Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 19. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Mér finnst bæði sjálfsagt og eðlilegt að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson spyrjist nánar fyrir um þær tölur sem ég heyrði fyrst í umræðu um fjárlagafrv. fyrir fáeinum dögum. Ég hef síðan kannað það mál og fengið lýsingu á því hvernig orð féllu á fundi fjvn. þegar embættismenn frá ýmsum stofnunum voru þar viðstaddir, bæði frá Þjóðhagsstofnun, frá hagdeild fjmrn. og fleiri stofnunum.
    Eins og mér er tjáð af embættismönnum fjmrn. féll umræðan á þann veg að einstakir nefndarmenn spurðust fyrir um það hver væri heildartekjuöflunin samkvæmt þeim frv. sem lögð höfðu verið fram á þinginu og beindu þeim spurningum til fulltrúa Þjóðhagsstofnunar. Í fyrstu komu ekki svör við þessari spurningu en hún var síðan ítrekuð og við þá ítrekun mun sá fulltrúi Þjóðhagsstofnunar sem var á fundinum hafa sett fram töluna 6700. Það var ekki gert í skriflegri greinargerð, það var ekki gert með neinum ítarlegum rökstuðningi, heldur var það eingöngu tala sem sett var fram eftir ítarlega eftirgrennslan. Forstöðumaður hagdeildar fjmrn. tjáði mér að hann hafi á fundinum sagt að það væri ekki tala sem hann kannaðist við, væri öðruvísi en útreikningar fjmrn. gæfu til kynna, en, eins og mig minnir að ég hafi vikið að hér í umræðu í Sþ. á sínum tíma, ekki, vegna faglegrar kurteisi, farið út í deilur við þennan fulltrúa Þjóðhagsstofnunar, en hefur ekki síðan fengið nein rök fyrir því hvernig þessi tala er fundin. Ég get þess vegna ekki upplýst málið hér og nú með neitt öðrum hætti en ég hef hér gert. Þetta var á þann veg að eftir eftirgrennslan var sett fram af embættismanni Þjóðhagsstofnunar, munnlega, ein tala, en ekki hefur verið gerð grein fyrir henni með því að brjóta hana upp í hvað kæmi á grundvelli hvers frv. eins og ég gerði þegar ég í Sþ. lýsti því hvernig talan 4300 væri fengin.
    Ég vakti athygli á því þá og vil gera það einnig hér að síðan er auðvitað hægt að bæta við þessa tölu þeim 1200 millj. sem koma vegna frestunar virðisaukaskattsins, en það er nú venjulega ekki talið til hinna eiginlegu svokölluðu skattheimtufrv. hér í þinginu sem eru vörugjald, tekju- og eignarskattur, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, lántökugjald og skattur á veðdeildir. Þess vegna hafa ekki komið fram nein gögn, hvorki frá Þjóðhagsstofnun eða öðrum aðila, sem réttlæta það að þetta talnalega mat sé tekið til endurskoðunar og án þess að ég ætli nokkuð að rengja viðkomandi embættismann getur það auðvitað alltaf gerst að menn setji fram munnlega einhverja tölu sem ekki reynist vera hin rétta og þar til fram kemur ítarleg sundurliðun bak við þá tölu er voðalega erfitt fyrir okkur í fjmrn. að taka afstöðu til hennar vegna þess að þær tölur, sem við settum fram og ég gerði grein fyrir þegar ég mælti fyrir þessum fimm frv., eru allar byggðar á ítarlegu mati. Ég vona að þetta skýri fyrir hv. þm. hvernig þessi talnalegi mismunur er fram kominn og með hvaða hætti það gerðist.

    Ég tek alveg undir það með honum að mér fannst fréttaflutningur DV í dag af þeim hugmyndum sem kynntar voru fulltrúum þingflokkanna hér um helgina vera óeðlilegur. Ég get fullvissað hv. þm. um það að þar átti ég engan hlut að máli og kom mér satt að segja á óvart að svo væri. Það sem gerðist var að á laugardag áttu þrír ráðherrar, auk mín forsrh. og viðskrh., fundi, fyrst með fulltrúum Kvennalistans, síðan með fulltrúum Borgfl. og loks með fulltrúum Sjálfstfl. Á öllum þessum fundum var lagt fram blað sem dreift var til fulltrúa þessara þriggja flokka utan ríkisstjórnar þar sem gerð var grein fyrir þeirri hugmynd að í stað þeirra tillagna um vörugjald sem liggja fyrir í frv. komi aðrar tillögur þar sem tekið er upp 10% vörugjald á fleiri vöruflokka sem felur þá m.a. í sér að það vörugjald sem í dag er 14% lækki í 10% og þær vörur lækka að sama skapi, en hins vegar muni 25% gjald á gosdrykkjum, sælgæti og sykurvörum halda sér, en þó þannig að 10% af því verði vörugjald og 15% sérstakt sætindagjald.
    Þessu var lýst á fundum með fulltrúum þingflokka stjórnarandstöðunnar á laugardag og til þess mælst að þeir kynntu þingflokkum sínum þessar hugmyndir vegna þess að þær voru settar fram, m.a. af hálfu okkar í ríkisstjórninni, til þess að koma til móts við þríþættar athugasemdir eða gagnrýni sem fram hefur verið sett á frv. um vörugjald, í fyrsta lagi þá gagnrýni að það mundi gera heimilistæki of dýr, með þessum tillögum eru þau lækkuð, í öðru lagi að það mundi gera ákveðnar byggingarvörur of dýrar, og þær eru þá lækkaðar, og í þriðja lagi það sjónarmið, m.a. fulltrúa atvinnurekenda, að ef á annað borð væri tekið upp vörugjald væri æskilegra að það væri lægri tala á mun breiðari stofn, þannig að mismunun milli vörutegunda væri sem minnst.
    Ég er alveg sammála hv. þm. um það að eðlilegt er auðvitað að þetta komi fram í þingskjölum fyrst, en ég vil þó segja það hér að gefnu tilefni að fyrir tveimur sólarhringum voru þessar hugmyndir kynntar fulltrúum þingflokkanna þriggja og satt að segja fyrr en þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna sem í heild sinni voru ekki kynntar þessar hugmyndir fyrr en í morgun, formlega, með þeim tilmælum að þær yrðu teknar til umfjöllunar innan flokkanna. Sá er hins vegar munurinn að hugmyndin um breytingar á tekjuskattinum var ekki lögð fram á sérstöku blaði á þessum þremur fundum á laugardag, en henni var lýst munnlega, að til greina gæti komið ef óskað væri að hækka persónuafslátt og barnabætur, að mæta því að hækka prósenttöluna lítið eitt. Eins og ég sagði var ekki lagt fram neitt útreiknings- eða minnisblað um það en því lýst munnlega. Báðar hugmyndirnar voru settar fram sem dæmi, ekki sem endanleg tillögugerð, vegna þess að við vorum reiðubúin að heyra álit og gagnhugmyndir þeirra fulltrúa flokkanna sem við ræddum við.
    Ég vona að þessi skýring sé tæmandi og verði til þess að veita nánari upplýsingar um það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson spurði um.