Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Þingheimi hefur gefist kostur á því á þessum degi að sjá áhuga ríkisstjórnarinnar og stjórnarliðsins fyrir fjárlagafrv. Það vill svo til að þegar fulltrúi Alþb. í fjvn. var að ljúka hér máli sínu þá er þingsalur tæmdur. Í mestallan dag hefur varla sést hér nokkur liðsmaður ríkisstjórnarinnar. Ráðherrarnir hafa rétt drepið hér inn nefi, m.a.s. fjmrh. sjálfur er hættur að gefa sér tíma til þess að fylgjast með umræðunni. Það er vert að minna á það sem fram kom í byrjun þingsins þegar fjmrh. leitaði m.a. eftir því við stjórnarandstöðuna að komið yrði hér á greiðari leið á milli stjórnkerfisins og Alþingis. Hann leitaði m.a. eftir áliti okkar fjárveitinganefndarmanna Sjálfstfl. og formanns þingflokksins í þeim efnum. Það væri áreiðanlega góð lexía ef hæstv. fjmrh. færi með einhvern pistil úr þeim boðskap fyrir samráðherra sína í ríkisstjórninni og stjórnarliðið ef það skyldi verða til þess að frekar kæmi fram hver virðing þeirra er fyrir þessari umræðu sem hér fer nú fram og sem er að sjálfsögðu ein allra mikilvægasta umræðan í starfi hvers þings.
    Þetta vil ég alveg sérstaklega árétta og ég legg áherslu á, virðulegur forseti, að ef fjmrh. hefur ekki möguleika á því að vera hér í salnum á meðan ég flyt ræðu mína, m.a. vegna þess að ég tala nokkuð til hans, verð ég að óska eftir því sérstaklega að þessum fundi verði frestað þar til að ráðherrann hefur tíma og möguleika á því að fylgjast með umræðunni.
    Menn hafa orðið vitni að allri þeirri umræðu sem fram hefur farið um bágan hag ríkissjóðs og hvert stefnir í þeim efnum. Sú umræða er ekki ný af nálinni. Ég hygg að um margra ára skeið, kannski áratuga skeið, hafi verið leitast við að mæta þeim aðstæðum með því að skera niður lífsnauðsynlegar framkvæmdir, einkum úti á landsbyggðinni, og jafna síðan dæmið með því að leggja á nýja skatta. Það er þess vegna afar þýðingarmikið að líta á hvernig til hefur tekist í þessum efnum. Hvernig menn hafa náð fram þeim markmiðum að fá jöfnuð í ríkisfjármálum með því að spara lífsnauðsynlega framkvæmdarliði í skólamálum, hafnamálum og í heilsugæslu og með því að hækka skatta í landinu. Eftir að búið var að skera svo að segja af framkvæmdarliðina hafa menn alveg sérstaklega gripið til þess ráðs að snúa sér að landbúnaðinum. Þar væru þær matarholur fyrir hendi sem hægt væri að kroppa úr. Það er að sjálfsögðu of mikið mál að fara yfir það hér hvernig þróunin hefur verið í útgjöldum landbúnaðarins á síðustu árum. Ég hygg að það sé með nokkuð öðrum hætti heldur en annars staðar gerist í útgjöldum ríkisins. Það er líka fróðlegt að sjá hvernig þessi sömu mál hafa þróast í öðrum greinum. Ef bornar eru saman niðurstöður ríkisreiknings fyrir árið 1986 og það fjárlagafrv. sem hér er til umræðu til fjárlaga fyrir árið 1989 þá nemur aukning ríkisútgjalda á þessu tímabili 64%. Það hittist vel á að hæstv. landbrh. skuli vera að ganga í salinn. ( Gripið fram í: Hann hefur fundið á sér að þú værir að tala.) Ég átti ekki neitt sérstakt erindi við ráðherrann, en ég veit að hann hefur jafnmikinn áhuga

á því og ég að rétt sé frá sagt þegar fjallað er um þróun ríkisútgjalda og málefna landbúnaðarins.
