Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Mánudaginn 19. desember 1988

     Halldór Blöndal (frh.) :
    Herra forseti. Hæstv. viðskrh. þurfti að bregða sér í símann áðan og mig og þann forseta sem þá var brast biðlund þannig að það varð samkomulag milli okkar að við skyldum fresta umræðunni og gá hvort hæstv. viðskrh. kæmi. Mér þykir bara verst að nú man ég ekkert hvar ég var staddur áðan. Það getur því farið svo að ég þurfi að rifja eitthvað upp. Það er nú þannig. Það eru auðvitað fleiri mál á dagskrá. Það er skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég er fyrstur á mælendaskrá þar. ( Forseti: Það er verið að gera ráðstafanir til að ná í viðskrh.)
    Herra forseti. Mig minnir að þar hafi verið komið sögu að ég var að rifja upp fyrir ráðherrum báðum að hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. hafi verið að tala um að það væri alls engin þörf á því að fella gengið. Ég var einmitt að rifja upp að hæstv. fjmrh. hafi sagt í septembermánuði að það væri hættulegt að treysta stjórn Byggðasjóðs fyrir því að hafa með höndum skuldbreytingu fyrir útflutningsatvinnuvegina því að ekki væri hægt að handstýra stjórn Byggðasjóðs úr ráðuneytinu eins og hægt er að gera með stjórn Atvinnutryggingarsjóðs, enda má kannski segja að það þurfi meiri þrekmenn en eru í ráðherrastólum nú til að handstýra 1. þm. Vestf. Sú er nú ástæðan fyrir því að ekki mátti nota stjórn Byggðasjóðs. Að vísu hafa einstakir ráðherrar haft uppi þau ummæli opinberlega og annars staðar að það sé mikið um hrossakaup í stjórn Byggðastofnunar, kjördæmasjónarmið ráði miklu og þess vegna sé þessum aðilum ekki treystandi fyrir því að fjalla faglega um umsóknir. Ekki skal ég segja um hvað t.d. ráði því að langlánanefnd var lögð niður í viðskrn. og fróðlegt væri að fá að fylgjast með því eftir hverju hafa farið heimildir til að taka lán erlendis, sem hafa verið í höndum viðskrh. á mismunandi tímum, en hitt vitum við að öll þau plögg sem fjh.- og viðskn. hefur fengið um þarfir atvinnuveganna fyrir erlendar lántökur og allar þær upplýsingar sem við fengum t.d. í fjh.- og viðskn. fyrir einu ári, fyrir síðustu jól, um hvernig viðskrh. hygðist standa að heimildum fyrir erlendar lántökur reyndust einskis virði. Það er beinlínis tekið fram í grg. með frv. til lánsfjárlaga að ástæðurnar fyrir því hversu mjög erlendar lántökur hafi farið fram úr á þessu ári megi í höfuðdráttum rekja til viðskrn.
    Það var af þessum sökum sem mér þótti, herra forseti, bagalegt að enginn fulltrúi Alþfl. skyldi vera við þegar við ræddum lánsfjárlögin og hef ég hugsað mér að víkja nánar að þessum þætti þegar þau koma til afgreiðslu hér í deildinni og skal ekki fjalla um þau, en ég minni aðeins á að ríkisstjórnin er ákveðin í því að beina í vaxandi mæli fyrirgreiðslu til útflutnings- og samkeppnisatvinnuveganna þannig að einungis persónulegir fulltrúar einstakra ráðherra fái að lokum að segja um hverjir séu útvaldir. Og það er ekki nóg með það að þessir hæstv. ráðherrar hagi sér með þeim hætti heldur bæta þeir inn í frv. um breytingu á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum á árinu 1988, þ.e. hversu það skuli vera á árinu 1989, einum lið, c-lið. Við 3. mgr. bætist við

nýr tölul., 4. tölul., svohljóðandi: ,,Lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda í þágu útflutningsgreina.``
