Aðgerðir í efnahagsmálum
Mánudaginn 19. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að ræða það frv. sem hér er til umræðu eða þau frv. bæði sem hér eru á dagskrá því að þau er nú svo náskyld að það er ekki hægt að ræða þetta nema í einu samhengi.
    Í fyrsta lagi langar mig til þess að minna á það að um það leyti sem síðustu stjórnarskipti urðu skrifaði einn þekktur hagfræðingur í blað að hörðustu efnahagsaðgerðir sem hægt væri að gera um þessar mundir væri að gera ekki neitt og það er nákvæmlega það sem hefur verið gert.
    Hæstv. forsrh. sagði að þær gengisbreytingar sem hefðu orðið á árinu hefðu ekki leitt til bata í sjávarútvegi. Mér er nú bara spurn hvort maðurinn sé ekki í fílabeinsturni. Ég veit ekki hvernig ástandið væri í sjávarútvegi í dag ef þessar leiðréttingar sem hafa verið gerðar hefðu ekki komið til framkvæmda. Ég byði nú ekki í það. Það væri orðin þokkaleg útreið.
    Enn fremur fengum við að heyra það hér í ræðu hæstv. forsrh. að eiginfjárstaða fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisiðnaði væri enn þá lakari nú en í september og það væri verið að hefja umfangsmikla vinnu. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi verið mynduð vegna þess að það lá fullt af staðreyndum á borðinu sem þurfti að taka ákvarðanir um, stór og mikil mál sem ekki var hægt að koma í gegnum síðustu ríkisstjórn. Svo gerist bara ekki neitt. Og nú á að fara að hefja umfangsmikla vinnu og fá fram nýjar upplýsingar. Hvernig er þá með þessar gömlu upplýsingar sem byggðust á því sem voru forsendur fyrir myndun stjórnarinnar? Var ekki hægt að stjórna út frá þeim upplýsingum? Ef eiginfjárstaðan hefur rýrnað hjá þessum 29 fyrirtækjum sem hæstv. forsrh. minntist á, úr 11% niður í 3%, hvað er hún þá orðin í dag? Og hvað á lengi að halda áfram að fara ránshendi um eigið fé undirstöðufyrirtækja landsmanna?
    Enn fremur sagði hæstv. forsrh. að gengisfelling hefði komið að litlum notum, kæmi að litlum notum nú og í skammam tíma. Mig langar til að nefna hér tvær staðreyndir. Fyrirtæki sem flytur út vöru og skuldar 1000 dollara, það skuldar líka 1000 dollara eftir gengisfellingu ef við erum að tala um gjaldeyri. Og ef það framleiðir líka fyrir 1000 dollara, hver er þá breytt staða eftir gengisfellingu? Breytt staða eftir gengisfellingu er sú að einingarkostnaður á kostnaði innan lands hefur lækkað og þar af leiðandi hafa afkomumöguleikar fyrirtækisins batnað. En staða fyrirtækisins vegna þess að það framleiðir á erlenda markaði er auðvitað óbreytt gagnvart skuldum þó svo að bókhaldsleg staða tímabundið kunni eitthvað að hafa breyst vegna þess að bókhaldið er í íslenskum krónum. Það er bara allt annað mál.
    Menn hafa lýst því sem svo að hér sé verið að gera einhverjar stórkostlegar aðgerðir með því að bjóða mönnum lán í staðinn fyrir rán, eins og ég vil orða það. Atvinnutryggingarsjóður. Það hljómar ákaflega fallega. Það hljómar þannig að það sé verið að tryggja atvinnu. En í mínum huga hafa þessar

skuldbreytingar, sem þar eru að fara fram, farið fram í sjávarútvegi oft áður og verið hægt að gera þær í Fiskveiðasjóði, bankakerfinu og Byggðasjóði. Af hverju var það ekki hægt núna? Af hverju voru þessar lánastofnanir flestar allt í einu orðnar svona ómögulegar? Ég skil það ekki. Það þurfti nýtt nafn: Atvinnutryggingarsjóður. Það sem raunverulega er verið að gera er að það er bara verið að taka til í eldhúsinu, ef það mætti orða það svo. Það er verið að færa til í hillum. Í staðinn fyrir að skulda í skammtímaskuld, þá skuldar þú í langtímaskuld. Og hver er breytt staða fyrirtækisins rekstrarlega? Hún er alls óbreytt nema hvað greiðslubyrðin hefur lækkað. Það bætir ekki rekstrarstöðu fyrirtækisins til þess að borga niður lánin. Hún er alveg óbreytt, því gengisskráningin er grundvallaratriði. Það eru til lög um gengisskráningu. Ég geri alveg ráð fyrir því að hæstv. ríkisstjórn sé kunnugt um það. Gengi krónunnar á að skrá þannig að afkoma útflutningsgreinanna sé tryggð og jafnvægi sé í viðskiptum við útlönd. Hæstv. ríkisstjórn og viðskrh. geta því ekki skráð gengi krónunnar einhvern veginn, af því bara, út í loftið þó svo að þeir komist upp með það um þessar mundir.