    Ég var að segja frá því að á þessu tímabili, þ.e. á milli ríkisreiknings fyrir 1986 og fjárlagafrv., nemur hækkunin 64%. Útgjöld ríkisins til landbúnaðarins á þessu tímabili hafa hins vegar hækkað um 57% og hefur sparnaður í þeirri grein þannig orðið u.þ.b. 100 millj. kr. Ef litið er hins vegar á þróunina í fjmrn. kemur annað í ljós. Þar hafa útgjöld á milli þessara ára hækkað um 87% og útgjaldaaukningin sem fjmrn. tekur til sín er um 400 millj. kr.
    Fyrrv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson, hvar sem hann kann að vera staddur í heiminum . . . --- Auðvitað hefur formaður fjvn. skotið sér til hliðar. Nú, hann er kominn í dyrnar. Mér leiðist að tala á bak mönnum. --- Fyrrv. fjmrh. hefur talað mikið um það á undanförnum árum hversu mikið óhóf væri í landbúnaðinum og hversu mikil eyðsla væri í þeirri grein. Í fyrravetur héldu allir málsvarar Alþfl. því fram í meiri háttar umræðum sem fram fóru á Alþingi að hægt væri að bæta hina félagslegu þjónustu í landinu stórlega með því að draga úr kostnaði við landbúnaðinn. Enginn einn maður á þó jafnmikinn þátt í þessari útgjaldaaukningu í fjmrn. og einmitt Jón Baldvin Hannibalsson. Það er stórmál að fara yfir þessi dæmi þegar til þessara hluta er litið.
    Það er af fleiru að taka í þessum efnum. Fyrrv. fjmrh. réði til starfa hjá ríkinu sem svaraði 600 nýjum stöðum og var það að sjálfsögðu miklu hærri tala en miðað var við í fjárlögum. Það vekur eftirtekt að núv. hæstv. fjmrh. hefur farið um það almennum orðum að draga eigi úr útgjöldum í fjárlögum sem svarar um 240--250 störfum. Þetta er hluti hans boðskapar um minni ríkisútgjöld. Fjárlagafrv. sjálft, sem hér er verið að fjalla um og verður væntanlega lögfest innan tíðar, gerir hins vegar ráð fyrir því að á næsta ári bætist 400 ný störf við á ríkisjötuna. Á þessu ári og því næsta verða þannig komin til skila 1000 ný störf. Ég sé að hv. formaður fjvn. hristir höfuðið og er það dæmi þess að enn hefur honum ekki tekist að tileinka sér stjórnarstefnuna því ég ætla honum ekki að vita ekki hvað um er að ræða í fjárlagafrv. ( SighB: 280,
ekki 400.) Það eru ýmsar fleiri sporslur sem koma þar til greina.
    Hér er dæmi upp á 1 milljarð kr. og ef lagðir eru saman útgjaldaliðirnir til hinna ýmsu málaflokka, hinna lífsnauðsynlegu málaflokka, skólamannvirkja, hafnamannvirkja og sjúkrahúsbygginga, kemur út sama tala, rétt aðeins ríflega 1 milljarður kr. Þetta er og hefur verið meginviðfangsefnið á undanförnum árum, þ.e. að skera niður þessar framkvæmdir, en aftur á móti hefur þróunin orðið sú að í kerfinu hefur miklu meira fjármagni verið eytt, stórum miklu meira, sem best sést á því að á tveimur árum taka aukin launagjöld ríkissjóðs jafnstóra upphæð og nemur þessum þremur lífsnauðsynlegu liðum.
    Það hefur farið fram um það mikil umfjöllun upp á síðkastið hversu mikið erlend lán hafa hækkað samhliða þeirri umfjöllun sem átt hefur sér stað um bágan fjárhag ríkisins. Ég minni sérstaklega á að í

þessum efnum hafa menn verið að tala um hina svokölluðu frjálshyggju sem sérstakan orsakavald og þá breyttu skipan sem tekin var upp að því er varðaði erlendar lántökur í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og Sjálfstfl. hefur sérstaklega verið kallaður til ábyrgðar fyrir. Það hefur hins vegar minna farið fyrir því að fram kæmi í hvað þetta fjármagn hefur farið og hvar erlenda skuldasöfnunin hefur lent á þessu tímabili. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hægt sé t.d. að meta áhrif frjálshyggjunnar í þessum efnum.
