Vinnubrögð í fjárhags- og viðskiptanefnd og
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Ég þakka fyrir þessi svör. Þarna er mjög mikið af brýnum málum sem ekki mega bíða og þola enga bið. En það sem ég vildi vekja athygli á í framhaldi af því sem hv. síðasti ræðumaður gat um er það að meiri hlutinn í hv. fjh.- og viðskn. hefur alls ekki getað komið frá sér nál. um vörugjaldið þó svo málið væri svo brýnt í morgun að það þyldi enga bið að því er virtist.
    Hv. þm. Páll Pétursson, formaður fjh.- og viðskn., er vaskur maður og vinsæll af meðnefndarmönnum sínum í starfi. Honum lá nú samt sem áður svo mikið á í morgun að hann ætlaði sér að afgreiða fjögur stórmál út úr nefndinni.
    Fyrsta málið var það sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson gerði að umtalsefni, en það er þannig vaxið að því hefur verið gerbreytt í meðförum ríkisstjórnarinnar að því er okkur er sagt, hinum nefndarmönnum. Við höfum hins vegar ekkert fengið um þetta að sjá á blaði, ekkert í frumvarpsformi, aðeins einhvern snepil þar sem eru lauslegar hugmyndir um hvernig þetta eigi að vera. Málið er meira að segja þannig vaxið að það er ekki hægt að sjá að meiri hluti nefndarmanna hafi skilað inn nál. Það kann e.t.v. að stafa af því að ég sá ekki betur en að í nefndinni í morgun væru meirihlutamenn mikið í erfiðleikum með hvort þeir ættu að skrifa upp á þetta frv. Það var óskað eftir viðbótarupplýsingum. Það gerðu bæði hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 10. þm. Reykv., sem eru í meiri hl., hv. þm. Árni Gunnarsson og Guðmundur G. Þórarinsson, fyrir utan það að minni hl. óskaði eftir viðbótarupplýsingum og að fá að kalla menn til fundar. Á þetta var ekkert hlustað heldur var málið tekið út úr nefndinni og að því er manni sýnist með þeim hætti að meiri hlutinn hefur ekki enn getað komið frá sér nál.
    Síðast þegar ég vissi, þegar nefndarfundi lauk kl. eitt í dag, var hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson ekki búinn að skrifa undir nál. vegna þess að hann hafði ekki fengið svör við því sem hann óskaði eftir að fá að vita og þá heyrðist í hv. 3. þm. Norðurl. e. Árna Gunnarssyni að hann mundi ekki skrifa undir nál. ef Guðmundur G. Þórarinsson gerði það ekki. Ég vona að þessi samtöl séu ekkert leyndarmál, en þetta er til marks um hvernig er unnið í þessari nefnd og hefur verið upp á síðkastið, þ.e. síðustu klukkutímana, því að ég vil almennt síður en svo kvarta undan verkstjórn og fundastjórn hv. þm. Páls Péturssonar.
    Síðan voru tekin fyrir tvö önnur mál nátengd, bráðabirgðalögin, frumvörpin tvö sem hæstv. forseti gat um. Við annað þeirra mála eru umfangsmiklar brtt. sem voru lagðar á borð fyrir nefndarmenn en þeim tæpast gefinn kostur á að kynna sér svo nokkru næmi og málið síðan afgreitt án þess að hægt væri að ræða við nokkra aðra hagsmunaaðila eða utanaðkomandi aðila um þetta mál. Þá gerði hv. formaður nefndarinnar sér lítið fyrir og vildi afgreiða líka í sömu andránni frv. um tekjuskatt og eignarskatt og var þá flestum nóg boðið þannig að hann féllst á að fresta þeirri afgreiðslu þar til kl. 17 í dag, enda á

eftir að útvega nefndarmönnum heilmikið af upplýsingum sem þeir voru búnir að biðja um á síðasta fundi og báðu síðan um í dag í framhaldi af þeim brtt. sem meiri hlutinn hyggst standa að.
