Aðgerðir í efnahagsmálum
Mánudaginn 19. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem að stofni til eru frá því í maí á þessu ári og voru þá sett af fyrri ríkisstjórn. Þeim lögum hefur síðan verið breytt í grundvallaratriðum með bráðabirgðalögum sem hæstv. núv. ríkisstjórn hefur sett. Þau lög marka grundvöll að efnahagsstefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar og eðlilega, eins og fram kom í máli hæstv. forsrh., hljóta þessi tvö frv. að tengjast mjög saman ekki síst fyrir þá sök að það frv. sem hér er til umræðu hefur tekið alveg gagngerum breytingum með þeim bráðabirgðalögum sem hæstv. núv. ríkisstjórn hefur sett. Þau eru þess vegna að meginefni til á pólitískri ábyrgð núv. ríkisstjórnar.
    Það kom fram fyrir helgi að hæstv. ríkisstjórn óskaði eftir því að fram færu viðræður við stjórnarandstöðuflokka um ekki einasta skattamál ríkisstjórnarinnar heldur einnig þessi bráðabirgðalög sem eru grundvöllurinn að hennar efnahagsstefnu. Slíkar viðræður fóru fram sl. laugardag og aftur í dag. Því miður urðu lyktir þeirra viðræðna þannig að ríkisstjórnin var ekki tilbúin að ræða þær málamiðlunartillögur sem stjórnarandstöðuflokkarnir fluttu, ýmist sameiginlega í Ed. ellegar Sjálfstfl. stóð að með því að styðja tillögur sem Borgfl. og Kvennalisti höfðu flutt.
    Það ber að harma að ríkisstjórnin skuli hafa tekið þá afstöðu að sjá ekki ástæðu til að ræða þessar tillögur efnislega, en ég geri ráð fyrir að við frekari umfjöllun í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar komi þau mál til frekari umræðu. En með hliðsjón af aðdragandanum, með hliðsjón af því að ríkisstjórnin sjálf hafði óskað eftir slíkum viðræðum hefði mátt búast við því að hún hefði haft eitthvað meira fram að færa og sýnt einhvern áhuga á að koma til móts við þær málamiðlunartillögur sem þannig voru til umfjöllunar af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna þriggja í hv. Ed.
    Það frv. sem hér er til umræðu var eins og áður segir að stofni til bráðabirgðalög sem fyrri ríkisstjórn gaf út í maímánuði sl. í tengslum við efnahagsaðgerðir sem þá voru ákveðnar. Vandi sjávarútvegsins hefur undanfarin missiri verið býsna mikill og bæði í febrúar og maí þurfti að breyta gengi krónunnar til að tryggja rekstur þessa höfuðatvinnuvegar þjóðarinnar og samkeppnisiðnaðarins í landinu.
    Því hefur verið haldið fram og kom m.a. fram í ræðu hæstv. forsrh. að þær ráðstafanir hafi ekki skilað árangri í þágu þessara atvinnuvega, gengisbreytingin í febrúar og aftur í maí. Nú er hæstv. forsrh. nokkuð iðinn við að fá skýrslur frá Þjóðhagsstofnun. Þó minna fari fyrir ákvörðunum og aðgerðum af hans hálfu ber auðvitað að fagna því að hæstv. ráðherra hefur verið mjög duglegur við að fá skýrslur frá Þjóðhagsstofnun. Það væri þess vegna mjög athyglisvert vegna þessarar umræðu að hæstv. ríkisstjórn fengi skýrslu frá Þjóðhagsstofnun um hvernig komið væri í íslenskum sjávarútvegi og

samkeppnisiðnaði í landinu ef þessar breytingar á gengi krónunnar hefðu ekki verið gerðar. Það væri ástæða til að fá upplýsingar um hversu margir væru nú atvinnulausir í landinu, hversu margar milljónir streymdu út úr Atvinnuleysistryggingasjóði í viku hverri ef þessar ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar, hverjar væru útflutningstekjur þjóðarinnar og m.ö.o. hvernig ástandið væri í efnahags- og atvinnumálum og á heimilum landsmanna því að það liggur í augum uppi að ef ekkert hefði verið aðhafst og gengi krónunnar ekki breytt við þessar aðstæður væru höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar búnir að vera stopp mánuðum saman með þeim afleiðingum sem ekki þarf að lýsa í orðum. Það þekkir hver hv. alþm. Þess vegna vekur það nokkra furðu ekki síst þegar forustumenn Framsfl. taka þannig til orða að þessar ráðstafanir hafi ekki skilað sér í þágu atvinnuveganna.
    Hitt er alveg ljóst að á þessum tíma áttu sér stað mjög verulegar launabreytingar. Kjarasamningar drógust frá því í febrúar og allt fram í maí og auðvitað er það rétt að gengisbreytingin í maí dugði ekki að öllu leyti til að vega upp þær miklu launahækkanir sem þá var verið að semja um og raungengisbreytingin varð því engan veginn nægjanleg fyrir atvinnuvegina á þeim tíma. En hitt er svo annað að það er eðlilegt og undir það tek ég með þeim sem vilja fara að með gát við stjórn efnahagsmála að auðvitað verða menn hverju sinni að stilla gengisbreytingum í hóf vegna annarra efnahagslegra markmiða, en það má ekki leiða til þess að menn berji höfðinu við steininn og neiti að breyta gengi krónunnar þegar augljóst er að undan því verður ekki vikist. Þess vegna voru þessar ráðstafanir gerðar í maí. Þá var ljóst og um það full samstaða að því er virtist að fylgja slíkum ákvörðunum eftir með hliðarráðstöfunum, m.a. með þeirri launabindingu sem kveðið er á um í þessum lögum en hefur að vísu verið breytt í ýmsum atriðum með bráðabirgðalögum núv. hæstv. ríkisstjórnar. Það hefur hins vegar komið á daginn við umfjöllun á hinu háa Alþingi að tveir af þingmönnum Alþfl. munu á þeim tíma hafa bókað í þingflokki sínum að þeir stæðu ekki að þessum ákvæðum laganna, ef ég hef skilið það rétt. Ég finn hins vegar ekki í gögnum fyrrv. ríkisstjórnar að þessari bókun eða þessum bókunum hafi með skriflegum hætti verið komið á
framfæri á þeim tíma þannig að það eru að vísu nokkrar nýjar upplýsingar að þessu leyti til.
