Þinghald milli jóla og nýárs o.fl.
Laugardaginn 17. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að hér sé rætt um þingsköp eins og fram hefur komið. Það skýrir sig nú eftir þær umræður sem hér hafa farið fram að enn einu sinni hefur hæstv. forsrh. látið út úr sér hluti sem hann hefur gleymt að tala um við þá menn sem hann þyrfti kannski að hafa samband við áður en slík ummæli eru birt, enda staðfesti hv. þm. Kjartan Jóhannsson, forseti Nd., að ekki hefði verið haft samband við sig um þinghald á milli jóla og nýárs né heldur hann beðinn um að breyta þeirri dagskrá sem hann hefur lagt til við formenn þingflokka. Þannig snuprar hv. þm. Kjartan Jóhannsson hæstv. forsrh. og er það enn eitt dæmið um hve vafasamt er fyrir almenning og þingheim að átta sig á því hvenær á að taka mark á hæstv. forsrh. og hvenær ekki.
    Það er hins vegar ljóst að beðið hefur verið um viðræður nú við stjórnarandstöðuflokkana. Svo virðist vera sem hæstv. fjmrh. hafi tekið völdin. Það er hann sem boðar til viðræðnanna. Þar leikur hæstv. forsrh. á aðra fiðlu. Manni skilst helst að hæstv. fjmrh. sé að boða til funda í stjórnarráðshúsinu, í forsrn. Mér hefði þótt betur við hæfi að fundir af þessu tagi ættu sér stað í Alþingishúsinu því að það er ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur viðurkennt að hún er ekki meirihlutastjórn í þeirri merkingu. Hún þarf á aðstoð stjórnarandstöðunnar að halda. Hæstv. ríkisstjórn er með þessu að leggja vald í hendur Alþingis vegna þess að hún hefur ekki þann meiri hluta sem hún þarf á að halda til að koma málum í gegn. Þetta hefur skýrlega komið fram í þessari umræðu í dag og er ákaflega nauðsynlegt.
    En það eru önnur atriði, virðulegur forseti, sem mig langar til að rifja upp. Hæstv. forseti sagði frá því um daginn að hann mundi beita sér fyrir að haldinn yrði fundur um þingsályktunartillögur, sem liggja mjög margar fyrir, sumar sem voru lagðar fram í októbermánuði og hafa ekki komist á dagskrá. Um daginn var síðan fundur í hálfan dag eða réttara sagt í örfáa tíma um þingsályktunartillögur, en sá tími fór að mestu í karp á milli stjórnarliða í þingskapaumræðu og töfðust umræður vegna þess að þeir gátu ekki tollað í þingsölum. Þá er ég að tala um umræður sem áttu sér stað um búminjasafn á Hvanneyri og þingskapaumræður varðandi það mál. Þetta tafði önnur mál, þar á meðal mál sem hefur verið á dagskrá lengi um skipasmíðastöðvar, og að beiðni hv. þm. Stefáns Guðmundssonar heyrði ég ekki betur en hæstv. forseti féllist á að það mál og önnur sem brýnt er að taka fyrir í Sþ. yrðu rædd áður en þingi yrði frestað fyrir jól. Það sama á við um þá fyrirspurn sem hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal minntist á. Það var mjög athygli vert að hæstv. forsrh. var viðstaddur umræður sem áttu sér stað í fyrirspurnum, en hvarf á braut þegar hann átti sjálfur að svara fsp. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að þessi mál fái umræðu til að bæta andrúmsloftið á hinu háa Alþingi, þannig að störf þingsins geti gengið fram með eðlilegum hætti. Ég vil taka fram varðandi fund um þáltill. að það var ekki eingöngu krafa frá

Sjálfstfl. heldur tóku aðrir stjórnarandstæðingar undir þá kröfu og vil ég minna á orð hv. 6. þm. Vesturl. í því sambandi.
    Æski ég þess, virðulegur forseti, að það verði enn áréttað úr forsetastól að ætlunin sé, eins og ég veit að hæstv. forseti hefur í huga, að taka fyrir þingsályktunartillögur og fyrirspurnir áður en þingi verður frestað fyrir jól.