    Hverjir eiga að fjalla um þessi sérstöku lán? Er það hugmynd þeirra tveggja hæstv. ráðherra sem hér eru að það sé stjórn sem skipuð er kannski að meiri hluta af þeim sjálfum? Nú kann ég svo illa lögin um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina. Eins og ég man það skipar forsrh. einn mann, sjútvrh. einn mann, iðnrh. einn mann, viðskrh. einn mann. Er þetta rétt munað? ( GHG: Sami maðurinn.) Getur verið að þetta sé rétt? ( Gripið fram í: Já.) Það eru m.ö.o. svo að þessir tveir menn sem eru við hliðina á mér skipa meiri hlutann í þessari stjórn. Nú er það þess vegna mjög þýðingarmikið að þeir báðir skýri þingdeildinni frá því, sérstaklega kannski viðskrh. og iðnrh., hvaða sjónarmið hann vilji leggja til grundvallar þegar hann er að tala um að það eigi að undanþiggja tiltekin lán almennri skattheimtu. Hver eru skilyrðin fyrir því að lánin séu undanþegin? Að þau séu vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda í þágu útflutningsgreina. Það væri t.d. ekki úr vegi að fá eitthvert fordæmi fyrir þessu. Ætli stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, þegar talað var um að skattlagning skyldi vera almenn og taka jafnt til allra, hafi gert ráð fyrir því t.d. ef við tökum stað sem á í erfiðleikum, eigum við að segja Ólafsfjörð þar sem bæði frystihúsin eru lokuð. Svo stendur í lögum: ,,Lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda í þágu útflutningsgreina.`` Segjum svo að Ólafsfjörður vilji taka lánið, bæjarstjórn Ólafsfjarðar, en ríkisstjórninni finnist að bæjarstjórn Ólafsfjarðar standi rangt að þessu. Á þá að leggja lántökugjald á það sem Ólafsfjarðarkaupstaður vill gera? Á að gera það? Eru stjórnvöld þarna eingöngu ríkissjóður og þeir fulltrúar sem eru í þessum almannasjóði fyrir þessa tvo herramenn mér til vinstri handar og fyrir forsrh. og fyrir fjmrh.? Eiga þessir fimm menn að taka almennt ákvörðun um hvernig lántökugjald skuli koma við einstök fyrirtæki? Ef þessir menn segja: Við skulum láta það fyrirtæki sem hér um ræðir falla undir sérstakar aðgerðir í þágu útflutningsgreina, ef þeir telja að aðgerðirnar fyrir fyrirtækin falli undir þetta, þá á að gefa eftir lántökugjaldið. En ef
einhverjir aðrir tala um að nauðsynlegt sé að fá erlent lán til að undirbúa og hrinda aðgerðum í framkvæmd til viðreisnar öðrum fyrirtækjum í sömu atvinnugrein, á það fyrirtæki þá ekki að fá afslátt af láninu? Ég skora á þessa tvo hæstv. ráðherra að benda mér á eitthvert fordæmi þess að Alþingi hafi afsalað valdi sínu með þessum hætti. Ég skora á þá að gera það. Ég þekki ekki fordæmi fyrir slíku og bið þess vegna um að ráðherrarnir útskýri það. Annar þeirra er mjög vel að sér í skattalögum og hinn líka svo að við skulum vona að það standi ekki í þeim að tala um það.
    Ég veit ekki hvort ég má segja það upphátt, herra forseti, það er fundið að því að ég finni of mikið að, en þó verð ég að segja að stundum finnst mér stjórn þingsins ekki vera nógu góð og vil rekja það til þess að forsetar þingsins hafi ekki hugmynd um hvað vaki

fyrir ríkisstjórninni eða forsrh. Þetta hefur stundum leitt til þess að forseti Sþ. hefur ekki getað haft þá stjórn á þinginu sem við höfum vanist og við höfum kosið, sem aftur hefur valdið því að ekki hefur verið hægt að tala út um skipasmíðaiðnaðinn í Sþ. Ef það hefði verið hægt hefði það flýtt fyrir umræðunum núna. En vegna þess að við vitum ekki hvort það vinnst tími til að ræða skipasmíðaiðnaðinn fyrir áramót eins og búið var að lofa er óhjákvæmilegt að víkja að honum nokkrum orðum.
    Hæstv. iðnrh. sagði í Sþ. að það væri mjög mikils vert ef enskt hagræðingarfyrirtæki gæti hjálpað upp á sakirnar hjá skipasmíðaiðnaðinum þannig að þar mætti verða meiri framleiðni og meiri hagræðing. Þegar ég las fjárlögin yfir hugsaði ég með mér, sérstaklega eftir að hafa hlustað á þetta hjá viðskrh.: Af hverju fékk ekki ríkisstjórnin sér enskt hagræðingarfyrirtæki til þess að það væri hægt að létta skatti af þjóðinni sem ríkisstjórnin er svo önnum kafin við að leggja á og vill leggja á töluvert meira til að það væri hægt að spara? Ef menn þurfa endilega að leita til Thatcher ber ég fullt traust til hennar og mundi glaður vilja lúta hennar leiðsögn. En það er ekki svo vel að ríkisstjórnin hafi vit á því.