    Það lá alveg ljóst fyrir í maí að horfur voru á því að verðlag á erlendum mörkuðum mundi halda áfram að lækka yfir sumarmánuðina og með haustinu yrði á ný að grípa til ráðstafana í þágu atvinnuveganna. Eðlilegt var að uppistaðan í slíkum aðgerðum yrði breyting á gengi krónunnar með eðlilegum hliðarráðstöfunum. Hæstv. forsrh. minntist á sérstaka ráðgjafarnefnd sem starfaði sl. haust. Hún lagði eðlilega á það ríka áherslu að reynt yrði að ná niður verðbólgu og fjármagnskostnaði, en umfram allt lagði sú nefnd áherslu á, og það var hennar höfuðtillaga og það sem allt snerist um, að umsvif ríkisins yrðu

minnkuð og að dregið yrði úr erlendum lántökum. Grundvöllurinn að öllu því sem sú nefnd lagði til var þetta: Minni ríkisumsvif og minni erlendar lántökur.
    Það sem hins vegar hefur komið fram af hálfu þessarar hæstv. ríkisstjórnar er alveg þveröfugt. Það eru meiri ríkisumsvif og auknar erlendar lántökur. Hún gengur þess vegna þvert á ráðleggingar þessarar nefndar. Nefndin benti svo á að nauðsynlegt væri að athuga hvort fært væri að fara svokallaða niðurfærsluleið með því að lækka laun beinlínis með lögum, lækka launataxta. Nú er komið á daginn að a.m.k. tveir af þingmönnum Alþfl. höfðu bókað andstöðu við lög sem gerðu ráð fyrir því að binda kjarasamninga og því fremur má ætla að andstaða þeirra og kannski einhverra fleiri þingmanna Alþfl. hefði verið meiri við það að færa launataxtana beinlínis niður þó að það hafi ekki komið fram í umræðunum á þeim tíma. En hitt er þó aðalatriðið að ljóst var að tæknilega var útilokað á þeim tíma að fara þessa leið. Það var ljóst að hún mundi ekki koma réttlátlega niður og hefði því valdið sprengingu á vinnumarkaði en ekki orðið til þess að stuðla að bættu umhverfi atvinnurekstrarins í landinu. Þó að auðvitað hefði um margt verið æskilegt að fara slíka leið lá einfaldlega fyrir að hún var ekki fær við þær aðstæður sem þá voru. En því miður hefur núv. hæstv. ríkisstjórn í engu haft til hliðsjónar megintillögur þessarar nefndar sem voru einmitt þær að minnka umsvif ríkisins og draga úr erlendum lántökum og vekur það nokkra furðu, ekki síst með tilliti til þess að hæstv. ráðherrar vitna stundum til þessa nál., að þeir skuli með öllu í sínum ráðstöfunum og aðgerðum hafa virt að vettugi megintillögur þessarar nefndar.
    Auðvitað lá fyrir í haust sem leið að þessum athugunum loknum að aðgerðir í efnahagsmálum yrðu að vera almennar ráðstafanir. Það lá fyrir að það var ekki unnt að geyma þær almennu ráðstafanir lengur en fram í ágúst eða september og um það var á þeim tíma allvíðtæk samstaða í þjóðfélaginu. En því miður skipuðust mál á annan veg, því miður vegna hagsmuna atvinnulífsins í landinu og launafólksins í landinu. Hv. 10. þm. Reykv. hefur lýst því svo að aðgerðir núverandi hæstv. ríkisstjórnar séu biðleikur þangað til annað verður ákveðið. Það kom einnig fram í máli hæstv. forsrh. að hann lítur svo á að aðgerðirnar séu ekki aðgerðir, efnahagsstefnan sé ekki efnahagsstefna heldur biðleikur þangað til efnahagsstefnan verði mótuð. Það hefur á hinn bóginn komið mjög skýrt fram í máli hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. undanfarnar vikur að þeir líta svo á að ríkisstjórnin verði að fylgja eftir og hvika í engu frá þeirri efnahagsstefnu sem mörkuð var í haust og það sé hin eiginlega björgunaraðgerð fyrir íslenskt atvinnulíf sem í bráðabirgðalögum núv. hæstv. ríkisstjórnar felst og þar megi hvergi frá hvika. Öllum hugmyndum um að breyta gengi krónunnar hefur verið vísað út í hafsauga af hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. Og það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með þessum umræðum að það er ekki einasta að hæstv. fjmrh. hefur haft verkstjórn á hendi

hér með fjáröflunar- eða skattheimtufrumvörpum ríkisstjórnarinnar heldur hafa yfirlýsingar hans mótað efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og verið ráðandi um vegferð hennar í þeim efnum. Alþb. hefur fengið að ráða efnahagsstefnunni, ráða því að nú á að keyra atvinnulífið í landinu niður í svaðið. Það gegnir nokkurri furðu að Framsfl. skuli svo lengi vera tilbúinn að fylgja þessari stefnu því að auðvitað, ef menn hefðu haft hagsmuni atvinnulífsins í huga og launafólksins í landinu, var þegar í haust pólitískur grundvöllur fyrir því að gera raunhæfar aðgerðir þar sem breyting á gengi krónunnar væri uppistaðan í aðgerðunum.
    Auðvitað getur gengisbreyting ein út af fyrir sig ekki leyst allan vanda. Það er fráleitt. Það getur ekki gerst við núverandi aðstæður. En þessi mynd var alveg skýr í haust. Vandinn hefur svo smám saman verið að vaxa og ég er alveg sannfærður um að hann mun halda áfram að vaxa eftir því sem hæstv. forsrh. kallar á fleiri skýrslur þar um frá Þjóðhagsstofnun. En það er engin lausn að kalla bara á skýrslur. Það er engin lausn að bíða.
    Það meginákvæði frv. sem lýtur að kjarasamningum og launabindingu með lögum var þáttur í efnahagsaðgerðum, var hliðarráðstöfun með gengisbreytingu. Nú hafa forsendur breyst á marga lund. Í fyrsta lagi liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn hefur lýst því mjög skýrt og skorinort yfir, a.m.k. þeir sem ferðinni ráða í ríkisstjórninni, hæstv. fjmrh. og flokksmenn hans, að gengi
krónunnar verði ekki breytt og ríkisstjórnin ætli að standa og falla með þeirri efnahagsstefnu sem bráðabirgðalögin marka. Þá eru komnar allt aðrar forsendur fyrir ákvæðum eins og þessum sem upphaflega eru sett sem hliðarráðstöfun við aðgerðir í þágu atvinnuvega með gengisbreytingu sem uppistöðu.