    Ég hef þess vegna nýlega fengið upplýsingar um hvernig þessi þróun mála hefur verið á síðustu árum. Þetta mál er þess eðlis að það hlýtur að koma sérstaklega til umræðu við lokaafgreiðslu fjárlaga og sjálfur hef ég ekki getað farið það nákvæmlega yfir þessar heimildir að ég hafi fullt vald á því að túlka þær í þessari ræðu svo með skýrum hætti gæti orðið. Athyglisvert er þó að athuga sérstaklega hvernig erlend lán skiptast eftir hinum ýmsu greinum. Þar vekur sérstaklega eftirtekt hve lántökur sjávarútvegsins hafa stórlega aukist. Árið 1985 voru lántökur í sjávarútvegi og fiskiðnaði gegnum bankakerfið, þ.e. erlend lán, 590 millj. kr. Árið 1986 1 milljarður 535 millj. og árið 1987 2 milljarðar 778 millj. kr. Þessi þróun virðist vera á fullri ferð því að lánsloforð Fiskveiðasjóðs námu í lok septembermánaðar 4,6 milljörðum kr. Þá vekur ekki síður eftirtekt að atvinnufyrirtækin eru stærstu viðskiptaaðilar hinnar svokölluðu kaupleigu sem einkum, eins og menn vita, hefur verið kennd við frjálshyggjuna.
    Þetta er hér sérstaklega rifjað upp vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram um erlenda skuldasöfnun á síðustu árum og hvernig hún er tilkomin. Hið sanna er að þar eiga atvinnuvegirnir, að fráteknum landbúnaði, langstærstan hlut að máli. Erlenda skuldasöfnunin er að langstærstum hluta tilkomin vegna atvinnuveganna í landinu að landbúnaðinum undanteknum. Ef svo er að hér sé einhver sérstök frjálshyggja á ferð þá sýnist mér að mikilvirkustu frjálshyggjugaurarnir, eins og þeir eru stundum kallaðir, í þessum efnum séu hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh. Þessar lántökur hafa að langsamlega stærstum hluta farið í gegnum þeirra ráðuneyti.
    Ég endurtek það sem ég sagði áðan að óhjákvæmilegt er að brjóta þessi mál til mergjar fyrir 3. umr. fjárlaga og skýra fyrir þingi og þjóð hverjir það eru sem hafa safnað erlendum skuldum á síðustu árum. Það er mikilsvert m.a. vegna þess að inn í þetta dæmi kemur auðvitað sá mikli vandi sem sjávarútvegurinn stendur nú frammi fyrir.
    Það andar köldu að íslenskum landbúnaði í þessu fjárlagafrv. Það er reyndar ekki alveg nýtt. Að því leyti er fjárlagafrv. endurprentun frá fjárlagafrv. fyrri ríkisstjórnar eins og það var lagt fram, reyndar á ýmsan hátt verra og þótti þó mörgum nóg um. Alþingi bar hins vegar gæfu til að leiðrétta fjárlagafrv. fyrir þetta ár þannig að þar náðist viðunandi árangur. Mér eru minnisstæð orð formanns Búnaðarsambands Vestur-Húnvetninga, Gunnars í Hrútatungu, á

búnaðarþingi þar sem hann sagði að náðst hefði fram varnarsigur við þá fjárlagagerð. Menn hefðu kannski látið sér detta til hugar að sú lexía hefði verið nægjanleg fyrir þá sem stjórnuðu þessu landi. Það hefur reyndar verið upplýst af fráfarandi fjmrh. að þá hafi komið fram fyrstu sprungurnar í stjórnarsamstarfið hjá fyrrv. ríkisstjórn. Í þessari yfirlýsingu, sem hann hefur reyndar margoft haft um orð, fæst kannski á því nokkur skýring hvers vegna fjárlagafrv. Jóns Baldvins Hannibalssonar er sérstaklega endurprentað nú af Ólafi Ragnari Grímssyni. Kannski hefur það gerst í einhverri lifrarveislu að hæstv. núv. fjmrh. hafi fengið vitneskju um hvernig póstur landbúnaðarins þyrfti að líta út svo að af samruna Alþfl. og Alþb. gæti orðið. Ekki er það ólíklegt. Nú hefur hér verið tekið fram af hv. þm. Alexander Stefánssyni að þörf væri á gagngerum breytingum í þessum efnum sem væntanlega koma fram við 3. umr. fjárlaga. Ekki dreg ég í efa vilja hv. þm. í þeim efnum þannig að það er að sjálfsögðu best að spyrja að leikslokum.
