Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Mánudaginn 19. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Mál það sem hér er nú til umræðu er auðvitað í senn skattamál og eins varðar það fjármál atvinnuveganna. Hér eru fleiri skattamál á dagskrá. Það varð samkomulag um það og hefur verið við staðið að eingöngu yrði mælt fyrir þessum frumvörpum nú fyrir helgina og síðan ekki haldnir fundir í nefndum um málin heldur málunum vísað til nefndar eftir örstutta umræðu, þessa sem nú heldur hér áfram.
    Engu að síður höfum við í fjh.- og viðskn. verið að kynna okkur þessi mál eins og lög gera ráð fyrir og þá náttúrlega ekki á formlegum fundum, en þó hafa komið til okkar ýmsir mætir menn og þar á meðal núna í morgun Kjartan Kjartansson frá Sambandinu og Geir Geirsson og Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins. Við ræddum ekki þetta ákveðna mál mjög ítarlega við þá og ég skal ekki lengja mitt mál um þetta efni heldur þá hin málin sem eru á dagskrá á eftir væntanlega. En ég vil aðeins segja um þetta að þetta er auðvitað eins og annað í þessum svokölluðu ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar, að þar stangast allt hvað á annars horn. Að hafa lántökugjald eða tvöfalt gengi, lántökugjald á erlendum lántökum á sama tíma og allir eru að segja að það vanti stórfé í atvinnuvegina og þurfi fremur að aðstoða þá en það gagnstæða, það held ég að allir hér séu sammála um að sé ástæðulítið, að íþyngja atvinnuvegunum með sérstakri gjaldheimtu í ríkissjóð af þeim lántökum sem óhjákvæmilegar eru. Að vísu er klastrað þarna við að það séu heimildir til undanþága, en það er allt á sömu bókina lært, þarna á að mismuna mönnum og þarna eiga að vera geðþóttaákvarðanir að sjálfsögðu eins og vera ber í spilltri vinstri stjórn. Það verður auðvitað ekki farið eftir neinum föstum reglum heldur geðþótta. Við þekkjum hvernig hefur farið þegar þeim ráðum er beitt, a.m.k. við sem eldri erum og kynntumst því hér fyrr á árum þegar margfalt gengi var og öll sú spilling sem þróaðist í kjölfar þess. Inn á þessa braut er farið að nýju eftir langt hlé og á ekki að nota nein vettlingatök þar. Það á að nota öll ráð sem hugsanleg eru til að halda völdum hvað sem það kostar og misnota völd hvað sem það kostar. Þeir eru volgir og skemmtilegir stólarnir hjá nýjum ráðherrum og þeir ætla sér ekki að standa upp úr þeim og það er kannski ekki neitt æskilegt að þeir geri það þessa dagana. Ég held að það sé gott úr því sem komið er að fólkið fái að sjá framan í úrræði þessara manna svokölluð, ráðstafanir í fjármálum, gífurlega nýja skattheimtu sem dengt er yfir á krepputímum sem þeir sjálfir hafa búið til og eru að búa til og monta sig af að hafa tekist að draga úr þessari ógnarlegu þenslu sem hefur verið í þjóðfélaginu, segja þeir, og sem hefur valdið því að nærri því hver maður hefur fengið að vinna á Íslandi. Það þykir víst ekki beint eftir kokkabókunum. Það á að sjá til þess að ekki verði a.m.k. mikið um eftirvinnu.
    Af því að ég nefndi Vilhjálm Egilsson áðan, að hann kom á fund til okkar í morgun, þá skrifaði hann

mjög skemmtilega grein í Morgunblaðið í gær og hann, hagfræðingurinn, áttaði sig á því að það gæti orðið meiri velmegun í þjóðfélagi þar sem væri full vinna og öll hjól snerust, það gæti orðið meiri auðæfasköpun en það sem núverandi stjórnvöld keppa að, þ.e. atvinnuleysi og kreppa.