    Í öðru lagi kom það í ljós við meðferð málsins í hv. Ed. að þingmenn Alþb. höfðu fyrirvara og það kom líka í ljós að tveir af þingmönnum Alþfl. höfðu bókað að þeir stæðu ekki að lögunum með þeim hætti sem þau voru lögð fyrir. Þó að það hafi kannski verið nýmæli þegar málið kom til Ed. að sú væri afstaða þessara tveggja hv. þm. Alþfl. þá gerir hæstv. forsrh. tilraun til að koma frv. í gegnum hv. Ed. með breytingum. Það mál allt klúðraðist með þeim eindæmum að út voru gefnar yfirlýsingar sem voru í engu samræmi við þá efnisbreytingu sem gerð var á lögunum og eðlilega hefur þetta valdið miklum óróa og mikilli óvissu og þeirri óvissu er óhjákvæmilegt að eyða. Hæstv. forsrh. var að því spurður beint hvort þessi ráðstöfun þýddi að samningarnir gengju í gildi og þeirri spurningu var svarað mjög skýrt að svo væri. Í einu orði já. Í framkvæmd var þetta allt annað. Engin efnisleg breyting var gerð. Þetta hefur valdið óvissu og umróti í þjóðfélaginu. Til að tryggja eðlileg samskipti ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins er nauðsynlegt að taka af skarið í þessu efni og með hliðsjón af breyttum forsendum er því að mínu mati eðlilegt að samningarnir gangi í gildi án íhlutunar frá

og með þeim degi að Alþingi afgreiðir þessi lög og í samræmi við það ákvað Sjálfstfl. að styðja brtt. sem hníga í þá veru og fluttar voru af Samtökum um kvennalista og Borgfl. í Ed.
    Í dagblaðinu Þjóðviljanum laugardaginn 17. des. segir forseti Alþýðusambandsins, Ásmundur Stefánsson, með leyfi forseta: ,,Yfirlega lögfræðinga hefur nú staðfest að mín túlkun er hárrétt. Breytingartillaga ríkisstjórnarinnar breytir engu um efnisinnihald laganna. Mannréttindasviptingin stendur óhögguð þó breytingin fari fram. Um þann skilning er ekki lengur deilt.``
    Og varaforseti Alþýðusambandsins, Örn Friðriksson, skrifar svohljóðandi yfirlýsingu í sama tölublað Þjóðviljans, með leyfi forseta:
    ,,Fyrir allmörgum árum skrifaði þáverandi ritstjóri Þjóðviljans, Magnús Kjartansson, margar greinar og leiðara um þjóðmál í blaðið. Öll hans skrif, m.a. um verkalýðsmál, einkenndust af skýrri framsetningu, góðri greiningu á kjarna málsins og staðreyndum. Greinar hans voru oft merktar -m.
    Nú kveður hins vegar við annan tón í Þjóðviljanum, ,,Málgagni sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar``. Annar ritstjórinn, Mörður Árnason, sem einnig merkir greinar sínar -m, skrifaði um grundvallaratriði verkalýðsmála, samningsréttinn, í pistlinum ,,Klippt og skorið`` sl. fimmtudag. Þar hæðist ritstjórinn að ályktun forystumanna Alþýðusambandsins, miðstjórn og formönnum landssambandanna fyrir að benda á þá staðreynd að samningsrétturinn sé ekki fyrir hendi. Ályktunin byggir á því að engu breyti þótt fellt sé út úr ,,bráðræðislögunum`` áréttingarákvæði um að verkbönn og verkföll séu ekki heimil á gildistíma samninga.
    Gagnvart einstökum forystumönnum gerir það minnst til að þeir séu gerðir tortryggilegir. Verra er að í þessu felst ómakleg gagnrýni á ályktanir miðstjórnar, en langtum verst að í þessum skrifum er gengið út frá röngum forsendum um grundvallaratriði.
    Sagt er að ríkisstjórnin ætli að virða samningsréttinn. Þetta er alrangt.
    Í fyrsta lagi skal áfram standa í ,,bráðræðislögunum`` að allir samningar skulu gilda a.m.k. til 15. febrúar. Þetta þýðir að þeir sem voru með lausa samninga um áramótin 1987/1988, BSRB, sjómenn, járniðnaðarmenn o.fl., og náðu ekki samningum áður en fyrsta útgáfa ,,bráðræðislaganna`` tók gildi mega ekki breyta samningum fyrr en eftir 15. febr. 1989.
    Í öðru lagi stendur áfram skýrum stöfum í nýjustu útgáfu laganna að hækkun launa, kjaratengdra liða og fleira er óheimil fram til 15. febrúar.
    Í þriðja lagi er hnykkt á þessu atriði í einni lagagreininni þar sem segir að atvinnurekanda sé óheimilt að hækka laun, þóknanir o.fl. Það eru auðvitað þessi atriði sem eru brot á mannréttindum og ASÍ kærði til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
    Nú má spyrja: Hvernig hefur Þjóðviljinn fjallað um þessi ,,bráðræðislög`` undanfarna mánuði? Því get ég ekki svarað með tilvitnunum vegna þess að ég safna

ekki blaðinu. Ég hygg að í hugum flestra launamanna sé myndin þessi:
    1. Þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar setti ,,bráðræðislögin`` 20. maí gagnrýndi Þjóðviljinn harðlega að verkalýðsfélögin voru svipt samningsrétti til 10. apríl 1989.
    2. Þegar sama ríkisstjórn frestaði um ca. 30 daga launahækkun með viðbótarbráðabirgðalögum í ágúst og setti jafnframt á verðstöðvun, þá var ekkert verið að skafa utan af skepnuskapnum hjá ríkisstjórninni.
    3. Eftir að ný ríkisstjórn var mynduð (með þátttöku Alþb.) og sett voru ákvæði sem styttu bannið við samningum um 55 daga, þá þótti Þjóðviljanum það
stórt spor í rétta átt til mannréttinda. Það fór hins vegar minna fyrir gagnrýni á þá staðreynd að þessi lög nýju ríkisstjórnarinnar tóku af umsamdar launahækkanir fram til 1. mars 1989 og einnig þær lágmarkshækkanir sem ,,Þorsteinslög`` gerðu þó ráð fyrir.
