Framhaldsskólar
Mánudaginn 19. desember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég get lýst því yfir hér að ég hef enga ástæðu til að halda mikla og langa ræðu um þetta frv. Ég get fallist á þau rök sem haldið hefur verið fram um nauðsyn frestunar sem slíkrar á kostnaðarkafla og stjórnunarkafla þessara laga, en ég er á nál. með hv. 2. þm. Norðurl. e. og tel að 7. og 8. gr. frv. megi koma til framkvæmdar. Ég hef enga ástæðu til að halda í þær nefndir sem þegar hafa verið skipaðar, en tel að það sé ekki sama nauðsynin á að fresta þessari nefndaskipun og þeim tveimur köflum sem eru uppistaðan í þessum lögum og mun ég reyna að skýra það með nokkrum orðum.
    Lög um framhaldsskóla voru samþykkt á síðasta löggjafarþingi. Mörkuðu þau viss tímamót fyrir framhaldsskólastigið og bundu enda á óvissuástand sem ríkt hafði um alllangt skeið. Með frv. sem nú er lagt fram er lagt til að kostnaðar- og stjórnunarþætti frv. ásamt 7. og 8. gr. frv. um skólanefndir verði frestað. Helstu rök þessarar frestunar eru samkvæmt framsöguræðu hæstv. menntmrh. eftirtalin:
    1. Væntanlegt frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafi ekki verið samþykkt. 2. Að reglugerðarsmíð sem nauðsynleg er gangi seint. 3. Að nauðsynlegt sé að endurskoða ýmsar greinar frv.
    Ég get fallist á að fresta á grundvelli þess að frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er ekki orðið að lögum og einnig að fresta á grundvelli þess að reglugerðarsmíð gangi seint. En ég get ekki fallist á að þessar tvær greinar, 7. og 8. gr. frv., frestist líka og ég tel að það sé einmitt nauðsynlegt að þessar nefndir verði skipaðar. Þá er ég ekki með því að gera lítið úr þeim nefndum sem nú eru heldur tel ég mjög eðlilegt að þær megi skipa þrátt fyrir að þessu verði frestað.
    Á fundi menntmn. þar sem ég átti sæti kom fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að þessi nefndaskipun væri í tengslum við stjórnunarkaflann, en þeir færðu ekki nein sérstök rök fyrir því að þetta gæti ekki farið fram þrátt fyrir að köflunum tveimur yrði frestað, kostnaðarkaflanum og stjórnunarkaflanum. Ég tel að það megi sem sagt fara fram nefndaskipan og þess vegna skrifa ég undir álit 2. minni hl. menntmn., en ég lýsi því hér yfir að ég mun fallast á að samþykkja frv. um kostnaðarkaflann og stjórnunarkafla framhaldsskólafrv., en legg á það ríka áherslu að menntmrh. reyni að hraða þessu máli eins og tök eru út af því að þessi lög eru mikil nauðsyn og frestun hefur komið miklu róti á mál. Öll frestun á lögum sem þessum skapar mikla óvissu. Það má minna á að formaður Skólastjórafélagsins, Ingvar Ásmundsson, kom fyrir nefndina og hann taldi alveg ófært að fresta þessum lögum þar sem það mundi mismuna sveitarfélögum og mismuna mjög verulega skólum, þar sem sveitarfélög mundu draga lappirnar, eins og hann orðaði það, vitandi að ríkið tæki þetta yfir innan skamms tíma.
    Ég vil ekki tefja þessa umræðu, en ég vildi samt skýra það sjónarmið, sem liggur til grundvallar afstöðu minni í þessu máli, að ég tel enga nauðsyn á að fresta

þessari nefndaskipun.