    Það er nú þannig að um ýmislegt hafa verið teknar ákvarðanir þegar í stað í sambandi við landbúnaðarmálin og það býsna mikilvægar ákvarðanir. Í þeim efnum minnist ég þó aðeins á tvennt. Menn kannast við að bændur landsins, sérstaklega í sumum landshlutum, hafa þurft að búa við þær erfiðu aðstæður að erfiður búfjársjúkdómur hefur herjað á hjörð þeirra. Þessum sjúkdómi hafa menn
verið að reyna að eyða með því að skera niður heilu hjarðirnar. Það hefur verið býsna erfið ákvörðun fyrir marga bændur að taka, því að stór hluti af lífsstarfi sérhvers bónda byggir m.a. á því að bæta búfé sitt. Menn sjá þannig í einni andrá á eftir starfi sem hefur varað að meira eða minna leyti þann búskaparferil sem hver og einn bóndi hefur átt.
    Um þessi efni hafa verið gerðir sérstakir samningar og nú geri ég hlé á ræðu minni, virðulegur forseti. Það hafa verið gerðir sérstakir samningar um þessi efni við hvern og einn einasta bónda sem tekið hefur þátt í þessum aðgerðum. Þessir samningar eru að því leyti sérstæðir að þeir taka ekki til greinarinnar í heild sinni heldur er hver og einn bóndi að sjálfsögðu ábyrgur fyrir sínum samningi. Ríkisvaldið er á sama hátt ábyrgt gagnvart hverjum og einum bónda, en ekki sérstaklega stéttinni í heild að því er þetta varðar. Þessir samningar eru líka að því leyti sérstæðir að þeir eru allir undirskrifaðir af landbrh. Þeir eru staðfestir af fyrrv. landbrh. Jóni Helgasyni og til hliðar af eiganda og ábúanda hverrar jarðar fyrir sig. Þeir eru síðan stimplaðir á forsíðu með stimpli fjmrn. og líka er tilgreint hvenær þeim er þinglýst þannig að allt form er í býsna góðu horfi.
    Í niðurlagi 3. gr. þessa samnings segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
"Þessar bætur greiðast í nóvembermánuði hvert ár, í fyrsta skipti árið eftir niðurskurð.`` Skýrara getur það ekki verið. Samningnum fylgir hins vegar bókun sem að sjálfsögðu er tilkomin vegna tæknilegra aðstæðna í þessum uppgjörsmáta. Þar er kveðið á um að þessar

skuldbindingar sem ríkið tekur þarna að sér megi dragast fram til 15. sept.
    Nú hefur tilkynning borist um það til fjvn. að þær greiðslur sem inna átti af hendi í síðasta lagi í gær verði ekki greiddar fyrr en í janúarmánuði á næsta ári. Skyldi það vera, virðulegi forseti, að fjmrh. heyri orð mín? --- ( Fjmrh.: Hann heyrir allt, hvert einasta orð.) Til vonar og vara ætla ég samt að yfirfara það.
    Þær tilkynningar hafa nefnilega borist inn í fjvn. að 118 millj. sem voru gjaldfallnar í gær eigi ekki að borgast fyrr en á næsta ári. Þetta eru sömu vinnubrögð og átti að viðhafa fyrir einu ári síðan en þá var því hrundið. Og það sem er þó öllu verra og er kannski ekki síður aðalatriðið þegar horft er frá sjónarhóli fjvn., að það er tekin ákvörðun um það að sams konar vinnubrögð eigi að viðhafa á næsta ári. Það eigi þá aftur að svíkja samninga með þessum hætti. Nú höfum við bærilega reynslu af samningsgerð í sambandi við fjárlagagerð. T.d. þær framkvæmdir sem byggja á verksamningum við verktaka eða í öðrum hliðstæðum tilvikum og samþykktar hafa verið, þær eru greiddar orðalaust og um það fer ekki fram nokkur einasta umræða á Alþingi, ekki í fjvn. og ekki á Alþingi. Hins vegar er annað uppi á teningnum þegar kemur til bændanna. Ég vek athygli á því að þetta eru förgunarbætur sem eru hluti af þeirra launum. Þá þarf ekki að halda samninga, þá er hægt að svíkja.