    Hins vegar er hún önnum kafin við að tala um að hagræða. Hæstv. forsrh. sagði líka að þeir í sjávarútveginum ættu að hagræða og spara. Ég man ekki hvort hæstv. sjútvrh. hefur sagt að þeir eigi að hagræða og spara í sjávarútveginum, en ég man eftir að fjmrh. hefur líka talað um að það eigi að hagræða og spara í sjávarútveginum og þegar hæstv. menntmrh. talar um sjávarútveg er hann að tala um að það eigi að hagræða og spara, en þegar kemur að menntuninnni spyr hann: Hver vill draga úr kostnaðinum við menntunina? Og eins er það um þennan viðskrh., sem líka er iðnrh., að tillögur hans um að rétta við skipasmíðaiðnaðinn hafa ekki vakið sérlega athygli. Það væri kannski fróðlegt að fá líka frá honum skýr svör um hvernig eru t.d. spádómar um iðnfyrirtækin á næsta ári. Er það rétt, sem maður hefur séð á prenti, að því sé spáð vegna rangs gengis að markaðshlutdeild íslenskra iðnfyrirtækja muni minnka um 10% á næsta ári, markaðshlutdeildin hafi minnkað á þessu ári, hún haldi áfram að minnka og hún muni minnka á næsta ári um 10%? Getur verið að þetta sé satt? Getur verið að skipasmíðaiðnaðurinn eigi í verulegum erfiðleikum? Getur verið að samkeppnisiðnaðurinn eigi í verulegum erfiðleikum og sé að tapa markaðshlutdeild? Getur verið að þjónustuiðnaðurinn við útgerðina, eigum við að taka veiðarfæri, kassa eða eitthvað annað, eigi líka í miklum erfiðleikum? Og getur verið að á sama tíma og þetta liggur allt fyrir, þá sé iðnrh. sem segir: Þetta er allt í lagi. Við skulum bara láta reyna á þolrifin á þeim. Við skulum athuga hvort það sé rétt að þeir séu að missa markaðshlutdeild. Það er ekki nokkur þörf á því að vera að breyta genginu. Gengið er alger afgangsstærð, eins og þeir segja sumir stjórnarsinnar, afgangsstærð í þessu þjóðfélagi, alger afgangsstærð. Svo er gefið í skyn að það sé Seðlabankanum að

kenna að gengið er ekki rétt skráð. Ég hef aldrei heyrt þá speki hér á Alþingi fyrr að Seðlabankinn geti staðið uppi í hárinu á ríkisstjórninni og neitað að fella gengið ef ríkisstjórnin stendur saman um að vilja gera það. Ég hef aldrei heyrt þá speki. En hitt er nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. leyfi okkur að heyra hver skoðun hans sé um gengið.
    Ég sagði í ræðu minni í októbermánuði úr þessum ræðustól að það væri alveg útilokað að ríkisstjórninni tækist að standa á móti gengisfellingu lengur en fram í janúarmánuð. Ég er farinn að efast um að ríkisstjórninni takist, eins og hún hefur stjórnað, að standa lengur á móti því en eigum við að segja á annan í jólum. Ég er ekki hissa þó þeir mundu nota jólahátíðina til að fella gengið eins og nú er komið. Slíkt er öngþveitið um allt land, uppsagnirnar á fólkinu, kvíðinn hjá þeim mönnum sem eru að reyna að reka fyrirtæki og halda uppi atvinnu og skapa verðmæti í þessu landi. Hann segir það í helgarhugleiðingu, hæstv. forsrh., í Morgunblaðinu að á borðinu séu að hlaðast upp staflar af bréfum og skýrslum um fyrirtæki sem eigi í erfiðleikum, en í næsta orði fer hann að tala um að það sé barlómur í mönnum að segja að það sé eitthvað að. Og svo þegar hann er búinn að tala um þennan barlóm í mönnum sem segja að það sé eitthvað að er hann að tala um hvað væri gaman ef hér gæti orðið ferðamannaiðnaður. Hvernig er ástandið þar núna? Er það glæsilegt? Er
glæsilegt ástandið þar? Eru þeir að græða þar? Ætli ráðherrarnir gætu rekið hótel núna með hagnaði? Ætli þeir gætu boðið upp á það verð sem nauðsynlegt er að bjóða upp á til að fá fólk til landsins núna? Eru það bara hinir sem eiga að sýna hagræðingu og hinir sem eiga að spara? Ekki þeir sem leggja á skattana, ekki þeir sem eru að leggja til að skattleggja Lánasjóð ísl. sveitarfélaga um 95 millj. Þeir ætla ekki að spara. Þeir ætla bara að ná í peningana. Auðvitað er það alger ómöguleiki að hægt sé að reka ríkissjóð með greiðsluafgangi þegar þannig er staðið að atvinnuvegunum eins og nú er gert.