    4. Þegar sú staða kom upp á Alþingi að óvíst var með framgang þessara ,,bráðræðislaga`` í öllum útgáfum, þá er reynt að blekkja fólk með orðagjálfri í stað staðreynda og Þjóðviljinn heldur vart vatni fyrir hneykslun yfir því að forysta ASÍ tekur ekki þátt í því að ljúga að sjálfri sér og öðrum. Og fólk spyr áfram:
    Túlkar ritstjórinn -m afstöðu blaðsins? Hefur Þjóðviljinn þá sem málgagn verkalýðshreyfingar breytt um afstöðu til samningsréttarins? Hvað veldur? Hvernig ætlar Þjóðviljinn að skrifa ef kröfur ASÍ um afnám samningsbanns í samningum ná fram að ganga á Alþingi? Verður einhverjum kennt um eða einhverjum þakkað? Hvernig hefði Þjóðviljinn fjallað um þessi mál ef Alþb. hefði verið í stjórnaraðstöðu?
    Sem lesandi og kaupandi Þjóðviljans geri ég þá kröfu að fjallað sé efnislega um verkalýðsmál í blaðinu og skrif ritstjóra hafi rökrænt samhengi. Ritstjórinn -m má hins vegar mín vegna hafa þá prívatskoðun að verkalýðshreyfingin eigi að gera sig ánægða með samningsréttinn klipptan og skorinn.``
    Þetta eru tilvitnanir í skrif forseta og varaforseta Alþýðusambands Íslands um þetta efni. Þar kemur skýrt fram að um var að ræða verulegan misskilning. Gefið var til kynna að samningsréttinn ætti að gefa frjálsan. Með athöfnum var ekki aðhafst í samræmi við þessa yfirlýsingu. Þetta eru þær staðreyndir sem síðan hafa legið til grundvallar því að nú verður að taka af skarið í þessu efni og eyða þeirri óvissu sem uppi er.
    Eins og fram hefur komið fela bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar í sér að engar ráðstafanir eru gerðar né eru á döfinni af hálfu ríkisstjórnarinnar til að treysta rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Þó voru menn um það sammála flestir hverjir í sumar sem leið að lengur mætti ekki draga slíkar aðgerðir en fram í ágúst eða september. Ekki síst voru það hv. þm. Framsfl. sem voru þeirrar skoðunar og um það var ekki ágreiningur við til að mynda Sjálfstfl. að þessi tímasetning væri eðlileg. Nú hafa aðstæður breyst og Alþb. hefur fengið forustuhlutverk við stjórn efnahagsmálanna og það áhrifavald að koma í veg

fyrir að nauðsynlegar aðgerðir séu gerðar. Hæstv. forsrh. mætti á fundi samtaka frystihúsaeigenda í landinu og mælti þar þau fleygu orð að Ísland væri nú komið nær þjóðargjaldþroti en nokkru sinni fyrr. Svo tók ég ekki betur eftir því þegar hæstv. forsrh. hugsaði upphátt á síðum Morgunblaðsins um helgina en hann talaði um þá menn í þriðju persónu sem væru að draga upp allt of dökka mynd af ástandinu í þjóðfélaginu og gera menn hrædda við það sem í vændum væri. Eru það mikil umskipti. Hæstv. forsrh. er nú ekki viðstaddur þessa umræðu fremur en venjulega í hv. deild og ég segi það alveg eins og er að ég geri ekki ráð fyrir því að margir sakni hæstv. forsrh.
    Ég var að fjalla um það, hæstv. forsrh., að hæstv. ráðherra mætti á fundi með samtökum frystihúsamanna í landinu og lýsti því þá yfir að íslenska þjóðin stæði nær þjóðargjaldþroti en nokkru sinni fyrr. Olli sú yfirlýsing talsverðu írafári og menn veltu því fyrir sér hvort það ætti að taka hana bókstaflega eða eins og venjulega, en svo sé ég þegar hæstv. forsrh. hugsar upphátt á síðum Morgunblaðsins nú um helgina að hann er farinn að tala um þá menn í þriðju persónu sem eru að draga upp allt of dökka mynd af ástandi efnahagsmálanna og hafa nú yfirlýsingar gengið nokkuð á misvíxl.
    Á sama fundi tilkynnti hæstv. forsrh. að hann hefði ákveðið að boða til langs ríkisstjórnarfundar. Það var með nokkuð dramatískum hætti tilkynnt öllum frystihúsaeigendum, bæði innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og þeirra sem selja á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga, að ríkisstjórnin hefði tekið þá miklu ákvörðun að boða langan ríkisstjórnarfund um afkomuvanda sjávarútvegsins. Menn sögðu sem svo: Nú hlýtur eitthvað mikið að gerast. Hæstv. forsrh. hefur bara tekið ákvörðun um að boða langan ríkisstjórnarfund. Og flestir voru býsna sáttir við þetta og sögðu að eðlilegt væri, þó að ýmislegt hefði dregist á langinn, að hæstv. ríkisstjórn fengi ráðrúm fram yfir þá helgi sem þá stóð fyrir dyrum til að taka endanlegar ákvarðanir og eðlilega kallaði það á langan ríkisstjórnarfund. Eitthvað dróst svo að hinn langi ríkisstjórnarfundur yrði haldinn. Svo kom sá stóri dagur og þá voru engar ákvarðanir teknar. En það var tilkynnt að það ætti að halda áfram að safna skýrslum og upplýsingum. Og enn er verið að tilkynna að það eigi að halda áfram að safna skýrslum og upplýsingum. Hæstv. forsrh. segir að það sé þörf á aðgerðum. Hæstv. fjmrh., sem hefur verkstjórnina með hendi, segir: Það verður engin gengisbreyting. Hæstv. viðskrh. segir: Það verður engin gengisbreyting. Ríkisstjórnin hefur lagt ákveðna og skýra línu með bráðabirgðalögum. Hún verður að standa og falla með því. Það verður að koma í ljós hver árangur verður af þeirri stefnu. Þannig talar ríkisstjórnin í margar áttir.