    Við sjáum líka miklar hugmyndir um skattahækkanir á fólk og fyrirtæki. Það á bara að senda fógetann á liðið eins og ástandið er í atvinnulífinu og ná inn auknum tekjum í ríkissjóð með fógetavaldi. Það er von að talað sé um þjóðargjaldþrot með þessar hugmyndir. Þjóðin er ekkert gjaldþrota, en íslenskur sjávarútvegur er mjög illa staddur vegna þess að ríkissjóður Íslands hefur færst allt of mikið í fang undanfarin ár og of hratt. Það er ekkert endilega verið að tala um að það eigi að skera niður á sjúklingum, eins og menn segja alltaf þegar verið er að fjalla um þessi mál, það á ekkert endilega að byrja þar. Það er hægt að fresta opinberum framkvæmdum, lengja framkvæmdatímann. Það er hægt að spara, t.d. með útboðum og einkavæðingu, selja ríkisfyrirtækin.
    Það er ósköp einfalt að setja upp plön um skattahækkanir og ætla sér að ná tekjum í kassann. En einhvers staðar stendur skrifað: Skipstjóri vill sigla, en byr hlýtur að ráða. Það er auðvitað takmörkuð auðlind, skattstofn ríkisstjórnarinnar ef þannig mætti að orði komast.
    Allt hefur átt að vera svokallaðri frjálshyggju að kenna. Það fá menn stundum að heyra. Ég veit ekki betur en að grundvallaratriði allra vestrænna þjóða sé frjálsræði, trúfrelsi, tjáningarfrelsi og athafnafrelsi, allt saman tóm frjálshyggja. Er ekki bara ómögulegt að búa hérna vestan megin í allri þessari frjálshyggju? Meira að segja Gorbatsjov og kommúnistarnir í Kreml ætla að leyfa erlendum fyrirtækjum að reka fyrirtæki í meirihlutaeigu í Rússlandi á næsta ári þó að það virðist nú vefjast fyrir sumum hér á Íslandi að leyfa erlendum fyrirtækjum að fjárfesta t.d. í stóriðju svo að dæmi séu nefnd.
    Ég held að það sé ekki frjálsræðið sem er að fara með þessa þjóð, það er stjórnlyndið, það er ríkissjóður Íslands. Hann hækkar skatta. Hugmyndir eru núna t.d.

um að hækka skatta og hugmyndir eru um að taka aukin lán. En það er aldrei spurt að því: Hvað þolir atvinnulífið að skattar geti verið háir? Hvað þolir fólkið í landinu mikla skatta? Hvað má ríkissjóður Íslands taka mikið að láni án þess að sprengja vextina í háaloft og í himinhæðir? Þessara spurninga er aldrei spurt, heldur er bara vaðið áfram, útgjöldin sett í svimandi hæðir, lán eru tekin bæði erlend og innlend og svo þegar afleiðingarnar koma fram í háum vöxtum og óðaverðbólgu, þá er það allt saman einhverri frjálshyggju að kenna. Sér eru nú hver vísindin! Af hverju lokar hæstv. ríkisstjórn þá ekki þessum fjármagnsmörkuðum sem eru til ef þetta er svona ómögulegt? Er þetta bara eitthvað til þess að tala um? Þarf ekki að stjórna samkvæmt sannfæringu sinni ef þetta er allt saman svona ómögulegt? Hvernig eru fjármagnsmarkaðir t.d. í Svíþjóð? Hvernig er með fjármagnsmarkaðina í Svíþjóð eða annars staðar á Norðurlöndunum? Er frjálshyggjan að drepa hina Norðurlandabúana? Það væri gaman að fá svar við þeirri spurningu.
    Það sem ég hef orðið vitni að þessar fáu vikur sem ég hef setið hérna á Alþingi gefur ekki fallega mynd um framkvæmdarvaldið á Íslandi, þar sem hugmyndir eru núna um rányrkjustefnu í eigið fé atvinnufyrirtækja Íslendinga, sérstaklega í útflutnings- og samkeppnisiðnaði. Það getur ekki leitt til annars en skertra lífskjara í landinu. Ég verð að segja það að ég hlýt að lýsa andstyggð minni á þessum sýndarmennskusjónleik sem maður hefur orðið vitni að hér þessa viku, þar sem alltaf er verið að reyna að telja fólki trú um það í fjölmiðlum landsins að verið sé að gera einhverjar stórkostlegar ráðstafanir og Atvinnutryggingarsjóður, sem tryggir atvinnu, er að breyta skuld úr þessum stað í hinn stað. Hverju breytir það? Það var til nóg af bankastofnunum í landinu fyrir. Það breytir ekki neinu hvort þú skuldar hér eða þar. Skuld er skuld, hvar sem hún er. Og að vera að lána fyrirtækjum t.d. erlent fé núna á röngu gengi, það kalla ég bara tilraun til þess að kyrkja fyrirtækin, því það kemur að því að það þarf að breyta gengi krónunnar. Og eiga þá fyrirtækin bara að fá skell af því að þau hafa neyðst til þess að taka lán vegna þess að þau eiga engra kosta völ?