    Það er dálítið gaman að heyra merkan hagfræðing eins og Vilhjálm Egilsson segja sannleikann í málinu, þann einfalda sannleika að auðvitað er æskilegt að menn hafi fulla vinnu. Hitt getur ekki verið pólitískt keppikefli að stefna til kreppu og atvinnuleysis. Ég a.m.k. skil ekki hugsunargang þeirra manna sem beinlínis vinna skipulega að því. Þetta er í ósköp litlu gert með þessu gjaldi. Þetta er aðeins einn liðurinn í þeim aðgerðum að koma í veg fyrir fulla atvinnu og mikla framþróun í efnahags- og atvinnumálum. En að þessu kem ég nánar þegar við ræðum næsta mál. Það mundi þó ekki vera til umræðu næst --- nei, það hefur verið hoppað þarna yfir skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hvort sem það er af einhverri sérstakri ástæðu eða bara tilviljun. ( Forseti: Næsti ræðumaður á mælendaskrá var ekki við í augnablikinu.) Já. Ég get þá núna notað tækifærið, með leyfi forseta, til að vekja athygli á bréfi sem þeir sambandsmenn skildu eftir hjá okkur í morgun, við spörum þá tíma, ef ég mætti lesa það núna. Það er ein síða. Það er að vísu ekki fullfrágengið bréf, það er dálítið krotað í setningar, en engu að síður höfðum við leyfi til þess að fara með þetta sem opinbert plagg, en við fengum líka trúnaðarskjöl ýmiss konar frá þeim sambandsmönnum sem við að sjálfsögðu ekki getum um nánar hér.
    Þetta var sem sagt mjög dapurlegur fundur að því leyti til að þar var lýst stöðu dreifbýlisverslunarinnar með þeim hætti að hún væri að leggjast af, það voru orð Kjartans Kjartanssonar og þeirra félaga, hún væri að leggjast af, dreifbýlisverslunin, og þar væru hundruð milljóna í árlegu tapi á versluninni. Það var eiginlega ekki hægt að skilja þá öðruvísi en svo að þeir gerðu ráð fyrir að meira og minna hrun yrði í allri dreifbýlisversluninni á næstu vikum og mánuðum, það væri ekkert eftir til að eyða og hrunið blasti við og verslunin mundi þá meira og minna flytjast væntanlega til Reykjavíkur eða þá til Glasgow. Þeir nefndu að vísu ekki Glasgow, þeir nefndu Reykjavík, en ég
held að það sé ekki nein mistúlkun á þeirra orðum að þeir voru gífurlega svartsýnir og þeir töldu að dreifbýlisverslunin væri að hrynja í bókstaflegri merkingu, leggjast af, sögðu þeir.
    Vilhjálmur Egilsson gat aftur um hitt málið sem var stokkið yfir núna. Hann hafði reiknað það út að skattar á skrifstofuhúsnæði plús nýir eignarskattar og hækkun fasteignaskatta mundi svara nokkurn veginn til þess að almenn vöruverðshækkun af þessum einum sökum, af þessum nýju álögum á verslunina mundi verða 0,6%. T.d. þyrfti 100 fermetra smábúð að borga um það bil 15 þús. kr. meira mánaðarlega í húsaleigu. Þetta er líka, kannski finnst mönnum það, lítill biti en þetta er þó fjórðungur úr launum eins eða tveggja

manna sem gjarnan vinna í litlum búðum. Ef við teljum að laun þar séu um 60 þús., sem þau eru hjá mörgu afgreiðslufólki, og jafnvel lægri, þá mundi hækkun húsaleigunnar þýða um það bil 25% af þeim launum. Og auðvitað reyna menn með einhverjum hætti að bæta sér upp slíka skatta. Þetta eru skattar á atvinnurekstur, ekki á laun mannsins, og þess vegna ekkert óeðlilegt, þegar við tölum um launalið bóndans, að hann skuli vera óskertur, en hins vegar eru aukin útgjöld bætt og þá reyna menn auðvitað að bæta sér þau upp og það geta þeir sjálfsagt ekki gert með neinum öðrum hætti en þeim að hækka eilítið vöruverðið, um 0,6%. Ef það er meðalhækkun allra vara bara af þessum ástæðum, þessum nýju sköttum, munar um það að sjálfsögðu.