    Ég hef ekki þingreynslu á borð við þá sem hv. þm. Páll Pétursson hefur og mér er ekki kunnugt um hvort svo hafi verið um langt árabil að þannig sé staðið að afgreiðslu mála úr nefndum. En ég hef reynsluna frá því í fyrra þegar við sátum báðir í meiri hluta. Þá munaði minnstu að hæstv. núv. landbrh. í einni af sínum fjölmörgu og löngu ræðum mæltist til þess við þingheim að hann vítti hv. formann fjh.- og viðskn. Pál Pétursson fyrir vinnubrögð. Því var að vísu afstýrt og ég ætla ekki að gera tillögu um það í þetta sinn þó að mér sé tamt að vitna í ræður hæstv. núv. landbrh. um sína núverandi samstarfsmenn. En ég hlýt að átelja það mjög hvernig að þessu hefur verið staðið og hvernig á að þjösna þessum málum, ekki bara út úr nefndinni athugunarlaust eða athugunarlítið heldur að því er virðist einnig í gegnum þessa hv. deild. Ég held að við hljótum að gera þá kröfu í umfangsmiklum og flóknum málum að þau fái lágmarksumfjöllun í viðkomandi þingnefnd.
    Það liggur alveg fyrir t.d. að því er varðar tekjuskattinn og eignarskattinn að þar var meiningin að beita einhverjum stórfelldustu blekkingum við framlagningu frv. sem a.m.k. mig rekur minni til. Þar var ætlun fjmrh. að blekkja þingdeildina og landsmenn alla með þeim gögnum sem hann lagði fram með frv. og með sinni framsöguræðu. Það kom t.d. ekkert fram í hans ræðu og það tók margra daga eftirgrennslan að komast að því og fá það viðurkennt að skattleysismörkin í tekjuskattsfrv. mundu lækka frá því sem ella hefði orðið en ekki standa í stað eins og hæstv. fjmrh. lét í veðri vaka.
    En nú hafa þeir komist að niðurstöðu að því er varðar tekjuskattinn og að því er okkur hefur verið sýnt í fjh.- og viðskn. ætla þeir af höfðingsskap sínum, stjórnarliðar hæstv. og hv. ýmist, að hækka skattleysismörkin um 65 kr. á mánuði. Það er niðurstaðan úr þeirra umfjöllun um tekjuskattinn og eignarskattinn. Það skal ég hins vegar ekki ræða í umræðum um þingsköp. En ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að nefndin ætli sér tíma til að fjalla um þessi umfangsmiklu og flóknu mál sem hefur komið á daginn að hæstv. fjmrh.
meira að segja sjálfur botnar ekki meira í en svo að hann lýsti því yfir við framsöguna að hann hefði bara ekkert skilið í því að það væri hægt að beita staðgreiðslukerfinu til tekjujöfnunar. Þá er nú kannski ekki undarlegt þó að ýmsir óbreyttir þingmenn vilji fá að kynna sér þessi mál í nefndinni til hlítar með sérfræðingum þegar slík viðurkenning og yfirlýsing liggur fyrir af hálfu mannsins sem flytur frv.
    Allt ber þetta því að sama brunni. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þingmenn fjalli um þessi mál á hlaupum hér á göngunum. Það er búið að boða fund í fjh.- og viðskn. kl. 17 í dag og ef hér verða þá til umræðu mál sem heyra undir þessa nefnd, eins og margt bendir til miðað við þá dagskrá sem forseti

kynnti, hljótum við að gera þá kröfu að það verði gert hlé á fundahaldi í deildinni á meðan nefndin hittist ella þá að nefndin fresti sínum fundahöldum þannig að nefndarmenn geti fylgst með því starfi sem fer fram í deildinni og snýr að þeirra verksviði.
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að gera þessar athugasemdir, herra forseti. Ég þykist vita að forseti hafi ekki sjálfur verið með í ráðum um þennan framgang mála og ég reyndar efast um að hv. formaður fjh.- og viðskn. sé nú einn í ráðum um þetta. Ég hygg að það sé komið frá æðri stöðum innan stjórnarliðsins að nú eigi að rusla öllum þingmálum út í deildina og til atkvæða því nú eru þeir ekki lengur uggandi um sinn hag af einhverjum ástæðum að því er varðar framgang mála og þá þykjast þeir geta látið þingsköp og þingvenjur og eðlilega meðferð mála lönd og leið. Þetta gengur auðvitað ekki.
    Þessu hljótum við að mótmæla og mælast til þess að með mál sé hér farið með þeim hætti sem eðlilegur getur talist. Ella kann svo að fara að þingmenn þurfi að tileinka sér einhverja siði hér sem hæstv. landbrh. var að reyna að kenna mönnum í fyrra og koma mönnum upp á, en stjórnarandstaðan hefur forðast í ár.