Vinnubrögð í fjárhags- og viðskiptanefnd og
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði áðan að það væri svo skrýtið með það að minni hl. fjvn. hefði farið fram á það eða krafist þess að skattalög hæstv. ríkisstjórnar hefðu hlotið afgreiðslu á Alþingi áður en 3. umr. fjárlaga færi fram. Þetta þótti hv. 1. þm. Norðurl. v. ákaflega skrýtið. Ef þetta væri ekki gert ætti þessi glöggi og skilmerkilegi hv. 1. þm. Norðurl. v. að átta sig á því að ekki er hægt að áætla tekjuhlið fjárlaganna. Þá er tilgangslaust að kalla á fulltrúa Þjóðhagsstofnunar til að reikna út fyrir fjvn. hvað tekjuhliðin kunni að gefa á næsta ári. Það er ævinlega forsenda fyrir því að hægt sé að afgreiða fjárlög að tekjuhliðin verði reiknuð út sem er hlutverk Þjóðhagsstofnunar og fulltrúa hennar að gera á fundum fjvn.
    Nú er kominn þriðjudagur 20. desember og mér finnst að það sé mál til komið fyrir hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkana að ræða í alvöru um það við fulltrúa stjórnarandstöðunnar á Alþingi hvernig vinnubrögðum verður háttað á þeim dögum sem eru mögulegir til verka fyrir jólin. Þetta virðist ekki hafa verið gert og hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa áttað sig á því að það er ekki mögulegt að koma fram þeim málum sem venjulegast er í jólaönnunum að þessu sinni. Þar á ég við fjárlög. Og það er ákaflega hæpið að það takist að ljúka afgreiðslu á skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar á þessum tíma.
    Fjvn. hefur unnið vel og dyggilega frá því að 2. umr. lauk. Þar hafa verið tekin fyrir mörg mál. Þar er verið að afla upplýsinga um mörg stórmál. Þær upplýsingar liggja sumar fyrir, aðrar ekki. Áfram verður haldið þeirri vinnu. Þar er eftir að afgreiða B-hluta stofnanir, þar er eftir að afgreiða 6. gr. fjárlaga, þar er eftir að afgreiða ýmis mál er varða 4. gr. fjárlagafrv. Þar er enn fremur eftir að afgreiða tekjuhlið fjárlagadæmisins og gera málið allt saman upp eins og þarf að leggja það fyrir Alþingi.
    Ef menn hugsuðu sér að stefna að því að 3. umr. fjárlaga færi fram á fimmtudag, sem vitaskuld er a.m.k. einum degi of seint, en maður hefur heyrt því fleygt að hæstv. ríkisstjórn hugsi sér að 3. umr. fjárlaga geti farið fram á fimmtudegi, þá er best að átta sig á því hvað þarf að gerast svo að það sé mögulegt. Í fyrsta lagi þarf að skila tillögum fjvn. og meiri hl. fjvn. eigi síðar en um kl. 10 í fyrramálið til þess að þær geti farið í prentun og það sé hægt að vinna þær af starfsmönnum þingsins og síðan útbýta þeim þannig að Alþingi sjái þessar brtt. áður en umræðan hefst á fimmtudag. Það sjá allir að það eru engar líkur til þess. Hvað sem fjvn. leggur sig í líma, og þar hefur ekki verið tafið fyrir málum, þá tekst ekki að ljúka afgreiðslu mála fyrir kl. 10 á morgun. Það er alveg ljóst.
    Þó að við töluðum einungis um 4. gr., 5. gr. og 6. gr. er hæpið að það muni takast vegna þess að enn vantar upplýsingar um nokkur mál sem þar varða mjög miklu, þar á meðal upplýsingar frá hæstv. ríkisstjórn. En það er líka jafnljóst að það eru engin skilyrði til þess að fyrir þennan tíma geti legið fyrir

afgreiðsla Alþingis á skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar og útreikningar Þjóðhagsstofnunar um hvað hinir nýju skattar kunni að gefa og þar með tekjuhlið fjárlagafrv. í heild. Það er útilokað. Þetta ætti hæstv. ríkisstjórn að gera sér ljóst.
