Staðgreiðsla opinberra gjalda
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Á þskj. 290 liggur fyrir nál. frá hv. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með síðari breytingum. Á fund nefndarinnar komu Skúli Þórðarson, forstöðumaður staðgreiðsludeildar ríkisskattstjóraembættisins, og Lárus Ögmundsson skrifstofustjóri tekjudeildar fjmrn.
    Hér er eingöngu um að ræða tæknilegar lagfæringar á lögunum um staðgreiðslu, atriði sem í ljós hefur komið og reynslan hefur sýnt að betur fer á að breyta. Veigamesta breytingin er kannski sú að ekki verður lengur skylt að gefa út nýtt skattkort árlega, enda er því verulegur kostnaður samfara, allt að 10 millj. kr. Þetta er raunar talinn óþarfi og óþarfaumstang. Þar sem breytingar verða á högum manna, svo sem vegna breytingar á hjúskaparstöðu eða annars, fá menn auðvitað ný skattkort, en það verða ekki gefin út ný skattkort til allra launþega á hverju ári og hefur það verulegan sparnað í för með sér.
    Þá eru ýmsar lagfæringar aðrar sem eru ívilnandi, t.d. að því er varðar þá sem gera út smábáta sem hafa meginhluta af tekjum sínum á ákveðnum hluta ársins. Þeim er gert auðveldara fyrir innan kerfisins. Ég hygg að þetta séu tvær veigamestu breytingarnar.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en undir þetta nál. skrifa allir nefndarmenn í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.
    Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk þessu áliti.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Nd.