Vinnubrögð í fjárhags- og viðskiptanefnd og
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Páll Pétursson:
    Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka meðnefndarmönnum mínum í fjh.- og viðskn. fyrir sérstaklega indælt samstarf undanfarna daga. Það hefur reynt mikið á okkur og við höfum lifað annasama tíma og það er kannski ekkert að undra þótt sumir séu að verða pínulítið þreyttir, en ég vona að það komi ekki niður á störfum nefndarinnar.
    Ég vísa hins vegar algerlega á bug þeim ummælum, sem hér hafa verið höfð, að vinnubrögð hafi verið með eitthvað óeðlilegum hætti í nefndinni. Ég tel að þau hafi verið með fullkomlega eðlilegum hætti og skammast mín ekki vitund fyrir þau vinnubrögð. Það vildi svo til að stjórnarflokkarnir ákváðu að koma til móts við stjórnarandstæðinga í vörugjaldsmálinu og breyttu frv. í átt að því sem við héldum að stjórnarandstaðan vildi og þar af leiddi að ég reiknaði með því að þetta væri þeim mun geðfelldara mál í morgun en það var í gær.
    Það er að vísu rétt, sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Inga Birni Albertssyni, að það bárust ekki allar greinargerðir sem hann óskaði eftir. Það voru réttmætar óskir sem hann setti fram, en ég leyfi mér að telja það vafasamt að bíða von úr viti eftir skriflegum greinargerðum sem ekki koma. Það er engin nýlunda þótt einhverjir umsagnaraðilar skili ekki umsögnum, að einhverjir af þeim sem spurðir eru um málið skili ekki inn áliti, og þá virðist þeim ekki liggja það á hjarta að koma því frá sér. Ég tel að eðlilegir frestir hafi verið gefnir og þessar greinargerðir bárust ekki.
    Við undirbjuggum þann umrædda fund í morgun sem hefur verið hér til umræðu og menn hafa verið að klaga. Við undirbjuggum hann í Alþingishúsinu í gærkvöld, allir nefndarmenn saman komnir, og voru þeir prýðilega ánægðir með alla þá vinnuáætlun sem ég lagði fram fyrir fundinn. Það gerði enginn maður athugasemd við það í gærkvöld að vörugjaldið yrði afgreitt. Stjórnarandstæðingar voru mjög áfram um að bráðabirgðalögin yrðu afgreidd á fundinum í morgun. Og ég vissi ekki annað en þetta væri allt gert í góðu samkomulagi. Það þurfti engum að koma á óvart að ég mundi gera tillögu um að afgreiða þessi mál. Þegar þeir fóru að sofa í gærkvöld, nefndarmenn, gátu þeir vaknað í fullvissu þess að ég mundi gera tillögu um að afgreiða þessi mál. Það er eins og hver önnur vitleysa að ég sé ekki búinn að skila nál. um vörugjald eða brtt. Það er ég auðvitað búinn að gera og nál. er undirritað af meirihlutamönnum í nefndinni öllum saman. Það er hins vegar ekki komið á borð þingmanna, því miður, vegna þess að af eðlilegum ástæðum á starfsfólk annríkt og tekur dálítinn tíma að ganga frá þessu til dreifingar.
    Hvað varðar bráðabirgðalögin komu til viðræðu við nefndina þeir sem óskað var eftir að ræða við að undanteknum einum manni. Það var óskað eftir að ræða við Ögmund Jónasson, fyrirsvarsmann BSRB. Það náðist því miður ekki í hann. Hann fannst ekki þegar starfsmenn Alþingis reyndu að hafa upp á honum. Hann var ekki viðlátinn. Aðrir sem beðið var

um að kæmu til viðtals út af bráðabirgðalögunum komu á fund nefndarinnar í morgun, þ.e. Ásmundur Stefánsson, Lára V. Júlíusdóttir og Örn Friðriksson frá ASÍ, Þórarinn V. Þórarinsson frá VSÍ og Vilhjálmur Egilsson frá Verslunarráði. Fleirum var ekki óskað eftir og fullkomið samstarf um það í gærkvöld a.m.k. þó einhverjir hafi farið öfugt fram úr í morgun.
    Ég tel að þetta séu óþarfa aðfinnslur, vinnubrögðin hafi verið eðlileg. Það fór reyndar, eins og ég hef bent á, fram sams konar umræða hér í fyrra, en nú er heldur skipt hlutverkum þar sem þáverandi samherji, Geir H. Haarde, sem ef ég man rétt stóð drengilega við bakið á formanni sínum í þeim slag, tekur nú við hlutverki Steingríms J. Sigfússonar hæstv. landbrh., en hann var þá með einhverja taugaveiklun yfir því að unnið væri of hratt í nefndinni.
    Það er rétt, og ég vil taka það fram, að frv. um tekju- og eignarskatt var frestað, afgreiðslu þess var frestað í nefndinni að ósk Geirs H. Haarde, enda ber að viðurkenna að það lágu ekki fyrir allar þær upplýsingar sem hann hafði beðið um í nefndinni. Það voru komnar þær upplýsingar sem ég taldi mig þurfa til þess að afgreiða málið, en Geir H. Haarde óskaði eftir viðbótarupplýsingum og ég taldi rétt að verða við því af fullkominni lipurð eins og ég ævinlega reyni að sýna samnefndarmönnum mínum.
    Það er búið að fjalla um þessi mál öll í marga klukkutíma hvert. Það er búið að kalla á alla þá sem nöfnum tjáir að nefna og nefndarmönnum hefur getað dottið í hug að fá til viðtals. Það liggur fyrir að þessi frumvörp verður að afgreiða fyrir jól. Það vill nefnilega svoleiðis til að stjórnarandstaðan hefur gert það að skilyrði að tekjuöflunarfrumvörpin verði afgreidd áður en 3. umr. fjárlaga fer fram svo skrýtið sem það nú er. Ég man ekki eftir svona skilyrðum fyrr. Í gær þótti mönnum í stjórnarandstöðunni mjög mikilvægt að fá þessi frv. til afgreiðslu sem allra fyrst. Forsetum þingsins bráðliggur á að fá þau til afgreiðslu og þá fannst mönnum að dagurinn í dag væri rétti dagurinn til að láta á það reyna í Nd. hvort þessi frumvörp hefðu þingfylgi. Ég er á því að þetta sé rétti dagurinn til að láta reyna á það og ég vildi gera mitt til þess að þau gætu komið til umræðu og afgreiðslu í hv. deild.
    Ég endurtek, herra forseti. Ég vísa algerlega á bug að að nokkru leyti
hafi verið um óvanaleg vinnubrögð að ræða í hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar. Ég er miklu fremur stoltur af vinnubrögðunum og sérstaklega vil ég þakka samnefndarmönnum mínum og þá ekki síst hv. stjórnarandstæðingum fyrir framúrskarandi vönduð og góð vinnubrögð í nefndinni og þann góða hlut sem þeir hafa átt að því að við náðum svo prýðilegri niðurstöðu sem raun ber vitni.