Fjárlög 1989
Laugardaginn 17. desember 1988

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Ég hlýt við þessa atkvæðagreiðslu að gera hv. Alþingi grein fyrir bréfi sem þingmönnum Reykjavíkur hefur borist frá borgarstjóranum í Reykjavík og er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á fundi fulltrúa Reykjavíkurborgar með þingmönnum kjördæmisins og talsmönnum fjvn. í síðustu viku kom fram að ekki er gert ráð fyrir neinu framlagi til byggingar heilsugæslustöðva í Reykjavík í tillögum fjvn. um skiptingu stofnframlaga. Á fundinum var upplýst að um 230 millj. væru til skiptanna í þessum málaflokki. Reykjavíkurborg hefur sótt um 100 millj. til að ljúka framkvæmdum við þær heilsugæslustöðvar sem nú eru í byggingu, þ.e. við Vesturgötu og Hraunberg.
    Borgarráð lýsir furðu sinni á þessari tillögugerð, sem hlýtur að leiða af sér stöðvun framkvæmda, og skorar á alla þingmenn Reykjavíkur að beita sér fyrir eðlilegum fjárveitingum til umræddra heilsugæslustöðva á fjárlögum 1989, en alkunnugt er að Reykjavík hefur fengið hlutfallslega mun lægri framlög til heilsugæslustöðva á liðnum árum en önnur kjördæmi.``
    Ég vildi við þessa atkvæðagreiðslu vekja athygli á þessu bréfi og raunar lýsa furðu minni á því að þetta skuli gerast ár eftir ár að þeir aðilar sem gera tillögur um skiptingu fjár, þar á meðal hæstv. heilbrmrh., skuli sniðganga á þennan hátt stærsta sveitarfélag landsins þannig að ekki sé ætlaður eyrir til byggingar heilsugæslustöðva í Reykjavík.
    Nú er mér reyndar kunnugt um og tel rétt að það komi hér líka fram að á þessu ári var gerður sérstakur samningur með heimild í fjárlögum um sérstakt framlag, 44 millj. að ég hygg, sem búið er að greiða að hluta, og mér er enn fremur kunnugt um að það eru í gangi nú samningaviðræður á milli borgarstjóra og fjmrh. og 1. þm. Reykv. um að reynt verði að bæta úr þessu, en engu að síður hlýt ég að vekja athygli á þessu og skora á þá aðila sem gera tillögur um þessa skiptingu að láta slíkt ekki endurtaka sig ár eftir ár. Ég greiði ekki atkvæði.