    Ég vil nú vera þeirrar skoðunar vegna langra kynna af hæstv. forsrh. að
hann sé þeirrar skoðunar að það þurfi að gera ráðstafanir og hann satt best að segja vilji gera

ráðstafanir og ég er alveg sannfærður um að hann þarf ekki frekari skýrslur til að sannfæra sjálfan sig um að nú verður að gera ráðstafanir í þágu atvinnulífsins í landinu og sjávarútvegsins í landinu og samkeppnisiðnaðarins. Ég þekki hæstv. forsrh. svo vel að honum er alveg ljóst hvert ástandið er, hann þarf ekki frekari skýrslur þar um.
    Staðreynd málsins er sú að það eru Alþb. og hæstv. fjmrh. sem fylgja annarri stefnu í efnahagsmálum og fá að ráða ferðinni í þessum efnum og það er það sem er að skapa þann mikla vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Það er sú stefna sem er að leiða til þess ófremdarástands sem við horfum fram á. Það verður ekki gerð nein krafa til nokkurrar ríkisstjórnar við þessar aðstæður að hún geti komið fram ráðstöfunum sem leiði til þess í einni svipan að atvinnulífið fari allt á fljúgandi ferð og allur vandi sjávarútvegsins verði leystur. Það væri fullkomlega óábyrgt að bera fram slíkar kröfur og ábyrgðarleysi að gagnrýna ríkisstjórn fyrir að gera ekki ráðstafanir sem nái svo langt. Það er einfaldlega ekki hægt við þessar aðstæður. En það verður að koma í veg fyrir að sjávarútvegurinn og iðnaðurinn stöðvist. Við vitum það og það er margsinnis viðurkennt, þar á meðal af hæstv. forsrh., að gengi krónunnar er of hátt skráð. Við verðum að treysta grundvöll atvinnurekstrarins. Það er ekki hægt að mæta þeim vanda með því að taka stöðugt meiri og meiri erlend lán eins og þessi ríkisstjórn er að gera og stefnir að því að gera samkvæmt þeim efnahagsforsendum sem liggja fyrir í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar sem hún ætlar að afgreiða fyrir jól. Þær efnahagsforsendur byggja á því að taka erlend lán í vaxandi mæli og gera ekkert annað. Það leysir hins vegar ekki vanda atvinnuveganna. Það er hægt að framlengja í lífi nokkurra atvinnufyrirtækja með þeim hætti. En á þennan veg er verið að keyra vel rekin atvinnufyrirtæki niður í svaðið. Við þurfum mest á því að halda í dag að tryggja rekstur þeirra fyrirtækja sem vel eru rekin. Það eru þau sem skapa verðmætin. Það eru þau sem tryggja stöðugt batnandi lífskjör í landinu. En nú á að sverfa að þessum fyrirtækjum með því að neita að breyta rekstrarskilyrðunum. Það getur verið góðra gjalda vert að útvega fyrirtækjum lán, en rekstrarskilyrðin verða að vera fyrir hendi. Og það er verið að draga best reknu og vel reknu fyrirtækin niður í svaðið. Það er verið að reyna að framlengja lífdaga annarra. Það þýðir að best reknu fyrirtækin verða eftir nokkra mánuði komin í sömu spor og verst reknu fyrirtækin eru í í dag. Áframhaldandi óbreytt stjórnarstefna hefur þessar afleiðingar. Það er hryggilegt til þess að vita að Framsfl., sem hefur sýnt á því áhuga að koma fram úrbótum, skuli ekkert aðhafast í þessu efni og hæstv. fjmrh. skuli komast upp með að ráða þeirri kolröngu stefnu sem hér er fylgt í atvinnumálum og efnahagsmálum.
    Hæstv. forsrh. greindi frá því að við stjórnarmyndunina hefðu verið gefnar út yfirlýsingar um að sjávarútvegurinn ætti með þeim að verða

rekinn nokkurn veginn á núlli. Allt annað hefur komið á daginn. Hvort tveggja er að vandinn hefur haldið áfram að versna og þær ráðstafanir sem svo eru kallaðar hafa ekki borið neinn árangur. Þetta eru þær staðreyndir sem gera það að verkum að nýjar og nýjar skýrslur verða alltaf svartari eftir því sem kallað er eftir fleirum.
    Það átti að lækka raforkuverð til fiskvinnslufyrirtækja og það var reiknað inn í grundvöllinn. Það hefur ekkert gerst í þessu efni, ekki neitt, ekkert verið aðhafst í því efni. Og það átti að lækka vexti. Vextir byrjuðu að lækka sl. haust. Það var eðlileg afleiðing gengisbreytingar í maí að verðbólga fór vaxandi fyrst á eftir. Þegar kúfnum var náð byrjaði verðbólga að lækka á nýjan leik og í lok ágúst var síðan sett á verðstöðvun. Nafnvextir lækkuðu þannig úr 40% niður í um það bil 25% frá því að þeir voru hæstir í júlímánuði og fram í septembermánuð. Síðan hafa nafnvextir lækkað nokkuð til viðbótar með áframhaldandi verðstöðvun. En það átti að lækka raunvexti og þannig tryggja afkomu atvinnuveganna. Hvað hefur nú gerst í raunveruleikanum í þessu efni? Afar lítið. Að nafninu til hafa raunvextir að vísu verið lækkaðir um innan við 1%, en í raunveruleikanum er þetta allt annað. Á verðbréfamörkuðunum eru vextirnir nokkurn veginn óbreyttir. Útlánavextir bankanna hafa lækkað, en þeir eru með sérstöku álagi upp á 1 1 / 2 --2% og eru þess vegna í raun ekkert lægri nú en þeir voru áður. Vextir á spariskírteinum ríkissjóðs voru lækkaðir nokkuð, en þau eru hætt að seljast. Bankastofnanir og verðbréfafyrirtæki sem gerðu samning um það við hæstv. ríkisstjórn að selja spariskírteini ríkissjóðs á sl. sumri sitja núna uppi með birgðir upp á nálega 2 milljarða kr. sem ekki seljast. Og þessar birgðir af spariskírteinum koma ofan á það sem hæstv. ríkisstjórn ætlar svo samkvæmt nýjum fjárlögum að selja á næsta ári. Hvernig á að koma þessu í framkvæmd? Hvernig væri að fá skýr svör við þessu? Hvernig á að halda þessu áfram? Ef spariskírteinin seljast ekki í dag, hvernig á að selja þau á næsta ári? Það væri nauðsynlegt að fá skýr svör í þessari umræðu um þetta efni.