    En ég var áðan að tala um skipasmíðaiðnaðinn. Það er hugsað fyrir því hér í staflið a að lán sem tekin eru erlendis vegna kaupa eða reksturs á kaupskipum og flugvélum sem notaðar eru í atvinnuskyni skuli undanþegin lántökugjaldi, en ég hygg að ég fari rétt með að ef lán eru tekin með smíði, vegna vinnu við smíði á fiskiskipum hér á landi, muni lántökugjald falla á slík lán. Væri fróðlegt að fá það rökstutt af hæstv. iðnrh. ef ég hef skilið það rétt út af skipasmíðaiðnaðinum: Er það réttur skilningur hjá mér, eða rétt munað réttara sagt, að lán vegna kaupa á tækjum til skipa sem smíðuð eru hér á landi skuli undanþegin lántökugjaldi en hins vegar ekki vinna við að koma tækjunum fyrir eða smíða skipin? Er þetta rétt munað? Það væri afskaplega þægilegt, forseti, ef ráðherra vildi upplýsa í leiðinni hvort þetta er rétt munað. Mig minnir að þetta sé svona. Ekki svar við því, ekki einu sinni nei. Þó fengumst við til þess á fundi nefndarinnar í morgun

að ræða þau frumvörp sem hér eru til 1. umr. til að flýta fyrir. Samt ekki já eða nei. ( VS: Það voru ekki allir sem fengust til þess.) Ekki já eða nei. --- Ég fékkst til þess. Vegna frammískots hv. 5. þm. Norðurl. e. vil ég aðeins ítreka það, sem ég sagði við flokksbróður þingmannsins í dag, að ógerningur er að fjalla um svo flókið mál sem staðgreiðslukerfi skatta án undirbúnings í þingnefnd og áður en því frv. hefur verið vísað til nefndarinnar. Ég held að sá maður sem það gerir beri enga virðingu fyrir sínum þingskyldum. Það er hægt að fjalla með slíkum hætti um einföld frumvörp eins og tvöföldun á skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Það er enginn vandi. En það má vera að hv. þm. sé svo vel að sér í þessum lögum að hann geti það. Ekki skal ég um það segja.
    En ég heyri að hæstv. viðskrh. vill ekki tala eitt einasta orð um þessa hluti. ( Viðskrh.: Ef ég má grípa fram í fyrir ræðumanni meðtók ég ekki alveg spurninguna. Sú var ástæðan.) Nei. Ég skal ítreka spurninguna: Er það rétt munað að samkvæmt lögunum eigi lántökugjald ekki að falla á tæki sem flutt eru til fiskiskipa hér á landi en hins vegar falli lántökugjald á þá vinnu sem unnin er við smíði fiskiskips hér? ( Viðskrh.: Þessu hygg ég að sé ekki hægt að svara með einu orði, jái eða neii. Það er rétta svarið.) Já, það er nefnilega það. Ekki er ég óánægður með þetta svar --- ( Viðskrh.: Ég get ekki verið nákvæmari en þetta, hv. þm.) Nei. --- enda hef ég, herra forseti, beðið um að fá bréf frá samtökum skipasmíðaiðnaðarins einmitt um þetta atriði. Ég hygg að þingdeildinni sé kunnugt að svo hallar á skipasmíðaiðnaðinn að það væri algerlega út í bláinn ef sérstakur þensluskattur yrði lagður á umsvif skipasmíðastöðvanna því að lántökugjald og erlendar lántökur eru ekkert annað en skattur sem lagður er á til að draga úr þenslu. ( Viðskrh.: Þingmaðurinn stóð að því sjálfur.) Ja, fyrir einu ári stóð öðruvísi á. Þá var meiri þensla í þjóðfélaginu.
    Ég hef gaman af því að vita hvort þessi sé skoðun hæstv. viðskrh. vegna þess að hann hefur verið ráðunautur margra ríkisstjórna. Er það skoðun hæstv. viðskrh. að gengisfelling nú mundi hafa sömu verkan og fyrir ári? Ef hann telur það talar hann öðruvísi en aðrir þeir hagfræðingar sem ég hef talað við sem hafa sérstaklega vakið athygli mína á að gengisfelling nú þjónaði ekki aðeins þeim tilgangi að rétta stöðu útflutnings- og samkeppnisgreina heldur mundi gengisfelling nú almennt verka til að draga úr þeirri stöðvun sem er að verða hjá fyrirtækjunum og mundi verka sem vítamínssprauta almennt á atvinnulífið og veitir ekki af. Fyrir einu ári aftur á móti, ef komið hefði til verulegrar gengisfellingar, var ótti manna sá að sú gengisfelling mundi um leið og hún rétti hlut atvinnuveganna leiða til svo og svo mikillar þenslu í þjóðfélaginu að af þeim sökum væri nauðsynlegt að gera ráðstafanir af því tagi sem ég er hér að lýsa. ( Forseti: Það er komið að þingflokksfundatíma. Ef ræðumaður á mikið eftir af ræðu sinni bið ég hann að gera hlé á henni.) Já, ég skal gera það.
