Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 19. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég vil gjarnan, og ég held mín flokkssystkin líka, koma málum til nefndar og þá þessu máli eins og öðru máli sem hefur þegar verið sent til fjh.- og viðskn.
    Ég gat aðeins um efni þessa máls hér fyrr í dag þegar umræða var um annað mál og skal ekki endurtaka margt af því sem ég þá sagði, en eins og við vitum hafa umræðurnar snúist um ýmis mál og almenna stjórnmálaumræðu að vissu marki sem er ekki nema gott eitt um að segja. Ég gat þess sérstaklega þá, eins og þeir sem hér voru mættir í deildinni þá minnast, að það hefur komið mjög athyglisvert bréf frá Sambandi ísl. samvinnufélaga varðandi þennan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem þeir telja, Sambandsmenn, að sé nánast eitt með öðru reiðarslag fyrir dreifbýlisverslunina og þjónustu í dreifbýlinu. Auðvitað sé þetta ekki meginorsökin, en þetta bætist þó ofan á aðra útgjaldaliði, og framkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands hafði reiknast svo til að þessi skattur, þó að hann láti kannski ekki mikið yfir sér, mundi þýða um það bil 0,6% almenna vöruverðshækkun í smásöluverslun á landinu. Það er náttúrlega eitt með öðru sem hlýtur að knýja á um að verðbólgan fari nú einn ganginn til af stað og ég held að verið sé að viða í æðimikinn eld.
    Ég held hins vegar, af því að ég sá hæstv. fjmrh. vera að rabba þarna frammi á gangi, að kannski væri gaman að fá hann inn eitt augnablik. ( Forseti: Við skulum bara ná í hann.) Já, en á meðan get ég kannski beint aðeins spurningu til hæstv. viðskrh. Þó að það málefni, sem ég ætla að víkja að, heyri ekki beint undir hann minnumst við þess sjálfsagt báðir að í umræðu um fjárlög á föstudagskvöld mótmælti hæstv. fjmrh. því mjög eindregið að réttar væru tölur sem Þjóðhagsstofnun eða starfsmenn frá Þjóðhagsstofnun höfðu sett fram um heildarskattlagninguna sem nú væri á döfinni á fundi í fjvn. Þeir nefndu 6,7 milljarða, en ég minnist þess að hæstv. fjmrh. kallaði fram í og taldi töluna vera 4,3 milljarða. Þar bar nú á milli nærri því hálfan þriðja milljarð svo að ekki var kannski að ófyrirsynju að menn spyrðu í hverju það kynni að vera fólgið. Ráðherrann skýrði síðar frá því að hann hefði talið með þann mismun sem er á söluskatti og virðisaukaskatti sem gæfi ríkissjóði ákveðna upphæð án þess að þar væri um nýja skatta að ræða.
    Ég var hér, hæstv. fjmrh., að beina til viðskrh. og þá fjmrh. líka þeirri ósk minni að skýrður yrði sá ágreiningur sem varð um heildarupphæð nýrra skatta á milli manna hér í umræðunum á föstudag þegar maður úr Þjóðhagsstofnun hafði talið að heildarupphæðin væri 6,7 milljarðar en fjmrh. greip fram í og taldi það vera 4,3 milljarða, en bætti síðan við skýringum á því að ríkið fengi tekjur án þess að um nýja skatta væri að ræða vegna þess að gildistöku virðisaukaskatts væri frestað. Það skýrði þó ekki alla upphæðina og ég vona að núna liggi fyrir einhverjar frekari tölur og gleggri og þá rökstuddar því að

vissulega eiga menn, þjóðin öll, heimtingu á því að fá að vita hve mikil þessi nýja skattlagning er, ekki síst fátækt fólk sem á í erfiðleikum með að láta enda ná saman og þá eru það auðvitað bæði tekjuskattarnir, eignarskattarnir og líka þessir pinklar sem við erum nú hér að ræða um og svo auðvitað vörugjaldið.