    Ég hafði orð á því þegar þessi tilkynning og þessar skýringar komu í fjvn. að ég tryði því tæpast að það fólk sem skipaði meiri hl. fjvn. vissi hvað í þessu fælist. Nú hefur hins vegar verið sæst á það í fjvn. að fá úttekt og umsögn Ríkisendurskoðunar á þessu máli þannig að fjvn. getur að sjálfsögðu fengið þær upplýsingar svo að óyggjandi séu, en þær upplýsingar munu ekki hagga einu einasta orði af því sem ég hef hér sagt. Jólakveðja þessarar ríkisstjórnar til bændanna í landinu liggur fyrir eins og hún var gefin og tilkynnt á síðasta fundi fjvn. núna fyrir 2. umr. Sú tilkynning liggur fyrir. Og þótt það séu ekki allir bændur sem fá þetta svipuhögg um jólaleytið er þetta aðför að bændastéttinni í heild. Þar sem menn leggjast svo lágt að þeir virða ekki samninga sem eru undirritaðir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar og hefur verið þinglýst og eru ástimplaðir af fjmrn. Þessi framkoma er siðlaus. Og hefði hæstv. landbrh. kannski mátt doka aðeins lengur við þegar hann leit hér í gættina áðan.
    Ríkisstjórnin hefur haft um það mörg orð að græða og bæta landið og eitthvað er minnst á það í málefnasamningnum sem hún gerði með sér þegar hún var sett á stofn. Menn hefðu þannig getað búist við betri tíð með blóm í haga þegar til þeirra hluta er litið. En í þeim efnum liggur líka fyrir niðurstaða.
    Nú má ég kannski minna á ofurlitla forsögu í þessum efnum og þá byrja á því sem sjálfsagt er nú efst í minni þegar fjallað er um landgræðsluáætlun að Alþingi gaf, á hátíðarfundi árið 1974, íslensku þjóðinni það í afmælisgjöf með tilliti til búsetunnar í landinu að gert yrði sérstakt átak í því að græða upp landið, borga fósturlaunin eins og þá var sagt. Að

sjálfsögðu var mikil bjartsýni bundin við þessa áætlun en ýmislegt varð til þess að hún náði ekki fram að ganga eins og til var ætlast sem er of löng saga til þess að rekja hér alveg sérstaklega. Því var það að að loknu þessu áætlunartímabili varð um það víðtækt samkomulag á Alþingi að gera aðra áætlun til fjögurra ára sem mundi fela í sér helmingi lægri fjárveitingar en ákveðnar voru árið 1974. Að þeim árum liðnum var tekin önnur ákvörðun um að halda áfram á sömu braut með sama fjármagni. Menn völdu þann kostinn að hafa framlögin frekar minni og að við þau væri þá hægt að standa með bærilegum hætti. Ég hef átt þess kost að starfa
með öðrum alþingismönnum, við höfum verið fjórir í því starfi, að framkvæmd þessarar áætlunar. Við höfum séð fyrir því, m.a. vegna þess að við höfum haft nokkurn styrk í fjvn., einmitt þessir alþm., að þessir hlutir gengju fram eins og um hefur verið samið og samkomulag gert um á Alþingi. Nú bregður hins vegar svo við að út af er brugðið í fyrsta sinn. Framlag til Landgræðslu ríkisins var skert í fjárlagafrv. Til hennar varð hækkunin minni samkvæmt fjárlagafrv. en fjárlagaforsendur gerðu ráð fyrir. Framkvæmdaforsendur eru hins vegar allt aðrar en fjárlagaforsendurnar og það má segja að verið gæti að með þeirri breytingu sem hefur verið gerð á núna í tillögum fjvn. um hækkun vegna fræverksmiðju í Gunnarsholti og vegna sérstaks verkefnis á Mývatnsöræfum sé ekkert langt frá því að Landgræðsla ríkisins muni sem slík hafa svipaða möguleika í framkvæmdum á næsta ári og í ár. Þó mun þar frekar vanta á. Um þetta hef ég ekki fengið fullnægjandi upplýsingar enn þá. Landgræðsluáætlunin er hins vegar skert um 12 1 / 2 millj. kr. Það höfum við aldrei látið yfir okkur ganga fyrr að skerða landgræðsluáætlunina og þetta gerir ríkisstjórn sem talar hærra um að vernda og bæta gróður landins en áður hefur verið gert. Þetta er hennar fyrsta ákvörðun til þess að standa við fyrirheit sín í þessum efnum.