    En þetta bréf, sem ég er með fyrir framan mig, er frá Sambandi ísl. samvinnufélaga og yfirskriftin er: Athugasemdir vegna skatta á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    ,,Skattlagning þessi er óréttlát m.a. sökum þess að hún miðast við húsnæði sem byggt var fyrir mörgum árum og tók þá mið af byggðastefnu stjórnvalda sem ekki hefur náð fram að ganga.`` Þetta er sem sagt punktur númer eitt, að menn byggðu í þeirri trú að atvinnulíf úti á landi mundi eflast og fólki fjölga þar og vissulega eru bæði ég og aðrir hv. alþm. sekir um það ef sekt skal kalla að leitast við að byggja upp atvinnuvegi úti á landi í þeirri trú að þar mundi atvinnulífið styrkjast og fólksfjöldi aukast. En það er rétt hjá þessum forustumönnum Sambandsins að stjórnvöld trúðu þessu og við sjálfsagt öll sem hér erum inni trúðum því að þetta mundi takast. Það hefur því miður ekki gerst. Það hefur frekar orðið fækkun í ýmsum héruðum og sérstaklega gat Kjartan Kjartansson um Vestfirðina, sem hann kvaðst þekkja best, að þar væri hvert verslunarhúsið, nýleg verslunarhús, stór og góð hús, meira og minna vannýtt af þeim sökum að verslunin hefði dregist saman og þetta ætlaði sér að leita, virtist honum, enn lengra á sama veg þannig að það yrði gersamlega ókleift að reka verslanir úti um landið.
    Þá er það liður númer tvö: ,,Því eru víða miklar og dýrar fjárfestingar sem tiltölulega lítil not eru fyrir. M.a. má nefna uppbyggingu húsnæðis kaupfélaganna á Patreksfirði, Dýrafirði, Súgandafirði, Ísafirði, Króksfjarðarnesi svo að aðeins sé tekið eitt kjördæmi.`` Við þekkjum þetta úr öðrum kjördæmum. T.d. þekkjum við hv. þm. Stefán Guðmundsson stórhýsi Kaupfélags Skagfirðinga sem var byggt í bjartsýni og í von um að umsvif mundu vaxa og fólki fjölga, en er allt of stórt miðað við það sem þar er nú rekið. Að vísu er þess að gæta að hluti hússins er leigður til skólahalds og við ræddum sérstaklega hvort bæri að leggja skatt á húsnæði sem væri leigt til annars en verslunarreksturs eða þann hluta húsnæðisins og okkur sýndist að það mundi ekki vera eðlilegt að þó að þetta sé byggt sem verslunar- og skrifstofuhús, þá skuli lagður skattur líka á þann hluta sem leigður er ríkinu til skólahalds. Ég veit ekki hvernig því er háttað, en okkur sýndist við að bera saman lagatexta

að það mundi vera a.m.k. óeðlilegt að gera.
    Liður númer þrjú. Þar segir: ,,Í Vestfjarðakjördæmi, þar sem t.d. rösklega 14 þúsund íbúar voru fyrir nokkrum áratugum og sem búist var við að hefði fjölgað upp í um það bil 30 þúsund árið 1990, eru nú aðeins tæp 11 þúsund íbúa og fer ört fækkandi, en eftir liggja húseignir og verslunaraðstaða sem stjórnvöld ætla svo ofan í kaupið að skattleggja til ,,aðstoðar`` dreifbýlisversluninni.``
    Ég spurði að því sérstaklega hver væri skoðun þeirra á því ef slík hús yrðu tekin til einhverra annarra nota, t.d. einhver hluti þeirra til við skulum segja saltfiskverkunar eða prjónastofa eða eitthvað slíkt, og menn hölluðust að því að þá mundi líka vera óheimilt að skattleggja húsin sem verslunar- og skrifstofuhús, en þau eru skattlögð í dag vegna þess að annar rekstur er ekki þar og húsnæðið auðvitað allt of stórt fyrir þann rekstur sem fyrir hendi er.
