Framhaldsskólar
Mánudaginn 19. desember 1988

     Frsm 2. minni hl. menntmn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það kom fram í ræðu menntmrh. hér áðan að veigamiklir tæknilegir gallar væru á III. og VIII. kafla laganna og jafnframt sagði hann að kostnaðarákvæði framhaldsskólalaganna væru óbrúkleg. Nú er ég hér með frv. til laga um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það frv. er nokkurs konar bandormur og þar eru gerðar tillögur um breyt. á l. um málefni fatlaðra, um breyt. á l. um aðstoð til vatnsveitna, um breyt. á l. um heilbrigðisþjónustu, um breyt. á l. um almannatryggingar, með síðari breytingum, um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, um breyt. á l. um grunnskóla, með síðari breytingum, um breyt. á íþróttalögum, með síðari breytingum, um breyt. á l. um félagsheimili, með síðari breytingum, um breyt. á l. um skemmtanaskatt, með síðari breytingum, um breyt. á l. um byggingu og rekstur dagvistarheimila, með síðari breytingum, um breyt. á l. um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, um breyt. á vegalögum, með síðari breytingum, um landshafnir, um kostnaðaruppgjör milli ríkis og sveitarfélaga heitir síðan næstsíðasta millifyrirsögn þessa frv. og hin síðasta gildistaka.
    Í greinargerðinni er aðeins minnst á framhaldsskóla. Það er talað um helstu breytingar sem eigi að verða á verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og þar er talað um að sveitarfélögin greiði 40% af stofnkostnaði framhaldsskóla og vitnað er til nýsamþykktra laga um framhaldsskóla. Það er því ekki að sjá að ástæða þyki til að breyta þeim köflum í framhaldsskólafrv. sem hæstv. menntmrh. sagði við 2. umr. að væru óbrúklegir kaflar. Á þessum köflum áttu að vera veigamiklir tæknilegir gallar. Ég held að það sé því alveg óhjákvæmilegt að hæstv. menntmrh. úttali sig nánar um þetta mál.
    Ég vil líka að það komi algerlega skýrt fram að ég átti áðan samtal við formann Sambands ísl. sveitarfélaga sem sagði mér að hann og sveitarfélögin legðu ríka áherslu á það að lögin um framhaldsskóla tækju gildi 1. janúar eins og ákveðið er. Hann ítrekaði það sem áður hefur komið fram að sveitarstjórnirnir hafa ekki gert ráð fyrir öðru í sambandi við fjárhagsáætlanir en að þessi breytta verkaskipting komi til í byrjun næsta árs eins og lög standa til. Vegna ummæla hæstv. ráðherra hér mundi ég halda, herra forseti, að mjög æskilegt væri, til þess að vinnubrögð nefndarinnar yrðu sem vönduðust, að hún fengi frv. aftur til athugunar þannig að við gætum rætt þetta mál nánar við forustumenn Sambands ísl. sveitarfélaga, sem ég hef gengið úr skugga um að leggja mikið upp úr því að frv. taki gildi um áramótin. Í trausti þess að svo yrði sat ég hjá við afgreiðslu frv. nú þar sem ég er ekki í vafa um það að hæstv. menntmrh. jafnt sem einstakir þingdeildarmenn leggja einnig mikið upp úr þessu.
    Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en ég get ekki ímyndað mér annað en hæstv. ráðherra sé mér sammála um að æskilegt sé að þingnefnd tali við fulltrúa sveitarstjórnarmanna áður en

málið fer úr deildinni og efnt verði til stutts fundar í fyrramálið til þess að koma því í kring. Ég harma auðvitað það sem fram kom, sérstaklega hjá fulltrúa Bandalags kennarafélaga, að samning reglugerða hefði dregist mjög á langinn og það má vera skýringin á því að hæstv. menntmrh. treystir sér ekki til þess að framkvæma lögin strax í byrjun næsta árs eins og allir höfðu búist við. En ég legg mikið upp úr því að nefndin fái svigrúm til þess að ræða við fulltrúa sveitarfélaganna í fyrramálið. Það er ekki nema einn dagur. Það tefur ekki þingstörf en eru hins vegar sjálfsögð vinnubrögð í þinginu.