    Vera má að einhverjir leyndir þræðir liggi á milli þessarar ákvörðunar og þeirra nýju vinnubragða sem Alþfl. er búinn að taka upp til þess að sverta bændur landsins og þann atvinnuveg sem þeir stunda og lifa á. Fræg er aðför hæstv. viðskrh., sem að sjálfsögðu er hér hvergi nærri frekar en aðrir ráðherrar, þegar hann hefur sett það fram sem stefnumið Alþfl. að menn hætti að neyta íslensks lambakjöts. Fer nú formaður fjvn. á dyr og er það reyndar vel skiljanlegt. Það er líka vel fylgt á eftir með því að draga úr þeim framkvæmdum sem í gangi hafa verið með niðurskurði á landgræðsluáætlun. Þetta eru verk ríkisstjórnarinnar sem hefur talað hvað hæst um umhverfismál og um að bæta landið og græða það upp.
    Ég tek svo undir, það sem kom hér fram í ræðu hv. þm. Alexanders Stefánssonar, að það er alveg óhjákvæmilegt að fram fari mikil umræða um landbúnaðarmálin við 3. umr., a.m.k. ef ekki er hægt að ná um þau bærilegu samkomulagi fyrir þá umræðu, því eins og ég hef tekið fram og ég get líka vitnað til

í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar er að sjálfsögðu ekki hægt að líða þá afgreiðslu sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir í þeim efnum.
    Hér hefur verið minnst á Vegagerðina og ég hef þar ekki miklu við að bæta. Það sætir hins vegar furðu hvernig menn ætla sér að koma saman vegáætlun í vetur. Það verður fróðlegt að sjá hvernig við stóru orðin verður staðið um jarðgangagerð og brúargerð á næstu árum sem engin króna er ætluð til í þessu fjárlagafrv. Sannleikurinn er nefnilega sá að til þess að halda því framkvæmdagildi sem var í vegagerðarframkvæmdum í ár og miðað við þær skuldbindingar sem búið er að gera að því er varðar Ólafsfjarðarmúla passa tekjustofnarnir eftir að þeir hafa verið hækkaðir til samræmis við það sem gert er ráð fyrir og eiga eins og menn vita að hluta til að fara beint í ríkissjóð. Ýmsir hafa haft nokkuð hátt um vegaframkvæmdirnar á síðustu árum og talað um svik í þeim efnum. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig þeir standa að þessari fjárlagaafgreiðslu.