    Þá er það töluliður fjögur í þessu bréfi: ,,Dreifbýlisverslunin hefur orðið fyrir þungum búsifjum undanfarin ár, m.a. vegna óhemjumikils fjármagnskostnaðar, og nemur rekstrarhalli hennar hundruðum milljóna kr. Eins og öllum er kunnugt hefur hvert verslunarfyrirtækið af öðru farið í gjaldþrot undanfarin missiri og útlit er fyrir sömu þróun á næstu missirum ef ekki verður að gert. Með því skerðist eða hverfur sú þjónusta sem verslunin er úr heimabyggðum og til stærri staða eins og t.d. Reykjavíkur og er ósanngjarnt að
taka ekki fullt tillit til þessarar þróunar en leggja þess í stað fullan þunga á hálfgerðan fjörbrotarekstur.`` Þeir notuðu það nafn að verslunin úti á landi væri í fjörbrotum og reyndar mörg önnur orð sem komu þar við sögu.
    Þá er það töluliður fimm í þessu bréfi: ,,Ætlast verður til þess að stjórnvöld taki mið af sinni eigin stefnu í byggðamálum og þrengi ekki svo kost þeirra sem enn reyna af vanefnum að halda uppi verslunarþjónustu að skattleggja svo fyrri tíðar fjárfestingar að hún leggist af við stjórnvaldaaðgerðir.`` Verslunarþjónustan leggist af við stjórnvaldaaðgerðir.
    Í sjötta lið: ,,Því ætti að fella niður þennan bráðabirgðaskatt sem lofað var að yrði mjög tímabundinn og ætlast til að staðið yrði við orð Alþingis.``
    Það tóku þessir gestir okkar rækilega fram að Alþingi hefði ekki staðið við sín orð. Einhver benti þeim á að það væri æðitítt að þegar einn skattur væri lagður á, þó hann ætti að vera til eins árs, þá væri hann gjarnan framlengdur til árs í viðbót og jafnvel til nokkurra ára og ekki síst þá kannski hækkaður. ( EG: Þetta er nú sjálfstæðismanna.) Ég er ekkert að segja að það sé bara ein stjórn eða einn flokkur sem hafi gert þetta. Við þekkjum þetta öll hér inni. Þeim fannst þetta ósanngjarnt engu að síður. Það hefði kannski mátt réttlæta þetta þegar mikil umsvif voru og sæmilegur hagur hjá fyrirtækjunum, en þegar þau væru að hrynja og hvert af öðru að fara á hausinn gæti þetta varla talist eðlilegt af hálfu Alþingis. Ég held að ég flytji þeirra boð hingað alveg rétt og geri

hvorki meira úr þeim eða minna en eins og þau féllu.
    Framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands taldi að það væru fjöldagjaldþrot yfirvofandi í versluninni. Það færi ekkert milli mála að hagur verslunar væri mjög bágborinn líka, ekki bara annarra atvinnuvega heldur líka verslunarinnar. Þó að einstök stórfyrirtæki standi það vonandi af sér taldi hann miklar líkur til þess að fjöldinn allur af verslunarfyrirtækjum, hvort heldur eru rekin af einstaklingum, hlutafélögum, samvinnufélögum eða með einhverjum öðrum hætti, mundu verða gjaldþrota eða eiga í mjög miklum erfiðleikum og það var ekki einskorðað við byggðirnar úti á landi heldur væri hið sama að gerast í Reykjavík og nágrenni Reykjavíkur. Það passar allt saman við draumsýn hæstv. fjmrh., að það er ekki bara partur af landinu þar sem kreppan hans kemur til með að ríkja. Hún verður yfir alla línuna svo að hann ætti að gleðjast um hátíðirnar þegar hann sér það fyrir augum sér. Svo er væntanlega þá líka um aðra í stjórnarherbúðunum.
    Ég ætla þá að geyma mér frekari umræður um skattamálin almennt, þar er auðvitað af mörgu að taka, þangað til við fáum hér það málið sem ég hélt að fyrst yrði á dagskránni, en það kemur þá væntanlega einhvern tíma seinna á fundinum.