Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gerast fjölorður. Ég tel hins vegar ástæðu til þess að árétta eitt atriði sem ég lagði áherslu á við 1. umr. þessa máls.
    Nú segi ég að ekki eigi að afgreiða fjárlög nú, það eigi að bíða með það fram á næsta ár. Tekjuhlið fjárlagafrv. er í lausu lofti þegar af þeirri ástæðu að með öllu er óvíst hverju fram vindur um tekjuöflunarfrv. sem nú liggja fyrir þinginu og ríkisstjórnin hefur dembt yfir okkur síðustu daga. En látum það vera. Hér kemur miklu meira og alvarlegra til.
    Allar forsendur fjárlagafrv. voru í fullkominni óvissu þegar það var lagt fram. Vegna aðgerðarleysis og úrræðaleysis ríkisstjórnarinnar hefur síðan sigið svo á ógæfuhliðina að undirstaðan er brostin. Þess vegna er ekki einungis óvissa um tekjuhlið fjárlaganna vegna afdrifa skattafrv. sem nú eru til meðferðar, heldur er og allt í uppnámi að því er varðar tekjur ríkissjóðs í heild.
    Þetta leiðir af stöðu atvinnuveganna í dag. Undirstöðuatvinnuvegurinn er á heljarþröm. Frystihúsin stöðva rekstur sinn og verða gjaldþrota hvert af öðru. Algjör og almenn stöðvun er fyrirsjáanleg snemma á næsta ári ef ekkert verður að gert. Iðnaðurinn, útflutningsgreinarnar í heild eru á sömu leið. Dauðans hönd læsir sig um atvinnulífið í landinu. Atvinnuöryggi landsmanna er brostið og atvinnuleysisvofan er komin á kreik. Þegar svo er komið er brostinn grundvöllurinn fyrir fjárlagafrv. því að atvinnulífið er uppsprettan að tekjum ríkissjóðs.
    Efnahagsástandið er nú svo að með eindæmum er. Þjóðarvoði er fyrir dyrum. Það er gjörsamlega óverjandi annað en að snúast við þessum vanda með markvissum og skipulegum hætti. Til þess þarf ríkisstjórnin að móta stefnu sem miðar að úrlausn vandans. Í dag hefur ríkisstjórnin enga raunhæfa stefnu í efnahagsmálunum. Fyrst þarf að ákveða stefnuna og síðan aðlaga fjárlögin stefnumiðunum svo að stefnan verði framkvæmanleg.
    Með því að undirrót vandans er að útgjöld þjóðarinnar eru meiri en aflað er verður ekki komist hjá kjaraskerðingu og að færa ríkisútgjöldin stórlega niður. Atvinnulífinu verður ekki komið á réttan kjöl nema hraðfrystihúsin fái heilbrigðan rekstrargrundvöll. Það verður ekki gert nema með gengislækkun sem ekki má dragast. Gengislækkun verður hvorki fær né raunhæf leið nema fólk finni að byrðum sé réttlátlega skipt. Þess vegna þarf að verja þá sem verst eru settir, með lökust kjörin, með lækkun neysluskatta.
    Af þessu leiðir að engin stefnumótun í þeim vanda sem nú er við að glíma stendur undir nafni nema hún sé gerð í tengslum við fjárlagagerðina. Til að færa niður ríkisútgjöldin svo mjög sem nauðsyn nú krefur þarf meira að koma til en sparnaður og hagræðing þó mikilvægt sé. Það þarf að taka ríkisfjármálin til meðferðar með það fyrir augum að draga úr ríkisumsvifunum og sníða okkur stakk eftir vexti. Kemur þá margt til greina, svo sem að draga saman ríkisbáknið með því að fela sum verkefni sem ríkið

hefur með að gera öðrum aðilum þar sem þau eru betur komin, sveitarfélögum, samtökum borgaranna og einstaklingum. En fyrst og fremst þarf að endurskipuleggja stjórnkerfi ríkisins frá rótum í stóru og smáu.
    Það tekur óhjákvæmilega tíma að breyta fjárlagafrv. með tilliti til raunveruleikans. Það verður ekki gert fyrir jól, eins og hæstv. fjmrh. kappkostar að gera. Hæstv. fjmrh. hefur ekki á öðru meiri áhuga en að koma þessu þenslufrv. sínu gegnum þingið. Þegar þarf að afgreiða fjárlög næsta árs með stórlegum niðurskurði útgjalda þurfti það yfir okkur að ganga að fá fjárlagafrv. með hærri útgjöldum að raungildi en nokkru sinni fyrr. Þetta eru slík mistök að með eindæmum er.
    Við 1. umr. fjárlagafrv. 10. nóvember sl. varaði ég hæstv. fjmrh. við og ráðlagði honum að láta ekki afgreiða frv. fyrr en á næsta ári og gefa sér þannig nægan tíma fyrir þær umfangsmiklu breytingar sem nauðsynlegar eru á frv. Hæstv. ráðherra skellti skollaeyrum við þessum ráðleggingum. En enn er ekki öll nótt úti. Enn er tími til stefnu. Ég endurtek því nú, hæstv. fjmrh., það hollráð mitt að fjárlagafrv. verði tekið til endurskoðunar og ekki afgreitt fyrr en á næsta ári.
    Ef ekki verður hlustað á varnaðarorð stöndum við frammi fyrir hrikalegum staðreyndum. Ekki er einungis atvinnulífið í landinu í gífurlegum erfiðleikum, heldur og ríkisfjármálin í öngþveiti. Hinn geigvænlegi greiðsluhalli við útlönd og erlend skuldasöfnun eru orðin ljós vottur þess að nú hriktir í fjárlagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.
    Það hvílir mikil ábyrgð á þeim sem láta sem þeir sjái ekki váleg teikn á lofti og láta fljóta sofandi að feigðarósi.
    Hæstv. forseti. Þetta eru vissulega alvöruþrungin orð, en hér er rætt um mikið alvörumál.