    Virðulegi forseti. Það er mikið talað um skattahækkanir um þessar mundir. Það er, hygg ég, alveg spánýr boðskapur að það þyki sérstaklega henta að herða stórlega á sköttum á sama tíma og tekjur minnka í þjóðfélaginu. Á sama tíma og samdráttar gætir í þjóðfélaginu ætlar ríkissjóður samt að taka í nýjum sköttum, eftir því sem við fengum vitneskju um, 6,7 milljarða kr. (Gripið fram í.) Já, það er mál út af fyrir sig. En þannig vildi nú til á einum okkar síðasta fundi að í húsi með fjvn. voru staddir menn frá Ríkisendurskoðun, frá Þjóðhagsstofnun, frá hagdeild landbrn. . . . ( Gripið fram í: Nei.) Nei, fyrirgefðu, fjmrn. Ég held að það hafi ekki verið önnur stórmenni. ( Gripið fram í: Frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun.) Já, fjárlaga- og hagsýslan, auðvitað. Eftir mikla eftirgrennslan var þessi tala gefin þar upp. Þetta eru heimildirnar sem ég vitna til í þessum efnum. Formaður fjvn. tók það sérstaklega fram eftir að ég spurði nákvæmar út í málið að þetta væri rétt tala. ( SighB: Nei, ég sagði að þetta hefði verið rétt heyrt. Maðurinn sagði þetta.) Nú. (Gripið fram í.) Það er bara mál út af fyrir sig. En alla vega leiðréttir þinn undirmaður ekki þessa tölu. Það stendur óhaggað. Hagsýslustjóri var þarna og hann leiðrétti ekki þessa tölu ( EKJ: Það var rétt sem ég sagði.) þótt ég gengi eftir því ( Sjútvrh.: Það er rangt sem þú sagðir.) að fá hana staðfesta. Það er þess vegna mál allra þessara sérfræðinga, m.a. undirmanna hæstv. fjmrh., að hér er ekki farið nákvæmara með tölur og má vel vera að hæstv. ráðherra viti ekki sjálfur hvað hann boðar mikla skatta í öllum sínum skattafrv. ( Gripið fram í: 4300.) Nú er það svo að það er reyndar býsna merkileg tala ef það eru 4300 því það vill svo til að óinnheimtir skattar á þessu ári nema jafnhárri tölu, 4300, þ.e. þeir nema kannski eitthvað hærri tölu núna, en í lok októbermánaðar voru óinnheimtir skattar, eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið, upp á nákvæmlega þessa sömu tölu. Því miður er
ekki hægt að fá upplýst nákvæmlega hvað innheimta skatta hefur versnað frá árinu í fyrra vegna þess að

hér er ekki um sambærilega skattheimtu að ræða, t.d. ekki að því er varðar tekjuskattinn. Þar af leiðandi er ekki hægt að lesa í þá þróun. Það má hins vegar ætla að af þessum sköttum ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera hægt að innheimta verulegan hluta og þó ekki minna en helming. Það er því að sjálfsögðu eitt af því sem menn verða að fá rækilega skýrt við frekari umræðu hér, bæði í sambandi við skattamálin og fjárlögin, fyrir 3. umr., hvernig skattheimtan er í landinu og þá sérstaklega hvort menn geta fengið niðurstöðu um það hvort skattheimtan er brostin. Það þýðir nefnilega ekki að auka skattana í þjóðfélaginu ef ekki er hægt að innheimta þá. Þrátt fyrir það að hv. þm. Alexander Stefánsson talaði mikið áðan um að hluti af þessum óinnheimtu sköttum færi forgörðum vegna gjaldþrota hygg ég að þar eigi ekki síður þær skýringar við að atvinnufyrirtækin í landinu, eins og þeim er nú komið, hafa ekki komið þessum sköttum til skila. Ég hygg að það hafi komið jafnvel til þess að hæstv. fjmrh. hafi þurft að grípa inn í gagnvart skattheimtumönnum sínum þegar þeir hafa hótað lokun á atvinnufyrirtækin úti á landi. Þetta er alveg óumflýjanlegt að fá skýra niðurstöðu um. Þetta er annað þeirra atriða sem ég hef lagt mikla áherslu á að yrðu upplýst við fjárlagagerðina. Hinu var ég að gera grein fyrir áður, þ.e. hvernig erlendu lántökurnar skiptust, og það er ekki líðanlegt annað en að þessi mál verði algjörlega upplýst.
    Menn hafa í þessari umræðu að sjálfsögðu verið að tala um afkomu atvinnuveganna, viðskilnað fyrrv. ríkisstjórnar og annað eftir því. Hv. þm. Alexander Stefánsson hafði orð á því að í þeim efnum færist ekki fyrrv. stjórnarsinnum að hafa hátt og hann tók það fram sérstaklega að það hefði ekki vantað tillögurnar í þeirri ríkisstjórn. Þetta var ekki alveg skýrt talað hjá ræðumanni, en það væri gaman að fá vitneskju um það hverjar tillögur Framsfl. voru lagðar fram í fyrrv. ríkisstjórn. Þær eru reyndar kunnar eftir að tekin hafði verið ákvörðun um að fella þá ríkisstjórn, en fyrir þá ákvörðun heyrði maður ekki mikið af þeim tillögum hjá Framsfl. Má vera að þær séu hins vegar til og þá væntanlega skýrir ræðumaður frá þeim hér síðar eða við annað tækifæri.
