Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Tillaga sú sem hér er flutt af hv. 2. þm. Norðurl. v. felur í sér þrjá efnisþætti.
    Í fyrsta lagi að allra leiða verði leitað til að efla og bæta samkeppnisstöðu íslensks skipaiðnaðar og sporna við því að skipaiðnaðarverkefni fari úr landi. Undir þetta er sjálfsagt að taka. En þá verða menn að hafa í huga að þarna geta togast á hagsmunir skipasmíðastöðvanna, sem eru þeir að hafa sem mest verkefni, á aðra hlið og hagsmunir útgerðarmanna að fá verkefnin unnin á skjótan og ódýran hátt hins vegar.
    Eins og kom fram í svari mínu við fsp. hv. 2. þm. Norðurl. e. þann 15. þ.m. er nú unnið að undirbúningi sérstaks átaks til hagræðingar og aukinnar framleiðni í íslenskum skipasmíðaiðnaði. Í samvinnu iðnrn. og hagsmunasamtaka í skipasmíðaiðnaði var á sl. ári eða reyndar fyrr á þessu ári ráðið breskt ráðgjafarfyrirtæki, A & P Appledore að frumkvæði þáv. iðnrh. í samráði við samtök skipasmíðaiðnaðarins til þess að gera úttekt á samkeppnisstöðu skipasmíðastöðvanna og er nú víst að endanleg skýrsla þessa fyrirtækis mun liggja fyrir í janúar nk. Þá munu hefjast viðræður um niðurstöður skýrslunnar og um það til hvaða ráða sé rétt að grípa í því skyni að bæta rekstur og rekstrarskilyrði skipasmíðastöðvanna. Hér er að sjálfsögðu fyrst og fremst um mál skipasmíðastöðvanna sjálfra að ræða, enda líta þau þannig á og hafa tekið þátt í þessu starfi á þeirri meginforsendu, en iðnrn. mun að sjálfsögðu taka þátt í þessum umræðum og leggja stöðvunum lið eftir því sem ráðuneytinu er unnt.
    Ég veit að eitt af þeim atriðum sem þar munu koma til athugunar, og hef ég reyndar þegar rætt það við forsvarsmenn Félags skipasmiðja og dráttarbrauta, er að koma á aukinni samvinnu milli íslenskra stöðva og ná þar samkomulagi um verkaskiptingu og sérhæfingu, ekki síst í sambandi við meiri háttar skipasmíðaverkefni.
    Í öðru lagi fjallar þáltill. sem hér er til umræðu um það að ríkisstjórnin tryggi að útvegsmenn og opinberir sjóðir semji ekki um nýsmíði skipa eða um viðhaldsverkefni erlendis án undangenginna útboða þar sem innlendir aðilar keppi á jafnréttisgrundvelli við erlendan skipaiðnað, m.a. varðandi meðhöndlun tilboða og fjármagnsfyrirgreiðslu.
    Ég vil láta koma skýrt fram að ég tel ekki rétt að útvegsmenn séu skyldaðir fortakslaust til að bjóða út verk sem þeir þurfa að láta vinna. Þetta getur bæði verið kostnaðarsamt og tímafrekt og útvegsmenn hljóta á hverjum tíma að sjálfsögðu að leitast við að velja smíða- og viðgerðaraðila sem veitir þeim besta og ódýrasta þjónustu miðað við allar aðstæður. Það er oft og einatt svo í útgerðinni að menn velja ekki tímann til slíkra verkefna sjálfir heldur eru það aðstæðurnar sem ráða. En hitt er annað mál að við vitum mörg dæmi þess að menn hafa verið að notfæra sér ýmist opinberar niðurgreiðslur í Noregi á þjónustu skipasmíðastöðvanna eða lágt verð hjá skipasmíðastöðvum í Póllandi t.d. sem m.a. byggist á

lágum verkalaunum.
    Varðandi fjármagnsfyrirgreiðsluna er það að segja að 25. maí 1987 var heimilað með auglýsingu frá viðskrn. að taka erlend lán vegna viðgerða á skipum erlendis, en jafnframt var hérlendum skipasmíðastöðvum heimilað að taka lán erlendis til sams konar viðgerða innan lands. Þessar heimildir voru svo framlengdar með auglýsingu sem var dags. 1. febr. 1988 um erlendar lántökur og leigusamninga vegna innflutnings á vélum, tækjum og búnaði til atvinnurekstrar. Í þessari auglýsingu segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Heimilt er að gera samninga um lán eða greiðslufrest við erlenda aðila vegna viðgerða á skipum erlendis. Hérlendum skipasmíðastöðvum, sem annast sams konar viðgerðir, er og heimilt að taka lán erlendis til að fjármagna þær. Lánshlutfall af viðgerðarkostnaði fiskiskipa skal eigi vera hærra en Fiskveiðasjóður Íslands hefur til viðmiðunar í sínum útlánareglum í sambærilegum tilvikum, en um önnur skip gilda lánshlutföll skv. 1. tölul. 1. gr. hér að ofan.``
    Með þessu er við það átt að erlend lán skuli yfirleitt ekki nema hærra hlutfalli en 70% af viðgerðarkostnaði en 60% ef um er að ræða ábyrgð eða endurlán innlendrar fjármálastofnunar. Reyndar hefur þó verið algengt að gefa viðbótarheimildir allt að 80% í þessu skyni.
    Það er svo, eins og reyndar kom fram í umræðunum um daginn um þessa þáltill., að í viðskrn. var lengi reynt að fylgja þeirri reglu að veita ekki heimild til erlendrar lántöku nema áður hefði verið athugað hvort hægt væri að láta slíka viðgerð fara fram hérlendis. Þessu var síðar hætt, einkum vegna óánægju útgerðarmanna með tafir og bréfaskipti í þessu sambandi. Þar sem lántökurnar eru nú heimilar samkvæmt almennum reglum og hafa verið það frá árinu 1987 verður þessi háttur trauðla tekinn upp að nýju. Fiskveiðasjóður gæti að sjálfsögðu veitt innlendum skipasmíðastöðvum stuðning á þann hátt að veita ekki lán til smíða, endurbóta eða meiri háttar viðgerða á skipum erlendis nema verkin hafi áður verið boðin út, en mér segir hugur um að þetta
mundi mæta verulegri og réttmætri andstöðu útgerðarmanna. Enn er þess þó að gæta að það er ekki allt sem sýnist varðandi innlend og erlend tilboð í meiri háttar endursmíðaverkefni, eins og reyndar kom fram í umræðunum um daginn, og það hefur oft komið í ljós að það hefur þurft að fá íslenskar skipasmíðastöðvar til að endurbæta verulegar breytingar á skipum sem unnar hafa verið erlendis á grundvelli lágra tilboða. Reyndar eru mörg dæmi um það að íslenskar stöðvar hafi jafnvel nú í seinni tíð unnið samkeppnistilboð um verkefni. Ég tel þess vegna ástæðu til þess að veita óformlega leiðsögn í þessa átt, en sé ekki að það séu forsendur fyrir því að skylda menn almennt til að leita tilboða þar sem aðstæður eru oft og einatt þannig að því verður ekki við komið.
    Þá kem ég að þriðja lið tillögunnar sem fjallar um

