Vinnubrögð í fjárhags- og viðskiptanefnd og
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að kveðja mér hljóðs utan dagskrár vegna þeirra vinnubragða sem viðhöfð hafa verið í hv. fjh.- og viðskn. Nd. Þannig er mál með vexti að við höfum þar verið að fara yfir frv. til l. um vörugjald sem er stórt og viðamikið mál og mjög áríðandi mál fyrir stjórnina að fá í gegn sem fyrst. Við kölluðum til umsagna fjölmarga aðila og átti ég þar stærstan hlut að máli að fara fram á það og formaður veitti það góðfúslega.
    Eftir að hafa rætt við þá aðila kemur í ljós nú á seinni stigum málsins að það frv. sem þar var til umræðu er má segja úrelt eða úr gildi þar sem stjórnin boðar verulegar breytingar og má segja nýtt frv. um vörugjald. Það sem ég vil hér kvarta yfir eru vinnubrögðin við umfjöllum um frv. þar sem m.a. fengust ekki þær greinargerðir sem ég hafði beðið um og formaður hafði tekið undir á þeirri stundu, m.a. í framhaldi af viðræðum við tollverði og embættismenn tollstjóra þar sem þeir kváðust sjá vissa annmarka á þessu máli og voru beðnir um að setja það á blað. Undir það tók formaður nefndarinnar. Ég bað einnig um skriflegt álit Sigurðar Líndals lögfræðings á því hvernig þetta kæmi heim og saman við verðstöðvunarákvæði bráðabirgðalaganna. Þetta hef ég heldur ekki fengið. Ákveðnir aðilar sem ég bað um til umsagnar voru ekki kallaðir til, en ég gerði engan sérstakan ágreining um það, en vil samt að það komi hér fram.
    En síðan er málið afgreitt út úr nefndinni með slíkum hraða í morgun að ekki einu sinni liggja fyrir þær breytingar sem gera á á frv. og enginn hefur séð. Ég tel það verkefni nefnda m.a. að fara yfir mál og fínpússa þau og gera þau sem best úr garði og ég verð að átelja þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð því að yfir frv. hefur nefndin alls ekkert farið. Hún hefur hlustað á aðila og þeirra skoðanir, en að nefndin færi í frv., læsi það yfir, hvað þá að nefndin hreinlega viti um hvað frv. er, á hvað er verið að leggja gjöld, það hefur ekki verið gert. Þetta vil ég harðlega gagnrýna og tel ámælisvert fyrir þingið að stunda slík vinnubrögð.
    Ég tel að þær brtt. sem hér verða lagðar fram og ég held að séu ekki enn þá komnar hérna fram séu þess eðlis og það sé svo mikið breytt frv. að það þurfi að fara aftur til nefndar og það þurfi aftur að kalla til umsagnaraðila vegna þess að allar þær umsagnir sem bárust um fyrra frv. eru úr gildi og hafa ekkert að segja um það frv. sem hér verður væntanlega rætt.
    Ég vil geta þess að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, sem hefur fjarvistarleyfi í dag, er fyllilega meðvituð um þá umræðu sem hér á að fara fram og er að öllu leyti sammála.
    Ég vil sem sagt vekja athygli á þessu. Það má reyndar gagnrýna nefndina fyrir fleiri störf, t.d. varðandi framgang mála hvað snertir 8. og 20. mál, sem eru brbl. Þau voru rædd með viðlíka hraði í gær þrátt fyrir að á samningsfundum, sem voru haldnir með stjórnarandstöðu og stjórn fyrir tveim dögum,

væri sagt að áframhald þeirra viðræðna færi væntanlega fram í nefnd. Það var ekki svo gott að það væri. Þar fengust engir menn til umsagnar og ég held varla að það hafi nokkurri einustu spurningu verið svarað eða þá gefinn kostur á því að leggja fram nokkrar spurningar. Auðvitað er slíkt þinginu til ámælis. Nefndirnar eru að sjálfsögðu til þess að vinna málin til enda og setja þau fram þannig að þingið geti borið höfuðið hátt gagnvart þeim plöggum, vinnuplöggum og málum, sem koma inn í þingið.