Umhverfisfræðsla
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegi forseti. Félmn. hefur fjallað um 6. mál þingsins, till. til þál. um umhverfisfræðslu. Fyrir nefndinni lágu umsagnir um sama mál sem flutt var á síðasta þingi og voru þær frá Kennarasambandi Íslands, Hinu ísl. kennarafélagi og fræðslustjórum Vesturlands, Vestfjarða og Suðurlands. Af öllum þessum aðilum var jákvætt tekið undir efni till.
    Á fund nefndarinnar komu frá Náttúruverndarráði Þóroddur Þóroddsson framkvæmdastjóri og Sigurður Á. Þráinsson líffræðingur og frá menntmrn. Þorvaldur Örn Árnason námsstjóri. Lögðu þessir aðilar fram skriflegar álitsgerðir þar sem hvatt er til aðgerða á sviði umhverfisfræðslu.
    Málið var rætt á fjórum fundum nefndarinnar og var nefndin sammála um að leggja til að till. verði samþykkt með breytingu sem flutt er á sérstöku þskj. Undir þetta nál. rita allir nefndarmenn í félmn., en till. um breytingu er svohljóðandi frá nefndinni:
    ,,Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að auka og samræma fræðslu um umhverfismál í skólum, m.a. í tengslum við endurskoðun á aðalnámsskrá grunnskóla og þróun námsefnis fyrir framhaldsskóla, svo og fyrir almenning í samvinnu við opinbera aðila, fjölmiðla og félagasamtök.``