    Ég sagði fyrir á að giska tíu dögum að sýnilegt væri að afgreiðsla fjárlaga mundi ekki takast fyrir jólaleyfi þingmanna og mér er fullkunnugt um að ýmsir reyndir menn í liði ríkisstjórnarinnar hafa vitað þetta allan tímann og viðurkennt, en fá ekki ráðið við afstöðu hæstv. ráðherra sem virðast lifa í draumaheimi og gera sér ekki grein fyrir þeim verkum sem þarf að vinna, bæði í nefndum og af starfsfólki Alþingis, og skeyta engu um hvort hv. alþm. sem eru utanbæjarmenn geti komist til síns heima með sæmilegum hætti fyrir jólahátíðina. Ég segi það alveg hreint út að ég tel ekki að það sé utanbæjarmönnum bjóðandi að vera hér að störfum fram á Þorláksdag. Ég segi það hreint út. Það blasir þá jafnframt við að færi 3. umr. fjárlaga fram á fimmtudegi mundi atkvæðagreiðsla dragast fram á Þorláksdag. Það eru einfaldar skýringar á því. Þær eru þessar:
    Minni hl. fjvn. flutti engar brtt. við 2. umr. vegna þeirrar miklu óvissu sem er um alla afgreiðslu málsins, forsendur frv. og tekjuhlið fjárlagadæmisins. Þess vegna þarf minni hl. allgóðan tíma í fyrsta lagi til að útbúa sínar brtt. og í öðru lagi taka þær tíma í umræðu og afgreiðslu þannig að 3. umr. um fjárlög mundi vafalaust standa fram á nótt yrði hún á fimmtudegi. Jafnframt liggur fyrir að minni hl. fjvn. hefur sett það fram sem óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því að fjárlagaafgreiðsla gæti orðið raunhæf og sæmilega marktæk að hæstv. ríkisstjórn hafi mótað nýja efnahagsstefnu og tekið ákvarðanir sem geti þannig orðið grundvöllur undir fjárlagadæminu, grundvöllur nýrra og raunhæfra forsendna sem gerir fjárlögin þá marktæk þegar þau verða afgreidd. Sé þetta ekki gert eru fjárlögin líka markleysa og Alþingi til vansæmdar. Ég tel því að það beri allt að einum og sama brunni. Hæstv. ríkisstjórn ætti að stíga út úr fílabeinsturninum. Hún ætti að kynna sér hvernig verk ganga hér og hvaða verk þarf að vinna áður en afgreiðslu mála lýkur.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki sýnt hv. fjvn. né hv. Alþingi þann sóma að vera við umræður um fjárlög hér, hvorki við 1. né 2. umr., svo að nokkru nemi. Hæstv. fjmrh. á hlaupum, einstaka ráðherra stundarkorn. Hæstv. heilbrmrh. var hér um tíma við 2. umr., enda er hann gamalgróinn fjárveitinganefndarmaður. Hæstv. forsrh. hefur ekki sést við þessar umræður og hefur ekki hirt um að fylgjast með því sem sagt hefur verið um fjárlagafrv. og um efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna, hvorki við 1. né 2. umr. Svo er einnig um suma aðra hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar. Eru þó mál með þeim hætti í fjárlagadæminu mörg hver sem heyra undir einstaka fagráðherra að þeir þyrftu að gefa þeim gaum og þeir þyrftu að sýna Alþingi a.m.k. þá virðingu að vera við þegar þessi mál væru rædd. Það hafa þeir ekki gert.

Þeir hafa ekki hirt um það. Þeir halda að það sé hægt að afgreiða mál á færibandi eftir þeirra óskum, á færibandi í gegnum nefndir þingsins, á færibandi í gegnum það starf sem þarf að vinna af starfsfólki Alþingis og síðan sé hægt að láta skeika að sköpuðu hvort Alþingi kemst heim með eðlilegum hætti í jólaleyfið. Ég endurtek: Hæstv. ríkisstjórn ætti að stíga niður úr sínum draumaheimi og nálgast veruleikann, þann veruleika, sem ætti að vera öllum ljós fyrir löngu síðan, að þetta mun ekki takast.
    Ég geri einnig þá kröfu fyrir mína hönd, og ég geri þá kröfu væntanlega fyrir hönd margra annarra hv. þingmanna, að við fáum sæmilegan tíma til þess að komast heim til okkar fyrir jólahátíð og að það verði ekki gripið til þeirra örþrifaráða að halda hér fundum fram á Þorláksdag sem ég tel gjörsamlega óviðunandi. Og ég tel líka gjörsamlega óviðunandi fyrir utanbæjarþingmenn að koma hér til funda í tvo daga á milli jóla og nýárs. Þess vegna ætti hæstv. ríkisstjórn að taka höndum saman við stjórnarandstöðuna um að koma lagi á þá afgreiðslu mála hér á tveimur dögum, í dag og á morgun, sem nauðsynlegust er, taka síðan hlé með eðlilegum hætti og taka síðan vinnulotu að loknum áramótum til þess að ljúka þeim málum sem hér er verið að fjalla um.
    Þetta er eina leiðin sem einhver skynsemi er í. Þetta er eina leiðin sem er raunhæf.