    Staðreyndin er sú að þarna hefur enginn raunverulegur árangur orðið heldur af þeim biðleik sem ríkisstjórnin ákvað. Það er hægt að finna á pappírunum
lækkun um prósentubrot en í raunveruleikanum ekki og það er allt á huldu með það hvernig viðskipti eigi að fara fram með þau bréf sem gefin eru út af þeim sjóði sem samkvæmt lögum heitir Atvinnutryggingarsjóður en hefur nú af flestum verið kallaður Stefánssjóður til heiðurs þeim manni sem óumdeilanlega er burðarás þessarar ríkisstjórnar. Flest bendir til þess enn sem komið er að þau bréf verði seld með miklum afföllum og mun hærri vöxtum en skráðir eru á pappírunum. Þannig er ljóst að sá biðleikur sem svo var kallaður hefur í raun og veru engu skilað.
    Það er líka ástæða til að fá skýrari svör hér í

umræðunni um starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs, hversu mörg lán hafa verið veitt, hvort birta eigi nöfn þeirra fyrirtækja sem fá lánafyrirgreiðslu eins og gert er í Byggðasjóði, hvernig sjóðurinn starfar í dag. Það er ástæða til að spyrja um til að mynda ákvæði í 7. gr. bráðabirgðalaga núverandi hæstv. ríkisstjórnar þess efnis að Ríkisendurskoðun eigi að annast endurskoðun reikninga Atvinnutryggingarsjóðs og fylgjast með starfsemi hans, hvort Ríkisendurskoðun er þegar farin að fylgjast með starfsemi sjóðsins og hvort hún hafi gefið einhverjar skýrslur eða ábendingar um lánastarfsemi sjóðsins fram til þessa.
    Þegar það svo liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn ætlar ekkert að aðhafast utan það að kalla eftir fleiri skýrslum og að lýsa því yfir af hálfu Framsfl. að það sé þörf á að aðhafast en með yfirlýsingum þeirra sem ferðinni ráða er ljóst að það á ekki að gera, genginu á ekki að breyta samkvæmt yfirlýsingum verkstjórans í efnahagsmálum, hæstv. fjmrh., og hæstv. viðskrh., þá kemur hæstv. ríkisstjórn hér inn með fjárlagafrv. sem byggir á auknum erlendum lántökum ríkissjóðs og ríkisstofnana og fjárfestingarsjóða ríkisins og sem byggir á stóraukinni skattheimtu. Hvernig má það ganga til? Þegar fylgja á eftir þeirri stefnu að atvinnuvegirnir hafa ekki rekstrargrundvöll, þeim eigi að blæða út, minnka auðvitað umsvifin í þjóðfélaginu. Ef á sama tíma á svo að auka umsvif ríkissjóðs eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir þarf að hækka mjög hressilega skattheimtuhlutföllin í skattalögunum hvort sem þar er um að ræða tekjuskatta, vörugjöld eða söluskatt. Það þarf að auka skattheimtuna mjög hressilega. Tekjur fólksins í landinu minnka líka og ef á að fá auknar tekjur í ríkissjóð af minnkandi tekjum fólksins í landinu þarf líka að hækka skatthlutföllin mjög hressilega. Þegar þessum áformum er náð fram er búið að lama atvinnulífið hálfu meira en bara með því að láta reksturinn ganga í því horfi sem hann er núna. Þá minnka umsvifin enn og þá minnka tekjur launafólksins enn og þá þurfa þeir að koma aftur, hæstv. fjmrh. og fylginautar hans í ríkisstjórninni, og hækka skattana enn á ný.
    Alþfl. mun fylgja eftir í því efni og hefur nú tekið mestu kúvendingu sem um getur í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn sem fór með það stefnuskrárákvæði fram í síðustu kosningum að nú ætti að gera hreint, nú ætti að hætta velferðarkerfi atvinnuveganna í ríkissjóði, flokkurinn sem gagnrýndi Sjálfstfl. eftir 14 mánaða samstarf fyrir að hafa ekki verið nógu ötull í að selja ríkisfyrirtæki. Hvað gerir hann núna? Það er verið að auka á velferðarkerfi atvinnuveganna í gegnum ríkissjóð. Það er verið að lama atvinnulífið í landinu með rangri gengisskráningu. Það er verið að brjóta upp í grundvallaratriðum þá miklu kerfisbreytingu í skattamálum sem komið hefur verið fram á undanförnum árum og Alþfl. var að hæla sér af að hafa átt hlutdeild í. Og Alþfl. heldur flokksþing og gefur út yfirlýsingu um efnahags- og atvinnumál sem ber þá yfirskrift að gjalda beri varhug við of mikilli áherslu á einkarekstur. Yfirskriftin á

flokksþingssamþykkt Alþfl. í efnahags- og atvinnumálum er að gjalda varhug við of mikilli áherslu á einkarekstur eftir allt talið um það að samstarfsflokkarnir hafi ekki verið nógu duglegir við að selja ríkisfyrirtæki. Það er von að sumir kjósi sér að starfa í utanrrn. og vera sem lengst frá umræðum á Alþingi þegar þessi grundvallarbreyting er rædd í sölum þingsins.