það að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að íslenskir bankar veiti sambærilegar ábyrgðir vegna skipasmíðaverkefna innan lands og veittar eru þegar verkefnin eru unnin erlendis. Ég hef lýst því yfir hér í hv. Alþingi og annars staðar að ég muni beita mér fyrir því að jafn aðgangur verði að fjármagni hvort sem verkefnið er unnið hér á landi eða erlendis. Varðandi ábyrgðirnar vil ég leyfa mér að benda á að þar mun fremur vera um að ræða verklagsreglu en opinbera reglu. Þetta eru verklagsreglur sem hér hafa myndast fremur en um sé að kenna tregðu bankanna. Ábyrgðirnar eru oftast nauðsynlegar þegar um er að ræða verk sem eru unnin erlendis fyrir íslenska aðila og þær hafa reyndar líka tíðkast þegar innlendir aðilar hafa tekið að sér verk fyrir erlenda aðila, eins og t.d. þegar Slippstöðin á Akureyri tók að sér með góðum árangri að breyta nokkrum kanadískum togurum sem reyndar hefur verið vitnað til við umræður um skipasmíðar hér í hv. Alþingi. Þegar um er að ræða innlenda aðila, sem skipasmíðastöðvarnar þekkja eða eiga að þekkja, virðist mér ekki eðlilegt að krafa um bankaábyrgð sé almenn regla, ekki síst þar sem ábyrgðirnar kosta nokkurt fé og útgerðarfyrirtækin eru af eðlilegum ástæðum treg til að borga slík ábyrgðargjöld að nauðsynjalausu. Þetta hafa skipasmíðastöðvarnar virt og samkeppni þeirra á milli og erlendra aðila hefur orðið til þess að þær gera ekki bankaábyrgðir að skilyrði fyrir því að taka skip til viðgerða eða breytinga. Ég held að í þessu máli dugi ekki almenn regla og aðstæður eigi að ráða í hverju máli eftir því sem kaupin gerast á eyrinni.
    En það er kannski annað sem mætti hagræða og haga betur og kæmi skipasmíðastöðvunum að verulegu gagni, og það er stytting á þeim tíma sem tekur að afgreiða lán Fiskveiðasjóðs. Talsmenn skipasmíðastöðvanna og reyndar útgerðarmenn líka kvarta mjög yfir því að langur tími fari í ýmiss konar pappírsvinnu og bið eftir fjármagni frá Fiskveiðasjóði, jafnvel þótt ákvörðun um lán til tiltekinnar framkvæmdar hafi verið tekið. Með því að bæta úr þessu yrði samkeppnisstaða íslensku stöðvanna vissulega bætt, en erlendir aðilar sem hafa bankaábyrgð þurfa ekkert að glíma við svona tafir sem óhjákvæmilega hafa mætt á innlendu stöðvunum. Ég hef fullan vilja til að bæta úr þessu í góðri samvinnu við hæstv. sjútvrh.
    Þá vil ég láta koma fram að ég mun beita mér fyrir því að innlendu skipasmíðastöðvarnar hafi jafnan aðgang að erlendu lánsfé til meiri háttar viðhaldsverkefna og nýsmíða og þegar slík verkefni eru af hendi leyst erlendis. Á undanförnum árum hefur þetta m.a. verið gert með því að Byggðastofnun hefur fengið ákveðna heimild til erlendrar lántöku vegna innlendra skipasmíða. Þetta er tilhögun sem ég er nú að láta skoða í samráði við samtök skipaiðnaðarins og Fiskveiðasjóð og aðrar lánastofnanir sem hér koma að málinu. Ég get látið það koma hér fram að það verður framhald á slíkri lánafyrirgreiðslu og ef það helst ekki óbreytt verður það af því að hið nýja skipulag er betra en ekki

lakara fyrir skipasmíðastöðvarnar. Á þessu stigi máls vil ég ekki segja meira um þetta, en það mun hins vegar skýrast þegar lánsfjárlögin koma til meðferðar í hv. Alþingi.
    Í þessu sambandi vil ég að endingu nefna að ég er nú að láta kanna, m.a. í samvinnu við hæstv. sjútvrh., hvort ekki sé eðlilegt að slík lánafyrirgreiðsla verði undanþegin lántökugjaldi.