Fjárlög 1989
Laugardaginn 17. desember 1988

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Þar sem hér hefur verið leyfður upplestur á bréfum þykir mér rétt að beina þeim eindregnu tilmælum til hv. 2. þm. Reykv. að hann geri borgarstjórn Reykjavíkur grein fyrir því að þeir gera meiri kröfur en önnur sveitarfélög á Íslandi á hendur ríkinu varðandi heilsugæslustöðvar og krefjast greiðslu á gatnagerðargjöldum. Meðan sú deila er ekki leyst er þess varla að vænta að annar aðilinn beygi sig algerlega í þessu máli. Ég mælist til þess að hann leiti sátta og vafalaust mundi það auðvelda að afgreiðslan færi fram á þessari grein en þyrfti ekki að fara inn í heimildargrein. Ég segi já.