinni þennan stutta tíma sem liðinn er frá því að hún tók til starfa. Og ég vil þakka fyrir það hvað bæði stjórnarandstaða og stjórnarþingmenn hafa verið samhentir við þessar aðstæður að reyna að koma frv. saman í þeim tilgangi, sem breyttar aðstæður hafa augljóslega kallað á, að draga úr hækkunum eins og hér hefur komið fram, sem eru miklu, miklu minni en nokkurn tíma hafa verið áður við fjárlagagerð í fjvn., og reyna að finna úrræði með hæstv. ríkisstjórn til þess að ná saman endum í mörgum veigamiklum málum og að því verður unnið áfram. Ég vil einnig þakka Ríkisendurskoðun og Fjárlaga- og hagsýslustofnun og starfsmönnum þeirra fyrir ágætt og traust samstarf.
    Ég vona svo, virðulegi forseti, að hægt verði að flýta þessari afgreiðslu við 2. umr. þannig að fjvn. geti sest á rökstóla til þess að ræða málin með ríkisstjórn fyrir 3. umr.