    Ég las í DV í dag að hæstv. fjmrh. hefði breytt frumvörpum um vörugjald og raunar um tekjuskatt líka. Það er nú altítt að þingmenn fái að lesa í blöðum eða heyra í öðrum fjölmiðlum um það sem ríkisstjórnin er að bauka hverju sinni og það er á vitorði allra að það eru ráðherrarnir sjálfir sem smala til sín fréttamönnum til þess að leka í þá eða segja þeim eitthvað og til þess sjálfsagt að fá auglýsingar líka, geta komið fram o.s.frv. Þetta vita allir menn. Það er náttúrlega hinn mesti ósiður að Alþingi skuli sniðgengið með þessum hætti, að alþingismönnum sé ætlað það að þegar þeir koma hér til funda kl. 2 hafi eitthvert blaðið, þá oftast Dagblaðið, allar fréttirnar að færa þó að engin þingskjöl séu hér fyrir okkur þingmennina til þess að athuga hvað sé að gerast. Ég býst ekki við að á þessu verði mikil breyting á meðan þeir ráða ríkjum í Stjórnarráðinu sem það gera nú, að Alþingi verði virt þeirrar sjálfsögðu kurteisi að fá a.m.k. fyrst að frétta um mikilvægar breytingar á stjórnarfrumvörpum, ef þessi frétt er þá rétt sem ég ekki veit. Það skýrist væntanlega allt saman ef hæstv. fjmrh. gefur okkur svolitla stund til þess að útskýra þetta fyrir okkur, en ég sá það að hæstv. ráðherra var bara að rabba þarna frammi svo að ég hélt að það væri ekkert verið að ónáða hann þó hann gengi hér inn og við gætum þá kannski notað nokkrar mínútur til að greiða úr þessari flækju. Ég held að það sé öllum í hag að það liggi nokkuð fyrir.
    Nú kann að vera að enn þá sé verið að breyta þessum frumvörpum og nýir útreikningar komi þá. Það kemur þá í ljós væntanlega í svörum ráðherranna. Ég beindi reyndar spurningunni til beggja hæstv. ráðherranna sem hér eru inni. Þó að Þjóðhagsstofnun heyri ekki beint undir hæstv. viðskrh. meðan hann gegnir sínu starfi er hann kunnugur hnútum þar og þess vegna ætlaði ég að vekja athygli hans líka á því að því var haldið fram af hæstv. fjmrh. að tölur sem komu frá Þjóðhagsstofnun væru rangar. Það er æðimikil ábyrgð að fullyrða slíkt. Nú skal ég játa á mig þá sök að ég hef tekið með fyrirvörum ýmiss konar útreikninga, áætlanir o.s.frv., bæði frá Þjóðhagsstofnun og öðrum stofnunum, og kannski ekki alltaf rökstutt það nægilega vel. En það hefur náttúrlega margsannast að það er erfitt að reikna langt fram í tímann og þess vegna hef ég freistast til að gera þetta, en þarna er um staðhæfingar að ræða sem stangast svona rækilega á að annars vegar eru nefndir 6,7 milljarðar og hins vegar 4,3 sem raunar eru nokkur partur af bilinu þar á milli, að vísu skýrður með því sem ég gat um áðan að virðisaukaskatti er frestað. Enn er samt eftir að skýra talsvert af þessum mun.
    Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð fleiri í bili, en vænti þess að ráðherrarnir báðir muni svara, ekki

endilega í löngu máli. Ég var að segja það, hæstv. fjmrh., áður en þú komst inn að það vekti ekki fyrir okkur sjálfstæðismönnum að tefja mál, heldur þvert á móti að koma þeim til nefnda eða a.m.k. því máli sem er á dagskrá nú. Ég er því ekki að halda uppi neinu málþófi, heldur vil ég gjarnan fá þessar upplýsingar.