    Auðvitað er það skugginn yfir þessu þingi og yfir þessari fjárlagagerð sem birtist í afkomu atvinnuveganna vítt um landið. Og ég minni á, ekki síst vegna orða hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur áðan, að í þeim efnum fór ríkisstjórnin með fullum seglum. Fyrsti boðskapur núv. ríkisstjórnar var að það væri hennar sérstöku viðfangsefni að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Þau áttu að fara að snúast á fullri ferð. Ég vil ætla að óhætt sé að marka dóm Þjóðhagsstofnunar um þessar efndir eins og þær standa um þessar mundir, en þar kemur fram að afkoman í sjávarútvegi og fiskvinnslu hefur versnað frá því að núv. ríkisstjórn tók við völdum um 2%. Þannig hefur gangsetningin orðið að það virðist eins og hrokkið hafi í bakkgír, það hefur gengið aftur á bak en ekki áfram. Þessar yfirlýsingar hafa glumið á

okkur hér í Alþingi við hverja umræðu sem hefur farið fram og tengst hefur efnahagsmálum, stefnuræðu forsrh., fjárlagaræðu og umfjöllun um lánsfjárlög. Alltaf hefur ríkisstjórnin verið að koma hjólunum í gang og gefa atvinnulífinu nýja blóðgjöf. Niðurstaðan er hins vegar þessi að það hefur enn sigið á ógæfuhliðina. Það hlýtur að vera að ríkisstjórnin eigi eftir að skýra sín mál í þessum efnum og þá sérstaklega það hvað felst í boðskap ráðherra ríkisstjórnarinnar, m.a. um þessar mundir.
    Nú vill svo til að hæstv. fjmrh. hefur farið um stundarsakir bæði með forustu í ríkisstjórninni í fjarveru formanns Framsfl. og fjmrn. og einmitt þegar hann var þannig valdamesti maður landsins flutti hann þjóðinni sinn boðskap í þessum efnum. Og nú ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að hafa hann yfir til þess að fá hann líka í þingtíðindin og til þess að menn geti betur glöggvað sig á því hvert ríkisstjórnin stefnir í þeim efnum. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    Það þarf að sameina fyrirtæki. Það þarf að stokka upp eignaraðild --- menn taki eftir því --- á sumum, það þarf að tengja þau saman með ákveðnum aðgerðum og fara þannig yfir þetta lið fyrir lið, byggðarlag fyrir byggðarlag, fyrirtæki fyrir fyrirtæki, til þess að breyta skipulaginu, rekstrargrundvellinum, samvinnu fyrirtækja og jafnvel eignarhaldi. --- Menn taki eftir. --- Og þegar búið er að stokka þennan strúktúr upp og laga hann, þá geta menn farið að skoða hvort einhverjar almennar aðgerðir þarf þá til viðbótar. En ef þessi uppstokkun verður ekki framkvæmd byggðarlag fyrir byggðarlag, fyrirtæki fyrir fyrirtæki, þá er alveg sama hvað menn fella gengið mikið, 10, 20, 30, 40, 50%, þá mun það ekki duga.
    Það dylst væntanlega engum hvað átt er við í þessum boðskap. Það er hins vegar alveg óumflýjanlegt að skýrlega verði tekið fram af ríkisstjórninni hvernig þessi uppstokkun á að ganga fram, hvernig á að sameina fyrirtækin og hvernig á að koma á nýju eignarformi og breyttum rekstrarskilyrðum. Það er hluti af þessari fjárlagaumræðu og fjárlagagerð að fá þar skýr svör um. Í þeim efnum hefur ríkisstjórnin að sjálfsögðu frest. Hér er einungis verið að fjalla
um fjárlögin við 2. umr., en það er alveg óumflýjanlegt að þessar meiningar allar verði skýrðar áður en til þess kemur að fjárlög verði afgreidd héðan endanlega frá Alþingi.