Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir mjög vandað og mikið starf við óvenjulega erfiðar kringumstæður. Ég vil sérstaklega þakka formanni fjvn. fyrir að hafa á skemmri tíma en aðrir hafa haft stýrt störfum fjvn. á þann veg sem hefur komið fram við þessa umræðu og nefndarmönnum öllum, bæði fulltrúum stjórnar og ekki síst fulltrúum þeirra flokka sem ekki styðja ríkisstjórnina, fyrir þeirra starf og mikla framlag til að tryggja það að þessi umræða hafi getað farið fram þótt fjárlagafrv. hafi ekki komið fyrir augu þingsins fyrr en fyrstu daga nóvembermánaðar. Ég vakti máls á því þegar ég lagði fjárlagafrv. fram að það væri samið við mjög óvenjulegar kringumstæður þegar ný ríkisstjórn hefði sest að völdum með mjög skömmum fyrirvara rétt fyrir þingbyrjun. Þessi orð eiga ekki síður við hvað störf fjvn. snertir og kannski enn frekar vegna þess að bæði hafði nefndin skemmri tíma en nokkru sinni áður og eins eru aðstæður í okkar þjóðfélagi óvenjulegri en í langan tíma. Þessi óvissa hefur gert það að verkum að á starfstíma nefndarinnar hafa verið að koma í ljós nýjar upplýsingar bæði um erfiða stöðu ríkisfjármála og þjóðarbúsins alls. Fjvn. hefur þess vegna í störfum sínum þurft að taka mið af þessum þáttum. Ég held því að þetta verklag hefði ekki tekist eins vel í framkvæmd ef ekki hefði farið saman góð starfshæfni, ítarleg þekking og góður vilji allra nefndarmanna og fyrir það vil ég þakka sérstaklega í kvöld.
    Ég lýsti því við 1. umr. um þetta fjárlagafrv. að einlæg ósk mín væri að eiga góða samvinnu við fjárveitinganefndarmenn meðan ég gegni þessu embætti og ég hef ítrekað þær óskir á fundum með fjvn. á undanförnum vikum. Ég vil ítreka þær óskir og lýsa því að ég met mikils að þau verk sem fjvn. hefur birt þingheimi í dag sýna eindregið að mér finnst að af hálfu nefndarinnar er þessi vilji einnig mjög einlægur og ríkur.
    Ég vænti þess að á þeim dögum sem fram undan eru getum við haldið áfram þessu góða samstarfi vegna þess að mjög mikilvægt er að fjárlagafrv. og þau önnur atriði sem tengjast því verði ákveðin hið fyrsta því að frv. sjálft og fylgigögn þess eru mikilvægur þáttur sem þarf að festa til þess að hægt sé að byggja traustar stoðir undir efnahagsstjórnina á næsta ári. Ég hef orðið var við að fjölmargir aðilar, bæði innan lands og eins erlendis, fylgjast mjög með því hvernig þessi vinna gengur. Vegna orða sem hv. þm. Pálmi Jónsson lét falla hér fyrr í kvöld gagnvart hv. þingheimi vegna þess sem hann kallaði áhugaleysi um fjárlagafrv. get ég fullvissað hann um að víða í þessu þjóðfélagi og utan þess eru mjög margir sem fylgjast mjög grannt með þessum störfum, þótt vissulega megi taka undir aðvörunarorð hans.
    Ég vil síðan að gefnu tilefni útskýra nánar þá athugasemd sem ég lét falla úr sæti mínu við frásagnir af því að starfsmaður Þjóðhagsstofnunar hefði greint frá því á fundi fjvn. að nýir skattar samkvæmt þeim frv. sem lögð hafa verið fram á Alþingi væru 6700 millj. kr. samtals. Ég dreg ekkert í efa að rétt sé frá

skýrt að þessi starfsmaður hafi nefnt þessa tölu. Mér er þó tjáð að það hafi verið eftir eftirgrennslan og án nokkurra útskýringa af hans hálfu. Ég hef einnig rætt við embættismenn ráðuneytisins sem á fundinum voru og þeir hafa tjáð mér að þeir hafi ekki kunnað við að gera athugasemd frammi fyrir kollega sínum úr embættismannastétt án þess að hafa tækifæri til þess að ræða við hann utan fundar.
    Staðreynd málsins er hins vegar á þann veg að samkvæmt þeim frv. sem lögð hafa verið fyrir þingið nemur viðbótartekjuöflunin rúmum 4300 millj. kr. Hún skiptist þannig að rúmlega 2100 millj. kr. eru í því frv. um tekjuskatt og eignarskatt einstaklinga og fyrirtækja sem hér var til umræðu í gær. 1600 millj. kr. eru tengdar frv. um vörugjald og 600 millj. kr. eru tengdar hinum frumvörpunum þremur um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, skattlagningu innlánsstofnana og lántökuskatt.
    Þá er rétt að geta þess að frv. um frestun virðisaukaskatts felur það í sér að komið er í veg fyrir tekjutap ríkisins sem af því kynni að orsakast, um það bil 1200 millj. kr. Það er hins vegar umdeilanlegt hvort þetta á að teljast ný skattheimta eða ekki og ég hef tekið eftir því að fulltrúar allra þingflokka styðja það frv. og menn eru almennt sammála um að það beri ekki að skilja sem sérstakt skattheimtufrv. Þess vegna hafði ég það ekki með þegar ég nefndi töluna 4300 millj. kr. Vilji menn hins vegar bæta því við er heildartalan 5500 millj. kr. Þannig að jafnvel þótt af misskilningi hafi það verið ætlun viðkomandi embættismanns að telja það með þegar hann notaði orðalagið: ,,þau tekjuöflunarfrumvörp sem lögð hafa verið fram á þingi`` nær það á engan hátt þeirri tölu. Það er af einlægni mælt af minni hálfu að mér er allsendis óljóst hvernig talan er fengin. En ég sagði í léttum dúr við hv. þm. Pálma Jónsson hér í salnum að betra að satt væri að grundvöllurinn gæfi þessa upphæð sem hann nefndi vegna þess að vandi okkar til þess að ná hallalausum ríkisbúskap væri þá ekki eins mikill, en ég held nú að svo sé ekki. Það væri þá fróðlegt að sjá hvort þessi embættismaður Þjóðhagsstofnunar getur rökstutt tölu sína með einhverjum sérstökum hætti.
    Ég mun hins vegar ásamt forsrh. og viðskrh. væntanlega á morgun útskýra
þessar tölur nánar í viðræðum við fulltrúa þingflokkanna sem ekki eiga aðild að ríkisstjórninni þannig að ekki eigi að geta farið neitt á milli mála hvað þetta snertir. Í þeim viðræðum munum við hafa aðstöðu til þess að vega og meta hvernig staðan er á grundvelli þessara frv. og ákvarðana um aukin útgjöld og niðurskurð sem felast í störfum fjvn. Þannig getur þingheimur allur haft aðstöðu til þess að meta stöðuna þegar kemur að lokaþætti málsins, þ.e. að ákveða endanlega gerð fjárlagafrv. og taka afstöðu til þeirra tekjuöflunarfrv. sem hér hafa verið lögð fram eða annarra frv. um tekjuöflun sem fram kunna að koma.
    Virðulegi forseti. Það hefur ýmislegt annað komið fram í fyrirspurnum og athugasemdum um einstaka liði sem tilefni hefði verið til þess að fjalla um. Ég

held þó að ég láti þessi orð nægja að sinni og ítreka enn á ný þakkir mínar fyrir gott og vel unnið verk fjvn.