    Herra forseti. Eins og þingdeildarmönnum er

kunnugt var það mat manna á öndverðu þessu ári, fyrstu mánuðum þessa árs, að nauðsynlegt væri að koma í veg fyrir að sú þensla sem þá hafði verið í atvinnulífinu héldist og var af þeim sökum ákveðið að leggja á sérstakt lántökugjald sem var þannig að skv. 13. gr. laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988 var ákveðið að 2% lántökugjald skyldi koma á samninga sem væru til sex mánaða eða skemmri tíma, 4% lántökugjald skyldi koma á samninga til lengri tíma en sex mánaða en þó ekki lengri tíma en eins árs og loks var það ákveðið að 6% lántökugjald skyldi koma á samninga til lengri tíma en árs og skyldi samanlagður gildistími samninga segja til um í hvaða gjaldflokk þeir féllu.
    Eins og augljóst er á þessari grein skiptir mjög miklu máli, herra forseti, hvaða undanþágureglur gilda varðandi þessa skattskyldu. Það er auðvitað ekki lítið þegar menn eru að ráðast t.d. í skuldbreytingu hjá fyrirtæki sem hefur of mikið af skammtímaskuldum, fyrirtæki í sjávarútvegi sem hefur safnað upp skuldum jafnt og þétt á þessu ári og af þeim sökum er komið með mikinn fjármagnskostnað. Ég veit að hæstv. forseti man jafn vel og ég að hæstv. forsrh. hefur mjög lýst áhyggjum sínum einmitt úr þessum ræðustól sem ég stend nú í yfir því hversu mjög fjármagnskostnaðurinn hafi vaxið og af þeim sökum er eðlilegt að maður íhugi hvort og hvers vegna nauðsynlegt sé að skuldbreyta.
    Ég vil líka minna á það, herra forseti, vegna þess að ef einhver maður er stjórnvald hér inni --- Ég sé að vísu að nýtt stjórnvald gengur í salinn. Já, það er nú það. Hvað er stjórnvald? Það væri kannski rétt af því að enginn ráðherra er inni til að hlýða á mínar spurningar að spyrja hæstv. forseta, hvernig hann túlki það frv. sem hér er. Hér stendur í 1. gr. við c:
    ,,Við 3. mgr. bætist nýr töluliður, 4. tölul., svohljóðandi: Lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda í þágu útflutningsgreina.``
    Skilur hæstv. forseti þessa grein svo að með stjórnvaldi í þessu samhengi sé einungis átt við ríkisstjórnina eða skilur hæstv. forseti greinina í víðara samhengi? Er t.d. átt við stofnanir ríkisins? Er hugsanlegt að sveitarstjórnir geti fallið undir orðið ,,stjórnvald`` í þessari merkingu? Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar. ( Forseti: Ég hygg að það sé ekki hlutverk forseta að úrskurða um svona lagað, en mér sýnist að þetta sé augljóst mál sem um verður fjallað í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar og þar muni þetta verða skoðað gaumgæfilega.)
    Nú er það auðvitað mikið skilyrði að lagagreinar séu skýrar. Ef maður les fyrstu orðin í þessum texta eru þau svo: ,,Lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda``. Getur verið að þarna séu sérstaklega og einkum hafðar í huga þær miklu skattaálögur sem ríkisstjórnin hyggst bæta á atvinnureksturinn og að það sé ætlast til þess að lán sem útflutningsatvinnuvegirnir taka til að standa undir auknum skattaálögum skuli vera undanþegnar lántökugjaldi og þá sé kannski réttara að orða greinina svo: Lán sem tekin eru vegna nýrra skatta ríkisstjórnar

Steingríms Hermannssonar, í staðinn fyrir að segja: ,,Lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda.`` Það væri fróðlegt að fá eitthvað um það.
