Efnahagsaðgerðir
Mánudaginn 19. desember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Hér er kominn til umræðu hryggjarbitinn úr þeim bráðabirgðalögum sem núv. ríkisstjórn setti í miklu óðagoti í septemberlok því eins og menn hafa áttað sig á voru þær greinar sem varða launafrystinguna fluttar hreppaflutningum við afgreiðslu þessara mála í efri deild. Eftir urðu ýmsar fjármálaráðstafanir sem áttu að rétta stöðu atvinnulífsins en um það eitt voru menn ákaflega sammála á þeim tíma að eitthvað yrði að gera í þessum dúr.
    Eins og ég hef áður vikið að er ekki auðvelt að ráða í stöðuna, skilaboðin eru satt að segja afar misvísandi. Við fáum fréttir af rífandi afla og bættri meðferð og auknu verðmæti sjávarafla, eins og ég minnti á hér fyrr í dag úr þessum ræðustól, en síðan segja gjaldþrotafréttir og tölur um aukið atvinnuleysi okkur allt aðra sögu. Við fáum skýrslu á skýrslu ofan um afkomu fyrirtækja sem gefa okkur meðaltalstölur sem vissulega eru ófagrar. Við kvennalistakonur leituðum fast eftir nánari sundurgreiningu á þeim vanda sem við væri að etja, sundurgreiningu á stöðu fyrirtækja í tölum um frávik. Slíkar upplýsingar fengust ekki á haustdögum og því lögðum við ásamt þingmönnum úr öðrum þingflokkum fram beiðni um skýrslu um stöðu tíu verst stöddu og tíu best stöddu fiskvinnslufyrirtækja í landinu til þess að fólkið gæti áttað sig á þessum misvísandi upplýsingum og gert sér grein fyrir ástæðunum fyrir slæmri afkomu eða hagnaði fyrirtækja. Þessi skýrsla hefur ekki enn verið lögð fram. Með þessari beiðni og þessari afstöðu erum við auðvitað ekki að segja að vandinn sé minni en af er látið heldur aðeins að leggja áherslu á að vandi verður ekki leystur nema menn geri sér grein fyrir rótum hans.
    Í umræðum um fyrra dagskrármálið fór ég nokkrum orðum um þá aðför að launafólki sem stjórnvöld hafa talið nauðsynlega sem lið í aðgerðum til lausnar þess vanda sem við er að fást í atvinnulífinu. Menn muna allar umræðurnar á liðnu sumri um ýmsar leiðir kenndar við færslu, ýmist niður-, upp-, milli-, bak- eða undan-. Niðurfærslan freistaði margra enda lítur hún auðvitað vel út á pappír. Keyra bara alla kostnaðarliði niður og köttur út í mýri, allur vandi á bak og burt. Það eru miklir talnatrúarmenn sem halda að slíkt geti gengið burt séð frá því óréttlæti sem í slíkri leið felst. Veruleikinn er auðvitað allt annar og launin eru ekki vandamálið. Sé kostnaður vegna taxtalauna einhverju fyrirtæki ofviða er rekstrargrundvöllur tæplega fyrir hendi. Of hár launakostnaður sem tilkominn er vegna launaskriðs eða fríðindagreiðslna er hins vegar á ábyrgð viðkomandi fyrirtækja sem geta þá stundað sína niðurfærslu sjálf án milligöngu stjórnvalda. Það er fullkomin heimska að hrófla við hóflegum launasamningum og ætla almennu launafólki á hreinum töxtum að gjalda þannig fyrir þenslu og mistök í fjárfestingum og rekstri sem það ber enga ábyrgð á.
    Það eru aðrir kostnaðarþættir en launin sem hrjá

atvinnulífið og þá fyrst og fremst fjármagnskostnaður eins og hæstv. forsrh. tók sannarlega undir í sínu máli. Á þetta höfum við kvennalistakonur margsinnis bent og þetta var m.a. það sem við vildum fá fram í þeirri skýrslu sem við höfum beðið um varðandi fiskvinnslufyrirtæki. Að sjálfsögðu er um ýmislegt annað að ræða sem hefur áhrif á afkomu fyrirtækja, svo sem umhverfi þeirra eða almennt ástand í viðkomandi byggðarlagi, flutningskostnaður og aðrar aðstæður til aðdrátta, orkukostnaður og sitthvað fleira. Það er fjármagnskostnaðurinn sem er aðalsökudólgurinn að okkar dómi og samkvæmt athugunum hagfræðinga ASÍ er það mat okkar rétt. Hæstv. forsrh. minntist einmitt á athuganir þeirra í sínu máli og hafi ég tekið rétt eftir þá benda útreikningar þeirra sannarlega til þess að hlutfall fjármagnskostnaðar í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi, og þá voru þeir fyrst og fremst að kanna stöðu fiskvinnslufyrirtækja, hafi vaxið um 150% frá því í fyrra, á sama tíma og hlutfall launa í rekstri hefur aðeins vaxið um 4%. Þetta er mjög athyglisverð niðurstaða og hlýtur að sýna okkur hvar a.m.k. stór hluti vandans liggur.
