Þinghald milli jóla og nýárs o.fl.
Laugardaginn 17. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það hefur legið fyrir frá upphafi að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur ekki meiri hluta í Nd. Alþingis, en það hefur komið á daginn við þá atkvæðagreiðslu sem hér hefur farið fram við 2. umr. fjárlaga að hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft starfhæfan meiri hluta hér við atkvæðagreiðsluna. Það er minni hluti þingmanna sem hefur staðið að afgreiðslu fjárlaga hér við 2. umr., 30 þingmenn af 63.
    Það hefur verið yfirlýst stefna hææstv. ríkisstjórnar, sem ekki er gerður ágreiningur um, að afgreiða fjárlög og skattheimtufrumvörp ríkisstjórnarinnar fyrir jólaleyfi. Forseti sameinaðs Alþingis hefur lýst því úr forsetastóli að ekki verði haldnir fundir á Alþingi á milli jóla og nýárs. Í dagblaðinu DV í gær er síðan viðtal við hæstv. forsrh. þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Steingrímur Hermannsson forsrh. mælir fyrir bráðabirgðalögunum í Nd. á morgun. Steingrímur sagðist ekki eiga von á því að lögin yrðu afgreidd frá deildinni fyrir jól. Nær væri að tala um tímann á milli jóla og nýárs.``
    Og í fyrirsögn þessarar fréttar segir þetta: ,,Bráðabirgðalögin afgreidd milli jóla og nýárs, segir forsætisráðherra.``
    Nú liggur fyrir að afgreiðsla fjárlaga getur ekki átt sér stað fyrr en skattheimtufrumvörp ríkisstjórnarinnar hafa verið afgreidd og bráðabirgðalögin. Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir í dagblaði að afgreiðsla bráðabirgðalaganna eigi ekki að fara fram fyrr en milli jóla og nýárs. Fram til þessa hefur ekkert annað komið fram hér á hinu háa Alþingi eða í samtölum við þingflokka en að ríkisstjórnin ætlaði að ljúka þingstörfum fyrir jólaleyfi. Það er þess vegna af þessari ástæðu alveg nauðsynlegt að spyrja hvort með þessari blaðayfirlýsingu hæstv. forsrh. hafi verið teknar nýjar ákvarðanir um afgreiðslu þingmála. Ef bráðabirgðalögin eru á dagskrá í Nd. í dag, ef þau á ekki að afgreiða fyrr en í fyrsta lagi á milli jóla og nýárs, er mikil spurn um það hvort ástæða er til að hafa deildafundi á laugardegi, en aðalatriðið er að hér kemur fram alveg ný yfirlýsing af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sem getur ekki þýtt annað en að um leið sé búið að taka ákvörðun um að fresta afgreiðslu fjárlaga því eðli máls samkvæmt verða þau varla afgreidd fyrr en bráðabirgðalögin hafa verið afgreidd. Um þetta er auðvitað nauðsynlegt að fá skýr svör frá hæstv. ríkisstjórn, hvaða yfirlýsingar það eru af hennar hálfu sem mark á að taka á.
    Það hefur líka komið fram, síðast í gærkvöld af hálfu hæstv. forsrh., að nauðsynlegt væri vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki meiri hluta í Nd. að efna til viðræðna við stjórnarandstöðuflokkana um bráðabirgðalögin, ekki aðeins um framgang þeirra heldur um efnisatriði. Þess vegna hlýtur sú spurning að koma fram hér, ekki síst í ljósi þessarar yfirlýsingar, hvort þær viðræður sem hæstv. forsrh. boðaði í sjónvarpi síðast í gærkvöld eigi ekki að hefjast áður en mælt verður fyrir frumvörpunum í Nd. Alþingis. Það er nauðsynlegt að fá skýr svör við

þessum spurningum.
    Jafnframt er nauðsynlegt að fá skýr svör við því um þær viðræður sem hæstv. fjmrh. hefur óskað eftir við þingflokka stjórnarandstöðunnar, og ég skil það svo að einum fundi af því tagi sé lokið við Kvennalistann en aðrir fundir eru eftir og eiga að fara fram í dag, þar á meðal við Sjálfstfl., hvort það sé ekki rétt skilið að á þeim fundum séu forsendur fjárlaga í heild sinni og skattafrumvörpin og efnahagsstefnan í heild til umræðu.
    Ég óska eftir því að skýr svör fáist við þessari spurningu á þessum fundi.