    Annars man ég ekki betur en fyrr í minni ræðu hafi verið óhjákvæmilegt að slá á frest umræðum um þetta sérstaka dagskrármál vegna þess að sá ráðherra sem málið fjallar um var ekki í deildinni. Nú er aftur komin upp sú staða að sá sérstaki ráðherra er ekki í deildinni. Ég tók að vísu eftir því að annar ráðherra var í salnum þegar fundur var settur, en nú hefur hann gengið inn í hliðarherbergi og lokað að sér. Ég er sannfærður um það, alveg spauglaust, að þegar verið er að biðja þingmenn að sitja á fundum frá því snemma á morgnana, í hádegi og jafnvel í kvöldmat, þegar ekki er ætlast til þess að þeir hafi neinn tíma á venjulegum vinnudegi til að setja sig inn í mál í stjórnarandstöðu, þá sé hér um bil lágmark að ráðherrarnir séu við. Og ég vil ekki flokka þetta undir málþóf. Ég hlýt að flokka þetta undir lélega verkstjórn í þinginu. Það er alveg óhjákvæmilegt að gera það. --- Ég sé að hæstv. sjútvrh. er kominn og það er þá kannski hægt að spyrja hæstv. sjútvrh. hvernig hann skilji þessi orð. Nú skulum við fara yfir þetta í samhengi.
    Í 3. tölul. 19. gr. laganna eins og þau eru núna stendur að undanþegin lántökugjaldi skuli vera: ,,Ný lán sem tekin eru til greiðslu á ógjaldföllnum hluta eldra láns enda sé sýnt fram á að hin nýja lántaka hafi ekki í för með sér aukningu erlendra skulda viðkomandi aðila eða lengingu á lánstíma og að með hinni nýju lántöku sé aðeins stefnt að því að fá hagstæðari lánskjör.`` Það á að fella niður ,,eða lengri lánstíma``.
    Nú langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann sé sammála því, sem hæstv. forsrh. sagði um daginn, að nauðsynlegt væri sem liður í því að reyna að greiða úr erfiðri greiðslustöðu sjávarútvegsins að gera fyrirtækjunum kleift að taka erlend lán eins og heimildir eru fyrir í bráðabirgðalögum til að fyrirtækin gætu létt á greiðslubyrðinni. Jafnvel þótt summa lána þeirra væri sú sama hefði breyst hlutfallið milli skammtímalána og langtímalána.
    Ég hélt satt að segja að hugmyndin á bak við það sem skýrt hefur verið Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina væri sú að reyna annars vegar með beinum framlögum ríkissjóðs, með sérstakri lántöku ríkissjóðs og loks með því að gefa út sérstök skuldbreytingalán, það er talað um 5 milljarða í lögunum, að gera útflutningsfyrirtækjunum kleift að skuldbreyta með þeim hætti að greiðslustaðan lagaðist þannig að hallareksturinn á þessu ári, sem hefur farið mjög vaxandi sérstaklega síðustu mánuðina, kæmi ekki allur niður á næsta ári heldur væri hægt að dreifa byrðunum af þessum langvarandi hallarekstri á fleiri en eitt ár. Þetta hélt ég að hefði verið markmiðið á bak við Atvinnutryggingarsjóð. Þess vegna get ég með engum hætti skilið hvers vegna í kjölfarið nú sé því slegið föstu að þeir sem geta fengið erlend lán á eigin
spýtur í því skyni að létta á sinni greiðslustöðu skuli

ekki aðeins þurfa að borga stimpilgjöld og annað þvílíkt, sem þeir losna við sem taka lánin hjá Atvinnutryggingarsjóði, heldur eigi þeir ofan í kaupið að greiða 6% lántökugjald. Þetta er mikið umhugsunarefni, ekki síst þegar í næstu málsgr. kemur að undanþegin skuli lán ef þau eru tekin vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda í þágu útflutningsgreina. Það er alveg augljóst að ríkisstjórnin stefnir að því að fulltrúar hennar í Atvinnutryggingarsjóði geti haft fingurinn á lántökunum, eins og einn mikill stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar komst að orði, og með þeim hætti sé hægt að stýra því hvert peningarnir fara.
    Ég sé að hæstv. fjmrh. er kominn í salinn og væri þá kannski fróðlegt líka, vegna þess að hér komum við beint inn á bráðabirgðalögin, að hann útskýri nákvæmlega hvað fyrir honum vakir þegar hann er að tala um að hann vilji sjá það að erlendri fyrirmynd, mig minnir bandarískri, að einhverjir legátar hans fari úr byggðarlagi í byggðarlag, frá fyrirtæki til fyrirtækis til að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að afhenda fyrirtækin einhverjum öðrum.