    Hjá einhverjum þessara fyrirtækja er vissulega um sjálfskaparvíti að ræða. Offjárfestingar og rangar áætlanir. Því miður er glannaskapur, vanþekking og ábyrgðarleysi áberandi í íslenskum atvinnurekstri. Í útflutningsgreinunum mun þó að talsverðu leyti vera um utanaðkomandi vanda að ræða, óhagstæða þróun gengis og verðlags, sem fyrirtækin hefur skort eigið fé til að mæta. Í sumum greinum, einkum í fiskvinnslunni, var þetta ástand orðið verulega slæmt fyrr á þessu ári svo að augljóst var að stjórnvaldsaðgerðir urðu að koma til, enda afkoma og framtíð heilla byggðarlaga undir því komin að rekstur sé tryggur. Slíkar stjórnvaldsaðgerðir má þó ekki gera blindandi heldur að undangenginni athugun á stöðu og rekstri viðkomandi fyrirtækja og með skilyrðum um endurskipulagningu og aðhald í rekstri. Við vorum því sammála því að óhjákvæmilegt væri að fara einhverja þá leið sem fæli í sér bætta skulda- og rekstrarstöðu og ekki síst aukningu eigin fjár.
    Við erum hins vegar ósáttar við hinn margfræga Atvinnutryggingarsjóð sem varð niðurstaðan hjá stjórnvöldum. Þessi sjóður er nú þegar orðinn að apparati þrátt fyrir óvissu um afdrif lagasetningar. Við höfum gagnrýnt það og okkur þykir ámælisvert hversu mikil umsvif þessa sjóðs og stjórnar hans eru orðin meðan fullkomin óvissa ríkir enn um afdrif þeirrar lagasetningar sem við erum að fjalla um. Þessi sjóður, sem kallaður hefur verið Atvinnutryggingarsjóður, er að okkar mati ekkert annað en margnotuð aðferð til fyrirgreiðslu í erfiðleikum atvinnulífsins sem færð er í nokkurs konar grímubúning, e.t.v. til þess að láta menn halda að um sérstaka aðgerð sé að ræða og þá eitthvað björgulegri og árangursríkari en áður hefur verið reynd.
    Við höfum, eins og fram hefur komið í umfjöllun í Ed. og í brtt. þar, margt að athuga við þennan grímubúning. Í fyrsta lagi teljum við einsýnt að

verkefni sjóðsins eigi einfaldlega heima í Byggðastofnun og megi fela þau sérstakri deild þar og þurfi í rauninni ekkert sérstakt nafn, þótt það sé svo sem útlátalaust ef menn vilja endilega láta afkvæmið heita eitthvað. Byggðastofnun hefur hingað til sinnt verkefnum sem þessum og á samkvæmt bráðabirgðalögunum bæði að hýsa sjóðinn, færa bókhald og aðstoða á alla lund. Því er eðlilegast að hér sé ekki um einhverja sérstofnun að ræða heldur einfaldlega deild í Byggðastofnun.
