Aðgerðir í efnahagsmálum
Mánudaginn 19. desember 1988

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég ætla ekki að segja nema örfá orð í þessari umræðu en ég sé þó ástæðu til að taka til athugunar örfá atriði sem hafa komið fram í máli hv. þingmanna sem þegar hafa talað.
    Hv. 1. þm. Suðurl. sagði m.a. í sinni ræðu að gott væri að fá upplýsingar um það hvernig verið hefði ef þær gengisfellingar hefðu ekki komið til sem voru á þessu ári. Þetta er athyglisverð spurning, en ég hefði viljað bæta því við að gott væri að fá upplýsingar um hvernig umhorfs hefði verið ef farið hefði verið eftir fyrirheitum fyrri ríkisstjórnar um að lækka vextina frá því sem þeir voru þegar hún var mynduð í júlíbyrjun 1986. Hvernig hefði þá verið umhorfs í þjóðfélaginu?
    Hv. 1. þm. Reykv. talaði um að núv. hæstv. ríkisstjórn hefði lofað að lækka vextina. Fyrrv. ríkisstjórn framkvæmdi sitt loforð með því að meira en tvöfalda vextina á ríkisvíxlum fyrstu 5 mánuðina sem hún sat að völdum. Þannig var það loforð. Hitt er alveg rétt að enn hefur ekki tekist að lækka raunvextina eins og stefnt var að. Hv. 1. þm. Reykv. sagði að það væru 0,5%. Það er talið að það sé nú innan marka ef menn ýkja ekki meira en um helming en hv. þm. gerir vel það því að vextir í bönkunum voru 9,25%, voru búnir að lækka um 0,25% þegar þessi ríkisstjórn var mynduð, en raunvextir eru nú yfirleitt um 8%. ( FrS: Þetta voru spariskírteini.) Það er fyrst og fremst þetta sem hefur lækkað og vextir hafa yfirleitt lækkað enn þá meira. Nafnvextir, hvað hafa þeir lækkað? Hvernig hefur það komið út? Ég sagði í þingræðu fyrir nokkrum dögum frá fyrirtæki sem stendur nokkuð vel eignalega en hefur að vísu mikinn rekstur. Það var reiknað út fyrir mig að miðað við þá veltu sem er á þessu ári, annars vegar miðað við þá vexti sem voru í ágústmánuði og hins vegar miðað við þá vexti sem eru í desembermánuði í ár, að vaxtagreiðslan var hvorki meira né minna en 100 millj. kr. hærri þannig að í staðinn fyrir um 40 millj. kr. tap hefði útkoman á rekstrinum verið 32--33 millj. kr. hagnaður miðað við þá vexti sem eru í dag. Þetta skýrir allt málið. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttunum sem hv. 1. þm. Reykv. var að segja frá áðan. Hvað segir Alþýðusambandið um útkomuna? Ég ætla ekki að fara að tefja tímann með því að lesa það upp en það kom greinilega fram hvað það er að þeirra dómi og þeirra athugun.
    Ég get sagt hv. þm. annað dæmi. Stórt fiskvinnslufyrirtæki græddi um 80 millj. kr. á árunum 1986 og 1987 og var komið í yfir 100 millj. kr. í ágúst 1987 en undan hallaði vegna vaxtahækkana seinni part ársins. Á þessu ári töpuðu þeir 90 millj. kr. á fyrstu 9 mánuðum ársins. Hvað segir þetta okkur? Svo koma hv. fyrrv. ráðherrar upp í ræðustól og tala um að eina bjargráðið væri að fella gengið. Þetta þjóðfélag verður auðvitað ekki rekið þannig að útflutningsframleiðslan sé rekin með tapi en það eru fleiri leiðir til. Þegar hv. 1. þm. Suðurl. er að tala um að verið sé að keyra atvinnulífið niður í svaðið. Hvernig skildi hann við og hvað sögðu stjórnarherrarnir þá? Að þeirra eigin sögn máttu ekki

líða nema örfáir dagar þar til gripið yrði til efnahagsráðstafana. Þannig var skilið við.
    Hér fyrr á árum starfaði ég dálítið í verkalýðsfélögum og tel það eiga að vera ásetning manna hvar í stétt sem þeir standa að standa við orð sín og samninga og er því algerlega á móti því að taka samningsréttinn af verkalýðsfélögunum, launþegafélögunum, nema það sé voði fyrir dyrum. Yfirleitt á að krefjast þess af vinnuveitendum og launþegum að þeir beri ábyrgð á sínum samningum. En við erum búnir að fara yfir það hér. Það kom fram í kvöldfréttum að það sé ekki launakostnaðurinn sem er að drepa fyrirtækin. Það er annað sem gerðist og ég er búinn að taka það kyrfilega fram. ( FrS: Styður þá ekki hv. þm. fyrirliggjandi tillögu um að koma samningunum í gildi?) Ráðstafanir sem ríkisstjórn gerir er ein keðja og það ætti fyrrv. ráðherra að vita. Ég gæti minnt hann á ýmislegt í því sambandi. Það verður að koma í ljós á sínum tíma hvað ég geri í þessu sambandi en hvað gerði fyrirspyrjandi sem ráðherra í maí á þessu ári? Hvað gerði hann? Hann taldi það nauðsynlegt. Hvers vegna var það nauðsynlegt? Vegna þess að hann stóð að því og undir forustu formanns hans voru vextirnir hækkaðir þannig að allt var komið, atvinnuvegirnir, ofan í svaðið, svo að ég noti orð fyrrv. forsrh.
    Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði það ósvífið að gefa út bráðabirgðalög sem sýnilegur meiri hluti væri ekki fyrir. Ég held að hv. þm. ætti að spara sér stóru orðin þangað til hún sér hvernig þeim frv., sem eru til umfjöllunar á Alþingi í dag, reiðir af.
    Það væri ástæða til þess að segja margt fleira en ég ætla ekki að fara að standa hér og læt öðrum það eftir að ræða þessi mál. En við sjáum það á næstu dögum hvernig mál þróast.