    Það er líka eftirtektarvert, vegna þess að hæstv. iðnrh. var hér í salnum áðan þó hann sé ekki kominn nú, og auðvitað fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig á því megi standa að hann skuli vilja fella út orðin ,,eða lengingu á lánstíma``. --- Ég var að tala um að það væri eftirtektarvert hvers vegna hæstv. iðnrh. vildi fella úr 3. tölul. 19. gr. laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988 orðin ,,eða lengingu á lánstíma`` sem vel gat átt við samkeppnisiðnaðinn, en setja í staðinn ,,lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda í þágu útflutningsgreina``. Nú liggur alveg fyrir að ýmis fyrirtæki sem hafa verið aðsópsmikil og til fyrirmyndar, í örum vexti og hafa þjónustað m.a. sjávarútveginn hafa þurft að taka á sig þá kvöð að fjármagna viðskiptin við útflutningsatvinnuvegina vegna slæmrar greiðslustöðu þeirra upp á síðkastið þannig að þessi fyrirtæki, ef þau eiga að hafa bolmagn til að skuldbreyta eftir lögunum um Atvinnutryggingarsjóðinn, þurfi á því að halda að fá fjármögnun til að standa undir þeirri lánsfyrirgreiðslu sem óhjákvæmilegt virðist að þau þurfi að láta sjávarútveginum í té.
    Nú langar mig til að spyrja líka hæstv. iðnrh. Nú getur hann sagt að í þágu útflutningsgreina þýði það að iðnfyrirtæki megi taka erlent lán án lántökugjalds ef sú hugsun er á bak við það eða ef málin eru þannig vaxin að iðnfyrirtækið geri þetta til að greiða fyrir viðskiptum sínum við útflutningsfyrirtæki. En þá hlýtur líka að koma þessi spurning: Eru ekki ýmis önnur iðnfyrirtæki í landinu sem ekki stendur þannig á um? Ég held þess vegna að það sé alveg óhugsandi annað en þeir hæstv. ráðherrar sem hér eru inni úr þrem stjórnmálaflokkum geri allir grein fyrir því nú í deildinni hvernig þeir skilji orðin ,,lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda í þágu útflutningsgreina``.
    Ég ítreka, hæstv. iðnrh., það sem ég sagði áðan, að

það er alveg gersamlega óskiljanlegt hvernig á því getur staðið að ríkisstjórninni finnst betra að orða þessa málsgr. þannig að hún ekki skilst í staðinn fyrir að láta lagatextann vera þannig að hægt sé að botna í því hvað hann merkir. Ég hringdi núna í kvöldmatnum í þrjá virta lögfræðinga. Það hefur stundum komið fyrir að hæstv. ráðherrar hafi sagt: Ég hringdi í lögfræðing sem ég treysti eða ég kallaði til mín lögfræðinga sem ég treysti. Nú gerði ég þetta. Ég talaði við þrjá lögfræðinga sem ég treysti og ég spurði þá að því hvað þetta þýddi nákvæmlega. Allir lögfræðingarnir brugðust eins við og þeir spurðu: Af hverju er ekki hægt að hafa þetta þannig að það þurfi ekki að spyrja okkur? Nú rifja ég upp að ég hef einu sinni orðið vitni að því þegar var verið að setja hér lög að það var kallað á eina þrjá eða fjóra lögfræðinga til að spyrja þá að því hvað þau lög þýddu sem við ætluðum að fara að setja í staðinn fyrir að reyna að breyta textanum þannig að hann væri hverjum manni skiljanlegur.
    Ég var að segja áðan, hæstv. iðnrh., og sé ástæðu til að ítreka það, að sá var munur á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988 að lántökugjaldið á þeim tíma var ekki hugsað --- Herra forseti. Ég hlýt að gera það alveg gamanlaust að ætlast til þess að þeir ráðherrar sem mál heyra undir geti setið í deildinni a.m.k. 2--3 mínútur. Ég er að tala um lagatexta við ráðherrann sem skiptir mjög miklu máli fyrir fyrirtæki í landinu og ég er að biðja hæstv. ráðherra um að útskýra hvað lagatextinn þýðir. En þeir virðast líta svo á, ráðherrar, að það sé alveg aukaatriði hvort þeir sitji í salnum. Þetta er alveg dæmalaust. Ég man ekki eftir neinu fordæmi um það, þegar með þessum hætti er beint spurt um lagatúlkun, að ráðherrar með þessum hætti tefji þingstörf. ( GHG: Menn sem eru í tveim embættum . . . ) Það er mikið annríkið. ( GHG: . . . forstjórar hjá ríkinu, ráðherrar og alþingismenn þurfa ekki að hlusta á venjulegt fólk.) Ég var að segja það, hæstv. ráðherra, og fagna mjög að ráðherrann skuli kominn í salinn. ( Viðskrh.: Ég fór að sækja lög nr. 10/1988. Þú leggur svo mikið út af þeim.) Já, það þykir mér gott ef ráðherrann vill lesa þau. Úr því að þetta frv. er til breytingar á þeim lögum finnst mér elskulegt að það skuli gert.