    Sérstakur þyrnir í okkar augum er svo fjármögnun þessa sjóðs þar sem fjárframlag á að taka af lögboðnu framlagi ríkisins í Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er raunar með ólíkindum hvað stjórnvöld lítilsvirða rétt launafólks á alla lund, frysta launataxta, banna samninga og ætla svo að ganga af fullkomnu virðingarleysi og miskunnarleysi í Atvinnuleysistryggingasjóð á sama tíma og víðast hvar þrengir að á vinnumarkaðinum og horfur á atvinnuleysi fara vaxandi. Burtséð frá því að með því að sækja þetta fé í Atvinnuleysistryggingasjóð er einhliða verið að rjúfa samninga þriggja aðila, þ.e. Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambandsins og ríkisins, um fjármögnun sjóðsins, þá hlýtur þetta að vera afar vafasöm ráðstöfun í ljósi þess sem er að gerast í atvinnumálum. Daglega berast fréttir af uppsögnum starfsfólks hjá ýmsum fyrirtækjum og víða býr fólk við mikið öryggisleysi um afkomu sína og framtíð. Milli mánaðanna september og október varð 37% aukning atvinnuleysis á landinu öllu og samkvæmt upplýsingum frá félmrn. bárust 500--600 tilkynningar um uppsagnir í októbermánuði og stór hluti þeirra kemur til framkvæmda nú um næstu áramót. Meðalfjöldi atvinnulausra í október var 706 og af þeim voru 472 konur, en það er alkunn staðreynd að samdráttur í atvinnulífinu kemur fyrst niður á konum. Samkvæmt upplýsingum Atvinnuleysistryggingasjóðs leyfir staða hans nú 5% atvinnuleysi í eitt ár. Það er því afar mikilvægt að þessi sjóður launafólks verði ekki skertur. Það er ekki réttmætt að láta launafólk að mestu gjalda fyrir það að stjórnendum atvinnulífs og ríkisins láðist að leggja fyrir til mögru áranna í því góðæri sem ríkt hefur. Það er hin raunverulega orsök þess vanda sem nú er við að etja og ef einhvern tíma væri unnt að læra af reynslunni og mistökunum ætti það einmitt að vera nú.
    Það er auðvitað ekki hægt að hafna því að fé sé fært á milli sjóða með þeim hætti sem hér er lagt til án þess að benda á aðra leið og það höfum við gert. Við höfum lagt til að fyrirtækjum í erfiðleikum, sem þó hafa alla möguleika á rekstri með bættum skilyrðum, betri skuldastöðu og meira eigin fé, hafi möguleika á skuldbreytingum og lánum en einnig á aukningu eigin fjár með sölu hlutabréfa. Nú kann það að virðast bjartsýni að halda að einhverjir vilji veita fé í formi hlutafjár til þessara greina svo við tölum nú bara um sjávarútveginn. Það má þá velta því fyrir sér hvar þetta þjóðfélag er á vegi statt ef þetta er ekki raunhæf leið. Við erum að tala um

undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, og menn hafa talað sig hása um nauðsyn þess að styrkja atvinnulífið, efla útflutningsgreinarnar og reyndar ekki síður samkeppnisgreinarnar. Við hljótum því að trúa á framtíð þessara greina ella trúum við ekki á framtíð þjóðarinnar sjálfrar. Það er höfuðnauðsyn að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækjanna og að hinu leytinu þarf að gefa fólki tækifæri til að fjárfesta í þessum undirstöðugreinum án þess að taka mikla áhættu. Að því miða þessar tillögur sem lagðar voru fram í efri deild. Hlutafjáraukning skilar sér margfalt betur en lán og eykur heildarstyrk fyrirtækisins. Þetta er markmið þeirra tillagna sem Kvennalistinn og Sjálfstfl. fluttu sameiginlega í efri deild og verður væntanlega nánar fjallað um síðar.
    Við teljum að sú sérfræðiþekking sem fyrir hendi er í Byggðastofnun ætti að nýtast vel til að velja þau fyrirtæki sem hlutafjársjóður teldi rétt að kaupa hlutabréf í og ætti að tryggja fullt verðgildi bréfanna. Með sölu bréfanna að fjórum árum liðnum væri tryggð ákveðin dreifing og með því að veita starfsfólki fyrirtækjanna eða fyrirtækjunum sjálfum forkaupsrétt má betur tryggja en nú að eignarhald fyrirtækjanna haldist heima í héraði. Á þeim tímum sem við nú lifum á getur það verið spurning um líf eða dauða einstakra byggðarlaga hvort þau geta haldið því atvinnustigi sem þegar er úti í héruðunum.
    Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri við þessa umræðu. Ég held að almennur vilji sé fyrir því að afgreiða þessi þingmál, sem hafa verið til 1. umr. í dag, án tafar og sæti nú síst á okkur kvennalistakonum að þvælast fyrir því þar sem við höfum lagt mikla áherslu á það allt frá upphafi að þessi mál fái þinglega meðferð svo að ljóst verði hver hin raunverulega staða ríkisstjórnarinnar er og hverjir standa á bak við hana. Hv. 6. þm. Norðurl. e. telur þá stöðu greinilega styrka eins og kom fram í máli hans fyrr í kvöld. Hvað sem rétt er í því efni þá er nú tími til kominn að leiða það í ljós svo ekki verði um villst.