    Í fyrra voru gerðar umfangsmiklar breytingar á skattamálum í framhaldi af þeim breytingum sem áður höfðu verið samþykktar með staðgreiðslu skatta. Nú á að kollvarpa þessu. Á síðasta þingi voru með órjúfanlegum hætti tengd saman nokkur skattalög, þar á meðal breikkun á söluskattsstofni með því að leggja söluskatt á matvæli og svo hins vegar lækkun og einföldun á tolla- og vörugjaldskerfinu. Með alveg órjúfanlegum hætti voru þessi mál tengd saman. Og ég hygg að allir þeir flokkar sem áttu aðild að þeirri ríkisstjórn hafi tekið þær ákvarðanir á þeirri forsendu að það væri ekki verið að auka við framfærslubyrði fólksins í landinu þó að söluskattur hafi þá verið lagður á matvæli. Því var mætt með lækkun vörugjalda og tolla og einföldun á þessu kerfi. Nú kemur hæstv. fjmrh. Alþb. og segir: Þessu verður að breyta. Það verður að slíta þetta í sundur. Jafnvel hæstv. fjmrh., sem lýsti forvera sinn brennimerktan vegna skattheimtu á matvæli, segir nú: Það verður að halda skattheimtunni á matvæli óbreyttri áfram en samt að hækka vörugjöldin sem voru órjúfanlega tengd skattlagningunni á matvæli. Alþfl. fylgir auðvitað með í hlutlausum gír án þess að skipta sér kannski mikið af því hvað fram fer í þessari ríkisstjórn eða hvaða efnahagsstefnu hún fylgir, ég tala nú ekki um
hvaða stefnu hún fylgir í skattamálum. Og það er athyglisvert að það er ekki aðeins gagnvart atvinnuvegunum sem þessi afstaða kemur fram, að það á með stórauknum sköttum að auka á vanda atvinnuveganna, keyra þau fyrirtæki sem skila hagnaði niður í svaðið með því að auka skattheimtuna á þau, með því að raska atvinnuhagsmunum fólksins sem vinnur til að mynda í sælgætisiðnaði og byggingariðnaði. Það á líka að ráðast á þá hópa sem kannski hafa staðið veikast fyrir í íslensku þjóðfélagi, unga fólkið sem er að byggja sér þak yfir höfuðið og maður hélt um stund að Alþfl. hefði borið nokkra umhyggju fyrir.
    Það á að hækka tekjuskattana á unga fólkinu í landinu, á unga fólkinu sem þarf að leggja á sig meiri vinnu og afla meiri tekna af því að það er að kaupa sér húsnæði. Það á að stórhækka tekjuskattana á þessu fólki í nafni félagshyggjunnar og með fylgispekt Alþfl. Og það er ekki nóg með að það eigi að gera þetta. Það á líka að auka byggingarkostnaðinn með því að hækka vörugjöld á mikilvægar byggingarvörur og gera þessu fólki enn erfiðara fyrir í nafni félagshyggjunnar og með fylgispekt Alþfl. Og svo veit ég ekki betur en að þegar komið er að veðdeild Landsbankans, þeirri stofnun sem annast um húsnæðisstjórnarlánin, eigi, þegar fólk er komið þangað með

greiðsluerfiðleikalánin, að leggja sérstakan skatt á húsbyggjendur þar í gegnum skatt á veðdeild Landsbankans, á þá sem eru að sækja um húsnæðislán og greiðsluerfiðleikalán. Það er nákvæmlega sama hvar unga fólkið í landinu ber niður, hvort það er með því að afla sér viðbótartekna, hvort það er að kaupa byggingarefni eða hvort það er að sækja um lán. Alls staðar kemur hæstv. fjmrh. Alþb. með fylgispekt Alþfl. í nafni félagshyggjunnar og segir: Hér á að leggja á ykkur skatta, hvar sem niður er komið.
    Hvar er nú komið þeirri umhyggju sem stundum hefur verið lýst í orði af hálfu Alþfl.? Hvar er hæstv. félmrh.? Hví tekur hann ekki þátt í þessum umræðum? Hví gerir hann ekki grein fyrir því með skýrum orðum hvernig Alþfl. er nú að koma fram við húsbyggjendur í landinu, unga fólkið í landinu? Hvers vegna gerir hæstv. félmrh. ekki skýra grein fyrir því að það sé nú markmið flokksins að koma með þessum hætti að húsbyggjendum hvar sem þeir bera niður? Ef þeir ætla að auka tekjur sínar; meiri skatta þar beint í ríkissjóð. Þar sem þeir koma að kaupa byggingarefni; meiri skatta þar. Þar sem þeir koma að taka lán; taka líka skatta þar. Það væri æskilegt að heyra hæstv. félmrh. skýra þessa hugsjón út. Hvaða hugsjón liggur að baki þessum ráðstöfunum? Hvernig má hún koma íslensku þjóðfélagi og íslenskum heimilum til góða? Hvers konar þjóðfélag er það sem við erum að sigla inn í ef þetta er hugsjónin á bak við það sem verið er að gera?
    Svo liggja hér fyrir frumvörp um tekjuskatta sem hæstv. fjmrh. tilkynnti að fælu í sér hækkun á persónuafslætti, hækkun á skattleysismörkum, lækkun á sköttum einstæðra foreldra. Hann hefur sjálfsagt selt þessi frumvörp í þingflokkum stjórnarandstöðunnar á þessum rökum. Hann byrjaði a.m.k. á því að reyna að selja þjóðinni þetta í sjónvarpi með þessum rökum. Það kom svo á daginn þegar farið var að skoða frumvörpin að það hefur í för með sér lækkun á skattleysismörkum. Það hefur í för með sér lækkun á persónuafslætti. Það hefur í för með sér hækkun á sköttum einstæðra foreldra. Og Alþfl. fylgir hæstv. fjmrh. eftir í nafni félagshyggjunnar í einu og öllu. Ekkert hik á því. Hraustir menn, þeir í Alþfl., kokvíðir og geta gleypt allt sem áður var sagt.
    Það er stundum gott að vera hraustur, en menn þurfa líka stundum að vera samkvæmir sjálfum sér. Menn þurfa líka stundum að vera trúir hugsjón sinni og líka sjá fyrir afleiðingar af því sem verið er að gera. Það er ekki verið að rétta íslenskt atvinnulíf við. Það er verið að keyra það niður í meira svað. Og það eru engin rök fyrir því að með þessum hætti sé verið að bæta afkomu atvinnufyrirtækja eða heimilanna í landinu eða skapa heilbrigðari skilyrði í efnahagslífinu. Það eru þess vegna engin raunveruleg markmið og engar afsakanir fyrir þeim kollsteypum sem hér hafa verið teknar af þingmönnum Alþfl.