    Ég var að segja það að þegar lántökugjaldið var tekið upp í byrjun marsmánaðar á þessu ári var ekki markmiðið með þeim lögum að afla fjár í ríkissjóð heldur var markmiðið fyrst og fremst að draga úr þeirri þenslu sem þá var í þjóðfélaginu og reyna að slá á frest fjárfestingu sem ýmis fyrirtæki höfðu ætlað sér að ráðast í og þannig að reyna að draga úr þenslunni. Ég vil ítreka það, sem ég sagði áðan, að nú er ástandið allt, allt öðruvísi. Nú er ástandið þannig að nauðsynlegt er að fara í gengisfellingu. Ekki eingöngu vegna útflutningsatvinnuveganna heldur almennt séð vegna atvinnulífsins til að reyna að flýta fyrir því að hjól framleiðslunnar geti farið að snúast á nýjan leik og auðvitað algjörlega út í bláinn að leggja lántökugjald á t.d. þjónustu skipasmíðastöðva eða annan þann rekstur sem þarf á erlendri

lánafyrirgreiðslu að halda til að geta gengið.
    Ég vil líka nota tækifærið til að spyrja hæstv. iðnrh. hvaða viðbrögð bréf Hins íslenska stálfélags hf. hafi fengið, en eins og þingmönnum er kunnugt hefur það verið í undirbúningi um skeið. Hluthafar í félaginu eru fimm íslenskir aðilar og tvö erlend fyrirtæki er leggja fram um 71,5% hlutafjárins. Til grundvallar þeirri skiptingu liggur heimild frá iðnrn. er veitt var á sl. sumri og nú langar mig, herra forseti, að lesa smákafla úr þessu bréfi til skýringar sem er svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Tilmæli félagsins um undanþágu frá gjaldi á erlendar lántökur eru í fyrsta lagi til komin vegna þess að áætlanir um stálverksmiðjuna voru upphaflega gerðar áður en gjaldið kom til, þ.e. snemma árs 1987. Voru hinir erlendu þátttakendur í fyrirtækinu reiðubúnir til að hefjast handa þá þegar þannig að frestun þess nánast um rúmt ár hefur orsakast af nauðsynlegum undirbúningi varðandi aðstöðu hér innan lands og útvegun fjármagns, jafnframt því sem hagfellt var að tengja gangsetningu verksmiðjunnar við nýja aðveitustöð rafmagns í Hamranesi við Hafnarfjörð sem kemur til skjalanna haustið 1989. Þessi frestun hefur haft bæði jákvæðar og neikvæðar afleiðingar, en hins vegar er nú svo komið að hún getur ekki staðið lengur. Mundi frekari töf geta kollvarpað gerðum samningum um fjármögnun og aðstöðu félagsins, auk þess að hindra gerðar áætlanir um söfnun á brotajárni handa verksmiðjunni sem eru nú þegar komnar í framkvæmd á Reykjavíkursvæðinu og á Suðurnesjum.`` --- Ég var að ganga úr skugga um að heimild væri ekki frá Nd. inni í frv. eins og það er nú. Síðan held ég áfram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í öðru lagi er eðlilegt að líta til þess varðandi gjaldið á erlendar lántökur að hér er um að ræða fyrirtæki sem ætlað er að vinna að nýsköpun í atvinnulífi og felur í sér nýjan iðnað í mikilvægri undirstöðugrein sem jafnframt er útflutningsiðnaður að öllu leyti.
    Í þriðja lagi ber að benda á að rúmlega 2 / 3 hlutar eigin fjár í fyrirtækinu koma frá erlendum aðilum sem taka fullan þátt í áhættunni af rekstri þess að sínu leyti. Síðast en ekki síst styðst erindið við það að hið nýja fyrirtæki mun hafa í för með sér algera byltingu á möguleikum til að safna úrgangsmálmi hér á landi og koma í veg fyrir spjöll á landi og náttúru af hans völdum. Er með því tekið meiri háttar skref til aukinnar náttúruverndar svo ekki sé meira sagt.``
    Ég skal ekki, herra forseti, vitna í fleira sem stendur í þessu bréfi, en aðeins taka fram að umboðsmenn Stálfélagsins, ég er ekki með það bréf uppi hjá mér, höfðu lagt til að frv. yrði breytt með sérstökum hætti til að tryggja að Stálfélagið yrði undanþegið slíku lántökugjaldi. Nú vil ég spyrja hæstv. iðnrh. að því hvort hann telji ekki að til sérstakrar lagaheimildar þurfi að koma til að undanþiggja stofnlán vegna Hins íslenska stálfélags lántökugjaldi, hvort hann telji að til þurfi að koma breyting á lögunum til þess að það sé heimilt eða hvort hann telji að nægilegar heimildir séu innan

laganna til þess að lántökugjaldið verði ekki á lagt.