    Vörugjaldsfrv. sem þessu er tengt er svo þáttur út af fyrir sig sem er illskiljanlegt að Alþfl. skuli standa að og býsna ósvífið í ljósi þeirra ákvarðana sem

teknar voru á síðasta þingi. En hvernig er nú staðan í þessum efnum? Því er haldið fram af hæstv. ríkisstjórn að fjárlagafrv. sé einfalt bókhaldsfrv., debet og kredit, það sé hægt að auka ríkisumsvifin og þá þurfi sjálfkrafa að kalla á meiri skatta hvernig sem ástatt er í þjóðfélaginu og með því móti sé verið að lækna alla hluti og allar meinsemdir í íslensku efnahagslífi. Ég vil af þessum sökum fá að vitna í grein í Vísbendingu eftir dr. Þorvald Gylfason sem fjallar m.a. um þetta atriði. Með leyfi forseta segir í þessari grein:
    ,,Þegar fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv. fyrir næsta ár eru skoðuð í víðu samhengi kemur á daginn að heildarlánsfjárþörf ríkisins er mjög veruleg, jafnvel þótt A-hluti ríkisbúskaparins sýni afgang. Taflan sýnir``, sem fylgir með greininni, ,,að verg lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs nemur 4,7 milljörðum kr. Þessa fjár á að afla með sölu spariskírteina ríkissjóðs. Við þessa fjárhæð bætast fyrirhugaðar lántökur byggingarsjóða í B-hluta, að mestu hjá lífeyrissjóðum, en þær nema 9,5 milljörðum kr. Þar að auki er sveitarfélögum,
fyrirtækjum með eignaraðild ríkissjóðs og ýmsum opinberum sjóðum ætlað að taka 8,9 milljarða kr. að láni innan lands og utan. Þannig verður heildarlánsfjárþörf, þ.e. greiðsluhalli ríkisins, 23,1 milljarður kr. á næsta ári þegar allt er tekið með í reikninginn. Þessi fjárhæð er 63% hærri en í fjárlagafrv. fyrir 1988. Takið eftir því að lánsfjárþörf A-hlutans eykst um aðeins 12% á milli ára, en lánsfjárþörf B-hlutans eykst um 53% og C-hlutans um 134%. Fyrirhugaðar erlendar lántökur ríkisins í C-hluta þrefaldast eða því sem næst frá frv. ársins í fyrra. Af þessu má sjá hversu villandi það getur verið að einblína á A-hlutann í stað þess að skoða ríkisbúskapinn í heild.
    Heildarlánsfjárþörf ríkisins er þó ekki réttur mælikvarði á þensluáhrif ríkisfjármála. Þetta stafar af því að verulegum hluta ríkisútgjalda í víðum skilningi er varið í vaxtagreiðslur og afborganir af skuldum ríkisins við útlönd og við Seðlabanka Íslands. Þessar greiðslur, sem nema 13,3 milljörðum kr. á næsta ári samkvæmt frumvörpunum tveim, renna til útlanda og í Seðlabankann og valda því væntanlega engri þenslu hér heima. Séu þær dregnar frá fyrirhugaðri lánsfjárþörf næsta ár standa 9,8 milljarðar kr. eftir. Þetta er þensluhallinn sem ég hef kallað svo.``
    Þetta eru orð dr. Þorvalds Gylfasonar sem Alþfl. hefur stundum litið til. Það er m.ö.o. ekki nóg að einblína á A-hluta ríkissjóðs og segja að með því að hafa hann í jafnvægi upprætum við allar meinsemdir í þessu þjóðfélagi. Og ofan í þetta kaup, sem dr. Þorvaldur er að benda á, liggur það fyrir að spariskírteini ríkissjóðs seljast ekki og bankastofnanir og verðbréfamarkaðir eiga núna 2 milljarða kr. nánast í birgðum ofan á það sem ríkissjóður þarf að selja á næsta ári. Svo er verið að stórauka erlendar lántökur til atvinnuveganna og hefur verið gengið nokkuð langt fram í því á undanförnum vikum. Það verður að hafa þetta dæmi í heild sinni í huga þegar verið er að tala um þenslu í þjóðfélaginu. Það er barnaskapur að koma

hingað upp og segja: A-hluti ríkissjóðs verður að vera í jafnvægi á sama tíma og allt annað á að vera galopið í aukinni þenslu, B-hluti ríkissjóðs, C-hluti lánsfjárlaganna, allt opið, allt galopið og ekkert aðhald, bara þensla! Og svo peningastefna sem leiðir til þess að ríkissjóður getur ekki fengið þann sparnað á innlendum markaði sem hann þarf á að halda með því að spariskírteinin seljast ekki. Að koma hingað inn á Alþingi og segja að það læknist allt með því að hafa A-hluta ríkissjóðs í lagi. Það er í lagi að keyra atvinnulífið í kaf. Það er í lagi að láta sjávarútveginn og iðnaðinn sökkva í kaf, hafa ekki rekstrargrundvöll. Það er í lagi að auka skuldir í B-hluta ríkissjóðs og erlend lán. Það er í lagi að láta C-hluta lánsfjárlaga stórauka erlendar lántökur. Allt í lagi. Þetta bara ræðum við ekki, þetta er ekki til umræðu, segir hæstv. ríkisstjórn. Það eina sem við þurfum er að hækka skattana til að hafa jöfnuð á A-hluta ríkissjóðs. Auðvitað stangast hér hvað á annars horn. Auðvitað er hér ekkert samræmi í því sem verið er að segja og gera. Auðvitað fær þessi efnahagsstefna ekki staðist.
    Herra forseti. Ég hef með nokkrum almennum orðum vikið að því frv. sem hér liggur fyrir, var í upphafi sett af fyrrv. ríkisstjórn en hefur í öllum meginatriðum verið breytt og er nú að stofni til lög núv. hæstv. ríkisstjórnar og tengist því frv. sem er burðarás í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, stefnu sem leiðir til fallandi gengis atvinnuveganna og versnandi lífskjara fólksins í landinu, stefnu sem mun á nýju ári leiða til þess að verðbólga fer hér vaxandi á nýjan leik og vextir fara hækkandi. Að óbreyttri stefnu mun verðbólga fara vaxandi á nýju ári og vextir fara hækkandi jafnframt því sem stoðunum er endanlega kippt undan rekstri atvinnuveganna. Þetta er kjarni efnahagsstefnunnar sem þessi frv. fela í sér. Þessari stefnu verður að breyta. Fyrsta verkið er að horfa á hagsmuni atvinnulífsins, marka atvinnulífinu í landinu eðlileg rekstrarskilyrði. Síðan geta menn tekist á við útgjöld og tekjur ríkissjóðs og mótað afstöðu til lánsfjárlaga og nauðsynlegs aðhalds í ríkisfjármálum. Þetta eru forsendurnar fyrir því að við getum skapað meira verðmæti í þjóðfélaginu, komið á stöðugleika, dregið úr verðbólgu og lækkað vexti og skapað eðlileg starfsskilyrði fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu.